Ósigur skattgreiðenda

Tónlistarhúsið Harpa er glæsilegt mannvirki enda um að ræða dýrasta hús Íslandssögunnar. Undarlegt er að á þeim tímamótum, sem opnun hússins er, virðast nokkrir af helstu fjölmiðlum landsins kjósa að fjalla einungis á jákvæðan hátt um húsið. (Hljómar kunnuglega.) Sumir fjölmiðlar einblína á viðbrögð ánægðra tónleikagesta en eru skattgreiðendur sáttir við að greiða stofn- og rekstrarkostnað í 35 ár? Full þörf er á að fjallað sé á gagnrýninn hátt um Hörpu eins og önnur verkefni og skattgreiðendur upplýstir um kostnað og óhjákvæmilega skuldadaga.

Í bæklingi um húsið, sem dreift hefur verið inn á hvert heimili, er ýtarlega fjallað um ýmsa þætti byggingarinnar en ekki minnst á kostnað. Í slíkum bæklingi hefði verið kjörið að upplýsa alþjóð um kostnað við bygginguna og heildarskuldbindingu skattgreiðenda. Skuldir hússins eru a.m.k. sá hluti þess, sem allir landsmenn munu eiga sameiginlega.

Harpa er dæmi um opinbert verkefni, sem stjórnmálamenn voru í upphafi fengnir til að styðja á grundvelli hóflegra kostnaðaráætlana en á síðari stigum hækkaði kostnaður upp úr öllu valdi.

Árið 1997 var rætt um að hægt væri að byggja gott tónlistarhús í Laugardal fyrir 1.550 milljónir króna. Árið 1998 hafði áætlunin hækkað í 2.500 milljónir og 1999 var hún komin í 3.500-4.000 milljónir. Í ársbyrjun 2002 var áætlað að húsið myndi kosta um 5.000 milljónir króna og árið 2003 var talan komin í 6.300 milljónir. Þegar hafist var handa við byggingu hússins var gert ráð fyrir því að byggingarkostnaður yrði um 12,5 milljarðar króna eða um 20 milljarðar að núvirði. Ekki liggja fyrir nýjar upplýsingar um heildarkostnað við bygginguna en hann er a.m.k. 28 milljarðar króna. Standist sú tala er fermetraverðið um ein milljón króna.

Vonandi standast yfirlýsingar aðstandenda hússins um að erlendir verktakar beri að mestu leyti kostnað vegna þegar framkominna galla við glerhjúp hússins. Málsmetandi arkitektar og verkfræðingar hafa þó lýst yfir áhyggjum yfir að mikil hætta sé á að frekari gallar muni koma í ljós, t.d. í stálvirki og gluggum hússins. Gott væri fyrir skattgreiðendur að vita hvort áhættumat hafi farið fram á byggingunni m.t.t. til slíkra galla.

 

— — —

Þessi færsla birtist upphaflega í Fréttablaðinu hinn 13. maí 2011.

 

Stórfelld hækkun fráveitugjalda

Fjölmargir Reykvíkingar kvarta nú yfir mikilli hækkun á fráveitugjöldum (holræsaskatti) frá fyrra ári og óska eftir skýringum á því hvernig staðið var að þessum hækkunum.

Áður fyrr var rekstur fráveitu í Reykjavík fjármagnaður með hefðbundnum skatttekjum borgarinnar, þ.e. útsvari og fasteignaskatti. Eftir að vinstri menn náðu meirihluta í borgarstjórn 1994 var eitt fyrsta verk þeirra að leggja á sérstakan holræsaskatt fyrir rekstur og framkvæmdir í þágu fráveitunnar, sem áður höfðu verið fjármagnaðar af borgarsjóði. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn holræsaskattinum á sínum tíma og bentu á að hann hefði tilhneigingu til að hækka með tímanum eins og aðrir skattar sem vinstri menn leggja á.

Nú um áramótin voru ýmsar breytingar gerðar á fyrirkomulagi fráveitugjalda; m.a. var innheimta þeirra flutt frá Reykjavíkurborg til Orkuveitunnar. Sú breyting hefur orðið að hluti kostnaðar við fráveitustarfsemi er ekki lengur greiddur úr borgarsjóði heldur er hann nú allur innheimtur með umræddu gjaldi. Þá er álagning gjaldsins ekki lengur miðuð við hlutfall af fasteignamati heldur við fast gjald og fjölda fermetra.

Flestir fasteignaeigendur fengu því á sig verulega hækkun fráveitugjalds um áramót til viðbótar við hækkun Samfylkingarinnar og Besta flokksins á útsvari og ýmsum öðrum álögum. Þetta sér fólk vel ef það ber saman greiðsluseðla á milli ára.

Í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosningar töluðu frambjóðendur Samfylkingarinnar um Reykjavík eins og sérstakt efnahagssvæði með eigin hagvöxt. Eitt meginmarkmið fjárhagsáætlunar Reykjavíkur fyrir árið 2011 virðist hins vegar hafa verið að koma í veg fyrir hagvöxt í borginni með miklum skatta- og gjaldahækkunum á borgarbúa.

Þá bera miklar hækkanir á fráveitugjöldum það með sér að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins telji að verðbólga sé mun hærri í Reykjavík en annars staðar á landinu. Samkvæmt útreikningum OR hækka fráveitugjöld 28% borgarbúa nú um 10-20% á milli ára, 15% taka á sig 20-30% hækkun, 12% er gert að greiða 30-50% hærri gjöld og 4% þurfa að sætta sig við meira en 50% hækkun fráveitugjalds á milli ára. 19% gjaldenda greiða hins vegar lægra gjald en í fyrra og hjá um 23% er hækkunin undir 10%.

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu 16. febrúar 2011.

Afsláttur af fráveitugjaldi til tekjulágra eldri borgara og öryrkja

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að Reykjavíkurborg veiti tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum afslátt eða niðurfellingu á fráveitugjaldi (holræsaskatti) með sama hætti og gert hefur verið mörg undanfarin ár. Samkvæmt fjárhagsáætlun meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins fyrir árið 2011 var slíkur afsláttur felldur niður.

Löng hefð er fyrir því að Reykjavíkurborg veitt tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum verulegan afslátt eða niðurfellingu á fráveitugjaldi. Samkvæmt 15. grein laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, er sveitarfélögum heimilt að lækka eða fella niður fráveitugjald hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum eftir reglum, sem sveitarstjórn setur. Lækkun gjaldsins hefur síðan verið gerð á grundvelli samþykktar borgarráðs um tekjuviðmiðun frá því holræsaskattur (nú kallað fráveitugjald) var lagður á Reykvíkinga af borgarstjórnarmeirihluta vinstrimanna fyrir um fimmtán árum. Þúsundir einstaklinga hafa notið slíkrar fyrirgreiðslu hjá borginni og hefur flesta munað verulega um hana, ekki síst þá sem vilja búa í eigin húsnæði þrátt fyrir lítil efni. Margir eldri borgarar og öryrkjar hafa litla fjármuni til ráðstöfunar eftir að hafa staðið skil á skattgreiðslum og öðrum gjöldum. Það segir sig sjálft að þeir mega ekki við auknum álögum, en er nú gert að greiða tugi þúsunda króna í fráveitugjald af nýjum meirihluta Samfylkingarinnar og Besta flokksins.

Forgangsröðun nýs meirihluta

Samkvæmt gildandi fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er ekki gert ráð fyrir að tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum verði veitt slík fyrirgreiðsla á árinu 2010. Með afnámi afsláttarins hefur því orðið stefnubreyting hjá nýjum meirihluta í borgarstjórn vegna umræddrar gjaldtöku og ljóst er að hún kemur verst niður á þeim sem síst skyldi. Þar sem fyrirkomulagi á innheimtu fráveitugjalda í Reykjavík var breytt nú um áramótin, sem leitt hefur til mikillar hækkunar gjaldsins fyrir meginþorra gjaldenda, er ljóst að afnám umræddra afsláttarkjara kemur sér enn verr fyrir tekjulága einstaklinga, en ella hefði verið.

Þannig kýs nýr meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins að forgangsraða en vonandi verður fallist á þá tillögu Sjálfstæðisflokksins að umrædd afsláttarkjör fyrir tekjulága elli- og örorkulífeyrisþega verði tekin upp á ný, með sama hætti og verið hefur.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 14. febrúar 2011.

Borgarbúar vilja ekki skattahækkanir

Í umræðum fyrir borgarstjórnarkosningar sl. vor var það almennt viðhorf að vel hefði verið haldið á fjármálum Reykjavíkurborgar kjörtímabilið 2006-10 og að staða borgarsjóðs væri góð. Umræður snerust því öðru fremur um hvernig tryggja ætti áframahaldandi góða fjárhagsstöðu. Nú er lögleyft hámarksútsvar 13,28% af launatekjum en á síðasta kjörtímabili var sú stefna mörkuð undir forystu sjálfstæðismanna í borgarstjórn að miða ekki við það hámark heldur 13,03%.

Í því sambandi voru frambjóðendur oft spurðir um það í fjölmiðlum og á kosningafundum sl. vor hvort nauðsynlegt yrði að hækka útsvar og aðrar álögur á Reykvíkinga á nýju kjörtímabili.

Athyglisvert er að sjá hvernig oddvitar stjórnmálaflokkanna svöruðu þessum spurningum í kosningabaráttunni.

  • Sjálfstæðisflokkurinn hvikaði ekki frá þeirri stefnu að útsvarsprósentan skyldi ekki hækkuð. Flokkurinn fékk fimm borgarfulltrúa kjörna.
  • Vinstri græn hvikuðu ekki frá þeirri stefnu sinni að útsvarsprósentan skyldi ætíð vera í hámarki. Framboðið kom einum borgarfulltrúa að.
  • Samfylkingin svaraði út og suður og þar með var ljóst að flokkurinn stæði við fyrri stefnu um að útsvarsprósentan skyldi hækkuð. Flokkurinn fékk þrjá borgarfulltrúa.
  • Besti flokkurinn lofaði því að hækka ekki útsvarsprósentuna og oddviti hans, Jón Gnarr, bætti um betur og var eina borgarstjóraefnið, sem sagði vafningalaust að hann vildi beinlínis lækka hana. Flokkurinn fékk sex borgarfulltrúa kjörna og var ótvíræður sigurvegari kosninganna.

Vilji kjósenda var skýr: Þeir flokkar, sem vildu hækka útsvarið, fengu 26% fylgi og fjóra borgarfulltrúa kjörna. Þeir flokkar, sem vildu ekki hækka útsvarið fengu 68% fylgi og ellefu fulltrúa kjörna.

Það tók borgarfulltrúa Samfylkingarinnar aðeins nokkra mánuði að heilaþvo óreynt borgarstjórnarlið Besta flokksins og sannfæra þá um að bráðnauðsynlegt væri að færa meira fé frá fólkinu til Kerfisins. Meirihluti þessara flokka hefur nú samþykkt hækkun útsvarsprósentunnar og þannig brotið vilja mikils meirihluta Reykvíkinga á bak aftur. Vinstri meirihlutinn í Reykjavík lítur greinilega á skattgreiðendur sem auðlind, er nýta eigi til hins ýtrasta.

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu 6. desember 2010.