Illa staðið að breytingum á skólahaldi í Reykjavík

Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur hefur valdið uppnámi í mörgum hverfum borgarinnar með vanhugsuðum og illa undirbúnum breytingum á skólahaldi. Þegar umræddar breytingar voru samþykktar á síðasta ári var því hátíðlega lofað af borgarfulltrúum meirihlutans að víðtækt samráð yrði haft við nemendur, foreldra og kennara í vinnu þeirri, sem fram undan væri vegna breytinganna. Á síðustu vikum og mánuðum hefur berlega komið í ljós að umrædd loforð voru innantóm og merkingarlaus.

Sjálfsögðum spurningum ekki svarað

Á fundum stýrihópa, sem leiða eiga breytingarferlið í einstökum skólum, hafa ekki fengist svör við ýmsum mikilvægum spurningum foreldra um fyrirhugaðar breytingar eða framtíðarfyrirkomulag kennslunnar. Einföld skýring er þó til á því af hverju þeir embættismenn, sem sækja slíka fundi fyrir hönd borgarinnar, geta ekki svarað slíkum spurningum. Hún er sú að stefnumótun borgarstjórnarmeirihlutans er í molum og ekki liggur fyrir hvernig ýmsum mikilvægum úrlausnarefnum verður ráðið til lykta. Embættismenn vísa slíkum spurningum því til kjörinna fulltrúa, en þar hafa foreldrar síðan komið að tómum kofunum.

Dæmi um þetta eru ótrúleg samskipti, sem foreldrar í Hamraskóla hafa átt við Oddnýju Sturludóttur, formann skóla- og frístundaráðs, að undanförnu. Þar sem fátt varð um svör hjá embættismönnum óskuðu foreldrarnir eftir skýrum svörum frá Oddnýju um flutning unglingadeildar skólans í annað hverfi, hvaða ávinningi hún myndi skila svo og um framtíð sérdeildar í skólanum. Oddný neitaði lengi vel óskum um að koma á fund í Hamraskóla til að ræða málin en gerði foreldrum á móti það tilboð að hún væri til í að veita þremur fulltrúum þeirra áheyrn á skrifstofu sinni í Ráðhúsinu. Foreldrar tóku ekki þessu kostaboði en héldu engu að síður fund þar sem mikil óánægja kom fram með vinnubrögð meirihlutans.

Fulltrúum foreldra nóg boðið

Fulltrúar meirihlutans féllust loks á að koma á fund með foreldrum í Hamraskóla sl. miðvikudag. Fundurinn var afar fjölmennur og þar kom skýrt fram sá vilji foreldra að þeir vilja ekki missa unglingadeild skólans úr hverfinu. Í máli hinna fjölmörgu foreldra, sem tjáðu sig á fundinum, komu fram miklar efasemdir um fjárhagslegan og faglegan ávinning af umræddum flutningi og mjög var kvartað yfir lélegum vinnubrögðum í málinu. Fulltrúar meirihlutans höfðu hins vegar ekkert nýtt fram að færa á fundinum og kom þar betur í ljós en áður að öll stefnumótun hans virðist á sandi byggð.

Formenn foreldrafélaganna í Hamraskóla og Húsaskóla hafa nú báðir sagt sig úr stýrihópi vegna umrædds flutnings unglingadeilda þar sem óskir foreldra og jafnvel fyrirspurnir eru algerlega virtar að vettugi. Þannig er samráðið í framkvæmd hjá borgarfulltrúum Samfylkingar og Besta flokksins.

Óánægja foreldra í Hamrahverfi með vinnubrögð borgarstjórnarmeirihlutans er ekki einsdæmi. Í öðrum hverfum funda foreldrar og samþykkja ályktanir þar sem sleifarlagi meirihlutans er mótmælt. Einnig ríkir mikil óvissa í þeim hverfum þar sem meirihlutinn ætlaði upphaflega að knýja fram breytingar en hvarf frá þeim tímabundið sl. vor eftir mestu fjöldamótmæli foreldra vegna skólamála í borginni.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 6. febrúar 2012.

Aukafundar krafist í borgarstjórn Reykjavíkur

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna krefjast þess að vinnu við þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar um rekstur framkvæmdir og fjármál, verði hraðað eins og kostur er. Áætlunin verði síðan samþykkt á aukafundi borgarstjórnar, sem haldinn verði eigi síðar en 10. ágúst nk. Undir stjórn meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins hefur umræddri áætlanagerð verið klúðrað með ótrúlegum hætti en skv. 63. grein sveitarstjórnarlaga bar borginni að skila áætluninni til innanríkisráðuneytisins 15. febrúar sl.Þriggja ára áætlunin er mikilvægt stjórntæki og upplýsingagagn í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar sem og gagnvart fjölmiðlum og almenningi. Ótækt er að gengið sé gegn þeirri lögbundnu skyldu að skila slíkri áætlun til ráðuneytisins og með öllu óviðunandi að slík skil dragist í hálft ár eða lengur.Fyrirheit um að áætlunin yrði samþykkt fyrir sumarleyfi borgarstjórnar hafa ekki staðist og ljóst er að meirihlutinn hyggst ekki ganga til verksins fyrr en með haustinu og samþykkja áætlunina 7-8 mánuðum seinna en lögbundið er. Slíkt yrði algert einsdæmi og myndi kalla yfir borgina viðurlög og stefna trausti hennar á fjármálamörkuðum í hættu.

Vítavert kæruleysi meirihlutans

Einu svörin sem fást frá Degi B. Eggertssyni, formanni borgarráðs, um málið eru á þá leið að umræddur dráttur skýrist af óvissu vegna flutnings á málaflokki fatlaðra frá ríki til borgar um síðustu áramót. Þessi skýring stenst engan veginn enda hefur Reykjavíkurborg áður tekið við stórum málaflokkum frá ríkinu án þess að slíkur flutningur hafi verið notaður sem afsökun til að skila ekki lögbundnum áætlunum. Afar ósannfærandi er að halda því fram að stærsta sveitarfélag landsins geti ekki lokið þessu verki á réttum tíma enda er ekki vitað til að umræddur flutningur hafi hamlað áætlanaskilum hjá öðrum sveitarfélögum. Augljóst er að verkstjórn oddvita Besta flokksins og Samfylkingar dugir ekki og því ber minnihlutanum að leggja fram tillögur til úrbóta. Í fimm mánuði hafa viðbrögð oddvitanna í þessu alvarlega máli einkennst af kæruleysi gagnvart skýrum lagafyrirmælum og eftirrekstri af hálfu ráðuneytisins. Er til of mikils mælst að þeir Dagur og Jón geri sér grein fyrir alvöru málsins en hætti að líta á stjórnun Reykjavíkurborgar sem þægilega innivinnu?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 22. júlí 2011.

Kærar þakkir!

Kjartan Magnússon og fjölskyldaÉg þakka sjálfstæðismönnum í Reykjavík kærlega fyrir góðan stuðning í prófkjörinu. Alls hlaut ég 4.582 atkvæði eða um 67% gildra atkvæða. Ég er þakklátur fyrir þetta mikla traust og heiti því að bregðast því ekki.

Þótt stefnt hafi verið á annað sætið er ég ánægður með að hafa hlotið hið þriðja. Öðrum frambjóðendum óska ég til hamingju með árangurinn og hlakka til þess að vinna með þeim að því að gera góða borg enn betri.

Sérstaklega þakka ég þeim, sem réttu mér hjálparhönd með einum eða öðrum hætti í prófkjörsbaráttunni; þeim sem löguðu þessi ókjör af kaffi og steiktu kleinurnar, þeim sem báru bæklingana út í hverfunum í misjöfnum veðrum, þeim sem hvöttu vini og kunningja til að kjósa mig og þeim sem komu með ábendingar um það sem betur mætti gera. Loks þakka ég fjölskyldunni fyrir ómetanlega hjálp og stuðning meðan á prófkjörsbaráttunni stóð, prófkjör reynir ekki síður á fjölskyldur frambjóðenda en þá sjálfa.

Baráttan framundan

Framundan er ströng kosningabarátta og þar mun ég ekki draga af mér, en á meðan þarf að halda vel á spöðunum við stjórn borgarinnar. Þau störf eru aldrei vandalaus, en hafa sjálfsagt aldrei verið jafnstrembin og nú. Óþarfi er að rekja erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu, en þær gera það að verkum að við þurfum að gæta meiri ráðdeildar og útsjónarsemi í borgarkerfinu en fyrr. Þar þarf að haldast í hendur varðstaða um velferð þeirra, sem síst mega við áföllum, endurreisn atvinnulífsins og viðgangur þess eftirsóknarverða umhverfis, sem Reykjavík er fyrir fagurt mannlíf og athafnaþrá einstaklinganna. Þannig byggjum við betri borg og betra land.

Ég segi það ekki út í loftið að þannig byggjum við betra land. Það skiptir nefnilega máli fyrir landið allt hvernig okkur tekst til í höfuðborginni. Þannig er það alla jafna, en það á enn frekar við nú.  Það er enn meira aðkallandi vegna þeirrar óstjórnar og ráðleysis, sem við megum búa við úr stjórnarráðinu, og ekki ólíklegt að landsmenn megi búast við frekari búsifjum úr þeirri átt.

Þeim mun mikilvægara er að okkur takist að verja grunnþjónustu borgarinnar, en auka hagræði á öðrum sviðum. Reykjavíkurborg getur nýtt sér hagkvæmni stærðarinnar á mörgum sviðum, en á öðrum þarf að draga saman seglin, forgangsraða af ákveðni og velja verkefnin af kostgæfni. Þannig getum við gert það sem við þurfum að gera og gert það vel. Það munum við gera án þess að hækka útsvarið, borgarbúar mega ekki við auknum útlátum og fjárhagslegri óvissu.

Þetta er ekki innantómt gaspur, því við höfum sýnt það á undanförnu ári hvernig þetta er unnt. Í meirihlutasamstarfi okkar og framsóknarmanna undir stjórn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra hefur okkur tekist að snúa vörn í sókn. Það hefur ekki verið auðvelt, en það hefur samt heppnast vel og í góðri sátt við borgarbúa og borgarstarfsmenn. Ekki svo að skilja að því hafi öllu verið tekið fagnandi, en menn hafa sýnt því skilning að grípa þurfi til slíkra úrræða í þröngri stöðu. Það er þakkar vert.

Enginn skyldi þó ímynda sér að kosningabaráttan í vor verði auðveld. Það verður hún ekki. En hún verður gríðarlega mikilvæg, ekki aðeins fyrir borgarbúa, heldur einnig land og þjóð. Þar þurfa borgaraleg viðhorf og heilbrigð skynsemi að halda velli. X-D!

Verkefnin framundan

Við þær aðstæður þegar fjármál landsins eru í uppnámi, fólksflótti er staðreynd og ríkisstjórnin svo gagnslaus að hún heldur ekki á lofti réttmætum málstað þjóðarinnar, hefur aldrei verið mikilvægara að Reykjavík blómstri og skapi þegnum sínum lífvænleg og eftirsóknarverð skilyrði. Það er á ábyrgð borgarstjórnar að Reykjavík hafi betur í þeirri alþjóðlegu samkeppni, sem á sér stað um fólk, ekki síst vel menntað og sérhæft vinnuafl, sem á nú auðvelt með að fá vinnu erlendis á betri kjörum en bjóðast hér heima.

Hófstilltar álögur

Ísland hefur á undanförnum áratugum smám saman verið að taka á sig mynd borgríkis. Líklegt er að sú þróun haldi áfram þrátt fyrir tímabundið bakslag á næstunni. Það er framsýnnar borgarstjórnar að tryggja að Reykjavík verði áfram eftirsóknarverðasti staður til búsetu á Íslandi. Til þess þarf að veita borgurunum úrvalsþjónustu, ákjósanleg skilyrði fyrir atvinnulíf og stilla álögum í hóf.

Festa og áræði

Borgarstjórn hefur tekist á við kreppuna af festu en núverandi ríkisstjórn hefur verið að hugsa sig um í heilt ár. Tryggasta leiðin til að sú lausung, sem ríkir á vettvangi landsmálanna, smitist ekki yfir á borgarmálin, er að Sjálfstæðisflokkurinn fái meirihluta í borgarstjórnarkosningum í vor undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Forgangsverkefni

Þær hagræðingaraðgerðir, sem ráðist hefur verið í hjá borginni hafa nú þegar skilað miklum árangri. Áfram verður að gæta aðhalds og auka skilvirkni í rekstri en tryggja um leið gæði þjónustunnar. M.a. þarf að taka stjórnkerfi borgarinnar í gegn sem er of dýrt og þungt í vöfum. Þá þarf áfram að forgangsraða í þágu barna, ungmenna og eldri borgara. Standa þarf vörð um grunnþjónustu, ekki síst þá þjónustu, sem veitt er úti í hverfunum, t.d. í skólum, íþróttamannvirkjum og félagsmiðstöðvum eldri borgara. Næstu ár munu ekki snúast um tugmilljarða króna hugmyndir heldur hvernig borgin tekst á við efnahagsvandann og hvaða lífsskilyrði okkur tekst að búa afkomendum okkar til framtíðar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu hinn 23.i.2010.