Íþrótta- og tómstundaráð – 25 ár í fararbroddi (seinni grein)

Öflugt æskulýðsstarf fer fram í félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Félagsmiðstöðvarnar eru nú 23 talsins og þar til nú hefur ÍTR annast rekstur þeirra. Allir á aldrinum 10-15 ára eru velkomnir í félagsmiðstöðvarnar og þar er m.a. leitast við að gefa þeim einstaklingum kost á heilbrigðum og uppbyggilegum frístundum, sem ekki taka þátt í íþróttastarfi félaga eða félagsstarfi í skólum. ÍTR stendur fyrir ýmsu öðru æskulýðsstarfi og má þar nefna Hitt húsið, sem nýtt er af ungmennum á aldrinum 16-25 ára, Ungmennaráð fyrir 13-18 ára, Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna og siglingaklúbbinn Siglunes í Nauthólsvík.

Öflugt æskulýðs- og frístundastarf
Í Reykjavík eru starfræktar sex frístundamiðstöðvar, 34 frístundaheimili og fjórir frístundaklúbbar fyrir fötluð börn. 6-9 ára börn fara í frístundaheimili að loknum hefðbundnum skóladegi og á síðustu ellefu árum hefur ÍTR unnið sleitulaust að uppbyggingu og þróun þessa frístundastarfs með góðum árangri.

Farsæl starfsemi ÍTR
Stjórnmálamenn koma og fara. Í 25 ára sögu Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur hafa sjö einstaklingar gegnt þar formennsku. Allir hafa þeir haft ríkan metnað fyrir hönd ráðsins og komið mörgu góðu til leiðar. Ekki er hægt að fjalla um stjórnun málaflokksins án þess að víkja að Ómari Einarssyni, sem verið hefur framkvæmdastjóri ÍTR frá upphafi. Hefur Ómar gegnt því starfi allan tímann af miklum krafti og einurð með vaskan hóp starfsmanna sér við hlið. Eru fáir embættismenn ef nokkrir, sem gera sér jafngóða grein fyrir því að þeir eru fyrst og fremst í þjónustu fólksins í borginni og leggja sig fram við að leysa af lipurð mörg aðsteðjandi vandamál en láta þó ekki undan ósanngjörnum kröfum og heimtufrekju gagnvart skattgreiðendum, sem embættismenn borgarinnar standa einnig frammi fyrir í ríkum mæli.

Í aldarfjórðung hafa Reykvíkingar verið afar ánægðir með starfsemi ÍTR. Í viðhorfs- og þjónustukönnunum hefur ÍTR ætíð verið í fremstu röð og oftast verið sú borgarstofnun, sem hæstu ánægjueinkunn hefur fengið meðal borgarbúa. Á starfstíma ÍTR hafa starfsmenn þess hvað eftir annað gripið tækifærið til að bæta starfsemina og náð miklum árangri á því sviði. Það hefur ekki verið á forsendum þess að breyta þurfi breytinganna vegna, heldur á grundvelli vandaðra vinnubragða og viðurkenndrar breytingastjórnunar.

Undarleg afmælisgjöf
Það olli því furðu og vonbrigðum þegar núverandi meirihluti Samfylkingarinnar og Besta flokksins ákvað á afmælisárinu, án haldbærra skýringa, að kljúfa starfsemi ÍTR, þar sem borgarfulltrúi Besta flokksins fer með formennsku, í herðar niður og færa stóran hluta starfseminnar til annars ráðs borgarinnar, þar sem Samfylkingin heldur um stjórnartauma. Um er að ræða sex frístundamiðstöðvar, 23 félagsmiðstöðvar, 34 frístundaheimili og fjóra frístundaklúbba fyrir fötluð börn. Voru þessar breytingar unnar með ótrúlega óvönduðum hætti af hálfu meirihlutans. Var þeim síðan hrint í framkvæmd í andstöðu við vilja mikils meirihluta starfsmanna og án þess að þeir eða notendur þjónustunnar fengju á því skýringar eða væri gefinn tími til að tjá sig um breytingarnar með eðlilegum hætti. Ráðist var í breytingarnar án þess að stefnumörkun eða framtíðarsýn lægi fyrir eða að sýnt væri fram á með nokkrum hætti að þær skiluðu hagræðingu. Lét meirihlutinn sjálfsagðar ábendingar starfsmanna og annarra fagaðila um mikilvægi eðlilegrar undirbúningsvinnu, áður en ákvarðanir um breytingar yrðu teknar, sem vind um eyru þjóta. Ríkti lítil afmælisstemmning hjá starfsfólki ÍTR á afmælisárinu vegna þessa, en sem fyrr lagði það sig þó allt fram í störfum sínum.

Vil ég af heilum hug þakka öflugu starfsliði ÍTR undanfarinn aldarfjórðung fyrir gott starf að íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamálum, í þágu uppvaxandi kynslóðar borgarbúa, og vona að framtíð málaflokksins sé björt. Landsmönnum öllum óska ég gleðilegs árs og friðar.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 7. janúar 2012.

Íþrótta- og tómstundaráð – 25 ár í fararbroddi (fyrri grein)

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur (ÍTR) átti aldarfjórðungsafmæli á nýliðnu ári. Þótt lítið hafi farið fyrir hátíðarhöldum vegna afmælisins, er ekki úr vegi að líta um öxl í lok afmælisárs og meta hvernig ráðið hefur sinnt hlutverki sínu í gegnum tíðina í þágu íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmála í Reykjavík.

Íþrótta- og tómstundaráð varð til við sameiningu Íþróttaráðs og Æskulýðsráðs Reykjavíkur árið 1986. Þessi ráð höfðu hvort á sínu sviði unnið gott starf í þágu Reykvíkinga um áratuga skeið og voru skoðanir vissulega skiptar um það hvort rétt væri að sameina þau. Borgaryfirvöld ákváðu að sameina krafta þessara ráða í því skyni að efla enn frekar starf í þágu barna og ungmenna, hvort sem það væri unnið á vegum borgarinnar eða frjálsra félaga og samtaka.

Tíminn hefur leitt í ljós að það var rétt ákvörðun að sameina rekstur íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamála með þeim hætti sem gert var árið 1986. Miklar framfarir hafa orðið í þessum málaflokkum enda hefur stöðugt verið unnið að þróun þeirra undir merkjum ÍTR. Langflest börn og unglingar í borginni taka nú þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi með einhverjum hætti.

Íþróttir fyrir alla
Ljóst er að allar aðstæður til íþróttaiðkunar hafa stórbatnað í Reykjavík á undanförnum áratugum. Mörg íþróttahús hafa verið reist í tengslum við skólabyggingar eða íþróttafélög og hafa flest þeirra fyllst jafnóðum af börnum og unglingum eða fullorðnu fólki, sem stundar þar íþróttaæfingar. Við byggingu og rekstur íþróttamannvirkja hefur Reykjavíkurborg lagt áherslu á að nýta krafta íþróttafélaganna í borginni enda þekkja þau best aðstæður í viðkomandi hverfi eða íþróttagrein. Fyrir hönd borgarinnar hefur ÍTR annast samskiptin við íþróttahreyfinguna og hefur það samstarf verið afar farsælt. Borgin hefur sjálf annast rekstur nokkurra íþróttamiðstöðva en á síðasta kjörtímabili var ákveðið að kanna möguleika á að hverfisíþróttafélög kæmu í auknum mæli að rekstri þeirra. Þannig hefur ÍR nú t.d. tekið að sér rekstur íþróttahúsanna við Seljaskóla og Austurberg í Breiðholti, Fjölnir í Grafarvogi sér um rekstur íþróttahússins við Dalhús, Ármann og Þróttur reka íþrótta- og félagsmannvirki sem þjóna félögunum í Laugardal og Fylkir rekur fimleikahúsið í Norðlingaholti.

Á síðasta kjörtímabili var Frístundakortinu svokallaða komið á fót og voru þá einnig undirritaðir sérstakir þjónustusamningar milli íþróttafélaganna og Reykjavíkurborgar þar sem m.a. er kveðið á um að félögin annist ákveðna þjónustu í mannvirkjum í skilgreindum hverfum eða íþróttagrein og fái á móti fjárframlag frá borginni. Hafa fyrrgreind atriði stuðlað að því að á fáum árum hefur orðið gífurleg fjölgun í barna- og unglingastarfi reykvískra íþróttafélaga. Þá hefur iðkendum í almenningsíþróttum einnig fjölgað verulega. Miðað við stærð Reykjavíkur er með ólíkindum hve margar íþróttagreinar eru stundaðar í borginni innan vébanda sjötíu sjálfstæðra íþróttafélaga, sem borgin á samstarf við með einum eða öðrum hætti.

Sæluríkar sundlaugar
ÍTR annast rekstur sjö almenningssundlauga auk ylstrandar í Nauthólsvík, sem tugþúsundir Reykvíkinga sækja sér til heilsubótar og hressingar. Hefur sundgestum fjölgað ár frá ári og er talið að aðsóknin hafi farið yfir tvær milljónir á árinu 2011. Í reykvískum sundlaugum birtist vel sá þáttur í menningu borgarbúa, sem fólginn er í nýtingu heita vatnsins en með sundferð er á einstakan hátt hægt að sameina holla hreyfingu, vellíðan og góðan félagsskap. Sundlaugarnar í Reykjavík njóta mikillar hylli ferðamanna og hafa hvað eftir annað vakið athygli í erlendum fjölmiðlum og þá er þjónusta við sjósundkappa vaxandi þáttur í starfsemi Ylstrandarinnar.

Í seinni grein verður fjallað nánar um æskulýðs- og frístundastarfið og þá uppskiptingu, sem gerð var á ÍTR á afmælisárinu.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 4. janúar 2012.

Glæsileg knattspyrnuhátíð í Reykjavík

Laugardalurinn iðaði af lífi og fjöri um síðustu helgi þegar ReyCup knattspyrnumótið fór þar fram í áttunda sinn. Mótið hefur orðið fjölmennara og glæsilegra með ári hverju og er nú orðið stærsta einstaka knattspyrnumót á Íslandi. Rúmlega 1.600 unglingar í 105 keppnisliðum tóku nú þátt í mótinu. Ánægjulegt er hve mörg lið utan Reykjavíkur tóku þátt í keppninni en metþátttaka var af landsbyggðinni auk liða frá Danmörku, Englandi og Færeyjum.

07 Vestur fagnar verðskulduðum sigri.
Sigri hrósað.

Mikilvægt er að íþróttafélög haldi úti þróttmiklu og metnaðarfullu starfi fyrir börn og unglinga þrátt fyrir versnandi efnahagsástand. Gaman hefur verið að fylgjast með velheppnuðum knattspyrnumótum víðs vegar um landið í sumar, t.d. á Akranesi, Akureyri, í Vestmannaeyjum og nú síðast í Reykjavík.

ReyCup er einn af hápunktum ársins hjá ungum knattspyrnuiðkendum í 3. og 4. flokki pilta og stúlkna eða á aldrinum 13-16 ára. Eftir því sem unglingarnir okkar fá fleiri tækifæri til að finna kröftum sínum viðnám í krefjandi keppni, er líklegra að það dragi úr brottfalli þessa aldurshóps úr íþróttum. Ungmennin takast á í heilbrigðri keppni og mynda ný vinatengsl. Samvinna, keppni, sigurgleði og vonbrigði blandast saman svo úr verður mikil og góð upplifun fyrir ungt keppnisfólk.

ReyCup er haldið af Knattspyrnufélaginu Þrótti með stuðningi Reykjavíkurborgar. Þróttarar annast sjálft mótshaldið en Reykjavíkurborg útvegar knattspyrnuvelli og aðra aðstöðu, t.d. fimm grunnskóla undir gistingu ásamt aðgangi að sundlaugum og Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Hugmyndin að mótshaldinu kviknaði árið 2001 meðal bjartsýnisfólks í foreldrastarfi Þróttar. Rætt var um að þörf væri á metnaðarfullu móti fyrir 13-16 ára aldurinn og að Laugardalurinn væri tilvalinn mótsstaður. Sumir töldu að um óhóflega bjartsýni væri að ræða en fyrsta mótið var haldið sumarið eftir og nú er það orðið að árvissum viðburði í borgarlífinu.

Mikill metnaður einkennir mótshaldið og mestur hluti vinnunnar er inntur af hendi í sjálfboðaliðavinnu af hinum öfluga foreldrahópi í Þrótti. Fyrir hönd íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur vil ég sérstaklega þakka þessum harðsnúna hópi fyrir vel unnin störf í þágu æskulýðsmála í Reykjavík. Einnig óska ég aðstandendum Reycup sem og öllum keppendum til hamingju með vel heppnað mót með von um að þeir haldi áfram að þroska hæfileika sína og efla líkamshreysti á vettvangi íþrótta.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu hinn 27.vii.2009.)