Borgarstjóri víkur sér undan ábyrgð

Á meðan starfsfólk grunnþjónustu Reykjavíkurborgar kvartar undan sívaxandi álagi og skólabyggingar liggja undir skemmdum vegna viðhaldsleysis, forgangsraðar meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins fjármunum í þágu gæluverkefna sinna. Mörg þessara verkefna snúast um að teppa mikilvægar umferðargötur og sjá til þess að það taki Reykvíkinga lengri tíma en áður að komast á milli staða. Með því að lengja tímann í umferðinni, styttist sá tími sem fólk hefur til frjálsrar ráðstöfunar, t.d. til frístundaiðkunar eða samverustunda með fjölskyldunni.

Klúður við Hofsvallagötu

Hofsvallagötuklúðrið er dæmi um þetta en ein afleiðing þess hefur auk þess orðið sú að beina umferð inn í nærliggjandi íbúahverfi.

Fjölmennur íbúafundur var haldinn í Vesturbænum í síðasta mánuði um breytingarnar á Hofsvallagötu. Æðstu yfirmenn verklegra framkvæmda hjá borginni, Jón Gnarr borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs, sáu ekki ástæðu til að sækja fundinn og hlusta þar á sjónarmið íbúa. Þess í stað lýsti einn æðsti embættismaður borgarinnar yfir því í upphafi fundar að Jón Gnarrr borgarstjóri bæri enga ábyrgð á framkvæmdunum. Varla er hægt að finna skýrara dæmi um það hvernig Jón Gnarr smeygir sér markvisst undan þeirri ábyrgð, sem fylgir starfi borgarstjóra.

Breytingar á Borgartúni

Borgaryfirvöldum hafa borist ýmsar athugasemdir frá hagsmunaaðilum varðandi yfirstandandi breytingar á Borgartúni. En með breytingunum er ekki gert ráð fyrir útskotum fyrir biðstöðvar strætisvagna við götuna og þarf því að stöðva þá á miðri akrein með tilheyrandi umferðartöfum. Þá hafa atvinnurekendur við Borgartún lagst gegn því að aðkoma að fyrirtækjum þeirra sé þrengd í tengslum við breytingarnar og  bílastæðum fækkað enda ekki bætandi á hinn mikla bílastæðaskort sem er nú þegar í götunni.

Ástæða er fyrir borgaryfirvöld að taka tillit til þessara athugasemd enda gegnir Borgartún mikilvægu hlutverki fyrir atvinnulíf borgarinnar og raunar alls landsins. Þrátt fyrir að málið hafi verið mikið í fréttum að undanförnu kemur í ljós að borgarstjóri þekkir lítið til þess og virðist hafa takmarkaðan áhuga á sjónarmiðum hagsmunaaðila þegar hann er spurður út í það í Morgunblaðinu sl. þriðjudag.

Borgarstjóri er framkvæmdastjóri

Lengi hefur verið litið svo á að borgarstjórinn í Reykjavík gegni þrenns konar meginhlutverki. Hann sé framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar, opinber fulltrúi borgarinnar og pólitískur leiðtogi meirihlutans. Þrátt fyrir að ólíkir menn hafi gegnt embættinu, hefur ætíð verið skýrt, þar til nú, að borgarstjóri beri endanlega ábyrgð á framkvæmdum borgarinnar og svari fyrir þær gagnvart borgarbúum. Af þessu leiðir að borgarstjóri þarf að vera vel inni í helstu framkvæmdum hverju sinni og reiðubúinn að hlusta á athugasemdir borgarbúa varðandi þær.

Mörg fleiri dæmi er hægt að nefna um að þessi framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar lætur ekki fjölmiðla ná í sig langtímum saman út af ákveðnum málum eða svarar út í hött. Þannig víkur borgarstjóri sér ítrekað undan ábyrgð sinni.

Á kjörtímabilinu hafa Samfylkingin og Besti flokkurinn breytt stjórnskipulagi ráðhúss Reykjavíkur  í þeim tilgangi að losa sitjandi borgarstjóra undan skyldum sínum. Í meginniðurstöðum sex  mánaða gamallar skýrslu úttektarnefndar á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar kemur fram að óheppilegt sé að litið sé svo á að það sé að einhverju leyti valkvætt með hvaða hætti æðsti embættismaður borgarinnar (borgarstjóri) hagi aðkomu sinni að því starfi.

Þessi fráleita stjórnsýsla er í boði Besta flokksins og Samfylkingarinnar.

 

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 17. október 2013.

 

Ójöfn dreifing útilistaverka í Reykjavík

Á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag fluttum við sjálfstæðismenn tillögu um að efnt yrði til átaks í því skyni að fjölga útilistaverkum í íbúahverfum í eystri hluta borgarinnar.

Viðurkennt er að útilistaverk gegna mikilvægu hlutverki við að fegra borgir og einstök hverfi og stuðla að menningarbrag. Útilistaverk gegna m.a. mikilvægu hlutverki við grenndarkennslu nemenda í leikskólum og grunnskólum, sem er vaxandi þáttur í skólastarfi.

Þegar ég skoðaði staðsetningu 97 útilistaverka borgarinnar kom í ljós að dreifing þeirra um borgina er mjög ójöfn. Tæpur helmingur verkanna eða 46 eru í póstnúmeri 101. Sextán verk eru í 105 og þrettán í 104. Síðan fækkar þeim mjög eftir því sem austar dregur og í sumum hverfum er ekkert útilistaverk.

Æskilegt er að fjölga útilistaverkum í þeim íbúahverfum borgarinnar þar sem nú er fá slík verk eða jafnvel ekkert að finna. Ýmsar leiðir er hægt að fara við val á listaverkum. Ekki er kostnaðarsamt að smíða eftirgerð af verkum í eigu Listasafns Reykjavíkur og koma fyrir á góðum stöðum í hverfunum. Einnig er sjálfsagt að meta hvort ekki sé hægt að færa verk úr hverfum þar sem mörg slík útilistaverk eru, í hverfi þar sem fá eða engin slik verk eru. Síðast en ekki síst er hægt að efna til samkeppni um ný verk. Rétt er að óskað verði eftir hugmyndum um staðsetningu fyrir útilistaverk hjá íbúum viðkomandi hverfa sem og hverfisráðum.

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar vildu ekki samþykkja tillöguna í borgarstjórn en vísuðu henni til nefndar. InterestingStatue-002

Er eignasala Orkuveitunnar í uppnámi?

Orkuveitan þarf að selja eignir fyrir tíu milljarða króna. Árið 2011 lagði ég fram tillögu um sölu Gagnaveitunnar (áður Lína.net), sem er ein seljanlegasta eign Orkuveitunnar, en fyrirtækið er ekki enn komið í sölu. Söluferlið hefur tafist vegna klúðurs og ákvarðanafælni borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Þess í stað reynir borgarstjórnarmeirihlutinn að bjarga lausafjárstöðunni með ,,sölu“ Orkuveituhússins (um leið og það er leigt til baka til 20 ára) og sölu Magma-skuldabréfsins með miklum afföllum. Þessar eignir virðast nú ekki eins auðseljanlegar og menn héldu. Perlan var seld til Reykjavíkurborgar og þannig færð úr einum opinbera vasanum í annan.

http://www.visir.is/14-milljarda-krona-eignasala-i-uppnami/article/2013709149921

Hvað kostaði bygging Hörpu?

Ár er nú liðið frá borgarstjórnarfundi, þar sem ég óskaði formlega eftir sundurliðuðum upplýsingum um heildarbyggingarkostnað við Hörpu og tengd mannvirki. Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefur séð til þess að ég hef ekki enn fengið þessar upplýsingar þrátt fyrir að allir viti að þær eru til. Á síðasta borgarstjórnarfundi, 3. september, lagði ég því fram eftirfarandi fyrirspurn í þriðja sinn. Vona ég að henni verði nú svarað enda tel ég að skattgreiðendur eigi rétt á því að fá þessar upplýsingar.

Á fundi borgarstjórnar 4. september 2012 lagði undirritaður fram fyrirspurn um heildarbyggingarkostnað við Hörpu þar sem óskað var eftir sundurliðuðum upplýsingum við byggingu hússins og tengd mannvirki. Hinn 15. janúar sl. lagði borgarstjóri fram svar við fyrirspurninni en í því var ekki gerð grein fyrir áðurnefndum kostnaði heldur einungis þeim sem til féll eftir yfirtöku verkefnisins árið 2009. Undirritaður lagði því fyrirspurnina fram að nýju á fundi borgarstjórnar 5. febrúar sl. Enn hafa viðhlítandi svör ekki fengist við fyrirspurninni þrátt fyrir að nú sé ár liðið síðan hún var fyrst lögð fram. Um leið og furðu er lýst yfir þessari undarlegu töf er fyrirspurnin nú lögð lögð fram í þriðja sinn og enn óskað eftir því að svar við henni verði lagt fram við fyrsta tækifæri. Hver er heildarbyggingarkostnaður við Hörpu og tengd mannvirki á núverandi verðlagi? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um áfallinn kostnað, s.s. vegna lóðakaupa, jarðvinnu, sjófyllingar, byggingar, glerhjúps, gatnatenginga, torggerðar, lóðafrágangs, bílastæðahúss o.s.frv. Þá er óskað eftir yfirliti yfir þær framkvæmdir sem eftir eru eða standa yfir og kostnaðaráætlanir vegna þeirra.

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.

 

Óábyrgt að flæma flugvallarstarfsemi úr Reykjavík

Í Reykjavík-vikublaði, sem kom út í dag, var eftirfarandi spurningu beint til borgarfulltrúa í Reykjavík: Ert þú fylgjandi því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni? Svar mitt er eftirfarandi:

Já. Þegar borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir því árið 2006 að þeir væru reiðubúnir að skoða hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar, var skýrt kveðið á um að ekki væri verið að tala um flutning til Keflavíkur heldur yrði að tryggja að flugvallarstarfsemi yrði áfram á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Frá upphafi hefur verið ljóst að þessi afstaða byggðist á tveimur forsendum; að gott flugvallarstæði fyndist í eða við Reykjavík og að ríkisvaldið myndi bera kostnaðinn vegna flutnings flugvallarins og uppbyggingar hans á nýjum stað.

Báðar þessar forsendur eru brostnar. Engin niðurstaða hefur náðst varðandi nýtt flugvallarstæði og flestum er ljóst að ríkið hefur hvorki vilja né getu til að veita tugi milljarða króna úr tómum ríkiskassanum til uppbyggingar nýs flugvallar, sem standast þarf alþjóðlegar kröfur. Hverfi flugvallarstarfsemi úr Reykjavík árið 2016 mun það stefna innanlandsflugi og sjúkraflugi í fullkomna óvissu sem og þeim fjölmörgu störfum og umsvifum, sem flugvöllurinn veitir Reykvíkingum. Ábyrgðarlaust er að flæma flugvallarstarfsemi úr Reykjavík þegar allsendis er óljóst hvort og þá hvernig þessir mikilvægu hagsmunir verði tryggðir.

Óviðunandi árangur lestrarkennslu í Reykjavík

Niðurstaða lesskimunarkönnunar meðal sjö ára barna í grunnskólum Reykjavíkur sýnir að eftir tveggja vetra lestrarnám geta aðeins 63% þeirra lesið sér til gagns samkvæmt skilgreiningu. 37% eða 521 nemandi nær ekki þeim árangri.

Hlutfall nemenda, sem getur lesið sér til gagns árið 2013 er 8,7% lægra en árið 2012. Er þetta hlutfall hið lægsta um árabil eða frá árinu 2005 en þá var það 60% að nýloknu löngu kennaraverkfalli.

Niðurstöður lestrarkönnunar eru mjög misjafnar eftir skólum. Á meðan 94% nemenda eru talin geta lesið sér til gagns í þeim skóla sem best stendur er hlutfallið aðeins 20% í þeim skóla sem verst kemur út. Einnig er verulegur munur á lestrarfærni barna á milli hverfa og kynja. Að meðaltali eru 67% telpna í öðrum bekk talin geta lesið sér til gagns en aðeins 59% drengja.

Varla er til einhlít skýring á þessari slæmu útkomu. Bent hefur verið á að börn lesi minna en áður í frítíma sínum. Það er sennilega rétt en þá má líka spyrja á móti hvernig það tókst að bæta lestrarþekkingu reykvískra grunnskólabarna verulega á árunum 2005-2011 á sama tíma og kannanir sýndu að tölvunotkun þeirra jókst hröðum skrefum.

Skortur á pólitískri forystu

Ekki verður hjá því komist að nefna að verulega hefur skort á pólitíska forystu í menntamálum í Reykjavík á yfirstandandi kjörtímabili. Undir stjórn Besta flokksins og Samfylkingarinnar hefur ekki nógu mikil áhersla verið lögð á lestrarkennslu sem er þó ein af frumskyldum skólayfirvalda. Þess í stað hefur orkan farið í margvísleg gæluverkefni, t.d. umdeildan skólasamruna og endalausar stjórnsýslubreytingar, sem þó hafa ekki skilað bættum rekstri skóla- og frístundasviðs.

Þrátt fyrir að skólamál séu umfangsmesti og fjárfrekasti málaflokkur borgarinnar eru umræður um þau í borgarstjórn í skötulíki miðað við það sem áður þekktist. Jón Gnarr borgarstjóri virðist helst vera með hugann við utanríkismál. Framlag borgarstjórans til þeirra umræðna um menntamál, sem þó fara fram, eru rannsóknarefni út af fyrir sig en sýna hvílíkan skort á pólitískri forystu skólar borgarinnar og raunar allar borgarstofnanir þurfa nú að búa við.

Aukum samstarf heimila og skóla

Mikilvægt er að niðurstöður umræddrar lesskimunarkönnunar verði nýttar sem tækifæri til að bæta lestrarkennslu í grunnskólum Reykjavíkur. Skóla- og frístundaráð lýsti yfir áhyggjum sínum vegna þessarar útkomu á síðasta fundi sínum og hvatti til þess að fundnar yrðu leiðir til úrbóta. Við sjálfstæðismenn teljum að í þeirri vinnu, sem framundan er, sé mikilvægt að sameina krafta skóla og foreldra til að auka lestrarfærni barna. Í því skyni lögðum við fram eftirfarandi tillögu ásamt fulltrúa VG á síðasta fundi skóla- og frístundaráðs og var hún samþykkt einróma:

,,Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur felur skólastjórum að kynna niðurstöður lesskimunarkönnunarinnar fyrir nemendum og foreldrum í því skyni að sem gleggstar upplýsingar um stöðu nemenda séu aðgengilegar á hverjum tíma. Rétt er að foreldrar fái einstaklingsbundnar upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimuninni. Auk þess er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu þess skóla í lesskimun, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna.”

Markmið tillögunnar er að allir foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimunarkönnuninni án tillits til þess hvort þeim hefur gengið vel eða illa. Með sama hætti er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu viðkomandi skóla í samanburði við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Í krafti slíkra upplýsinga eru foreldrar betur í stakk búnir en áður til að veita skólunum aðhald og slík upplýsingagjöf mun án efa leiða til gagnrýninna en um leið uppbyggilegra skoðanaskipta milli þeirra og skólastjórnenda. Í slíku samtali þarf m.a. að ítreka að bestur árangur næst í lestrarkennslu barna ef hún fer fram í góðri samvinnu heimila og skóla.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 26. ágúst 2013.

Vanrækt borg

Nokkur ár í röð hefur umhirðu og grasslætti ekki verið sinnt í Reykjavík sem skyldi. Ástandið hefur verið sérstaklega slæmt í sumar og hvað verst á opnum svæðum og við umferðargötur í eystri hverfum borgarinnar.

Endurskoða þarf allt fyrirkomulag frá grunni varðandi umhirðu og grasslátt hjá borginni. Með endurskipulagningu má bæta verklag og nýta fjárveitingar betur. Hér er um verðugt úrlausnarefni að ræða fyrir yfirstjórnendur verklegra framkvæmda hjá borginni; borgarstjóra og formann borgarráðs. Þegar fjölmiðlar hafa fjallað um málið hefur hins vegar gengið ótrúlega illa að ná í þessa sómamenn eða þeir verið ófáanlegir til að tjá sig. 29. júlí sl. segir t.d. eftirfarandi í frétt Morgunblaðsins: „Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, vildi ekki tjá sig um málið og benti á embættismenn innan borgarkerfisins sem ýmist voru í sumarleyfi eða vildu ekki tjá sig um málið. Þá náðist ekki í Jón Gnarr borgarstjóra vegna málsins.“

Sambandsleysi eða feimni virðist þó ekki hrjá oddvita Besta flokksins og Samfylkingarinnar þegar um er að ræða mál sem eru nær áhugasviðum þeirra en borgarmál. Þannig hafa fjölmiðlar ekki átt í vandræðum með að fá yfirlýsingar frá borgarstjóranum um alþjóðleg málefni eða kynhneigð Jesú Krists. En er til of mikils mælst að borgarfulltrúar láti þau málefni í forgang sem útsvarsgreiðendur í Reykjavík kusu þá til að sinna?

Áhugalaus meirihluti
Lýsandi dæmi um verkstjórn borgarstjórnarmeirihlutans er hvernig hann hefur hunsað fram komnar tillögur um úrbætur í umhirðumálum. 3. júlí sl. lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur til að ráðist yrði í átak í umhirðu og grasslætti í ljósi óviðunandi ástands. Fulltrúar meirihlutans treystu sér ekki til að styðja tillöguna heldur frestuðu afgreiðslu hennar fram yfir sumarleyfi.

Við sjálfstæðismenn lögðum því fram tillögu um málið á fundi borgarráðs 25. júlí en þar fór á sömu leið. Fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins höfðu engan áhuga á slíkri tillögu og frestuðu afgreiðslu hennar fram yfir sumarleyfi ráðsins. Ef að líkum lætur verða tillögurnar teknar fyrir um eða upp úr miðjum ágúst eða um það leyti sem farið verður að draga úr sprettu í borginni.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 9. ágúst 2013.

Verður Magma-skuldabréfið selt?

Meirihluti stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur ákvað á síðasta stjórnarfundi, með fyrirvara um samþykki eigenda, að taka tilboði í svonefnt Magma-skuldabréf, sem er í eigu fyrirtækisins.

Skuldabréfið var gefið út af Magma Energy Sweden A/B árið 2009 og var hluti greiðslu fyrir hlutabréf Orkuveitunnar í HS-Orku. Hluturinn hafði þá verið til sölu um nokkurt skeið en samkeppnisyfirvöld höfðu komist að þeirri niðurstöðu að Orkuveitunni væri óheimilt að eiga svo stóran hlut í HS-Orku og þannig sett eignarhaldinu skorður.

Í síðasta árshlutareikningi Orkuveitunnar var bókfært verðmæti skuldabréfsins um níu milljarðar króna. Verðmæti bréfsins ræðst að hluta af álverði og að baki því stendur veð í hinum seldu hlutabréfum í HS-Orku.

Eins og gefur að skilja, hefur það bæði kosti og galla í för með sér að selja Magma-skuldabréfið nú. Það kemur sér vissulega vel fyrir Orkuveituna að losa um þessa eign sína og fá þannig aukið lausafé. Á móti þarf að skoða hvort verið sé að selja umrætt bréf með of miklum afföllum, t.d. í ljósi þess að álverð hefur lækkað verulega að undanförnu og er óvenjulega lágt um þessar mundir. Það er að sjálfsögðu ekki gott fyrir Orkuveituna ef slíkt skuldabréf er selt á hálfgerðri útsölu.

Hér er því miður ekki hægt að fjalla um fjárhæðir í tengslum við sölu skuldabréfsins þar sem yfirstjórn Orkuveitunnar hefur lagt áherslu á að þær séu trúnaðarmál. Vonandi verður almenningur upplýstur um þessar fjárhæðir að fullu áður en ákvörðun verður tekin. Og frá og með 1. júlí, eftir nokkrar klukkustundir, verður sú breyting að upplýsingalögin gilda um starfsemi Orkuveitunnar.

Sala Orkuveitunnar á hlutnum í HS-Orku til Magma Energy var mikið pólitískt hitamál á sínum tíma. Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðust eindregið gegn sölunni og efndu til mikilla átaka vegna málsins í fjölmiðlum og í borgarstjórn þar sem salan var endanlega samþykkt 15. september 2009. Borgarfulltrúar þessara flokka hvöttu stuðningsmenn sína til að fjölmenna á áhorfendapalla Ráðhússins og mótmæla þannig sölunni.  Um tíma var ekki fundarfriður vegna óláta og háreystis frá áhorfendapöllum. Nafnakalls var krafist við afgreiðslu málsins og greiddu borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna atkvæði gegn sölunni. Gáfu þeir upp þær ástæður fyrir andstöðunni að samningurinn væri afar slæmur fyrir Orkuveituna og að með honum væri verið að selja íslenskar orkuauðlindir í hendur erlendra aðilja. (Skýrt var að sveitarfélagið Reykjanesbær átti umræddar auðlindir.) Þeir héldu því fram að kjörin á umræddu skuldabréfi væru smánarleg og efuðust stórlega um getu Magma til að standa skil á því á gjalddaga, árið 2016.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ekkert að athuga við sölu Magma-skuldabréfsins ef söluverðið er viðunandi. En ef borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna vilja vera sjálfum sér samkvæmir og standa við stóru orðin frá árinu 2009, hljóta þeir að leggjast gegn sölu Magma-skuldabréfsins nú. Væntanlega í þeirri von að greiðandi bréfsins standi ekki skil á því á gjalddaga árið 2016 og að almannafyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur eignist þá hlutabréf í HS-Orku á ný og salan, sem þessir flokkar börðust svo einarðlega gegn árið 2009, gangi þá til baka.

 

Lög og regla

Löggæsla er frumskylda hins opinbera. Talið er að lögregla sé elsta borgaralega stofnunin og víða um heim er heiti lögreglu dregið af gríska orðinu polis, sem notað var um borgríki í Grikklandi til forna.

Hlutverk lögreglu er að halda uppi allsherjarreglu, stemma stigu við afbrotum og greiða götu borgaranna. Þjónusta lögreglunnar er almennt góð í Reykjavík og nýtur hún mikils og verðskuldaðs trausts almennings.

Mjög reyndi á fámennt lögreglulið höfuðborgarsvæðisins í endurteknum óeirðum í Miðbænum veturinn 2008-09. Þótt flestir mótmælendur færu með friði, var sá hópur ótrúlega stór og harðskeyttur, sem réðst að lögregluþjónum með grjótkasti og líkamlegu ofbeldi. Nokkrir lögregluþjónar urðu fyrir líkamstjóni og í a.m.k. einu tilviku urðu þeir fyrir gangstéttarhellum. Eldur var borinn að Alþingishúsinu og tókst á síðustu stundu að koma í veg fyrir að hann kæmist í eldfima innviði þess. Lögreglan stóð sig ótrúlega vel og hélt velli við þessar erfiðu aðstæður með lagni, snarræði og fagmennsku. Segir það sína sögu um traust lögreglunnar að þegar verst horfði, kom hópur friðsamra mótmælenda og stöðvaði ofbeldismenn, sem létu grjótið dynja á fáliðaðri lögreglusveit.

 Allir ættu að lesa ,,Búsáhaldabyltinguna,“ fróðlega bók Stefáns Gunnars Sveinssonar sagnfræðings um þessa atburði.

Eflum forvarnir

 Borgarfulltrúar fá í störfum sínum margar ábendingar og athugasemdir frá borgarbúum um það sem betur mætti fara í löggæslu- og öryggismálum. Við úrlausn margvíslegra viðfangsefna er samvinna lögreglunnar og borgarinnar nauðsynleg ef hámarksárangur á að nást, t.d. í forvarnarstarfi en það verður að efla.

Í ljósi mikilvægis lögreglunnar fyrir borgarbúa er æskilegt að gott samstarf og greið samskipti séu ætíð á milli borgarstjórnar og lögregluyfirvalda. Samstarfið á milli þessara tveggja stofnana hefur ætíð verið gott en það má enn bæta, almenningi til hagsbóta.

Á síðasta borgarstjórnarfundi var tekin fyrir tillaga Sjálfstæðisflokksins um að komið verði á fót samstarfsnefnd lögreglu og Reykjavíkurborgar um löggæslumálefni. Nefndin verði vettvangur fyrir samskipti og samstarf lögreglunnar og Reykjavíkurborgar og geri tillögur um úrbætur í málefnum er varða löggæslu í borginni. Tillagan hlaut jákvæðar undirtektir á fundinum og samþykkt var einróma að vísa henni til frekari umfjöllunar borgarráðs.

Slík nefnd gæti tekið fyrir tillögur um úrbætur í forvarnarmálum og önnur málefni er varða löggæslu í borginni. Síðast en ekki síst gæti nefndin staðið fyrir opnum fundum um löggæslumál í Reykjavík og unnið úr ábendingum frá almenningi, sem fram kæmu á þeim.

Um áratuga skeið var slík samstarfsnefnd lögreglunnar og Reykjavíkurborgar starfandi en hún var lögð niður árið 2007 í tengslum við breytingar á lögregluumdæmum. Samstarfið í nefndinni var ætíð gott og brást lögreglan yfirleitt mjög vel við ábendingum, sem fram komu á fundum hennar. Slíkan vettvang fyrir bein samskipti milli hennar og borgarfulltrúa hefur vantað undanfarin ár og er nú tækifæri til að bæta úr því. Aukin upplýsingamiðlun milli Reykjavíkurborgar og lögreglunnar mun án efa skapa ný sóknarfæri við að bæta þjónustu við borgarbúa á þessu sviði.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 24. apríl 2013.

Vilja Samfylkingin og Besti flokkurinn að OR hætti rafmagnssölu til almennings?

Á ársfundi Orkuveitu Reykjavíkur, sem haldinn var í gær, var framtíðarþróun fyrirtækisins tekin til sérstakrar umfjöllunar og rætt um þjónustuhlutverk þess gagnvart almenningi. Orkuveitan var byggð upp fyrir fé íbúa í Reykjavík og nágrenni og hefur rafmagnsöflun í þágu almennings hingað til verið óumdeilt grundvallaratriði í rekstri fyrirtækisins.

Meirihluti stjórnar Orkuveitunnar hefur nú falið forstjóra að ganga til samninga við meðeigendur OR í Hrafnabjargavirkjun hf. með það að markmiði að þeir eignist 60% hlut OR í félaginu.

Hrafnabjargavirkjun er verkefni á byrjunarstigi, möguleiki á vatnsaflsvirkjun í Skjálfandafljóti, sem OR hefur haft til skoðunar vegna orkuöflunar til framtíðar í þágu almennings. Umræddur virkjanakostur er í svonefndum biðflokki rammaáætlunar. Hér skal engin afstaða tekin til þess hvort þessi kostur sé hagkvæmur eða viðunandi út frá umhverfissjónarmiðum enda á eftir að rannsaka hann og meta til hlítar.

En við slíkar aðstæður er óráðlegt að meirihluti stjórnar Orkuveitunnar gefi frá sér möguleika á þátttöku í slíku verkefni og fækki þar með orkuöflunarkostum fyrirtækisins til framtíðar á sama tíma og mikil óvissa ríkir um hvernig það mun fullnægja raforkuþörf fyrir almennan markað eftir árið 2016.

Samspil jarðgufu- og vatnsaflsvirkjana ákjósanlegt

Um helmingur af aflþörf OR fyrir almennan markað kemur nú frá Landsvirkjun, samkvæmt sérstökum samningum, hinn þýðingarmesti er svokallaður tólf ára samningur, sem rennur út í árslok 2016. Verði sá samningur endurnýjaður, má búast við verulegri verðhækkun á raforkunni samkvæmt yfirlýstri stefnu Landsvirkjunar.

Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að Orkuveitan leiti nýrra leiða til orkuöflunar í því skyni að tryggja almenningi á starfsvæði sínu hagstætt orkuverð til framtíðar. Í slíkri vinnu kemur sterklega til álita að Orkuveitan auki orkuvinnslu sína og dragi úr rafmagnskaupum frá Landsvirkjun.

Orkuveitan byggir eigin rafmagnsvinnslu nánast alfarið á jarðgufuvirkjunum. Nýting jarðgufu er hins vegar ekki áhættulaus eins og skýrlega hefur komið í ljós að undanförnu. Margvísleg rök hníga að því að vatnsaflsvirkjanir eða safn jarðgufuvirkjana og vatnsaflsvirkjana sé mun heppilegri kostur til að þjóna almennum markaði en jarðgufuvirkjanir einar og sér. Komist menn að þeirri niðurstöðu að OR þurfi að auka orkuvinnslu sína eftir 2016, hlýtur að koma til álita, ekki síst út frá áhættusjónarmiðum, að slíkt verði gert með vatnsafli til að tryggja sveigjanleika í vinnslu.

Raforka í þágu almennings

Ljóst er að vinna þarf ötullega að því á næstunni að skilgreina tiltæka kosti og taka ákvörðun með það að leiðarljósi að tryggja almenningi raforku á hagstæðu verði. Takist það ekki, skapast hætta á að Orkuveitan þurfi að sæta afarkostum í raforkukaupum, sem gæti haft í för með sér verulega hækkun á raforkuverði til almennings.

Í skýrslu forstjóra Orkuveitunnar um málið kemur skýrt fram að hún þurfi að auka orkuvinnslu sína og/eða halda áfram að kaupa raforku af þriðja aðila til að fullnægja umræddri þörf. Sérstaka athygli vekur að í skýrslunni er einnig nefndur sá kostur að Orkuveitan dragi sig í hlé af almenna markaðnum, a.m.k. sem nemur orkukaupum af Landsvirkjun og láti öðrum þessa þjónustu eftir. Sú spurning vaknar því óhjákvæmilega hvort meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins sé að stíga fyrsta skrefið í þessa átt með því að fækka orkuöflunarkostum Reykvíkinga.