Fjörutíu ár frá einvígi aldarinnar

Borgarstjórn Reykjavíkur og skákhreyfingin efna til skákhátíðar í Laugardalshöll í dag í tilefni af því að fjörutíu ár eru liðin frá heimsmeistaraeinvíginu í skák milli Roberts Fischers og Boris Spassky, en það fór fram 1. júlí – 3. september 1972 í Reykjavík.

Dagskráin hefst með málþingi kl. 11 þar sem m.a. verður rætt um af hverju það er þekkt sem ,,Einvígi aldarinnar” og þýðingu þess fyrir alþjóðamál, skákíþróttina og stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna. Kl. 13 hefst síðan minningarskákmót í stóra sal hallarinnar með þátttöku barna og unglinga, auk þess sem skákmenn 60 ára og eldri tefla í sérstökum heiðursflokki.

Einvígi Fischers og Spassky er án efa frægasta skákkeppni sögunnar en hún vakti á sínum tíma heimsathygli vegna aðstæðna í alþjóðamálum. Kalda stríðið var í hámarki og margir fjölmiðlar fjölluðu um einvígið eins og uppgjör milli kommúnistaríkjanna og hins frjálsa heims þar sem fremstu skákmeistarar Sovétríkjanna og Bandaríkjanna mættust við taflborðið. Framan af mótinu einkenndust samskipti keppendanna af mikilli spennu og urðu ýmsir atburðir í tengslum við það ekki síður fréttaefni en einstök skákúrslit. Vegna keppninnar var Reykjavík í brennidepli heimspressunnar í rúma tvo mánuði og hafði það mikla og jákvæða landkynningu í för með sér fyrir Ísland.

Mikilvægt sjálfboðaliðastarf

Á síðasta ári samþykkti borgarstjórn tillögu Sjálfstæðisflokksins um að minnast heimsmeistaraeinvígisins 1972 með viðeigandi hætti. Er hátíðin haldin í góðu samstarfi við Skáksamband Íslands, Skákakademíu Reykjavíkur og taflfélögin í Reykjavík. Vil ég þakka öllum þessum aðilum fyrir ánægjulegt samstarf í tengslum við hátíðina, sem og fyrir hið mikla og stöðuga sjálfboðaliðastarf er þeir inna af hendi í þágu skákstarfs meðal barna og ungmenna í borginni.

Ábendingar hafa komið fram um að gjarnan mætti standa betur að kynningu á skákeinvígi aldarinnar. Koma slíkar ábendingar m.a. frá aðilum í ferðaþjónustu, sem telja að nýta megi mun betur þau tækifæri er felast í því að borgin hafi hýst slíkan heimsviðburð. Þessi gagnrýni á rétt á sér. Nú stendur yfir sýning í Þjóðminjasafninu á munum tengdum einvíginu og að henni lokinni finnst mér t.d. vel koma til greina að skoðað verði hvort unnt sé að gera slíka sýningu varanlega með einhverjum hætti.

Megi skákhátíðin í Laugardalshöll í dag verða ánægjuleg áminning um ,,Einvígi aldarinnar,” festa minningu þess í sessi og stuðla að enn frekari eflingu skákstarfs meðal ungu kynslóðarinnar!

– – – – – – – – – – –

Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 15. september 2012.