Reykjavíkurborg greiðir geipiverð fyrir lélegar eignir

Kaupin eru skýrt dæmi um léleg vinnubrögð meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar í skipulagsmálum og fjármálum Reykjavíkurborgar.

Borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins hafa samþykkt að Reykjavíkurborg kaupi BSÍ-húsið við Vatnsmýrarveg og SÍF-skemmuna við Keilugranda á samtals 685 milljónir króna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn kaupunum enda eru markmiðin með þeim óljós svo ekki sé meira sagt. Hins vegar er ljóst að verið er að greiða hátt verð fyrir lélegar eignir. Þá mun mikill kostnaður, sennilega hundruð milljóna króna, bætast við ofangreinda upphæð vegna niðurrifs SÍF-skemmunnar og væntanlegra endurbóta á BSÍ. Mun sá kostnaður allur lenda á borginni.

Slæm meðferð almannafjár

Vanhugsuð kaup borgarinnar á umræddum húsum eru skýrt dæmi um léleg vinnubrögð meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins í skipulagsmálum og kæruleysislega meðferð almannafjár. Borgin kaupir BSÍ með því markmiði að þar verði miðstöð almenningssamgangna í borginni án þess að sýnt sé fram á það með að húsið sé ákjósanlegur staður fyrir slíka miðstöð til framtíðar.

Reykjavíkurborg á báðar umræddar lóðir en húsin eru í eigu sama aðila. Tókst honum að stilla lóðareigandanum, borginni, upp við vegg í málinu og tengja saman kaup á þessum tveimur ólíku eignum með óeðlilegum hætti. Mikið vantar því á að umrædd kaup hafi verið skýrð til hlítar.

Faglegt mat vantar

Lengi hefur legið ljóst fyrir að finna þurfi nýjan stað fyrir aðalskiptistöð strætisvagna í Reykjavík. Almennt er viðurkennt að það var röng ákvörðun hjá R-listanum sáluga og alls ekki í samræmi við íbúaþróun í borginni að byggja á Hlemmi og Lækjartorgi sem þungamiðjum leiðakerfisins, sem tekið var upp árið 2005. Nú, þegar ætlunin er að hverfa frá því, er þeim mun mikilvægara að ný mistök verði ekki gerð, heldur skoðað vandlega og faglega hver sé besti staðurinn fyrir nýja aðalskiptistöð á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert slíkt sérfræðiálit liggur fyrir en margir sérfræðingar efast um að BSÍ sé rétti staðurinn. Slíkar efasemdir koma m.a. fram í minnisblaði frá Strætó bs. um málið frá því í febrúar á þessu ári.

Við sjálfstæðismenn lögðum til að gerð yrði sérfræðileg úttekt á því hver væri ákjósanlegasta staðsetning nýrrar aðalskiptistöðvar strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu áður en ákvörðun yrði tekin um kaup borgarinnar á BSÍ húsinu. Í úttektinni yrðu þeir staðir sem helst hafa verið nefndir í þessu sambandi, Kringlan, Mjódd og BSÍ vegnir og metnir með faglegum hætti. Borgarfulltrúar meirihlutans höfnuðu því að slík skoðun færi fram og felldu tillöguna.

Vilji Vesturbæinga hundsaður

Áður hafa komið fram hugmyndir um að nota umrædda lóð við Keilugranda til þéttingar byggðar með byggingu fjölbýlishúss. Íbúar í hverfinu hafa hins vegar lagst harðlega gegn slíkum áformum með þeim rökum að Grandahverfi sé nú þegar eitt þéttbýlasta hverfi borgarinnar.

Reykjavíkurborg á Keilugrandalóðina eins og fyrr segir og rennur leigusamningur vegna hennar út eftir þrjú ár. Vildi ég að borgin leysti lóðina til sín með lágmarkstilkostnaði að leigutíma loknum og að henni yrði síðan allri ráðstafað í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Vesturbænum. Með því að fara þá leið í málinu hefðu tvær flugur verið slegnar í einu höggi: Bætt úr brýnni þörf fyrir viðbótar-íþróttasvæði fyrir börn og unglinga í Vesturbænum og viðkvæmasta skipulagsmál í hverfinu í seinni tíð leyst í sátt við íbúa. Borgarstjórnarmeirihlutinn gat ekki fallist á slíkar tillögur en ákvað heldur að hundsa óskir fjölmargra Vesturbæinga. Rétt fyrir lokaafgreiðslu málsins létu fulltrúar meirihlutans í veðri vaka að skoðað yrði hvort unnt væri að skipuleggja íþróttasvæði á hluta lóðarinnar samhliða sölu byggingarréttar fyrir fjölbýlishús. Ljóst er að meirihlutinn lætur slíkar þarfir barna og unglinga í hverfinu til íþrótta og hreyfingar þannig í besta falli mæta afgangi.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 5. október 2012.

Aukafundar krafist í borgarstjórn Reykjavíkur

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna krefjast þess að vinnu við þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar um rekstur framkvæmdir og fjármál, verði hraðað eins og kostur er. Áætlunin verði síðan samþykkt á aukafundi borgarstjórnar, sem haldinn verði eigi síðar en 10. ágúst nk. Undir stjórn meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins hefur umræddri áætlanagerð verið klúðrað með ótrúlegum hætti en skv. 63. grein sveitarstjórnarlaga bar borginni að skila áætluninni til innanríkisráðuneytisins 15. febrúar sl.Þriggja ára áætlunin er mikilvægt stjórntæki og upplýsingagagn í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar sem og gagnvart fjölmiðlum og almenningi. Ótækt er að gengið sé gegn þeirri lögbundnu skyldu að skila slíkri áætlun til ráðuneytisins og með öllu óviðunandi að slík skil dragist í hálft ár eða lengur.Fyrirheit um að áætlunin yrði samþykkt fyrir sumarleyfi borgarstjórnar hafa ekki staðist og ljóst er að meirihlutinn hyggst ekki ganga til verksins fyrr en með haustinu og samþykkja áætlunina 7-8 mánuðum seinna en lögbundið er. Slíkt yrði algert einsdæmi og myndi kalla yfir borgina viðurlög og stefna trausti hennar á fjármálamörkuðum í hættu.

Vítavert kæruleysi meirihlutans

Einu svörin sem fást frá Degi B. Eggertssyni, formanni borgarráðs, um málið eru á þá leið að umræddur dráttur skýrist af óvissu vegna flutnings á málaflokki fatlaðra frá ríki til borgar um síðustu áramót. Þessi skýring stenst engan veginn enda hefur Reykjavíkurborg áður tekið við stórum málaflokkum frá ríkinu án þess að slíkur flutningur hafi verið notaður sem afsökun til að skila ekki lögbundnum áætlunum. Afar ósannfærandi er að halda því fram að stærsta sveitarfélag landsins geti ekki lokið þessu verki á réttum tíma enda er ekki vitað til að umræddur flutningur hafi hamlað áætlanaskilum hjá öðrum sveitarfélögum. Augljóst er að verkstjórn oddvita Besta flokksins og Samfylkingar dugir ekki og því ber minnihlutanum að leggja fram tillögur til úrbóta. Í fimm mánuði hafa viðbrögð oddvitanna í þessu alvarlega máli einkennst af kæruleysi gagnvart skýrum lagafyrirmælum og eftirrekstri af hálfu ráðuneytisins. Er til of mikils mælst að þeir Dagur og Jón geri sér grein fyrir alvöru málsins en hætti að líta á stjórnun Reykjavíkurborgar sem þægilega innivinnu?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 22. júlí 2011.