Bætum menntun í Reykjavík

nóv.
12

Allt stefnir í að 2010-2014 verði týnda kjörtímabilið í framþróun menntamála í Reykjavík. Þrátt fyrir að rekstur grunnskóla sé eitt helsta hlutverk Reykjavíkurborgar hefur meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins ekki lagt áherslu á eflingu eiginlegrar menntunar heldur margvísleg gæluverkefni.Verulega hefur skort á pólitíska forystu í menntamálum í borgarstjórn á kjörtímabilinu enda hefur orka meirihlutans að mestu farið í átök við foreldra og starfsmenn vegna umdeilds skólasamruna og endalausra stjórnsýslubreytinga, sem þó hafa ekki skilað bættum rekstri skólanna. Óviðunandi er að aðeins 59% drengja í öðrum bekk geti lesið sér til gagns en 67% telpna. Þá hefur viðhald skólabygginga verið vanrækt þar sem meirihlutinn forgangsraðar í þágu annarra verkefna.

Skóla- og frístundamál eru langumfangsmesti málaflokkur borgarinnar. Í ár munu útgjöld málaflokksins nema um 37 milljörðum króna eða um 62% af skatttekjum borgarinnar. Eitt mikilvægasta verkefni næstu ára er að bæta grunnskólamenntun í borginni eftir þá stöðnun og forystuleysi, sem ríkt hefur í málaflokknum undir núverandi borgarstjórnarmeirihluta. Hér á eftir fara nokkur áherslumál mín í menntamálum.

Skýr markmið

Bætum námsárangur með skýrum og mælanlegum markmiðum. Móta þarf stefnu, sem stuðlar að bættum námsárangri reykvískra nemenda í samanburði við aðrar þjóðir. Leggja þarf áherslu á hagnýtingu samræmdra mælinga til að bæta skólastarf. Þróa þarf kannanir og samræmd próf með það að markmiði að þau nýtist til að bæta starf á öllum stigum grunnskólans. Auk bóknámsgreina megi þreyta samræmd próf í iðn- og listgreinum. Framhaldsskólum verði heimilt að nota niðurstöður samræmdra prófa við inntöku nemenda.

Aukin upplýsingagjöf

Aukum upplýsingagjöf til foreldra og aukum þátttöku foreldra í skólastarfi. Skólakerfið á í auknum mæli að hvetja foreldra til að fylgjast með og taka þátt í námi barna sinna. Foreldrar eiga jafnt og þétt að fá upplýsingar um frammistöðu barnanna í verkefnum og prófum. Þeir eiga einnig að fá skýrar upplýsingar um frammistöðu einstakra skóla svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um val milli skóla og námsbrauta. Þá er rétt að veita foreldrafélögum umsagnarrétt vegna ráðningar skólastjóra eins og gert er með góðum árangri víða erlendis.Aukum nýbreytni og sveigjanleika í skólastarfi. Of mikil miðstýring ríkir í starfi grunnskólanna og er mikilvægt að úr henni verði dregið sem fyrst. Leggja ber áherslu á sveigjanlegt starfsfyrirkomulag og að kjarasamningar stýri ekki skólastarfi. Ákjósanlegt er að auka samvinnu milli skólastiga, t.d. með fjarnámi.

Sjálfstæðir skólar

Eflum iðn- og tæknimenntun. Stórauka þarf kynningu á þessu sviði í grunnskólum borgarinnar í góðu samstarfi við framhaldsskóla. Taka þarf upp tillögu Sjálfstæðisflokksins frá síðasta kjörtímabili um stofnun skóla eða námsbrautar fyrir unglingastig grunnskólans, með áherslu á iðn- og tækninám (tæknigaggó).Setjum forvarnir í forgang. Hreyfing og hollar tómstundir duga best gegn vímuefnaneyslu og ýmsum kvillum. Tryggjum að allir fái fjölbreytilega hreyfingu, m.a. með aukinni samþættingu skóla- og íþróttastarfs.

Sjálfstætt reknir skólar hafa sannað gildi sitt enda tryggja þeir fjölbreytni og valfrelsi í skólakerfinu. Rétt er að fé fylgi barni og sjálfstæðir skólar fái stuðning til jafns við borgarrekna.

Höfundur er borgarfulltrúi og sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna komandi borgarstjórnarkosninga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu.


Frétt í Morgunblaðinu: Vilja malbik út fyrir steypu

nóv.
05

Umhverfis-og skipulagssviði Reykjavíkurborgar verður falið að leggja steypt slitlag á umferðarþungar götur nái tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins fram að ganga í borgarráði.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi flokksins, segir að ástæðan fyrir því að hann leggi til að malbiki verði skipt út fyrir steypu sé þríþætt. Sú sem vegi þyngst sé heilbrigðisþátturinn en mikil svifryksmengun hljótist af akstri á malbikinu. „Í öðru lagi er það umferðaröryggi. Vandamál fylgja linu malbiki því hjólförin geta verið hættuleg, til dæmis þegar fer að frjósa ofan í þeim. Í þriðja lagi tel ég þetta vera hagkvæmt og geta borgað sig upp til lengri tíma litið,“ segir Kjartan.

Því hafi ekki verið mótmælt að endingartími steypu sé mun lengri en malbiks en það vegi upp á móti hærri stofnkostnaði við hana. Hugmyndin sé að steypa stofnbrautir til að byrja með.

Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins, segir að tillögunni hafi verið vísað til skoðunar hjá umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar. Hann bendir á að ný rannsókn Vegagerðarinnar sýni að hlutfall malbiks í svifryki hafi hríðlækkað síðasta áratuginn. Á sama tíma sé hávaðamengun frá steyptum vegum meiri en malbikuðum. Það væri því ekki kostur að steypa íbúðargötur en það gæti verið í lagi þar sem hávaði skiptir ekki máli.

„Mér fyndist það aðlaðandi að steypa vegi ef það getur dregið úr svifryki og ef það eykur ekki á hljóðmengun fyrir íbúa. Ég er fylgjandi öllu því sem eykur lífsgæði borgarbúa,“ segir Einar Örn.


Óstjórn í fjármálum Reykjavíkurborgar

nóv.
04

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar hefur reynst fjölskyldum í Reykjavík dýrkeyptur. Fimm manna fjölskylda í Reykjavík með þrjú börn á skólaaldri mun á næsta ári greiða rúmlega 440 þúsund krónum meira í skatta og gjöld til Reykjavíkurborgar en hún gerði í upphafi yfirstandandi kjörtímabils. Viðbótarskuldir borgarsjóðs munu nema um 350 þúsund krónum á hverja fjölskyldu á þessu kjörtímabili Samfylkingar og Besta flokksins.

Almenningur borgar brúsann

Allt kjörtímabilið hefur borgarstjórnarmeirihlutinn seilst í vasa borgarbúa í stað þess að hagræða í rekstri eins og fjölskyldur og fyrirtæki hafa orðið að gera. Besti flokkurinn lofaði lækkun skatta á Reykvíkinga en fyrsta verk hans var að hækka útsvarið í lögbundið hámark. Frá því meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar tók við árið 2010 hafa skatttekjur hækkað verulega eða um 26%. Þær voru tæpir 50 milljarðar árið 2010 en eru áætlaðar 63 milljarðar á næsta ári samkvæmt áætluninni.

Útþensla kerfisins á kostnað borgarbúa er það sem stendur upp úr þegar litið er yfir verk meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar.

Meirihlutinn hefur fundið upp á mörgum nýjum verkefnum og hlaðið utan á kerfið þannig að það vex ár frá ári og kostnaður eykst. Áætlað er að rekstur málaflokka borgarinnar muni nema um 80 milljörðum króna á næsta ári en skatttekjur skili um 69 milljörðum.

Hreinar skuldir vaxa um 113%

Skuldabyrði borgarsjóðs hefur aukist mikið undir stjórn núverandi meirihluta. Samkvæmt fjárhagsáætluninni munu hreinar skuldir borgarsjóðs vegna A-hluta meira en tvöfaldast á milli áranna 2010-2014. Hreinar skuldir munu þannig vaxa úr 23 í 49 milljarða eða um 113%. Aukningin nemur 26 milljörðum króna á tímabilinu eða 6,5 milljörðum króna á ári frá árinu 2010, sem jafngildir því að allt kjörtímabilið hafi skuldir aukist um 750 þúsund kr. á klukkustund. Niðurstaðan er áfellisdómur yfir fjármálastjórn meirihlutans í borgarstjórn.

Skuldir A-hluta

Fjárhagsáætlanir standast ekki

Reykjavíkurborg hefur verið rekin með tapi undir stjórn Samfylkingar og Besta flokksins þrátt fyrir að í fjárhagsáætlunum meirihlutans hafi verið lagt upp með háleit markmið um rekstrarafgang. Á síðasta kjörtímabili skilaði rekstur Reykjavíkurborgar hins vegar afgangi undir forystu Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir mikla erfiðleika í efnahagslífi.

Til að breiða yfir lélega fjármálastjórn leitast borgarstjórnarmeirihlutinn við að fegra niðurstöður rekstrarins með tilfærslum á rekstrareiningum. Til dæmis ætlar meirihlutinn nú að færa eignir og rekstur Bílastæðasjóðs úr B-hluta yfir í A-hluta, að því er virðist eingöngu í því skyni að fegra stöðu borgarsjóðs og gera samanburð á fjármálum borgarinnar á milli ára erfiðari en ella.

(Grein birt í Morgunblaðinu 1. nóvember 2013.)


Prófkjörsstofa opnuð á sunnudag kl. 14-16

nóv.
02

Sunnudaginn 3. nóvember kl. 14-16 verður opnuð skrifstofa vegna framboðs Kjartans Magnússonar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Skrifstofan er að Skeifunni 19 og verður opin alla daga fram að  prófkjörinu, sem haldið verður 16. nóvember. Opið verður milli kl. 17-21 virka daga en 12-17 um helgar.

Utankjörstaðakosning vegna prófkjörsins er hafin og fer hún fram í Valhöll á skrifstofutíma.

 


Grunnþjónustu í stað gæluverkefna

okt.
26

Hinn 16. nóvember nk. verður efnt til prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Hef ég ákveðið að sækjast eftir öðru sæti framboðslistans  þar sem ég tel að kraftar mínir og reynsla nýtist Reykvíkingum best verði ég í forystusveit.

Mikilvægt er að halda í heiðri grunngildi Sjálfstæðisflokksins um lága skatta og ábyrga fjármálastjórn. Rjúfa þarf þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í ýmsum málaflokkum undir stjórn Besta flokksins og Samfylkingarinnar, t.d. í skólamálum, samgöngumálum og málefnum eldri borgara. Tími er kominn til að forgangsraða í þágu grunnþjónustu við borgarbúa í stað gæluverkefna núverandi borgarstjórnarmeirihluta.

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að gera Reykjavík að enn líflegri og skemmtilegri borg þar sem frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja er virkjað og þar sem öll hverfi fá að njóta sín. Fjölga ber búsetukostum ungs fólks og gera sem flestum kleift að eignast húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Menntamálin mikilvæg

Eitt mikilvægasta verkefni næstu ára er að efla skólastarf í borginni og þá sérstaklega að bæta grunnskólamenntun eftir þá stöðnun og forystuleysi, sem ríkt hefur í málaflokknum undir stjórn núverandi borgarstjórnarmeirihluta. Leggja þarf áherslu á hagnýtingu samræmdra mælinga til að bæta skólastarf . Auka þarf möguleika foreldra á að fylgjast með námsárangri barna sinna og þess skóla sem þau ganga í. Þá er rétt að foreldrar fái umsagnarrétt um ráðningu skólastjóra eins og löng og farsæl hefð er fyrir víða erlendis.

Reykjavíkurflugvöllur

Þegar borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir því árið 2006 að þeir væru reiðubúnir að skoða hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar, var skýrt kveðið á um að ekki væri átt við flutning til Keflavíkur heldur yrði að tryggja áframhaldandi flugvallarstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Frá upphafi hefur verið ljóst að þessi afstaða byggðist á tveimur forsendum: að gott flugvallarstæði fyndist í eða við Reykjavík og að ríkisvaldið myndi bera kostnaðinn vegna flutnings flugvallarins og uppbyggingar hans á nýjum stað.

Báðar þessar forsendur eru brostnar. Engin niðurstaða hefur náðst varðandi nýtt flugvallarstæði og  flestum er ljóst að ríkið hefur hvorki vilja né getu til að veita tugi milljarða króna úr tómum ríkiskassanum til uppbyggingar nýs flugvallar, sem standast þarf alþjóðlegar kröfur. Hverfi flugvallarstarfsemi úr Reykjavík árið 2016 mun það stefna innanlandsflugi og sjúkraflugi í fullkomna óvissu sem og þeim fjölmörgu störfum og umsvifum, sem flugvöllurinn veitir Reykvíkingum. Ábyrgðarlaust er að flæma flugvallarstarfsemi úr Vatnsmýri þegar allsendis er óljóst hvort og þá hvernig þessir mikilvægu hagsmunir verði tryggðir.

Umferðaröryggi í þágu allra

Styrkja þarf ólíka samgöngukosti í borginni og forgangsraða fjárveitingum í þágu umferðaröryggis eftir því sem kostur er. Hnekkja þarf aðgerðaleysisstefnu núverandi borgarstjórnarmeirihluta, sem vill engar stórframkvæmdir í vegagerð í Reykjavík næstu tíu árin. En sýnt hefur verið fram á það með óyggjandi hætti að mislægar umferðarlausnir á ákveðnum stöðum eru mjög arðbærar þar sem þær fækka slysum, draga úr mengun og greiða fyrir umferð.

Eflum Sjálfstæðisflokkinn

Flest stærstu framfaramál Reykvíkinga eiga það sameiginlegt að  hafa verið borin fram af Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn. Til að skýr stefnubreyting geti orðið í reykvískum stjórnmálum næsta vor, þarf Sjálfstæðisflokkurinn að styrkjast og eflast. Er það von mín að sem flestir taki þátt í prófkjörinu og leggi þannig glæsilegan grunn að sigri Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 24. október 2013.


Framboðsyfirlýsing

okt.
22

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi sækist eftir öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Prófkjörið fer fram hinn 16. nóvember næstkomandi.

,,Ég leita eftir stuðningi við að skipa áfram 2. sæti listans þar sem ég tel að reynsla mín og kraftar nýtist Reykvíkingum best verði ég í forystusveit. Rjúfa þarf þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í ýmsum málaflokkum undir stjórn núverandi borgarstjórnarmeirihluta, t.d. í skólamálum, samgöngumálum og málefnum eldri borgara. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að gera Reykjavík líflegri og skemmtilegri borg þar sem frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja er virkjað og þar sem öll hverfi fá að njóta sín. Fjölga ber búsetukostum ungs fólks og gera sem flestum kleift að eignast húsnæði á viðráðanlegum kjörum,“ segir Kjartan.

Kjartan hefur í störfum sínum öðlast víðtæka reynslu af borgarmálum. Hann hefur ætíð lagt áherslu á lága skatta og ábyrga fjármálastjórn. Kjartan hefur gagnrýnt þær áherslur sem núverandi meirihluti hefur lagt á margvísleg gæluverkefni, t.d. í umferðarmálum. ,,Tími er kominn til að forgangsraða í þágu grunnþjónustu í stað gæluverkefna,“ segir Kjartan.

Menntamál – Kjartan telur að eitt mikilvægasta verkefni næstu ára sé að efla skólastarf í borginni og þá sérstaklega að bæta grunnskólamenntun eftir ákveðna stöðnun og forystuleysi, sem ríkt hefur undir stjórn núverandi borgarstjórnarmeirihluta. Á vettvangi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur hefur Kjartan m.a. lagt áherslu á gildi samræmdra mælinga til að bæta skólastarf og beitt sér fyrir því að foreldrar séu sem best upplýstir um námsárangur barna sinna og þess skóla sem þau ganga í. Þá hefur Kjartan lagt til að foreldrar fái umsagnarrétt um ráðningu skólastjóra eins og gert hefur verið með góðum árangri víða erlendis.

Samgöngumál – Kjartan vill styrkja ólíka samgöngukosti í borginni og er andvígur því að flugvallarstarfsemi verði flæmd úr Vatnsmýri innan fárra ára eins og tillaga að nýju aðalskipulagi gerir ráð fyrir. Þá telur Kjartan mikilvægt að auka umferðaröryggi í borginni, m.a. með úrbótum á stofnbrautakerfinu.

Málefni eldri borgara – Kjartan hefur einnig beitt sér í málefnum eldri borgara, m.a. með flutningi tillögu um aukið lóðaframboð fyrir þjónustuíbúðir í þágu eldri borgara í Reykjavík. Kjartan flutti einnig tillögu um að komið verði á fót sérstöku öldungaráði í Reykjavík, skipuðu eldri borgurum, sem verði borgarstjórn til ráðgjafar um málefni þeirra. Þá flutti Kjartan tillögu árið 2011 um að tekjulágir elli- og örorkulífeyrisþegar fái afslátt eða niðurfellingu á fráveitugjaldi.

Aukið gagnsæi í fjármálum hins opinbera - Kjartan vill að almenningur sé vel upplýstur um það hvað skattarnir fara í hverju sinni. Fyrir ári flutti hann tillögu í borgarstjórn um að allar kostnaðargreiðslur borgarinnar verði birtar reglulega á netinu og þannig gerðar almenningi tiltækar. Þá hefur Kjartan barist fyrir því að allur kostnaður við byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu verði birtur opinberlega með sundurliðuðum hætti.

Framboð Kjartans Magnússonar.


Veggjakrot í Reykjavík

okt.
22

Veggjakrot í Reykjavík hefur aukist verulega á undanförnum árum og verða einstaklingar og fyrirtæki fyrir miklu tjóni vegna þess. Mikið kveður að því að krotað sé á veggi íbúðarhúsa, fyrirtækja, grindverk, umferðarmannvirki, listaverk og leiktæki á skólalóðum.

Á síðasta kjörtímabili var efnt til átaks gegn veggjakroti í Reykjavík með góðum árangri. Átakið náði hámarki árið 2008 þegar borgin varði 159 milljónum króna til margvíslegra aðgerða gegn veggjakroti; hreinsunar, forvarna o.fl. Verkefnið lenti síðan undir niðurskurðarhnífnum eins og margt annað en jákvæð áhrif þess vörðu árum saman. Nú hefur veggjakrotið aukist á ný og því er rétt að farið verði út í slíkar markvissar aðgerðir að nýju.

Borgaryfirvöld í Helsinki og Kaupmannahöfn eru talin hafa náð eftirtektarverðum árangri í baráttunni gegn krotvörgum. Sá árangur hvílir á eftirtöldum lykilatriðum: 1. Mála yfir eða má út veggjakrotið sem fyrst. 2. Leggja áherslu á forvarnir og jákvæðan áróður gegn veggjakroti í samstarfi við skóla, íþróttafélög og aðra aðila sem sinna æskulýðsstarfi. 3. Finna umsvifamestu krotvargana og láta þá sæta ábyrgð, t.d. með tiltali, sáttameðferð eða greiðslu skaðabóta.

Á síðasta fundi borgarráðs lögðum við sjálfstæðismenn fram eftirfarandi tillögu: ,,Borgarráð samþykkir að aðgerðir gegn veggjakroti í borginni verði hertar. Auk þess að má út eða mála yfir veggjakrot verði ekki síður lögð áhersla á forvarnarstarf. Þá verði unnið að því að láta krotvarga sæta ábyrgð vegna eignaspjalla.“

Afgreiðslu tillögunnar var frestað.


Borgarstjóri víkur sér undan ábyrgð

okt.
17

Á meðan starfsfólk grunnþjónustu Reykjavíkurborgar kvartar undan sívaxandi álagi og skólabyggingar liggja undir skemmdum vegna viðhaldsleysis, forgangsraðar meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins fjármunum í þágu gæluverkefna sinna. Mörg þessara verkefna snúast um að teppa mikilvægar umferðargötur og sjá til þess að það taki Reykvíkinga lengri tíma en áður að komast á milli staða. Með því að lengja tímann í umferðinni, styttist sá tími sem fólk hefur til frjálsrar ráðstöfunar, t.d. til frístundaiðkunar eða samverustunda með fjölskyldunni.

Klúður við Hofsvallagötu

Hofsvallagötuklúðrið er dæmi um þetta en ein afleiðing þess hefur auk þess orðið sú að beina umferð inn í nærliggjandi íbúahverfi.

Fjölmennur íbúafundur var haldinn í Vesturbænum í síðasta mánuði um breytingarnar á Hofsvallagötu. Æðstu yfirmenn verklegra framkvæmda hjá borginni, Jón Gnarr borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs, sáu ekki ástæðu til að sækja fundinn og hlusta þar á sjónarmið íbúa. Þess í stað lýsti einn æðsti embættismaður borgarinnar yfir því í upphafi fundar að Jón Gnarrr borgarstjóri bæri enga ábyrgð á framkvæmdunum. Varla er hægt að finna skýrara dæmi um það hvernig Jón Gnarr smeygir sér markvisst undan þeirri ábyrgð, sem fylgir starfi borgarstjóra.

Breytingar á Borgartúni

Borgaryfirvöldum hafa borist ýmsar athugasemdir frá hagsmunaaðilum varðandi yfirstandandi breytingar á Borgartúni. En með breytingunum er ekki gert ráð fyrir útskotum fyrir biðstöðvar strætisvagna við götuna og þarf því að stöðva þá á miðri akrein með tilheyrandi umferðartöfum. Þá hafa atvinnurekendur við Borgartún lagst gegn því að aðkoma að fyrirtækjum þeirra sé þrengd í tengslum við breytingarnar og  bílastæðum fækkað enda ekki bætandi á hinn mikla bílastæðaskort sem er nú þegar í götunni.

Ástæða er fyrir borgaryfirvöld að taka tillit til þessara athugasemd enda gegnir Borgartún mikilvægu hlutverki fyrir atvinnulíf borgarinnar og raunar alls landsins. Þrátt fyrir að málið hafi verið mikið í fréttum að undanförnu kemur í ljós að borgarstjóri þekkir lítið til þess og virðist hafa takmarkaðan áhuga á sjónarmiðum hagsmunaaðila þegar hann er spurður út í það í Morgunblaðinu sl. þriðjudag.

Borgarstjóri er framkvæmdastjóri

Lengi hefur verið litið svo á að borgarstjórinn í Reykjavík gegni þrenns konar meginhlutverki. Hann sé framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar, opinber fulltrúi borgarinnar og pólitískur leiðtogi meirihlutans. Þrátt fyrir að ólíkir menn hafi gegnt embættinu, hefur ætíð verið skýrt, þar til nú, að borgarstjóri beri endanlega ábyrgð á framkvæmdum borgarinnar og svari fyrir þær gagnvart borgarbúum. Af þessu leiðir að borgarstjóri þarf að vera vel inni í helstu framkvæmdum hverju sinni og reiðubúinn að hlusta á athugasemdir borgarbúa varðandi þær.

Mörg fleiri dæmi er hægt að nefna um að þessi framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar lætur ekki fjölmiðla ná í sig langtímum saman út af ákveðnum málum eða svarar út í hött. Þannig víkur borgarstjóri sér ítrekað undan ábyrgð sinni.

Á kjörtímabilinu hafa Samfylkingin og Besti flokkurinn breytt stjórnskipulagi ráðhúss Reykjavíkur  í þeim tilgangi að losa sitjandi borgarstjóra undan skyldum sínum. Í meginniðurstöðum sex  mánaða gamallar skýrslu úttektarnefndar á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar kemur fram að óheppilegt sé að litið sé svo á að það sé að einhverju leyti valkvætt með hvaða hætti æðsti embættismaður borgarinnar (borgarstjóri) hagi aðkomu sinni að því starfi.

Þessi fráleita stjórnsýsla er í boði Besta flokksins og Samfylkingarinnar.

 

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 17. október 2013.

 


Ójöfn dreifing útilistaverka í Reykjavík

okt.
17

Á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag fluttum við sjálfstæðismenn tillögu um að efnt yrði til átaks í því skyni að fjölga útilistaverkum í íbúahverfum í eystri hluta borgarinnar.

Viðurkennt er að útilistaverk gegna mikilvægu hlutverki við að fegra borgir og einstök hverfi og stuðla að menningarbrag. Útilistaverk gegna m.a. mikilvægu hlutverki við grenndarkennslu nemenda í leikskólum og grunnskólum, sem er vaxandi þáttur í skólastarfi.

Þegar ég skoðaði staðsetningu 97 útilistaverka borgarinnar kom í ljós að dreifing þeirra um borgina er mjög ójöfn. Tæpur helmingur verkanna eða 46 eru í póstnúmeri 101. Sextán verk eru í 105 og þrettán í 104. Síðan fækkar þeim mjög eftir því sem austar dregur og í sumum hverfum er ekkert útilistaverk.

Æskilegt er að fjölga útilistaverkum í þeim íbúahverfum borgarinnar þar sem nú er fá slík verk eða jafnvel ekkert að finna. Ýmsar leiðir er hægt að fara við val á listaverkum. Ekki er kostnaðarsamt að smíða eftirgerð af verkum í eigu Listasafns Reykjavíkur og koma fyrir á góðum stöðum í hverfunum. Einnig er sjálfsagt að meta hvort ekki sé hægt að færa verk úr hverfum þar sem mörg slík útilistaverk eru, í hverfi þar sem fá eða engin slik verk eru. Síðast en ekki síst er hægt að efna til samkeppni um ný verk. Rétt er að óskað verði eftir hugmyndum um staðsetningu fyrir útilistaverk hjá íbúum viðkomandi hverfa sem og hverfisráðum.

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar vildu ekki samþykkja tillöguna í borgarstjórn en vísuðu henni til nefndar. InterestingStatue-002


Er eignasala Orkuveitunnar í uppnámi?

sept.
14

Orkuveitan þarf að selja eignir fyrir tíu milljarða króna. Árið 2011 lagði ég fram tillögu um sölu Gagnaveitunnar (áður Lína.net), sem er ein seljanlegasta eign Orkuveitunnar, en fyrirtækið er ekki enn komið í sölu. Söluferlið hefur tafist vegna klúðurs og ákvarðanafælni borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Þess í stað reynir borgarstjórnarmeirihlutinn að bjarga lausafjárstöðunni með ,,sölu“ Orkuveituhússins (um leið og það er leigt til baka til 20 ára) og sölu Magma-skuldabréfsins með miklum afföllum. Þessar eignir virðast nú ekki eins auðseljanlegar og menn héldu. Perlan var seld til Reykjavíkurborgar og þannig færð úr einum opinbera vasanum í annan.

http://www.visir.is/14-milljarda-krona-eignasala-i-uppnami/article/2013709149921