Fagraberg – góður áfangi í húsnæðismálum eldri borgara

Fagraberg í Efra Breiðholti

Ástæða er til að þakka Félagi eldri borgara fyrir ómetanlegt framlag í þágu húsnæðismála í Reykjavík á undanförnum áratugum.

Fagraberg, glæsileg 49 íbúða bygging að Hólabergi 84 í Breiðholti, var afhent Félagi eldri borgara í Reykjavík (FEB) 11. nóvember og fluttu fyrstu íbúarnir inn í húsið þegar að lokinni afhendingu. Ástæða er til að óska Félagi eldri borgara í Reykjavík (FEB) og íbúðarkaupendum í Fagrabergi til hamingju með glæsilegt hús og þakka félaginu jafnframt fyrir ómetanlegt framlag í þágu húsnæðismála eldri borgara á undanförnum áratugum.

FEB átti frumkvæði að byggingu Fagrabergs og er það fyrsta íbúðarhús, sem reist er beinlínis á vegum félagsins. FEB á að baki merkilega sögu í húsnæðismálum en áður átti það í samstarfi við verktaka um byggingu slíkra íbúða og sá um ráðstöfun þeirra. Var samtals 386 íbúðum ráðstafað með slíkum hætti á árunum 1986-1998 í fjölbýlishúsum við Grandaveg, Skúlagötu, Hraunbæ, Árskóga og Eiðismýri.

Nokkurt hlé varð á því að byggt væri frekar á vegum félagsins vegna þess að erfiðlega gekk að fá lóðarfyrirgreiðslu frá Reykjavíkurborg. Árið 2008 fékkst fyrirheit frá borginni um lóð á góðum stað í Breiðholti og gat þá undirbúningur hafist af fullum krafti. Byggingarframkvæmdir hafa gengið vel; þær hófust í marz 2011 og nú eru fyrstu íbúarnir fluttir inn.

Fjölbreytileg þjónusta
Eitt af markmiðum Félags eldri borgara í Reykjavík er að stuðla að byggingu öryggisíbúða fyrir félagsmenn og bjóða þeim eignaríbúðir til kaups á viðráðanlegu verði. Í Fagrabergi er um að ræða svonefndar öryggisíbúðir samkvæmt þjónustustigi 1, sem eru sérsniðnar að þörfum eldri borgara. Eru íbúðirnar á verðbilinu 24-43 milljónir króna. Húsið er byggt af Sveinbirni Sigurðssyni hf., sem sér jafnframt um fjármögnun framkvæmda og sölu íbúða.

Fagraberg er tengt Gerðubergi með sérstökum gangi en þar er starfrækt menningarmiðstöð, þar sem byggst hefur upp mjög öflugt félagslíf eldri borgara. Í Gerðubergi er einnig bókasafn og listasafn og stutt er í bakarí og margvíslega aðra þjónustu. Sunnan megin við Fagraberg er Fella- og Hólakirkja með öflugt safnaðarstarf. Falleg útivistarsvæði með góðum göngustígum liggja að Fagrabergi. Síðast en ekki síst er sjálf Breiðholtslaug vestan megin við Gerðuberg. Að tillögu Sjálfstæðisflokksins er nú unnið að því að fá einkaaðila til samstarfs um rekstur líkamsræktarstöðvar í tengslum við Breiðholtslaug og verður hún vonandi að veruleika fljótlega.

Farsælt samstarf
Þegar aldurinn færist yfir er mikilvægt að fólk eigi þess kost að komast með auðveldum hætti úr stóru húsnæði í minni og hentugri einingar með góðum aðgangi að þjónustu. Óhætt er að segja að FEB hafi unnið vel fyrir félagsmenn sína að þessu leyti og í raun lyft Grettistaki í húsnæðismálum eldri borgara. Samstarf Reykjavíkurborgar við þessi frjálsu félagssamtök hefur verið farsælt og skilað góðum árangri í þágu alls samfélagsins.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 20. nóvember 2012.