Borgarstjórnarmeirihluti á móti samgönguframkvæmdum

 

Á borgarstjórnarfundi í dag lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að óskað yrði eftir endurskoðun á samgöngusamningi ríkisins og Reykjavíkurborgar með það að markmiði að á samningstímabilinu verði ráðist í stórframkvæmdir í samgöngumálum í Reykjavík með umferðaröryggi og arðsemi að leiðarljósi.

Umræddur samningur var gerður í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar og með stuðningi borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar. Samningurinn tók gildi á árinu 2012 og felur í sér að hætt verður við allar stórar samgönguframkvæmdir á stofnbrautakerfinu í Reykjavík á samningstímabilinu, þ.e. frá 2012-2022. Á sama tíma munu hins vegar tugir milljarða renna til samgönguframkvæmdum í öðrum kjördæmum landsins.

Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar lagðist gegn því að tillagan yrði borin upp til atkvæða á fundinum en lét þess í stað vísa henni til borgarráðs.  Í umræðum á fundinum kom fram að borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar vilja ekki endurskoða umræddan samning með það að markmiði að á samningstímabilinu verði ráðist í framkvæmdir á stofnbrautakerfinu í Reykjavík með umferðaröryggi og arðbærni að leiðarljósi. Sem fyrr styður Sjálfstæðisflokkurinn að Reykvíkingar eigi val um ólíka samgöngukosti um leið og stuðlað sé að auknu umferðaröryggi allra vegfarenda, hvort sem þeir nota almenningssamgöngur, bifreiðar, hjól eða tvo jafnfljóta.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/06/engar_storframkvaemdir_i_samgongumalum/

Höfnum viðbótar-vegaskatti vinstri stjórnarinnar

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja að borgarstjórn Reykjavíkur skori á ríkisstjórn og Alþingi að falla frá hugmyndum um innheimtu viðbótar-vegtolla á þjóðvegum, sem liggja til og frá höfuðborgarsvæðinu. Tillaga þess efnis verður tekin fyrir á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag og er vonandi að borgarfulltrúar mótmæli allir sem einn hugmyndum um enn auknar álögur. Í þetta sinn er um að ræða sértækan skatt, sem mun leggjast þyngst á íbúa Reykjavíkur og nágrennis. Almennir vegaskattar eru nú þegar innheimtir í stórum stíl þar sem rúmur helmingur af hverjum benzínlítra rennur beint til ríkisins.Ekki skal efast um að málefnið sé göfugt eins og jafnan þegar nýir skattar eru lagðir á, í þetta sinn er um að ræða vegabætur á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi, sem auka mun umferðaröryggi og greiða fyrir umferð. Hið sama var sagt þegar núverandi skattar á eldsneyti voru lagðir á, þeir áttu að renna til vegaframkvæmda en hafa aðeins gert það að hluta. Ekki er um það deilt að langstærstur hluti skattsins verður til á höfuðborgarsvæðinu en þegar kemur að úthlutun fjárins, er það svæði hins vegar svelt. Alþingi hefur forgangsraðað í þágu margra milljarða króna stórframkvæmda á landsbyggðinni á meðan brýn verkefni á höfuðborgarsvæðinu sitja á hakanum. Rétt er þó að fram komi að fyrrverandi samgönguráðherrar Sjálfstæðisflokksins, Halldór Blöndal og Sturla Böðvarsson, beittu sér fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar, sem sýndi að hægt er að fjármagna slík stórverkefni án sérstakrar viðbótarskattlagningar ef vilji er fyrir hendi. Sturla beitti sér og fyrir mislægri lausn á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík og bauð fram fé í þá framkvæmd en hafði ekki erindi sem erfiði vegna andstöðu borgarstjórnarmeirihluta R-listans á sínum tíma.

Umferðaröryggi í öndvegi

Æskilegt er að Alþingi breyti vinnubrögðum sínum og setji umferðaröryggi í öndvegi við úthlutun vegafjár. Hægt er að sækja hollráð til Umferðarstofu, Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Félags íslenskra bifreiðaeigenda, Rannsóknarnefndar umferðarslysa og lögreglunnar, þar sem finna má færustu sérfræðinga á sviði umferðaröryggismála. Slík ráðgjöf myndi leiða í ljós að með breyttri forgangsröðun væri hægt að ná verulegum árangri við fækkun alvarlegra slysa. Reynslan af aðskilnaði akreina á Reykjanesbraut hefur t.d. verið góð og líklegt er að góður árangur náist með sambærilegum aðgerðum á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi. Einnig er brýnt að gera stórátak í uppsetningu vegriða víða um land og koma með mislægar lausnir á hættulegum gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu.Umræddar framkvæmdir verða vissulega kostnaðarsamar en það er þó óþarfi að leggja á nýja skatta vegna þeirra. Til að fjármagna þær þarf að breyta forgangsröðun í vegamálum og færa áherslur frá óarðbærum gæluverkefnum til þeirra úrbóta, sem helst munu auka umferðaröryggi og greiða fyrir umferð. Í sjálfu sér er sú hugsun ekki röng að innheimta veggjöld til að fjármagna samgöngumannvirki en flestir hljóta að sjá að ósanngjarnt er að innheimta þann kostnað margfalt með margvíslegum sköttum á benzín og bifreiðar og sérstöku veggjaldi að auki. Þá er það óviðunandi að ætlunin sé að taka upp vegtolla á sumum vegarköflum við Reykjavík á meðan aðrir hafa verið greiddir að fullu úr opinberum sjóðum.Á aðeins átta dögum söfnuðust um 41 þúsund undirskriftir kosningabærra manna á vefsíðu FÍB, þar sem hugmyndum ríkisstjórnarinnar um vegtolla er mótmælt. Vonandi verður tillit tekið til þessara skýru mótmæla.

Skattaglöð Samfylking

Það örlar lítt á frjórri hugsun hjá ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, nema þegar hugmyndir koma fram um nýja skatta eða hækkun þeirra, sem fyrir eru. Varaformaður Samfylkingarinnar, sem jafnframt er formaður borgarráðs Reykjavíkur hefur nálgast viðfangsefnin í borginni með svipaðri skattagleði. Nú er mál að linni enda ætti reynslan af skattahækkunum ríkisstjórnarinnar að leiða mönnum fyrir sjónir að hvorki þjóðin né borgarbúar verða skattlögð frá vandanum.  

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. janúar 2011.

Mótmælum margföldum vegskatti

Ótrúlegt er að ríkisstjórnin ætli sér að leggja á nýja vegskatta til viðbótar þeim ofurháu sköttum, sem nú þegar eru lagðir á bifreiðaeigendur. Ríkisstjórnin telur ekki skipta máli að benzínverð á Íslandi er nú þegar eitt hið hæsta í heimi en rúmur helmingur af verði hvers benzínlítra rennur til ríkisins.
Hver benzínstöð er því í raun hluti af hinu mikilvirka innheimtukerfi ríkissjóðs, útibú frá skattstofunni.

Háir skattar á eldsneyti eru réttlættir með því að þannig sé í raun verið að afla fjár til samgönguframkvæmda, sem eðlilegt sé að bifreiðaeigendur standi undir. Skattar, sem ríkið innheimtir af bifreiðum og eldsneyti, skila sér þó aðeins að hluta til samgönguframkvæmda. Og það sem þó hefur skilað sér, hefur að stórum hluta verið nýtt til umdeildra stórframkvæmda á landsbyggðinni.

Þrátt fyrir að stærstur hluti eldsneytisskatta sé innheimtur á höfuðborgarsvæðinu, hafa arðbær og brýn samgönguverkefni þar setið á hakanum. Nefna má framkvæmdir, sem myndu stórauka öryggi í umferðinni og fækka slysum; t.d. með uppsetningu vegriða meðfram stofnbrautum og aðskilnaði akreina á fjölförnum vegum.

Hrein viðbótarskattheimta

Komist hugmyndir ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna í framkvæmd verður skattheimta bæði aukin og flækt. Í sjálfu sér er ekkert að því að innheimta veggjöld til að fjármagna samgöngumannvirki en slík innheimta á sér nú þegar stað, og það margfalt, með eldsneytissköttum. Fyrirhuguð veggjöld munu leggjast á meginþorra bifreiðaeigenda og um hreina viðbótarskattheimtu er að ræða því ríkisstjórnin ætlar sér ekki að lækka neina skatta á móti. Þyngst mun skatturinn leggjast á íbúa höfuðborgarsvæðisins og þá, sem fara á milli sveitarfélaga vegna vinnu sinnar. Þá væri með öllu óviðunandi ef staðið væri þannig að málum að vegskattur væri innheimtur innan marka sama sveitarfélagsins, t.d. í þeim tilvikum þegar Kjalnesingar sækja vinnu og þjónustu í önnur hverfi Reykjavíkurborgar.

Það er í sjálfu sér jákvætt að vilji standi til þess að ráðast í úrbætur á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi, sem munu greiða fyrir umferð og stórauka umferðaröryggi. Hins vegar verður að gera þá kröfu til Alþingis að í stað viðbótarskattheimtu verði slíkar framkvæmdir fjármagnaðar með því að höfuðborgarsvæðið fái sanngjarnan skerf af hinum háu skatttekjum af bifreiðum, sem verða til á svæðinu.

Samgöngur í Reykjavík

Ríkið mun verja 18,5 milljörðum króna til samgönguverkefna á þessu ári, þar af um níu milljörðum til nýrra verkefna. Flestar stofnbrautir í Reykjavík eru á hendi ríkisins þar sem þær eru þjóðvegir. Undirritaður hefur oft bent á að aðeins lítill hluti vegafjár rennur til brýnna verkefna á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að á því svæði sé umferðin langmest. Þá hef ég gagnrýnt að umferðaröryggi sé ekki nægilega haft til hliðsjónar þegar vegafé er forgangsraðað en það ætti að liggja til grundvallar fjárveitingunum.

Vegrið auka umferðaröryggi

Vegrið milli akreina hafa sannað gildi sitt sem ódýr en mikilvægur öryggisbúnaður stofnbrauta. Því miður er Ísland eftirbátur margra annarra landa að þessu leyti. Á höfuðborgarsvæðinu, þar sem umferðin er mest er óviðunandi að enn megi finna langa kafla við stofnbrautir án vegriðs. Í kjölfar tillögu undirritaðs var vegrið sett upp á hættulegum kafla í Ártúnsbrekku fyrir nokkrum árum og var það ekki lengi að sanna sig. En betur má ef duga skal og skora ég á samgönguráðherra að gangast fyrir átaki í uppsetningu vegriða við stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu.

Mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar

Um 80 þúsund bifreiðar fara nú dag um gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Árlega slasast tugir manna í umferðarslysum á þessum gatnamótum og samanlagður kostnaður vegna þeirra nemur hundruðum milljóna króna. Reykvíkingar eiga að gera skýlausa kröfu til þess að vegafé landsmanna verði ráðstafað með eðlilegum hætti svo hægt sé að fjármagna brýn samgönguverkefni í Reykjavík. Margt mælir með því að mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar verði þar efst á blaði.

 • Minni slysahætta. Talið er að vel hönnuð mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringumýrarbrautar myndu fækka tjónum þar um a.m.k. 70%.
 • Greiðari umferð vegna stóraukinnar afkastagetu gatnamótanna.
 • Minni mengun. Umferðartafir auka útblástursmengun.
 • Minni umferð um íbúðarhverfi vegna aukinnar afkastagetu gatnamótanna.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu hinn 21.i.2010.

Góða umferðarhelgi!

Mikil umferð hefur verið um þjóðvegi landsins í sumar enda kjósa margir að ferðast innanlands vegna versnandi efnahags. Við upphaf mestu umferðarhelgi ársins er, í varnaðarskyni, rétt að minna á helstu orsakir banaslysa. Hver og einn getur farið yfir þessi atriði og metið með sjálfum sér hvort hann þurfi að breyta aksturslagi sínu. Auk banaslysa, valda eftirfarandi þættir fjölda annarra slysa og miklu eignatjóni í umferðinni:

 • Hraðakstur.
 • Bílbelti ekki notað.
 • Ölvunarakstur.
 • Svefn og þreyta.
 • Reynsluleysi ökumanns.
 • Forgangur ekki virtur.
 • Vegur og umhverfi.

Orsakir banaslysa tengjast oftast ákveðinni áhættuhegðun ökumanns eða mannlegum mistökum hans. Samkvæmt ársskýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa hefur banaslysum í umferðinni fækkað verulega á síðastliðnum árum ef slysaárið 2006 er undanskilið. Síðastliðin fimm ár (2004-2008) fórust 100 manns í umferðarslysum á Íslandi en 129 manns á árunum fimm þar á undan (1999-2003).

Þrátt fyrir að umferðarslysum hafi fækkað verulega frá árinu 2006, hefur alvarlegum umferðarslysum því miður fjölgað. Í slysaskrá Umferðarstofu eru128 umferðarslys skráð með miklum meiðslum árið 2006 en 164 árið 2008. Bifhjólaslysum og framan-árekstrum bifreiða fjölgaði mest.

Bílbeltin bjarga mannslífum

Rannsóknarnefndin telur líklegt að á árunum 1998-2008 hefðu 43 ökumenn og farþegar lifað af slys, hefðu þeir verið svo forsjálir að nota bílbelti. Í mörgum tilvikum kastast fólk út úr ökutækjum eftir veltur og bíður bana eða stórslasast vegna höfuðáverka, sem hljótast af harðri lendingu við jörð eða þegar ökutækið veltur yfir það. Þau dæmi eru sorglega mörg þar sem sjálf bílgrindin og farþegarýmið þola áreksturinn en fólk lætur lífið þar sem bílbelti voru ekki spennt. Afar mikilvægt er að bílbelti séu bæði notuð af ökumanni og öllum farþegum hvort sem þeir sitja í fram- eða aftursæti.

Varhugaverðir malarvegir

Aldrei er nægilega brýnt fyrir vegfarendum að sýna sérstaka varúð þegar ekið er eftir malarvegum, einkum þegar komið er inn á slíka vegarkafla af malbiki. Á slíkum vegum er enn mikilvægara en ella að hægt sé á bifreiðum þegar þær mætast vegna grjótkasts og rykmengunar. Af sömu ástæðu er mjög mikilvægt að menn hægi verulega á sér þegar ekið er framhjá gangandi eða hjólandi vegfarendum á malarvegum.

Um leið og hvatt er til aðgæslu í umferðinni minni ég á ellefu hundruð ára gamalt spakmæli Skallagríms Kveldúlfssonar, sem enn er í fullu gildi: „Gott er heilum vagni heim að aka.“

(Grein þessi birtist í Fréttablaðinu, 30.vii.2009.)