Icesave er rétt að byrja

Kostuleg eru ummæli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra um að hann sé bjartsýnn á að menn sjái nú fyrir endann á Icesave-málinu og það fái farsælar lyktir. Það er ákaflega brýnt að koma því frá, þetta ólánsmál hættir þá að þvælast fyrir okkur, segir hann. Sennilega er Steingrímur að vísa til þess að málið hætti þá að þvælast fyrir honum og núverandi ríkisstjórn. Ríkisstjórnin ætlar sér þannig að vísa vandanum til framtíðar, enginn veit hvað reikningurinn verður hár eða hvernig hann verður greiddur. Samþykki Alþingi í dag erlendar skuldbindingar vegna viðskipta einkafyrirtækis, mun það í raun marka upphaf þrautagöngu frá sjónarhóli skattgreiðenda.

Að undanförnu hafa ráðherrar og ríkisfjölmiðlar gert mest með að umræður um Icesave gangi ekki nógu hratt fyrir sig á Alþingi en sem minnst fjallað um efnisatriði málsins, þ.e. hvað ánauðin mun í raun þýða fyrir þjóðarbúið. En ný og þungvæg efnisatriði koma stöðugt fram, sem krefjast frekari umræðna um málið á meðal þings og þjóðar.

  • Áhættugreining IFS á Icesave-frumvarpinu sýnir að samþykkt þess hefði miklar og óverjandi hættur í för með sér fyrir þjóðina. Áhættan er öll á annan veg og forsendur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir greiðsluhæfi íslenska ríkisins virðist byggjast á óskhyggju og óhóflegri bjartsýni.
  • Eftir því sem fleiri lögfræðingar tjá sig verður ljósara að ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingum stenst hvorki íslenska né evrópska löggjöf, þrátt fyrir að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi síðan í febrúar reynt að telja þjóðinni trú um hið gagnstæða.
  • Virtir lögfræðingar hafa lýst miklum efasemdum um að lög um ríkisábyrgð vegna Icesave standist ákvæði stjórnarskrár um skýra og afdráttarlausa lagaheimild vegna útgjalda ríkissjóðs.
  • Nú síðast komu fram upplýsingar um að greiðslur ríkisins af lánum muni nema um 40% af tekjum þess á næsta ári og íslenska ríkið sé því nærri eða yfir skuldaþolmörkum.

Í skrúfstykki ofurskulda?

Þar sem um er að ræða eitt stærsta mál í sögu lýðveldisins ætti Alþingi að fresta umræðum meðan þingmenn fara betur yfir málið. Á því hefur ríkisstjórnin ekki áhuga heldur keyrir málið í gegn. Umræður um þessi efnisatriði bíða annarra tíma en þá er hætta á að þjóðin verði komin í skrúfstykki ofurskulda. Í sumar var mikill meirihluti landsmanna (63%) á móti þáverandi Icesave-frumvarpi ríkisstjórnarinnar skv. Gallup-könnun. Þrátt fyrir stöðugan áróður um að farsælli og jafnvel glæsilegri niðurstöðu sé náð með núverandi frumvarpi og þjóðin sé búin að fá nóg af málinu, kemur fram með skýrum hætti í skoðanakönnun MMR nú í desember að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna (69%) vill fá að kjósa um frumvarpið.

Flestir Íslendingar hafa áttað sig á því að verið er að ganga á lýðræðislegan rétt landsmanna með því að binda hendur þeirra gagnvart erlendum ríkjum til ófyrirsjáanlegrar framtíðar vegna skuldbindinga, sem eru umfram lagaskyldu og geta þar að auki reynst þjóðarbúinu ofviða. Skömm þeirra, sem slík ólög samþykkja, verður lengi uppi.

(Greinin birtist í Morgunblaðið 30.xii.2009)

Óviðunandi IceSave samningur

Óviðunandi IceSave samningur
Miklar umræður hafa að undanförnu verið um þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að hneppa þjóðina í skuldaánauð vegna IceSave innlánsreikninga í Bretlandi og Hollandi. Margir hafa orðið til þess að benda á að óviðunandi sé að íslenska ríkið greiði kröfu upp á mörg hundruð milljarða, sem mikill vafi leiki á að það eigi að greiða samkvæmt lögum. Einnig ríkir óvissa um getu íslenska ríkisins til að greiða fjögurra milljarða evra IceSave skuldir með kúluláni á 5,5% vöxtum. Flestir óháðir sérfræðingar, sem hafa skoðað IceSave málið í heild eða einstakar hliðar þess, eru þeirrar skoðunar að hin ,,glæsilegu” samningsdrög vinstri stjórnarinnar við Breta og Hollendinga séu ótæk og megi ekki samþykkja óbreytt.
Varnaðarorð Evu Joly
Um síðustu helgi blandaði Eva Joly, Evrópuþingmaður og ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, sér í umræðurnar og benti á galla IceSave samningsins í dagblöðum í fjórum löndum. Erfitt er fyrir Jóhönnu, Steingrím og aðra ráðherra að gera lítið úr málflutningi hennar, eins mikið og þeir hafa gert úr hæfileikum hennar og ráðgjöf í málefnum tengdum bankahruninu og þeim efnahagserfiðleikum sem Íslendingar glíma nú við.
Eva Joly kemst að svipaðri niðurstöðu og ýmsir þeir Íslendingar, sem hvað mest hafa varað við þeim afarkostum sem ríkisstjórnin virðist vera reiðubúin að samþykkja. Hún bendir á að málið snúist um að lítil þjóð axli margra milljarða evra skuldabyrði, sem langstærstur hluti hennar beri nákvæmlega enga ábyrgð á og ráði alls ekki við að greiða. Bretar og Hollendingar neiti að viðurkenna ábyrgð sína í málinu en beiti Íslendinga þess í stað hneykslanlegum þvingunaraðgerðum. Fullyrðir Joly að Íslendingar muni ekki geta staðið undir umræddum ábyrgðum, sem ríkisstjórnin leggur nú allt kapp á að fá samþykktar.
Ríkisstjórnin ræður ekki við verkefnið
Nýútkomin skýrsla Hagfræðistofnunar Íslands rennir einnig stoðum undir þann málflutning að Alþingi beri að hafna IceSave samkomulaginu. Í skýrslunni kemur m.a. fram að í álitum fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans er ekki tekið tillit til þess að stóraukin skuldabyrði þjóðarinnar vegna IceSave hefði óhjákvæmilega neikvæð áhrif á lífskjör í landinu.
Þetta dæmi er aðeins enn ein staðfesting á því að ríkisstjórnin hefur reynst gersamlega óhæf til að vinna úr IceSave deilunni og leysa hana farsællega í þágu þjóðarinnar. Í fyrsta lagi var horfið frá því að láta reyna á ábyrgð Íslendinga í málinu fyrir réttum dómstólum. Illa var haldið á samningum fyrir hönd Íslands og Bretar og Hollendingar náðu fram öllum helstu markmiðum sínum. Kynningu á málstað Íslendinga hefur verið klúðrað, m.a. með því að forsætisráðherra hefur látið gullin tækifæri til funda með erlendum forsetum og forsætisráðherrum fram hjá sér fara. Síðast en ekki síst hefur ríkisstjórnin skellt skollaeyrum við umsögnum margra virtustu lögfræðinga landsins um málið en þeir hafa varað Alþingi eindregið við að samþykkja IceSave ánauðina með þeim hætti sem ríkisstjórnin hugsar sér.
Icesave
Hollenskur sparigrís.

Miklar umræður hafa að undanförnu verið um þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að hneppa þjóðina í skuldaánauð vegna IceSave innlánsreikninga í Bretlandi og Hollandi. Margir hafa orðið til þess að benda á að óviðunandi sé að íslenska ríkið greiði kröfu upp á mörg hundruð milljarða, sem mikill vafi leiki á að það eigi að greiða samkvæmt lögum. Einnig ríkir óvissa um getu íslenska ríkisins til að greiða fjögurra milljarða evra IceSave skuldir með kúluláni á 5,5% vöxtum. Flestir óháðir sérfræðingar, sem hafa skoðað IceSave málið í heild eða einstakar hliðar þess, eru þeirrar skoðunar að hin ,,glæsilegu” samningsdrög vinstri stjórnarinnar við Breta og Hollendinga séu ótæk og megi ekki samþykkja óbreytt.

Varnaðarorð Evu Joly

Um síðustu helgi blandaði Eva Joly, Evrópuþingmaður og ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, sér í umræðurnar og benti á galla IceSave samningsins í dagblöðum í fjórum löndum. Erfitt er fyrir Jóhönnu, Steingrím og aðra ráðherra að gera lítið úr málflutningi hennar, eins mikið og þeir hafa gert úr hæfileikum hennar og ráðgjöf í málefnum tengdum bankahruninu og þeim efnahagserfiðleikum sem Íslendingar glíma nú við.

Eva Joly kemst að svipaðri niðurstöðu og ýmsir þeir Íslendingar, sem hvað mest hafa varað við þeim afarkostum sem ríkisstjórnin virðist vera reiðubúin að samþykkja. Hún bendir á að málið snúist um að lítil þjóð axli margra milljarða evra skuldabyrði, sem langstærstur hluti hennar beri nákvæmlega enga ábyrgð á og ráði alls ekki við að greiða. Bretar og Hollendingar neiti að viðurkenna ábyrgð sína í málinu en beiti Íslendinga þess í stað hneykslanlegum þvingunaraðgerðum. Fullyrðir Joly að Íslendingar muni ekki geta staðið undir umræddum ábyrgðum, sem ríkisstjórnin leggur nú allt kapp á að fá samþykktar.

Ríkisstjórnin ræður ekki við verkefnið

Nýútkomin skýrsla Hagfræðistofnunar Íslands rennir einnig stoðum undir þann málflutning að Alþingi beri að hafna IceSave samkomulaginu. Í skýrslunni kemur m.a. fram að í álitum fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans er ekki tekið tillit til þess að stóraukin skuldabyrði þjóðarinnar vegna IceSave hefði óhjákvæmilega neikvæð áhrif á lífskjör í landinu.

Þetta dæmi er aðeins enn ein staðfesting á því að ríkisstjórnin hefur reynst gersamlega óhæf til að vinna úr IceSave deilunni og leysa hana farsællega í þágu þjóðarinnar. Í fyrsta lagi var horfið frá því að láta reyna á ábyrgð Íslendinga í málinu fyrir réttum dómstólum. Illa var haldið á samningum fyrir hönd Íslands og Bretar og Hollendingar náðu fram öllum helstu markmiðum sínum. Kynningu á málstað Íslendinga hefur verið klúðrað, m.a. með því að forsætisráðherra hefur látið gullin tækifæri til funda með erlendum forsetum og forsætisráðherrum fram hjá sér fara. Síðast en ekki síst hefur ríkisstjórnin skellt skollaeyrum við umsögnum margra virtustu lögfræðinga landsins um málið en þeir hafa varað Alþingi eindregið við að samþykkja IceSave ánauðina með þeim hætti sem ríkisstjórnin hugsar sér.

(Grein þessi birtist í Viðskiptablaðinu hinn 6.8.2009.)