Borgarbúar vilja ekki skattahækkanir

Í umræðum fyrir borgarstjórnarkosningar sl. vor var það almennt viðhorf að vel hefði verið haldið á fjármálum Reykjavíkurborgar kjörtímabilið 2006-10 og að staða borgarsjóðs væri góð. Umræður snerust því öðru fremur um hvernig tryggja ætti áframahaldandi góða fjárhagsstöðu. Nú er lögleyft hámarksútsvar 13,28% af launatekjum en á síðasta kjörtímabili var sú stefna mörkuð undir forystu sjálfstæðismanna í borgarstjórn að miða ekki við það hámark heldur 13,03%.

Í því sambandi voru frambjóðendur oft spurðir um það í fjölmiðlum og á kosningafundum sl. vor hvort nauðsynlegt yrði að hækka útsvar og aðrar álögur á Reykvíkinga á nýju kjörtímabili.

Athyglisvert er að sjá hvernig oddvitar stjórnmálaflokkanna svöruðu þessum spurningum í kosningabaráttunni.

  • Sjálfstæðisflokkurinn hvikaði ekki frá þeirri stefnu að útsvarsprósentan skyldi ekki hækkuð. Flokkurinn fékk fimm borgarfulltrúa kjörna.
  • Vinstri græn hvikuðu ekki frá þeirri stefnu sinni að útsvarsprósentan skyldi ætíð vera í hámarki. Framboðið kom einum borgarfulltrúa að.
  • Samfylkingin svaraði út og suður og þar með var ljóst að flokkurinn stæði við fyrri stefnu um að útsvarsprósentan skyldi hækkuð. Flokkurinn fékk þrjá borgarfulltrúa.
  • Besti flokkurinn lofaði því að hækka ekki útsvarsprósentuna og oddviti hans, Jón Gnarr, bætti um betur og var eina borgarstjóraefnið, sem sagði vafningalaust að hann vildi beinlínis lækka hana. Flokkurinn fékk sex borgarfulltrúa kjörna og var ótvíræður sigurvegari kosninganna.

Vilji kjósenda var skýr: Þeir flokkar, sem vildu hækka útsvarið, fengu 26% fylgi og fjóra borgarfulltrúa kjörna. Þeir flokkar, sem vildu ekki hækka útsvarið fengu 68% fylgi og ellefu fulltrúa kjörna.

Það tók borgarfulltrúa Samfylkingarinnar aðeins nokkra mánuði að heilaþvo óreynt borgarstjórnarlið Besta flokksins og sannfæra þá um að bráðnauðsynlegt væri að færa meira fé frá fólkinu til Kerfisins. Meirihluti þessara flokka hefur nú samþykkt hækkun útsvarsprósentunnar og þannig brotið vilja mikils meirihluta Reykvíkinga á bak aftur. Vinstri meirihlutinn í Reykjavík lítur greinilega á skattgreiðendur sem auðlind, er nýta eigi til hins ýtrasta.

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu 6. desember 2010.

Kærar þakkir!

Kjartan Magnússon og fjölskyldaÉg þakka sjálfstæðismönnum í Reykjavík kærlega fyrir góðan stuðning í prófkjörinu. Alls hlaut ég 4.582 atkvæði eða um 67% gildra atkvæða. Ég er þakklátur fyrir þetta mikla traust og heiti því að bregðast því ekki.

Þótt stefnt hafi verið á annað sætið er ég ánægður með að hafa hlotið hið þriðja. Öðrum frambjóðendum óska ég til hamingju með árangurinn og hlakka til þess að vinna með þeim að því að gera góða borg enn betri.

Sérstaklega þakka ég þeim, sem réttu mér hjálparhönd með einum eða öðrum hætti í prófkjörsbaráttunni; þeim sem löguðu þessi ókjör af kaffi og steiktu kleinurnar, þeim sem báru bæklingana út í hverfunum í misjöfnum veðrum, þeim sem hvöttu vini og kunningja til að kjósa mig og þeim sem komu með ábendingar um það sem betur mætti gera. Loks þakka ég fjölskyldunni fyrir ómetanlega hjálp og stuðning meðan á prófkjörsbaráttunni stóð, prófkjör reynir ekki síður á fjölskyldur frambjóðenda en þá sjálfa.

Baráttan framundan

Framundan er ströng kosningabarátta og þar mun ég ekki draga af mér, en á meðan þarf að halda vel á spöðunum við stjórn borgarinnar. Þau störf eru aldrei vandalaus, en hafa sjálfsagt aldrei verið jafnstrembin og nú. Óþarfi er að rekja erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu, en þær gera það að verkum að við þurfum að gæta meiri ráðdeildar og útsjónarsemi í borgarkerfinu en fyrr. Þar þarf að haldast í hendur varðstaða um velferð þeirra, sem síst mega við áföllum, endurreisn atvinnulífsins og viðgangur þess eftirsóknarverða umhverfis, sem Reykjavík er fyrir fagurt mannlíf og athafnaþrá einstaklinganna. Þannig byggjum við betri borg og betra land.

Ég segi það ekki út í loftið að þannig byggjum við betra land. Það skiptir nefnilega máli fyrir landið allt hvernig okkur tekst til í höfuðborginni. Þannig er það alla jafna, en það á enn frekar við nú.  Það er enn meira aðkallandi vegna þeirrar óstjórnar og ráðleysis, sem við megum búa við úr stjórnarráðinu, og ekki ólíklegt að landsmenn megi búast við frekari búsifjum úr þeirri átt.

Þeim mun mikilvægara er að okkur takist að verja grunnþjónustu borgarinnar, en auka hagræði á öðrum sviðum. Reykjavíkurborg getur nýtt sér hagkvæmni stærðarinnar á mörgum sviðum, en á öðrum þarf að draga saman seglin, forgangsraða af ákveðni og velja verkefnin af kostgæfni. Þannig getum við gert það sem við þurfum að gera og gert það vel. Það munum við gera án þess að hækka útsvarið, borgarbúar mega ekki við auknum útlátum og fjárhagslegri óvissu.

Þetta er ekki innantómt gaspur, því við höfum sýnt það á undanförnu ári hvernig þetta er unnt. Í meirihlutasamstarfi okkar og framsóknarmanna undir stjórn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra hefur okkur tekist að snúa vörn í sókn. Það hefur ekki verið auðvelt, en það hefur samt heppnast vel og í góðri sátt við borgarbúa og borgarstarfsmenn. Ekki svo að skilja að því hafi öllu verið tekið fagnandi, en menn hafa sýnt því skilning að grípa þurfi til slíkra úrræða í þröngri stöðu. Það er þakkar vert.

Enginn skyldi þó ímynda sér að kosningabaráttan í vor verði auðveld. Það verður hún ekki. En hún verður gríðarlega mikilvæg, ekki aðeins fyrir borgarbúa, heldur einnig land og þjóð. Þar þurfa borgaraleg viðhorf og heilbrigð skynsemi að halda velli. X-D!

Verkefnin framundan

Við þær aðstæður þegar fjármál landsins eru í uppnámi, fólksflótti er staðreynd og ríkisstjórnin svo gagnslaus að hún heldur ekki á lofti réttmætum málstað þjóðarinnar, hefur aldrei verið mikilvægara að Reykjavík blómstri og skapi þegnum sínum lífvænleg og eftirsóknarverð skilyrði. Það er á ábyrgð borgarstjórnar að Reykjavík hafi betur í þeirri alþjóðlegu samkeppni, sem á sér stað um fólk, ekki síst vel menntað og sérhæft vinnuafl, sem á nú auðvelt með að fá vinnu erlendis á betri kjörum en bjóðast hér heima.

Hófstilltar álögur

Ísland hefur á undanförnum áratugum smám saman verið að taka á sig mynd borgríkis. Líklegt er að sú þróun haldi áfram þrátt fyrir tímabundið bakslag á næstunni. Það er framsýnnar borgarstjórnar að tryggja að Reykjavík verði áfram eftirsóknarverðasti staður til búsetu á Íslandi. Til þess þarf að veita borgurunum úrvalsþjónustu, ákjósanleg skilyrði fyrir atvinnulíf og stilla álögum í hóf.

Festa og áræði

Borgarstjórn hefur tekist á við kreppuna af festu en núverandi ríkisstjórn hefur verið að hugsa sig um í heilt ár. Tryggasta leiðin til að sú lausung, sem ríkir á vettvangi landsmálanna, smitist ekki yfir á borgarmálin, er að Sjálfstæðisflokkurinn fái meirihluta í borgarstjórnarkosningum í vor undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Forgangsverkefni

Þær hagræðingaraðgerðir, sem ráðist hefur verið í hjá borginni hafa nú þegar skilað miklum árangri. Áfram verður að gæta aðhalds og auka skilvirkni í rekstri en tryggja um leið gæði þjónustunnar. M.a. þarf að taka stjórnkerfi borgarinnar í gegn sem er of dýrt og þungt í vöfum. Þá þarf áfram að forgangsraða í þágu barna, ungmenna og eldri borgara. Standa þarf vörð um grunnþjónustu, ekki síst þá þjónustu, sem veitt er úti í hverfunum, t.d. í skólum, íþróttamannvirkjum og félagsmiðstöðvum eldri borgara. Næstu ár munu ekki snúast um tugmilljarða króna hugmyndir heldur hvernig borgin tekst á við efnahagsvandann og hvaða lífsskilyrði okkur tekst að búa afkomendum okkar til framtíðar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu hinn 23.i.2010.