Samfylkingin í afneitun

Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi skrifar grein í Fréttablaðið á föstudag þar sem hún reynir að réttlæta slæleg vinnubrögð borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins vegna fjárhagsáætlunargerðar. Greinin sýnir að borgarfulltrúar Samfylkingar láta sér í léttu rúmi liggja að Reykjavíkurborg er komin rúmum fimm mánuðum fram yfir lögbundinn frest vegna skila á þriggja ára fjárhagsáætlun til innanríkisráðuneytisins.

Umræddur dráttur vegna fjárhagsáætlanagerðar er síður en svo eina dæmið um lausatök meirihlutans á fjármálum Reykvíkinga. Sama dag og grein Oddnýjar birtist, kom fram í fréttum að Kauphöllin hefur áminnt Reykjavíkurborg og beitt hana sektarviðurlögum fyrir að birta ársreikning of seint. Áður höfðu fréttir verið sagðar af því að Kauphöllin áminnti borgina fyrir að greina ekki frá milljarða lánveitingum til Orkuveitunnar í samræmi við reglur. Enn fremur að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, rannsakar nú hvort umræddar lánveitingar borgarinnar brjóti í bága við EES-samninginn.

Afneitun í stað ábyrgðar

Eitt er að svo illa sé haldið á málum af hálfu meirihlutans að borgin greiði vanrækslusektir og að yfirvofandi séu frekari viðurlög af hálfu ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Það bætir hins vegar ekki úr skák þegar borgarfulltrúar meirihlutans bregðast við viðvörunarorðum og óskum, um að þessir hlutir séu tafarlaust lagfærðir í samræmi við skýr lagafyrirmæli, með ásökunum um að um sé að ræða óþarfa upphrópanir og upphlaup.

Oddný gerir mikið úr því í grein sinni hvað það sé erfitt fyrir borgina að skila þriggja ára áætlun og reynir síðan, eins og Dagur B. Eggertsson, að kenna um óvissu vegna tilflutnings málefna fatlaðra, sem átti sér stað um síðustu áramót.

Enn skal minnt á að Reykjavíkurborg hefur áður tekið við stórum málaflokkum frá ríkinu án þess að það hafi sett áætlanagerð sveitarfélagsins í uppnám. Þá var það ekki bara Reykjavíkurborg heldur öll önnur sveitarfélag, sem tóku við umræddum málaflokki. Flest ef ekki öll önnur sveitarfélög landsins hafa nú skilað umræddri þriggja ára áætlun og ekki er vitað til þess að neitt þeirra, utan Reykjavíkurborgar, reyni að nota málefni fatlaðra sem afsökun fyrir því að skila ekki lögbundnum gögnum til ráðuneytisins.

 

— — —

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. júlí 2011.

Upplausn í Ráðhúsi Reykjavíkur

Við núverandi aðstæður í efnahagsmálum skiptir miklu máli að Reykjavíkurborg haldi þeirri sterkri fjárhagslegu stöðu, sem byggð var upp á síðasta kjörtímabili undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Minnstu veikleikamerki geta hæglega rýrt traust borgarinnar gagnvart forsendum, en gott traust er forsenda þess að hún og fyrirtæki hennar geti sótt sér lánsfé á hagstæðum kjörum.

Við þessar aðstæður er það því mjög óheppilegt, svo ekki sé meira sagt, að Reykjavíkurborg skuli enn ekki hafa skilað þriggja ára fjárhagsáætlun til ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Slíkri áætlun bar borginni að skila til ráðuneytisins í febrúar sl. samkvæmt 63. grein sveitarstjórnarlaga. Ótækt er að slík vinnubrögð þekkist hjá langstærsta sveitarfélagi landsins. Fyrir utan þann álitshnekki, sem borgin verður fyrir, er hætta á að hún verði látin sæta viðurlögum vegna óhæfilegs dráttar.

Aldrei áður hefur vinna við þriggja ára fjárhagsáætlun tafist svo að ekki hafi náðst að afgreiða hana fyrir sumarleyfi borgarstjórnar. Fyrirspurnum einstakra borgarfulltrúa og fjölmiðla um málið hefur verið svarað með óviðunandi hætti af hálfu oddvita meirihlutaflokkanna og töldu þeir enga þörf á að ljúka umræddri áætlanagerð fyrir sumarfrí þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli um að henni hefði átt að vera lokið um miðjan febrúar.

Verkstjórn meirihlutans

Þriggja ára áætlun er með mikilvægustu stjórntækjum sveitarfélaga við fjármálastjórn. Með slíkri áætlun er mörkuð stefna í fjármálum til þriggja ára og er hún því mikilvægt vinnuplagg fyrir kjörna fulltrúa, embættismenn, fjölmiðla, almenning og aðra sem eru í fjárhagslegu sambandi við borgina. Afar mikilvægt er að slík áætlun liggi fyrir áður en vinna hefst við fjárhagsáætlun næsta árs. Yfirleitt hefst sú vinna á vormánuðum og er því ljóst að vinnu við gerð fjárhagsáætlunar 2012 er nú þegar komin í uppnám hjá Reykjavíkurborg.

Þetta er því miður ekki eina dæmið um lélega verkstjórn í Ráðhúsinu um þessar mundir. Borgarbúar hafa þegar fengið að kynnast verkstjórn meirihlutans með upplausn í skóla- og frístundamálum, vandræðagangi í sorphirðu og aðgerðaleysi í umhirðu borgarlóða svo nokkur atriði séu nefnd. Þótt fjármál borgarinnar séu ekki jafn sýnileg og bein þjónusta við borgarbúa getur kæruleysi og sleifarlag í þeim efnum ekki síður haft alvarlegar afleiðingar.

 

— — —

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu 21. júlí 2011.

Meirihluti borgarstjórnar klúðrar þriggja ára áætlun

Reykjavíkurborg hefur ekki enn skilað þriggja ára fjárhagsáætlun til ráðuneytis sveitarstjórnarmála eins og henni bar að gera í febrúar síðastliðnum. Óviðunandi er að þannig sé staðið að málum hjá langstærsta sveitarfélagi landsins og hætta er á að borgin verði látin sæta viðurlögum vegna óhæfilegs dráttar.

Í 63. grein sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að árlega skuli leggja fram og samþykkja þriggja ára áætlanir um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélaga. Skal áætlunin vera afgreidd af sveitarstjórn (borgarstjórn Reykjavíkur) innan tveggja mánaða frá afgreiðslu árlegrar fjárhagsáætlunar.
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var afgreidd 15. desember og hefði borgarstjórn því átt að fjalla um og afgreiða umrædda þriggja ára áætlun um miðjan febrúar. Öll nágrannasveitarfélögin hafa fyrir löngu skilað inn sinni áætlun en ekkert bólar á henni hjá Reykjavíkurborg.

Þýðing þriggja ára áætlunar

Fjárhagsáætlun, þriggja ára áætlun og ársreikningur eru mikilvægustu plöggin í fjármálastjórn sveitarfélaga. Gegna þessi plögg lykilhlutverki við eftirlit stjórnarráðsins gagnvart sveitarfélögum enda er mikil áhersla lögð á að þau séu afgreidd með réttum hætti og send ráðuneytinu. Slíkar áætlanir eru líka mikilvæg vinnugögn fyrir kjörna fulltrúa og embættismenn, sem vinna að fjármálum sveitarfélaga. Síðast en ekki síst eru slíkar áætlanir mikilvægar út frá lýðræðislegu sjónarmiði, í þeim fá almenningur og fjölmiðlar upplýsingar um stefnumörkun Reykjavíkurborgar í fjármálum sem og ýmsir aðilar, sem eru í fjármálalegum samskiptum við borgina. Mikilvægt er að þriggja ára áætlun liggi fyrir þegar vinna við fjárhagsáætlun næsta árs hefst og með því að afgreiða hana ekki hefur sú vinna verið sett í uppnám.

Vinnubrögðin í þessu máli eru táknræn fyrir þá upplausn og óvönduðu vinnubrögð, sem tíðkast nú í Ráðhúsi Reykjavíkur undir stjórn Jóns Gunnars Kristinssonar og Dags B. Eggertssonar. Aldrei áður hefur vinna við þriggja ára áætlun tafist svo að ekki hafi náðst að samþykkja hana fyrir sumarleyfi borgarstjórnar. Í raun má deila um hvort rétt hafi verið að senda borgarstjórn í sumarleyfi með þessa áætlun ófrágengna.

Ótrúverðugar skýringar

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að töfin stafi af yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til borgar um síðustu áramót. Í þessu sambandi má benda á að það var ekki bara Reykjavík, sem tók við þessum málaflokki frá ríkinu, heldur öll önnur sveitarfélög landsins. Er ekki vitað til þess að önnur sveitarfélög hafi þurft á fresti að halda vegna þessarar tilfærslu enda skiluðu þau flest af sér þriggja ára áætlun á fyrstu mánuðum ársins. Ekki má heldur gleyma því að Reykjavíkurborg hefur áður tekið á móti verkefnum frá ríkinu án þess að það hafi komið niður á áætlanagerð sveitarfélagsins og lögbundnum skilum á gögnum til ráðuneytis sveitarstjórnarmála.

Verkstjórnin í Ráðhúsinu

Þriggja ára áætlunin, eða öllu heldur skortur á henni, er því miður ekki eina klúðrið í Ráðhúsinu undir verkstjórn þeirra Dags og Jóns. Í liðnum mánuði áminnti Kauphöllin Reykjavíkurborg fyrir að greina ekki frá milljarða lánveitingu til Orkuveitunnar í samræmi við reglur. Á svipuðum tíma var einnig greint frá því að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, rannsaki hvort lánveitingar Reykjavíkurborgar til Orkuveitunnar brjóti í bága við EES-samninginn.

Fleira mætti nefna. En augljóst er að dæmin hrannast upp í Ráðhúsinu þar sem hagsmunir Reykvíkinga líða fyrir lélega verkstjórn borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingarinnar og Besta flokksins.

 

— — —

Þessi færsla birtist upphaflega í Morgunblaðinu hinn 18. júlí 2011.