Verður Magma-skuldabréfið selt?

Meirihluti stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur ákvað á síðasta stjórnarfundi, með fyrirvara um samþykki eigenda, að taka tilboði í svonefnt Magma-skuldabréf, sem er í eigu fyrirtækisins.

Skuldabréfið var gefið út af Magma Energy Sweden A/B árið 2009 og var hluti greiðslu fyrir hlutabréf Orkuveitunnar í HS-Orku. Hluturinn hafði þá verið til sölu um nokkurt skeið en samkeppnisyfirvöld höfðu komist að þeirri niðurstöðu að Orkuveitunni væri óheimilt að eiga svo stóran hlut í HS-Orku og þannig sett eignarhaldinu skorður.

Í síðasta árshlutareikningi Orkuveitunnar var bókfært verðmæti skuldabréfsins um níu milljarðar króna. Verðmæti bréfsins ræðst að hluta af álverði og að baki því stendur veð í hinum seldu hlutabréfum í HS-Orku.

Eins og gefur að skilja, hefur það bæði kosti og galla í för með sér að selja Magma-skuldabréfið nú. Það kemur sér vissulega vel fyrir Orkuveituna að losa um þessa eign sína og fá þannig aukið lausafé. Á móti þarf að skoða hvort verið sé að selja umrætt bréf með of miklum afföllum, t.d. í ljósi þess að álverð hefur lækkað verulega að undanförnu og er óvenjulega lágt um þessar mundir. Það er að sjálfsögðu ekki gott fyrir Orkuveituna ef slíkt skuldabréf er selt á hálfgerðri útsölu.

Hér er því miður ekki hægt að fjalla um fjárhæðir í tengslum við sölu skuldabréfsins þar sem yfirstjórn Orkuveitunnar hefur lagt áherslu á að þær séu trúnaðarmál. Vonandi verður almenningur upplýstur um þessar fjárhæðir að fullu áður en ákvörðun verður tekin. Og frá og með 1. júlí, eftir nokkrar klukkustundir, verður sú breyting að upplýsingalögin gilda um starfsemi Orkuveitunnar.

Sala Orkuveitunnar á hlutnum í HS-Orku til Magma Energy var mikið pólitískt hitamál á sínum tíma. Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðust eindregið gegn sölunni og efndu til mikilla átaka vegna málsins í fjölmiðlum og í borgarstjórn þar sem salan var endanlega samþykkt 15. september 2009. Borgarfulltrúar þessara flokka hvöttu stuðningsmenn sína til að fjölmenna á áhorfendapalla Ráðhússins og mótmæla þannig sölunni.  Um tíma var ekki fundarfriður vegna óláta og háreystis frá áhorfendapöllum. Nafnakalls var krafist við afgreiðslu málsins og greiddu borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna atkvæði gegn sölunni. Gáfu þeir upp þær ástæður fyrir andstöðunni að samningurinn væri afar slæmur fyrir Orkuveituna og að með honum væri verið að selja íslenskar orkuauðlindir í hendur erlendra aðilja. (Skýrt var að sveitarfélagið Reykjanesbær átti umræddar auðlindir.) Þeir héldu því fram að kjörin á umræddu skuldabréfi væru smánarleg og efuðust stórlega um getu Magma til að standa skil á því á gjalddaga, árið 2016.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ekkert að athuga við sölu Magma-skuldabréfsins ef söluverðið er viðunandi. En ef borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna vilja vera sjálfum sér samkvæmir og standa við stóru orðin frá árinu 2009, hljóta þeir að leggjast gegn sölu Magma-skuldabréfsins nú. Væntanlega í þeirri von að greiðandi bréfsins standi ekki skil á því á gjalddaga árið 2016 og að almannafyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur eignist þá hlutabréf í HS-Orku á ný og salan, sem þessir flokkar börðust svo einarðlega gegn árið 2009, gangi þá til baka.

 

Perlan færð úr einum opinbera vasanum í annan

Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefur samþykkt, með stuðningi Vinstri grænna, að Reykjavíkurborg kaupi Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur fyrir 950 milljónir króna. Hafa ber í huga að Reykjavíkurborg á 94% í Orkuveitunni og því er hér aðeins um að ræða flutning úr einum vasa í annan.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa stutt sölu eigna Orkuveitunnar en vildu að Perlan yrði seld á frjálsum markaði með skýrum ákvæðum um nýtingu og skipulag. Fyrir rúmu ári var vissulega reynt að selja Perluna á opnum markaði en sú tilraun misheppnaðist algerlega vegna hroðvirknislegra vinnubragða borgarstjórnarmeirihlutans. Í stað þess að læra af reynslunni og vanda betur til verka, kýs meirihlutinn að flytja eignarhaldið á mannvirkinu alfarið til borgarinnar og leigja það síðan ríkinu undir náttúruminjasafn. Hefur verið unnið að málinu á miklum hraða undanfarna mánuði þar sem meirihluti borgarstjórnar vill ásamt ríkisstjórninni klára málið fyrir kosningar. Þessi mikli hraði hefur komið niður á vinnubrögðunum. Perlan var ekki byggð sem náttúruminjasafn og ljóst er að ráðast þarf í kostnaðarsamar framkvæmdir svo húsið henti til slíkra nota. Þær áætlanir, sem lagðar hafa verið fram eru ófullnægjandi til að kjörnir fulltrúar og skattgreiðendur geti áttað sig á kostnaðinum. T.d. efast ég um að sú áætlun standist að einungis kosti 100 milljónir að smíða milliloft o.fl. í þessu sérstæða húsi en samkvæmt gögnum málsins mun kostnaðurinn lenda á Reykjavíkurborg.

Í tengslum við kaupin, gaf Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, út yfirlýsingar í fjölmiðlum um að sú leið að selja Perluna til fjárfesta, hafi ekki reynst fær þar sem öll tilboð hafi verið með fyrirvara um byggingu hótels eða aðra uppbyggingu í Öskjuhlíð. Þessar fullyrðingar standast ekki því á síðasta ári barst Orkuveitunni formlegt kauptilboð í Perluna að upphæð 950 milljónir króna frá einkaaðila án fyrirvara um slíkar skipulagsbreytingar. Er þetta sama upphæð og nú er notast við í sölu hússins frá OR til borgarinnar. Umræddar fullyrðingar formanns borgarráðs um sölu Perlunnar eiga því ekki við rök að styðjast. Benda þær til að miðlun upplýsinga milli borgarráðs Reykjavíkur og stjórnar Orkuveitunnar sé stórlega ábótavant.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 28. marz 2013.

Samfylkingin í afneitun

Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi skrifar grein í Fréttablaðið á föstudag þar sem hún reynir að réttlæta slæleg vinnubrögð borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins vegna fjárhagsáætlunargerðar. Greinin sýnir að borgarfulltrúar Samfylkingar láta sér í léttu rúmi liggja að Reykjavíkurborg er komin rúmum fimm mánuðum fram yfir lögbundinn frest vegna skila á þriggja ára fjárhagsáætlun til innanríkisráðuneytisins.

Umræddur dráttur vegna fjárhagsáætlanagerðar er síður en svo eina dæmið um lausatök meirihlutans á fjármálum Reykvíkinga. Sama dag og grein Oddnýjar birtist, kom fram í fréttum að Kauphöllin hefur áminnt Reykjavíkurborg og beitt hana sektarviðurlögum fyrir að birta ársreikning of seint. Áður höfðu fréttir verið sagðar af því að Kauphöllin áminnti borgina fyrir að greina ekki frá milljarða lánveitingum til Orkuveitunnar í samræmi við reglur. Enn fremur að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, rannsakar nú hvort umræddar lánveitingar borgarinnar brjóti í bága við EES-samninginn.

Afneitun í stað ábyrgðar

Eitt er að svo illa sé haldið á málum af hálfu meirihlutans að borgin greiði vanrækslusektir og að yfirvofandi séu frekari viðurlög af hálfu ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Það bætir hins vegar ekki úr skák þegar borgarfulltrúar meirihlutans bregðast við viðvörunarorðum og óskum, um að þessir hlutir séu tafarlaust lagfærðir í samræmi við skýr lagafyrirmæli, með ásökunum um að um sé að ræða óþarfa upphrópanir og upphlaup.

Oddný gerir mikið úr því í grein sinni hvað það sé erfitt fyrir borgina að skila þriggja ára áætlun og reynir síðan, eins og Dagur B. Eggertsson, að kenna um óvissu vegna tilflutnings málefna fatlaðra, sem átti sér stað um síðustu áramót.

Enn skal minnt á að Reykjavíkurborg hefur áður tekið við stórum málaflokkum frá ríkinu án þess að það hafi sett áætlanagerð sveitarfélagsins í uppnám. Þá var það ekki bara Reykjavíkurborg heldur öll önnur sveitarfélag, sem tóku við umræddum málaflokki. Flest ef ekki öll önnur sveitarfélög landsins hafa nú skilað umræddri þriggja ára áætlun og ekki er vitað til þess að neitt þeirra, utan Reykjavíkurborgar, reyni að nota málefni fatlaðra sem afsökun fyrir því að skila ekki lögbundnum gögnum til ráðuneytisins.

 

— — —

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. júlí 2011.

Óviðunandi vinnubrögð vegna ráðningar forstjóra OR

Verulegar brotalamir eru á vinnubrögðum meirihluta stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur vegna ráðningar nýs forstjóra fyrirtækisins. Í síðasta mánuði felldi meirihluti stjórnarinnar tillögu undirritaðs um að óháð ráðningarstofa tæki ferlið í sínar hendur til að tryggja óháð og vönduð vinnubrögð.

Hefur verið óskað eftir því að borgarlögmaður gefi álit sitt á því hvort yfirstandandi vinna vegna ráðningarinnar samræmist góðum stjórnarháttum og lagafyrirmælum um stjórn fyrirtækisins. Er tillaga þess efnis nú til meðferðar í borgarráði.

Ráðning forstjóra er með mikilvægustu ákvörðunum, sem stjórnir fyrirtækja fá til úrlausnar. Þegar um opinber fyrirtæki er að ræða verður að gera ríka kröfu til þess að slíkt ráðningarferli sé gagnsætt, hafið yfir vafa og formreglum fylgt í hvívetna. Í tveimur greinargerðum, sem undirritaður hefur lagt fram í málinu, hefur verið sýnt fram á að alvarlegar brotalamir eru á ferlinu og mikið vantar á að það sé faglegt, gagnsætt og jafnvel löglegt. Skulu nú rakin nokkur atriði, sem undirritaður hefur gert athugasemdir við:

  • Eftir að umsóknarfrestur rann út, hefur forstjórinn yfirfarið umsóknir ásamt aðkeyptum ráðgjafa og kallað nokkra umsækjendur í viðtöl án þess að hafa til þess umboð stjórnar. Einföldustu formreglum hefur þannig ekki verið fylgt í ráðningarferli og eru slík vinnubrögð óviðunandi með öllu.
  • Meirihluti stjórnar Orkuveitunnar hefur virt að vettugi margítrekaðar óskir stjórnarmanns um vönduð vinnubrögð og að sjálfsögðum formreglum skuli fylgt. Fyrir starfsmenn og eigendur fyrirtækisins, þ.e. almenning í Reykjavík, Borgarbyggð og á Akranesi, skiptir miklu máli að ekki leiki vafi á um að vinnubrögð hafi verið vönduð og að hæfasti umsækjandinn sé valinn. Þá eiga umsækjendur rétt á að umsóknir þeirra fái tilhlýðilega og vandaða meðferð í hvívetna enda mjög óæskilegt að grunsemdir vakni um að óeðlilega hafi verið staðið að valinu.
  • Núverandi forstjóri hefur unnið að því að velja úr umsækjendum ásamt aðkeyptum ráðgjafa. Að fráfarandi forstjóri sé þannig í lykilhlutverki við val á eftirmanni sínum, gengur gegn leiðbeiningum um góða starfshætti fyrirtækja. Slík vinnubrögð eru óþekkt innan stjórnsýslunnar og í rekstri opinberra fyrirtækja, a.m.k. síðustu áratugina.
  • Núverandi forstjóri var ráðinn á pólitískum forsendum, án nokkurs hæfismats eða eðlilegrar umfjöllunar stjórnar. Forstjórinn er vinur stjórnarformannsins og viðskiptafélagi föður hans. Hann starfar því fyrst og fremst í umboði meirihluta Samfylkingarinnar og Besta flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Forstjórinn getur því hvorki talist hlutlaus né óháður og því óeðlilegt að hann taki að sér að velja úr umsækjendum fyrir hönd þeirrar fjölskipuðu stjórnar, sem stjórn Orkuveitunnar er.
  • Samkvæmt lögum er það hlutverk stjórnar Orkuveitunnar að ráða forstjóra. Í því felst að í slíku ráðningarferli er stjórnarmönnum skylt að kynna sér gögn málsins nægilega vel til að þeir geti með fullnægjandi hætti gert upp á milli umsækjenda. Sextíu manns hafa sótt um stöðuna og er fjöldi hæfra umsækjenda þar á meðal. Hins vegar hefur aðeins fullnægjandi gögnum um þrjá umsækjendur verið dreift til stjórnarinnar. Óeðlilegt er að stjórnin kynni sér ekki gögn um alla umsækjendur, eða a.m.k. um þá sem teljast hæfir, heldur framselji það hlutverk sitt til tveggja manna utan stjórnar. Verður ekki talið að stjórnarmenn geti tekið upplýsta og vel rökstudda ákvörðun með svo litlar grundvallarupplýsingar í höndunum.

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu 7. febrúar 2011.

Fyrstu fjöldauppsagnir í sögu Reykjavíkurborgar

Fjöldauppsagnir þær, sem tilkynnt hefur verið um hjá Orkuveitunni, eru hinar fyrstu í sögu Reykjavíkurborgar. Með þeim hefur nýr meirihluti Samfylkingarinnar og Besta flokksins horfið frá þeirri stefnu, sem mörkuð var og samþykkt af öllum flokkum í borgarstjórn Reykjavíkur haustið 2008, til að bregðast við áföllum í efnahagslífi landsins. Sú stefna fól meðal annars í sér að ekki yrði gripið til fjöldauppsagna hjá Reykjavíkurborg og fyrirtækjum hennar heldur lögð áhersla á að verja störf fastráðinna starfsmanna. Á grundvelli þessarar stefnu hefur verið hagrætt um milljarða króna á vegum Reykjavíkurborgar og náðst hefur að fækka starfsmönnum verulega án þess að grípa til fjöldauppsagna. Hjá Orkuveitunni einni hefur verið hagrætt fyrir á annan milljarð króna síðan haustið 2008 og þar hefur starfsmönnum fækkað verulega.

Undirritaður hefur unnið með núverandi meirihluta að því að halda áfram því sparnaðar- og hagræðingarátaki sem hófst hjá Orkuveitu Reykjavíkur árið 2008 og er sammála því að æskilegt sé að lækka launakostnað fyrirtækisins enn frekar. Í stað þess að grípa til fjöldauppsagna, er hins vegar hægt að ná sparnaðarmarkmiðum til skamms tíma með því að ná samkomulagi við starfsmenn um skerðingu starfshlutfalls en ná síðan fram markmiðum um fækkun starfsmanna á nokkrum misserum eða árum með starfsmannaveltu og tilfærslum innan fyrirtækisins. Um er að ræða þrautreynda leið sem mörg íslensk fyrirtæki hafa farið á undanförnum árum með góðum árangri. Það eru mikil vonbrigði að Besti flokkurinn og Samfylkingin skuli hafna slíkri leið en velja fjöldauppsagnir.

Málið sem ekki mátti ræða í borgarstjórn

Það er til marks um það pólitíska forystuleysi, sem nú einkennir borgarstjórn að Jón Gnarr Kristinsson borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, ákváðu að hrinda fyrstu fjöldauppsögnum í sögu Reykjavíkurborgar í framkvæmd án þess að þær kæmu til viðeigandi umfjöllunar í borgarráði eða borgarstjórn. Undarlegt er að flestir fjölmiðlar, sem um málið fjölluðu, virtust ekki sjá neitt athugavert við að borgarstjóri og formaður borgarráðs væru stikkfrí í málinu. Efast nokkur um að fjölmiðlar hefðu gengið af göflunum ef borgarstjóri úr röðum sjálfstæðismanna hefði ekki treyst sér til að svara fyrir slíkt pólitískt stórmál heldur hlaupið í felur.

Að beiðni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins var málið þó rætt utan dagskrár á borgarstjórnarfundi sl. þriðjudag. Í þeim umræðum sá enginn borgarfulltrúi meirihlutans sér fært að ræða það málefnalega, hvort æskilegra væri að fara leið fjöldauppsagna eða starfshlutfallsskerðingar til að fækka starfsmönnum Orkuveitunnar. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að mildari leiðin yrði farin, var síðan vísað frá, með atkvæðum Besta flokksins og Samfylkingar, eins og fjöldauppsagnirnar kæmu borgarstjórn ekki við.

Kosningaloforð Samfylkingar einskis virði

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja það vera eina mikilvægustu skyldu borgarstjórnar að leita leiða til að halda atvinnuleysi í lágmarki enda hefur það fjölmargar neikvæðar afleiðingar í för með sér. Með þessum fjöldauppsögnum bregst meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins þessum skyldum. Auk þess ganga borgarfulltrúar Samfylkingarinnar í berhögg við nokkurra mánaða gömul kosningaloforð sín, um að sérstök áhersla yrði lögð á að tryggja atvinnu og verja störf, kæmust þeir til valda.

 

— — —

— — —
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 26. október 2010.