Stórfelld hækkun fráveitugjalda

Fjölmargir Reykvíkingar kvarta nú yfir mikilli hækkun á fráveitugjöldum (holræsaskatti) frá fyrra ári og óska eftir skýringum á því hvernig staðið var að þessum hækkunum.

Áður fyrr var rekstur fráveitu í Reykjavík fjármagnaður með hefðbundnum skatttekjum borgarinnar, þ.e. útsvari og fasteignaskatti. Eftir að vinstri menn náðu meirihluta í borgarstjórn 1994 var eitt fyrsta verk þeirra að leggja á sérstakan holræsaskatt fyrir rekstur og framkvæmdir í þágu fráveitunnar, sem áður höfðu verið fjármagnaðar af borgarsjóði. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn holræsaskattinum á sínum tíma og bentu á að hann hefði tilhneigingu til að hækka með tímanum eins og aðrir skattar sem vinstri menn leggja á.

Nú um áramótin voru ýmsar breytingar gerðar á fyrirkomulagi fráveitugjalda; m.a. var innheimta þeirra flutt frá Reykjavíkurborg til Orkuveitunnar. Sú breyting hefur orðið að hluti kostnaðar við fráveitustarfsemi er ekki lengur greiddur úr borgarsjóði heldur er hann nú allur innheimtur með umræddu gjaldi. Þá er álagning gjaldsins ekki lengur miðuð við hlutfall af fasteignamati heldur við fast gjald og fjölda fermetra.

Flestir fasteignaeigendur fengu því á sig verulega hækkun fráveitugjalds um áramót til viðbótar við hækkun Samfylkingarinnar og Besta flokksins á útsvari og ýmsum öðrum álögum. Þetta sér fólk vel ef það ber saman greiðsluseðla á milli ára.

Í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosningar töluðu frambjóðendur Samfylkingarinnar um Reykjavík eins og sérstakt efnahagssvæði með eigin hagvöxt. Eitt meginmarkmið fjárhagsáætlunar Reykjavíkur fyrir árið 2011 virðist hins vegar hafa verið að koma í veg fyrir hagvöxt í borginni með miklum skatta- og gjaldahækkunum á borgarbúa.

Þá bera miklar hækkanir á fráveitugjöldum það með sér að meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins telji að verðbólga sé mun hærri í Reykjavík en annars staðar á landinu. Samkvæmt útreikningum OR hækka fráveitugjöld 28% borgarbúa nú um 10-20% á milli ára, 15% taka á sig 20-30% hækkun, 12% er gert að greiða 30-50% hærri gjöld og 4% þurfa að sætta sig við meira en 50% hækkun fráveitugjalds á milli ára. 19% gjaldenda greiða hins vegar lægra gjald en í fyrra og hjá um 23% er hækkunin undir 10%.

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu 16. febrúar 2011.

Afsláttur af fráveitugjaldi til tekjulágra eldri borgara og öryrkja

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að Reykjavíkurborg veiti tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum afslátt eða niðurfellingu á fráveitugjaldi (holræsaskatti) með sama hætti og gert hefur verið mörg undanfarin ár. Samkvæmt fjárhagsáætlun meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins fyrir árið 2011 var slíkur afsláttur felldur niður.

Löng hefð er fyrir því að Reykjavíkurborg veitt tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum verulegan afslátt eða niðurfellingu á fráveitugjaldi. Samkvæmt 15. grein laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, er sveitarfélögum heimilt að lækka eða fella niður fráveitugjald hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum eftir reglum, sem sveitarstjórn setur. Lækkun gjaldsins hefur síðan verið gerð á grundvelli samþykktar borgarráðs um tekjuviðmiðun frá því holræsaskattur (nú kallað fráveitugjald) var lagður á Reykvíkinga af borgarstjórnarmeirihluta vinstrimanna fyrir um fimmtán árum. Þúsundir einstaklinga hafa notið slíkrar fyrirgreiðslu hjá borginni og hefur flesta munað verulega um hana, ekki síst þá sem vilja búa í eigin húsnæði þrátt fyrir lítil efni. Margir eldri borgarar og öryrkjar hafa litla fjármuni til ráðstöfunar eftir að hafa staðið skil á skattgreiðslum og öðrum gjöldum. Það segir sig sjálft að þeir mega ekki við auknum álögum, en er nú gert að greiða tugi þúsunda króna í fráveitugjald af nýjum meirihluta Samfylkingarinnar og Besta flokksins.

Forgangsröðun nýs meirihluta

Samkvæmt gildandi fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar er ekki gert ráð fyrir að tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum verði veitt slík fyrirgreiðsla á árinu 2010. Með afnámi afsláttarins hefur því orðið stefnubreyting hjá nýjum meirihluta í borgarstjórn vegna umræddrar gjaldtöku og ljóst er að hún kemur verst niður á þeim sem síst skyldi. Þar sem fyrirkomulagi á innheimtu fráveitugjalda í Reykjavík var breytt nú um áramótin, sem leitt hefur til mikillar hækkunar gjaldsins fyrir meginþorra gjaldenda, er ljóst að afnám umræddra afsláttarkjara kemur sér enn verr fyrir tekjulága einstaklinga, en ella hefði verið.

Þannig kýs nýr meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins að forgangsraða en vonandi verður fallist á þá tillögu Sjálfstæðisflokksins að umrædd afsláttarkjör fyrir tekjulága elli- og örorkulífeyrisþega verði tekin upp á ný, með sama hætti og verið hefur.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 14. febrúar 2011.