Reykjavíkurborg greiðir geipiverð fyrir lélegar eignir

nóv.
05

Kaupin eru skýrt dæmi um léleg vinnubrögð meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar í skipulagsmálum og fjármálum Reykjavíkurborgar.

Borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins hafa samþykkt að Reykjavíkurborg kaupi BSÍ-húsið við Vatnsmýrarveg og SÍF-skemmuna við Keilugranda á samtals 685 milljónir króna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn kaupunum enda eru markmiðin með þeim óljós svo ekki sé meira sagt. Hins vegar er ljóst að verið er að greiða hátt verð fyrir lélegar eignir. Þá mun mikill kostnaður, sennilega hundruð milljóna króna, bætast við ofangreinda upphæð vegna niðurrifs SÍF-skemmunnar og væntanlegra endurbóta á BSÍ. Mun sá kostnaður allur lenda á borginni.

Slæm meðferð almannafjár

Vanhugsuð kaup borgarinnar á umræddum húsum eru skýrt dæmi um léleg vinnubrögð meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins í skipulagsmálum og kæruleysislega meðferð almannafjár. Borgin kaupir BSÍ með því markmiði að þar verði miðstöð almenningssamgangna í borginni án þess að sýnt sé fram á það með að húsið sé ákjósanlegur staður fyrir slíka miðstöð til framtíðar.

Reykjavíkurborg á báðar umræddar lóðir en húsin eru í eigu sama aðila. Tókst honum að stilla lóðareigandanum, borginni, upp við vegg í málinu og tengja saman kaup á þessum tveimur ólíku eignum með óeðlilegum hætti. Mikið vantar því á að umrædd kaup hafi verið skýrð til hlítar.

Faglegt mat vantar

Lengi hefur legið ljóst fyrir að finna þurfi nýjan stað fyrir aðalskiptistöð strætisvagna í Reykjavík. Almennt er viðurkennt að það var röng ákvörðun hjá R-listanum sáluga og alls ekki í samræmi við íbúaþróun í borginni að byggja á Hlemmi og Lækjartorgi sem þungamiðjum leiðakerfisins, sem tekið var upp árið 2005. Nú, þegar ætlunin er að hverfa frá því, er þeim mun mikilvægara að ný mistök verði ekki gerð, heldur skoðað vandlega og faglega hver sé besti staðurinn fyrir nýja aðalskiptistöð á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert slíkt sérfræðiálit liggur fyrir en margir sérfræðingar efast um að BSÍ sé rétti staðurinn. Slíkar efasemdir koma m.a. fram í minnisblaði frá Strætó bs. um málið frá því í febrúar á þessu ári.

Við sjálfstæðismenn lögðum til að gerð yrði sérfræðileg úttekt á því hver væri ákjósanlegasta staðsetning nýrrar aðalskiptistöðvar strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu áður en ákvörðun yrði tekin um kaup borgarinnar á BSÍ húsinu. Í úttektinni yrðu þeir staðir sem helst hafa verið nefndir í þessu sambandi, Kringlan, Mjódd og BSÍ vegnir og metnir með faglegum hætti. Borgarfulltrúar meirihlutans höfnuðu því að slík skoðun færi fram og felldu tillöguna.

Vilji Vesturbæinga hundsaður

Áður hafa komið fram hugmyndir um að nota umrædda lóð við Keilugranda til þéttingar byggðar með byggingu fjölbýlishúss. Íbúar í hverfinu hafa hins vegar lagst harðlega gegn slíkum áformum með þeim rökum að Grandahverfi sé nú þegar eitt þéttbýlasta hverfi borgarinnar.

Reykjavíkurborg á Keilugrandalóðina eins og fyrr segir og rennur leigusamningur vegna hennar út eftir þrjú ár. Vildi ég að borgin leysti lóðina til sín með lágmarkstilkostnaði að leigutíma loknum og að henni yrði síðan allri ráðstafað í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Vesturbænum. Með því að fara þá leið í málinu hefðu tvær flugur verið slegnar í einu höggi: Bætt úr brýnni þörf fyrir viðbótar-íþróttasvæði fyrir börn og unglinga í Vesturbænum og viðkvæmasta skipulagsmál í hverfinu í seinni tíð leyst í sátt við íbúa. Borgarstjórnarmeirihlutinn gat ekki fallist á slíkar tillögur en ákvað heldur að hundsa óskir fjölmargra Vesturbæinga. Rétt fyrir lokaafgreiðslu málsins létu fulltrúar meirihlutans í veðri vaka að skoðað yrði hvort unnt væri að skipuleggja íþróttasvæði á hluta lóðarinnar samhliða sölu byggingarréttar fyrir fjölbýlishús. Ljóst er að meirihlutinn lætur slíkar þarfir barna og unglinga í hverfinu til íþrótta og hreyfingar þannig í besta falli mæta afgangi.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 5. október 2012.


Fjarskiptaævintýri Orkuveitunnar

okt.
26

 

Ánægjulegt er að samstaða skyldi nást meðal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Besta flokksins um að hefja undirbúning að sölu allt að 49% hlutar Orkuveitunnar í Gagnaveitunni. Heppilegra hefði þó verið að stefna að hámörkun söluandvirðis með því að selja allt fyrirtækið eða a.m.k. ráðandi hlut í því eins og kveðið var á um í upphaflegri tillögu okkar sjálfstæðismanna.

Fjarskiptaævintýri Orkuveitunnar hefur nú kostað vel á annan tug milljarða króna. Við stofnun Línu.nets, forvera Gagnaveitunnar, átti Orkuveitan að leggja fyrirtækinu til allt að 200 milljóna kr. í hlutafé, sem síðar átti að selja með hagnaði.

Hver varð raunin? 1999-2008 námu fjárfestingar Orkuveitunnar í fjarskiptastarfsemi 13.744 milljónum króna á núverandi verðlagi. Færa má rök fyrir því að þessi tala sé í raun töluvert hærri þar sem OR fjármagnaði stóran hluta þessara framlaga með erlendum lánum, sem síðan tvöfölduðust. Þá skuldaði Gagnaveitan um 8,2 milljarða króna í lok árs 2011 og hefur til viðbótar tekið verulegt fé að láni á þessu ári.

Frá því að Lína.net var stofnuð (að frumkvæði borgarfulltrúa Samfylkingarinnar) voru skýrar pólitískar línur í borgarstjórn til fyrirtækisins. Sjálfstæðisflokkurinn stóð gegn eyðslunni og varaði við glórulausum offjárfestingum OR á þessu sviði. Vinstri menn í borgarstjórn létu slík varnaðarorð sem vind um eyru þjóta eins og lesa má í skýrslu úttektarnefndar um OR.

Hefði verið hlustað á okkur sjálfstæðismenn og Orkuveitunni ekki att út í tugmilljarðsfjárfestingar í fjarskiptarekstri, er ljóst að fjárhagsstaða fyrirtækisins væri önnur og betri en hún er nú. Áætlað er að aðstoð borgarsjóðs við Orkuveituna muni alls nema tólf milljörðum króna. Líklega hefði ekki verið þörf á aðstoðinni, hefði Orkuveitan sparað sér þetta fjarskiptaævintýri vinstri flokkanna.

Gagnaveitan er öflugt fjarskiptafyrirtæki með góða starfsmenn enda var ekkert til sparað við uppbyggingu hennar. Fjárfestar munu væntanlega sýna fyrirtækinu verðskuldaðan áhuga og vonandi fæst sem mest fyrir hlutabréfin sem nú verða sett í sölu. Ekki er þó búist við að Orkuveitan fái til baka nema hluta þeirra fjármuna, sem lagðir hafa verið í fyrirtækið.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 26. október 2012.


Gísli Halldórsson – In memoriam

okt.
17

Gísli Halldórsson er sá maður sem einna mest áhrif hefur haft á uppbyggingu og þróun íþróttamála í Reykjavík. Ungum voru honum falin trúnaðarstörf á vegum íþróttahreyfingarinnar og síðar í þágu borgarbúa, sem hann sinnti af alúð og framsýni. Sem formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur 1949-1962 og Íþróttasambands Íslands 1962-1980 skilaði hann miklu og óeigingjörnu verki í þágu íþrótta og lýðheilsu. Óhætt er að segja að hann hafi verið ötull talsmaður þessara viðhorfa sem borgarfulltrúi 1958-1974 og formaður Íþróttaráðs Reykjavíkur.

Gísli var svo sannarlega maður uppbyggingar og sá nauðsyn þess að í ört vaxandi höfuðborg risu íþróttamannvirki, sem stæðust alþjóðlegar keppniskröfur og gætu rúmað landsleiki svo vel færi. Hann átti stóran þátt í að móta mannvirki eins og Laugardalsvöllinn, Laugardalshöllina og Íþróttamiðstöðina í Laugardal.

Gísli vildi líka tryggja öflugt grasrótarstarf íþróttafélaganna og átti drjúgan þátt í að koma á því hverfaskipulagi íþróttamála, sem enn er byggt á í Reykjavík. Í fróðlegri sögu Íþróttabandalags Reykjavíkur eftir Sigurð Á. Friðþjófsson segir Gísli að hugmyndin á bakvið hverfaskiptinguna hafi verið sú að börn og unglingar gætu gengið til íþróttaiðkunar í sínu hverfi en þyrftu ekki að fara langa leið í strætisvögnum á æfingar. Á grundvell þessarar hugmyndar var leitast við að tryggja félögunum afnotarétt af góðum svæðum til framtíðar

Almennt er viðurkennt að íþróttastarf og aðgangur að því vegur þungt þegar lífsgæði í einstökum hverfum eða borgum eru metin. Helsta áherslumál Gísla á árunum 1946-1951 var að vinna að því að það yrði samþykkt í bæjarstjórn að íþróttafélögin fengju varanlega velli sem féllu inn í skipulagið. Síðan segir Gísli í áðurnefndri bók: ,,Sannleikurinn var sá að skipulagsmenn bæjarins voru alltaf á móti því að íþróttafélögin fengju fast, varanlegt svæði. Þeim óx í augum það rými sem setja þurfti undir þessa íþróttavelli. Í staðinn var alltaf verið að tala um bráðabirgðasvæði.“

Gísli var ávallt trúr hugsjónum sínum og átti stóran þátt í að tryggja reykvískum íþróttafélögum svæði til framtíðar. Fyrir það geta Reykvíkingar verið þakklátir. Er nú raunar svo komið að í sumum hverfum eru íþróttafélög jafnvel lent í landþrengslum vegna mikillar fjölgunar iðkenda í barna- og unglingastarfi.

Fyrir nokkrum árum átti ég gott spjall við Gísla um borgarmálin þar sem víða var komið við. Kom þá vel fram áhugi hans á skipulagsmálum og þróun borgarinnar til framtíðar. Einnig velvilji í garð íþróttahreyfingarinnar, sem hann taldi að borgaryfirvöld ættu ekki að þrengja að heldur veita frekara svigrúm til athafna.

Hið fjölbreytta og myndarlega mannræktarstarf í þágu barna og ungmenna, sem nú fer fram á athafnasvæðum íþróttafélaganna í Reykjavík, er óbrotgjarn minnisvarði um Gísla og aðra frumkvöðla, sem höfðu framsýni og vilja til að skapa slíku starfi aðstæður. Minningu um góðan dreng mun ég halda í heiðri á meðan mér endast dagar.


Leyndarhyggja um Hörpu

okt.
02

Þegar ákveðið var árið 2009 að halda byggingu tónlistarhússins áfram af fullum krafti þrátt fyrir efnahagsþrengingar og gjaldeyrisskort, var því lofað að ekki þyrftu að koma til frekari framlög frá skattgreiðendum til byggingar og rekstrar hússins, umfram þær skuldbindingar, sem þegar höfðu verið gerðar og nema nú um einum milljarði króna á ársgrundvelli í 35 ár. Ýmsir höfðu efasemdir um að verkinu yrði haldið áfram á fullri ferð og vildu fresta framkvæmdum við húsið þar til betur áraði eða a.m.k. draga verulega úr framkvæmdahraða. Mjög var var hins vegar þrýst á menn um að styðja lúkningu hússins og því lofað að ekki þyrftu að koma til frekari opinber framlög til þess umfram þegar gerðar skuldbindingar.

Almenningur borgar brúsann

Nú, þegar ljóst er orðið að hin samningsbundnu framlög duga ekki, þarf að leiða í ljós án undanbragða hvort einhverjar forsendur frá 2009 brugðust og þá hverjar, eða hvort stjórnmálamenn voru hreinlega gabbaðir. Reykjavíkurborg á 46% í Hörpunni og ber því mikla ábyrgð á húsinu og rekstri þess. 3. nóvember 2011 óskaði borgarráð eftir því að gerð yrði úttekt á rekstri Hörpunnar „til að skýr staða liggi fyrir og hægt sé að meta hvernig verkefnið hefur farið af stað“. Jafnframt lagði borgarráð áherslu á að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga, sem koma að rekstrinum og að ekki yrði farið í frekari framkvæmdir við húsið, sem ekki leiddu af sér tryggar viðbótartekjur, meðan á úttektinni stæði.

Vilji borgarráðs hundsaður

Búist var við því að brugðist yrði án tafar við ósk borgarráðs um rekstrarúttekt og einföldun á stjórnskipulagi. Vinna við rekstrarúttekt hófst hins vegar ekki fyrr en fimm mánuðum eftir umrædda ósk borgarráðs eða í apríl sl. þegar Austurhöfn – TR fól KPMG verkið og lauk því í maí. Rekstrarúttekt KPMG er nauðsynlegt plagg fyrir þá, sem vilja átta sig á því hvað hefur farið úrskeiðis í rekstri hússins og ræða tillögur til úrbóta, ekki síst alþingismenn og borgarfulltrúa, sem vinna nú að fjárhagsáætlunum næsta árs. Þá eiga mörg atriði í umræddri skýrslu ekki síður erindi við almenning, sem borgar brúsann.Ljóst er að ósk borgarráðs frá 3. nóvember um að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga sem koma að rekstrinum, var hundsuð. Í ágúst sl. komu enn a.m.k. átta félög að rekstri Hörpu. Sama fólkið sat þá meira og minna í stjórnum allra þessara félaga og fékk greidda þóknun fyrir setu í hverri stjórn.Vegna þess völundarhúss félaga, sem byggt hefur verið upp í kringum Hörpu, hefur verið mun flóknara og erfiðara en ella fyrir stjórnmálamenn og fréttamenn að rýna og fjalla um rekstur hússins. Rekstrarúttekt KPMG er að mörgu leyti vel unnin og auðveldar hlutaðeigandi að rýna reksturinn.

Embættismenn á hálum ís

Í ljósi þess hve KPMG-skýrslan er mikilvæg er það afar óeðlilegt hvernig stjórn Austurhafnar – TR hefur ítrekað neitað að láta undirrituðum hana í té. Jafnvel eftir að aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra sendi fjölmiðlum skýrsluna, neitaði stjórnin að afhenda undirrituðum hana. Eftir því sem næst verður komist, studdu þrír fulltrúar Reykjavíkurborgar í stjórn Austurhafnar umrædda ákvörðun. Tveir af þessum stjórnarmönnum eru embættismenn, sem heyra beint undir borgarstjórann í Reykjavík en hinn þriðji er pólitískur fulltrúi meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins.Með ólíkindum er að stjórn Austurhafnar, sem er að fullu í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, skuli leggja sig í líma við að halda mikilvægum upplýsingum um fjárhag Hörpu frá kjörnum fulltrúum. Ekki er síður ámælisvert að tveir af æðstu embættismönnum Reykjavíkurborgar, sem sitja í stjórninni, taki fullan þátt í því með þessum hætti að halda umræddum upplýsingum frá kjörnum borgarfulltrúa.Ef ekki væri fyrir atbeina mennta- og menningarmálaráðherra, væri KPMG-skýrslan sjálfsagt enn leynileg. Enn hefur enginn haldið því fram svo ég viti að birting skýrslunnar hafi með nokkrum hætti skaðað rekstur Hörpu. Hins vegar hefur almenningur fengið gleggri upplýsingar en áður um óviðunandi vinnubrögð og jafnvel spillingu í tengslum við byggingu og rekstur hússins.

Grundvallarregla brotin

Í þessu máli er vegið að þeirri grundvallarreglu að embættismenn starfi í þágu kjörinna fulltrúa og útvegi þeim án undanbragða allar umbeðnar upplýsingar, sem fyrirfinnast um fjármál stofnana borgarinnar og fyrirtækja í hennar eigu. Í umræddu máli var þessari reglu snúið á haus og embættismenn tóku fullan þátt í því að halda mikilvægum upplýsingum frá kjörnum borgarfulltrúa. Á borgarstjórnarfundi 4. september sl. spurði ég um afstöðu Jóns Gnarrs Kristinssonar borgarstjóra til þeirrar ákvörðunar stjórnar Austurhafnar að neita þráfaldlega óskum kjörins borgarfulltrúa um aðgang að umræddri úttekt KPMG. Spurði ég jafnframt hvort borgarstjóri eða staðgengill hans, Dagur B. Eggertsson, hefðu með einhverjum hætti komið að ákvörðun stjórnarinnar, t.d. með samráði við fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn fyrirtækisins.

Allt í boði Samfylkingarinnar

Þrátt fyrir að spurningarnar væru afar skýrar, treysti borgarstjóri sér ekki til að svara þeim fyrr en hann hefði skoðað málið betur. Tæpur mánuður er nú síðan spurningarnar voru lagðar fram og enn hefur borgarstjóri ekki svarað. Rétt er að minna á að borgarstjóri er sjálfur embættismaður, sem ber að svara slíkum spurningum og veita öllum borgarfulltrúum upplýsingar óháð flokkslínum. Þetta mál er aðeins eitt dæmi um gersamlega óviðunandi vinnubrögð, sem nú viðgangast í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ef til vill er ekki hægt að búast við miklu af borgarstjóra, sem sjálfur hefur lýst yfir að hann sé trúður. En mikil er ábyrgð Samfylkingarinnar, sem er í meirihlutasamstarfi með „trúðnum“ og leggur blessun sína yfir slík vinnubrögð.

 

— — — — — — —

Grein þessi birtist upphaflega í Morgunblaðinu 1.x.2012.


Fjörutíu ár frá einvígi aldarinnar

sept.
16

Borgarstjórn Reykjavíkur og skákhreyfingin efna til skákhátíðar í Laugardalshöll í dag í tilefni af því að fjörutíu ár eru liðin frá heimsmeistaraeinvíginu í skák milli Roberts Fischers og Boris Spassky, en það fór fram 1. júlí – 3. september 1972 í Reykjavík.

Dagskráin hefst með málþingi kl. 11 þar sem m.a. verður rætt um af hverju það er þekkt sem ,,Einvígi aldarinnar” og þýðingu þess fyrir alþjóðamál, skákíþróttina og stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna. Kl. 13 hefst síðan minningarskákmót í stóra sal hallarinnar með þátttöku barna og unglinga, auk þess sem skákmenn 60 ára og eldri tefla í sérstökum heiðursflokki.

Einvígi Fischers og Spassky er án efa frægasta skákkeppni sögunnar en hún vakti á sínum tíma heimsathygli vegna aðstæðna í alþjóðamálum. Kalda stríðið var í hámarki og margir fjölmiðlar fjölluðu um einvígið eins og uppgjör milli kommúnistaríkjanna og hins frjálsa heims þar sem fremstu skákmeistarar Sovétríkjanna og Bandaríkjanna mættust við taflborðið. Framan af mótinu einkenndust samskipti keppendanna af mikilli spennu og urðu ýmsir atburðir í tengslum við það ekki síður fréttaefni en einstök skákúrslit. Vegna keppninnar var Reykjavík í brennidepli heimspressunnar í rúma tvo mánuði og hafði það mikla og jákvæða landkynningu í för með sér fyrir Ísland.

Mikilvægt sjálfboðaliðastarf

Á síðasta ári samþykkti borgarstjórn tillögu Sjálfstæðisflokksins um að minnast heimsmeistaraeinvígisins 1972 með viðeigandi hætti. Er hátíðin haldin í góðu samstarfi við Skáksamband Íslands, Skákakademíu Reykjavíkur og taflfélögin í Reykjavík. Vil ég þakka öllum þessum aðilum fyrir ánægjulegt samstarf í tengslum við hátíðina, sem og fyrir hið mikla og stöðuga sjálfboðaliðastarf er þeir inna af hendi í þágu skákstarfs meðal barna og ungmenna í borginni.

Ábendingar hafa komið fram um að gjarnan mætti standa betur að kynningu á skákeinvígi aldarinnar. Koma slíkar ábendingar m.a. frá aðilum í ferðaþjónustu, sem telja að nýta megi mun betur þau tækifæri er felast í því að borgin hafi hýst slíkan heimsviðburð. Þessi gagnrýni á rétt á sér. Nú stendur yfir sýning í Þjóðminjasafninu á munum tengdum einvíginu og að henni lokinni finnst mér t.d. vel koma til greina að skoðað verði hvort unnt sé að gera slíka sýningu varanlega með einhverjum hætti.

Megi skákhátíðin í Laugardalshöll í dag verða ánægjuleg áminning um ,,Einvígi aldarinnar,” festa minningu þess í sessi og stuðla að enn frekari eflingu skákstarfs meðal ungu kynslóðarinnar!

- – - – - – - – - – -

Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 15. september 2012.


Aðhald skortir í fjármálum Reykjavíkurborgar

ág.
30

Fréttatilkynning frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins:

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar var lagður fram á borgarráðsfundi í dag.  Niðurstöður hans sýna því miður að það er orðin regla frekar en undantekning að fjárhagslegar áætlanir standist ekki hjá Reykjavíkurborg.  Hallinn á rekstri A- hluta er hálfum milljarði umfram áætlun og hallinn hjá samtæðu A- og B- hluta tæpum 5 milljörðum umfram áætlun.  Á tímum efnahagsþrenginga og aðhalds er sérstaklega mikilvægt að fylgst sé náið með rekstrinum, ábyrgð sé fylgt við allar ákvarðanir og að áætlanir standist.  Enn og aftur skortir á það hjá núverandi meirihluta.

 

„Það er mikið áhyggjuefni fyrir borgarbúa hversu illa þessum meirihluta gengur að fylgja áætlunum.   Á  þessa staðreynd höfum við bent í hvert skipti sem árshluta- og ársreikningar eru lagðir fram.  Þetta uppgjör nú er engin undantekning, heldur staðfestir að lítið er að marka þær fjárhagsáætlanir sem meirihlutinn leggur fram.  Eina ferðina enn eru skatttekjur vanáætlaðar, en þrátt fyrir að meira sé tekið af almenningi en til stóð dugir það ekki fyrir rekstrarkostnaði sem fer langt fram úr þeim áætlunum sem samþykktar voru í lok síðasta árs. Það er alveg ljóst að borgarstjórn verður að fara að skoða af alvöru hvernig stendur á því að áætlanagerð í fjármálum gengur ekki betur.  Borgarstjórn verður að átta sig á því hvort haga þarf undirbúninga vegna fjárhagsáætlunar með öðrum hætti eða hvort hér er aðeins um að kenna ófullnægjandi eftirfylgni borgarstjórans og meirihlutans með því að tryggt sé að áætlunum sé fylgt, aðhald sé til staðar og ábyrgð ráði för í rekstrinum.“  segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.

 

Við framlagningu ársreiknings 2011 bentu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á að ekki eingöngu rekstrarkostnaður fór úr böndunum heldur hafði skuldsetning borgarinnar aukist um 56% á tveimur árum.   Það er ekkert lát á skuldsetningunni en í þessu uppgjöri kemur fram að skuldir hafa hækkað um 9% til viðbótar (5 milljarða) á þessu hálfa ári, eða úr 57 milljörðum í 62.  Slík skuldaaukning fer að vera nálægt sáraukamörkum fjárhagslegrar stöðu borgarinnar.


Ríkisstjórn gagnsæis og upplýsingar?

ág.
29

Af hverju var ekki haldinn sameiginlegur blaðamannafundur forsætisráðherra Íslands og Danmerkur í tengslum við heimsókn hins síðarnefnda, eins og venja er? Vegna þess að þá hefðu fréttamenn fengið tækifæri til að spyrja beinskeyttra spurninga um viðræður ráðherranna og niðurstöður þeirra, t.d. vegna ESB, makríldeilunnar og vandans á evrusvæðinu. Spunameistarar ,,ríkisstjórnar gagnsæisins“ kærðu sig ekki um slíkar spurningar og sáu til þess að fréttamenn kæmust ekki að ráðherrunum til að spyrja þeirra.


Heitasta bók ársins

ág.
17

Útgáfuhóf Fantasíu, Hildur Sverrisdóttir hefur orðið.

Heitasta bók ársins kom út í gær, á heitasta degi ársins. Bókin heitir Fantasíur og er tileinkuð kynfrelsi kvenna. Konum var boðið að senda fantasíur í bókina og var 51 frásögn valin til birtingar. Hildur Sverrisdóttir, lögmaður og varaborgarfulltrúi, er ritstjóri bókarinnar og óska ég henni til hamingju með útgáfuna. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Hildur ávarpaði gesti útgáfuhófsins, sem haldið var í Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar í Austurstræti.


Leyndarhyggja um rekstur Hörpu

ág.
06

Þegar ákveðið var í ársbyrjun 2009 að halda byggingu tónlistarhússins áfram á fullri ferð þrátt fyrir efnahagsþrengingar og gjaldeyrisskort, var því lofað að ekki þyrftu að koma til frekari framlög frá skattgreiðendum til byggingar og rekstrar hússins, umfram þær skuldbindingar, sem þegar höfðu verið gerðar og nema nú um 980 milljónum króna á ári. Ýmsir stjórnmálamenn höfðu efasemdir um að verkinu yrði haldið áfram á fullri ferð og vildu fresta framkvæmdum við húsið þar til betur áraði eða a.m.k. draga verulega úr framkvæmdahraða. Mikill þrýstingur var hins vegar settur á menn um að styðja lúkningu verksins á grundvelli þess að ekki þyrftu að koma til frekari opinber framlög umfram þegar gerðar skuldbindingar. Margir létu undan þrýstingi og studdu verkefnið í þessari trú.

Nú, þegar ljóst er orðið að hin samningsbundnu framlög hafa ekki dugað, er eðlilegt að leitt sé í ljós hvaða forsendur hafi brugðist eða hvort stjórnmálamenn hafi hreinlega verið gabbaðir.

Reykjavíkurborg á 46% í Hörpunni og ber því mikla ábyrgð á því hvernig til tekst í rekstri hússins. 3. nóvember sl. óskaði borgarráð eftir því að gerð yrði úttekt á rekstri Hörpunnar ,,til að skýr staða liggi fyrir og hægt sé að meta hvernig verkefnið hefur farið af stað.” Jafnframt lagði borgarráð áherslu á að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga, sem koma að rekstrinum og að ekki yrði farið í frekari framkvæmdir við húsið, sem ekki leiddu af sér tryggar viðbótartekjur, meðan á úttektinni stæði.

Búist var við því að brugðist yrði án tafar við ósk borgarráðs um rekstrarúttekt á Hörpunni og einföldun á stjórnskipulagi. Vinna við rekstrarúttekt hófst hins vegar ekki fyrr en fimm mánuðum eftir umrædda ósk borgarráðs eða í apríl sl. þegar Austurhöfn – TR fól KPMG verkið og lauk því í maí. Ljóst er að umrædd úttekt er nauðsynleg fyrir þá, sem vilja átta sig á því hvað hefur farið úrskeiðis í rekstri hússins og ræða tillögur til úrbóta, ekki síst alþingismenn og borgarfulltrúa, sem vinna nú að fjárlögum og fjárhagsáætlun næsta árs. Þá eiga mörg atriði í umræddri skýrslu ekki síður erindi við almenning, sem borgar brúsann eins og annan opinberan rekstur.

Ljóst er að ósk borgarráðs frá 3. nóvember um að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga sem koma að rekstrinum, hefur verið hundsuð. Í frétt RÚV í gær kemur fram að átta félög koma að rekstri Hörpu: ,,Sama fólkið situr meira og minna í stjórnum allra þessara félaga og fær greidda þóknun fyrir setu í hverri stjórn.”

Vegna þess völundarhúss félaga, sem byggt hefur verið upp í kringum Hörpu, hefur verið mun flóknara og erfiðara en ella fyrir kjörna fulltrúa og fréttamenn að rýna og fjalla um rekstur hússins. Með birtingu á skýrslu KPMG væri stórt skref stigið í þá átt að unnt væri hægt að fjalla um reksturinn með eðlilegum hætti.

20. júlí sl. óskaði ég eftir því að fá sent afrit af umræddri úttekt KPMG. 26. júlí fékk ég svar þar sem fram kemur að stjórn Austurhafnar – TR sjái sér ekki fært að svo stöddu að senda mér umrædda skýrslu.

Ótrúlegt er að stjórn fyrirtækis, sem er að fullu í opinberri eigu, skuli neita afhendingu upplýsinga með þessum hætti. Megintilgangur umræddrar skýrslu er að leiða í ljós þegar orðna hluti og núverandi stöðu hússins og eiga slíkar upplýsingar að sjálfsögðu fullt erindi til kjörinna fulltrúa, sem bera ábyrgð á rekstri ríkis og borgar, en einnig til almennings. Er vandséð hvernig unnt verður að fjalla á eðlilegan hátt um rekstur hússins og leiðir til úrbóta á meðan slík lykilgögn eru sveipuð leyndarhjúpi. Hvað skyldu margir mánuðir líða áður en stjórninni þóknast að birta skýrsluna og upplýsa skattgreiðendur þannig um stöðu mála?


Glæsilegt landsmót í Reykjavík

júlí
10

Landsmót hestamanna var haldið í Reykjavík 25. júní – 1. júlí, og var aðstandendum sem og þátttakendum til mikils sóma. Með velheppnuðu móti hefur höfuðborgin sannað gildi sitt sem frábær landsmótsstaður enda voru aðstæður á Fákssvæðinu í Víðidal eins og best verður á kosið.

Landsmót hefur mikla þýðingu fyrir hestaíþróttina og félagsstarf hestamanna. Hestafólk á öllum aldri fær eitthvað við sitt hæfi hvort sem það starfar við fagið eða stundar hestamennsku sér til gamans. Ásamt því að vera skemmtilegur fjölskylduviðburður er mótið líka mikil mannlífsupplifun enda koma þátttakendur hvaðanæva að af landinu.
Vikuveisla í Víðidal

Landsmótið var haldið af Landssambandi hestamanna og Bændasamtökunum í góðu samstarfi við Hestamannafélagið Fák og Reykjavíkurborg. Í október 2009 lýsti borgarráð yfir stuðningi við umsókn Fáks og í ársbyrjun 2010 var ákveðið að landsmótið yrði haldið í Reykjavík. Mótið ber upp á níutíu ára afmælisári Fáks og má með sanni segja að afmælisveislan hafi staðið í viku.

Þar sem Landsmótið er alþjóðlegt stórmót eru miklar kröfur gerðar til aðbúnaðar og umgjarðar. Víðidalur er sannkölluð útivistarperla og gott starf hefur verið unnið við að fegra dalinn og bæta aðstæður þar til hestamennsku og annarrar útiveru.

Tækifæri í ferðaþjónustu

Talið er að nú séu um 220 þúsund íslenskir hestar til í heiminum og þar af eru um 140 þúsund erlendis. Íslenski hesturinn er því vinsæll sendiherra, sem ber hróður landsins víða. Í ljósi þess þarf engan að undra að Landsmót er einn stærsti viðburður ársins í ferðaþjónustu á Íslandi. Þúsundir útlendra gesta komu á landsmótið og luku margir lofsorði á framkvæmd þess. Ástæða er til að skoða möguleika á frekari eflingu ferðaþjónustu í tengslum við hestamennsku og þar gæti Fákssvæðið í Víðidal gegnt mikilvægu hlutverki. T.d. mætti skoða hvort ekki væri hægt að fjölga þar viðburðum og mótum og nota afl ferðaþjónustunnar til að markaðssetja þá erlendis. Í ljósi nýrrar hótelspár fyrir Reykjavík má jafnframt skoða hug aðila í ferðaþjónustu til þess að reisa hótel í nágrenni við Fákssvæðið og aðra frábæra útivistarkosti á þeim slóðum; t.d. sund, stangveiði og skíði.

- – -

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. júlí 2012.