Glæsileg knattspyrnuhátíð í Reykjavík

Laugardalurinn iðaði af lífi og fjöri um síðustu helgi þegar ReyCup knattspyrnumótið fór þar fram í áttunda sinn. Mótið hefur orðið fjölmennara og glæsilegra með ári hverju og er nú orðið stærsta einstaka knattspyrnumót á Íslandi. Rúmlega 1.600 unglingar í 105 keppnisliðum tóku nú þátt í mótinu. Ánægjulegt er hve mörg lið utan Reykjavíkur tóku þátt í keppninni en metþátttaka var af landsbyggðinni auk liða frá Danmörku, Englandi og Færeyjum.

07 Vestur fagnar verðskulduðum sigri.
Sigri hrósað.

Mikilvægt er að íþróttafélög haldi úti þróttmiklu og metnaðarfullu starfi fyrir börn og unglinga þrátt fyrir versnandi efnahagsástand. Gaman hefur verið að fylgjast með velheppnuðum knattspyrnumótum víðs vegar um landið í sumar, t.d. á Akranesi, Akureyri, í Vestmannaeyjum og nú síðast í Reykjavík.

ReyCup er einn af hápunktum ársins hjá ungum knattspyrnuiðkendum í 3. og 4. flokki pilta og stúlkna eða á aldrinum 13-16 ára. Eftir því sem unglingarnir okkar fá fleiri tækifæri til að finna kröftum sínum viðnám í krefjandi keppni, er líklegra að það dragi úr brottfalli þessa aldurshóps úr íþróttum. Ungmennin takast á í heilbrigðri keppni og mynda ný vinatengsl. Samvinna, keppni, sigurgleði og vonbrigði blandast saman svo úr verður mikil og góð upplifun fyrir ungt keppnisfólk.

ReyCup er haldið af Knattspyrnufélaginu Þrótti með stuðningi Reykjavíkurborgar. Þróttarar annast sjálft mótshaldið en Reykjavíkurborg útvegar knattspyrnuvelli og aðra aðstöðu, t.d. fimm grunnskóla undir gistingu ásamt aðgangi að sundlaugum og Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Hugmyndin að mótshaldinu kviknaði árið 2001 meðal bjartsýnisfólks í foreldrastarfi Þróttar. Rætt var um að þörf væri á metnaðarfullu móti fyrir 13-16 ára aldurinn og að Laugardalurinn væri tilvalinn mótsstaður. Sumir töldu að um óhóflega bjartsýni væri að ræða en fyrsta mótið var haldið sumarið eftir og nú er það orðið að árvissum viðburði í borgarlífinu.

Mikill metnaður einkennir mótshaldið og mestur hluti vinnunnar er inntur af hendi í sjálfboðaliðavinnu af hinum öfluga foreldrahópi í Þrótti. Fyrir hönd íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur vil ég sérstaklega þakka þessum harðsnúna hópi fyrir vel unnin störf í þágu æskulýðsmála í Reykjavík. Einnig óska ég aðstandendum Reycup sem og öllum keppendum til hamingju með vel heppnað mót með von um að þeir haldi áfram að þroska hæfileika sína og efla líkamshreysti á vettvangi íþrótta.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu hinn 27.vii.2009.)

Rangfærslur vegna ummæla um tónlistarhús leiðréttar

Í laugardagsblaði Morgunblaðsins kjósa Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar TR og Stefán P. Eggertsson, stjórnarformaður sama fyrirtækis, að bera undirritaðan þeim sökum að hafa viðhaft villandi ummæli í sjónvarpsumræðum sl. miðvikudag um kostnað skattgreiðenda vegna tónlistarhúss við Reykjavíkurhöfn (TRH). Slíkar ásakanir eru ósanngjarnar og ekki verður hjá því komist að leiðrétta þær.Segja þeir félagar að þegar ráðist sé í fjárfestingu, sem fjármögnuð sé með lánum, sé afar villandi að ræða um kostnað verkefnisins sem heildargreiðslur afborgana og vaxta á öllum lánstímanum. Að ræða um kostnað verkefnisins sem 30 milljarða sé villandi.

Ásakanir þessar um villandi ummæli eru rangar og óskiljanlegar í ljósi þess að ég hef frá upphafi þessa ógæfumáls lagt mikla áherslu á að gera greinarmun á kostnaðaráætlun byggingarinnar annars vegar og heildargreiðslum afborgana og vaxta á lánstíma hins vegar, þ.e. heildarskuldbindingu skattgreiðenda vegna verksins. Þegar ég, árið 2004, greiddi atkvæði gegn umræddum byggingarframkvæmdum, einn kjörinna fulltrúa, hafði ég m.a. til hliðsjónar miklar umræður, sem þá höfðu átt sér stað á vettvangi sveitarstjórna í Danmörku og víðar, um kosti og galla svokallaðrar einkaframkvæmdar. Þær umræður höfðu þá þegar m.a. leitt í ljós að kjörnir fulltrúar höfðu freistast til að misnota kosti einkaframkvæmdar til að auka lántöku sveitarfélaga vegna stórframkvæmda langt umfram það sem eðlilegt gat talist. Niðurstaðan var sú að stjórnmálamenn yrðu ekki síður að horfa til áætlaðra heildarskuldbindinga skattgreiðenda vegna opinberra byggingarframkvæmda en kostnaðaráætlana, sem hafa oft reynst heldur bjartsýnar hérlendis, svo ekki sé meira sagt.

Því miður hafa sumir baráttumenn fyrir byggingu tónlistarhússins ætíð viljað gera lítið úr hinum mikla vaxta- og fjármagnskostnaði vegna framkvæmdarinnar og jafnvel orðið þykkjuþungir þegar minnst hefur verið á slíkt. Er furðulegt að nú skuli tveir embættismenn opinbers fyrirtækis ráðast fram á ritvöllinn og saka undirritaðan um að gefa Kastljósi villandi upplýsingar þegar heildarkostnaður verksins er dreginn fram. Ítrekað skal að þegar farið er yfir umræddan Kastljósþátt, kemur skýrt fram að undirritaður gerir skýran greinarmun á kostnaði vegna byggingar sjálfs hússins og heildarskuldbindingu vegna alls verkefnisins. Í þættinum segir orðrétt: ,,Kjartan Magnússon borgarfulltrúi vill meina að þetta þýði að heildarskuldbindingar ríkis og borgar vegna tónlistarhússins næstu 35 árin nemi þá alls um 30. milljörðum. Kjartan hefur gagnrýnt framkvæmdir við tónlistarhúsið frá upphafi, einn borgarfulltrúa.“

Ég tel að gera verði þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir hugsi um langtímahagsmuni umbjóðenda sinna. Afar varlega þarf að fara í að samþykkja dýr verkefni og velta kostnaðinum við þau yfir á komandi kynslóðir eins og því miður gerðist þegar samþykkt var að ráðast í byggingu tónlistarhússins árið 2004. Það er lágmark að þeir sem bera ábyrgð á þeirri framkvæmd, embættismenn sem kjörnir fulltrúar, viðurkenni þann gífurlega vaxta- og fjármagnskostnað sem skattgreiðendur framtíðarinnar munu þurfa að bera vegna þessarar feikidýru framkvæmdar. Hvernig eiga Íslendingar að læra af þeim mistökum fortíðar, sem fólust í ofurskuldsetningu þjóðarinnar, ef menn kjósa að einblína á kostnaðaráætlanir en neita að horfast í augu við þau fjármagnsgjöld sem fylgja einkaframkvæmdum?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 28. júní 2009.

Nýr skóli í Úlfarsárdal

Eftir Kjartan Magnússon og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur:

ÞAÐ ER mikið fagnaðarefni fyrir íbúa og byggjendur í Úlfarsárdal að á fimmtudaginn var tekin skóflustunga að nýjum skóla, samreknum leik- og grunnskóla, sem áætlað er að taki til starfa haustið 2010. Breytt efnahagsástand hefur haft áhrif á hraða uppbyggingar í Úlfarsárdal og íbúar og tilvonandi íbúar eðlilega uggandi yfir málum. Eftir mikil samskipti okkar, embættismanna og íbúa, um hvernig hægt væri að búa að börnum í hverfinu og skapa mikilvægan samverustað íbúa varð samstaða um að leggja áherslu á að hefja byggingu á leikskóla fyrr en áætlað var og hefja rekstur samrekins leik- og grunnskóla í honum haustið 2010.

Samþætting og sveigjanleiki

Leikskólaráð- , menntaráð og íþrótta- og tómstundaráð lögðu því til, við framkvæmda- og eignaráð Reykjavíkurborgar, sameiginlega tillögu um að samrekinn leikskóli og grunnskóli fyrir 1.-4. bekk ásamt frístundaheimili taki til starfa í Úlfarsárdal. Í samrekstri skóla felast spennandi tækifæri í sveigjanleika á milli skólastiga og samþættingu skóla- og frístundastarfs. Í því skyni verður sem fyrst hafin bygging húsnæðis við Úlfarsbraut 118-120 sem hugsuð var sem framtíðarhúsnæði leikskóla í hverfinu. Á fyrsta starfsári skólans er reiknað með um 40-50 börnum á leikskólaaldri og svipuðum fjölda grunnskólabarna í 1.-4. bekk. Gert er ráð fyrir því að skólinn „eldist“ með börnunum, þ.e. árlega bætist við bekkur í skólann, jafnhliða því sem börnin verða eldri.

Spennandi hönnun

Skólahúsnæðið við Úlfarsbraut 118-120 er framtíðarhúsnæði leikskóla í hverfinu. Byggingin er hönnuð sem 5-6 deilda leikskóli á 5.350 m2 lóð eftir hönnunarsamkeppni. Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna er 460 milljónir króna. Við hönnun byggingarinnar var haft í huga að umhverfið gegnir stóru hlutverki í uppeldi og menntun barna. Umhverfið innan húss er því skipulagt með það í huga. Það umhverfi sem börnunum er boðið er í senn öruggt, hvetjandi, aðlaðandi, verndandi og fallegt. Rýmið er sveigjanlegt á þann hátt að hægt er að stækka og minnka það eftir þörfum. Einnig er hugsað fyrir mismunandi aldri barnanna og miðað við stærð þeirra og þarfir og hentar því einnig vel fyrir starfsemi yngstu bekkja grunnskóla.

Með ákvörðun uppbyggingar sameiginlegs húsnæðis nýtist fjármagn til varanlegrar uppbyggingar. Leikskólinn fer strax í endanlegt húsnæði og starfsemi grunnskólans verður á sama svæði og fyrirhugaður grunnskóli og íþróttasvæði. Til viðbótar við spennandi tækifæri í sveigjanleika milli skólastiga og samþættingu skóla- og frístundastarfs verður húsnæðið án efa fyrsti samkomustaður hverfisins og eykur þannig samskipti og samræðu íbúa um framtíðina í þessu fallega hverfi.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 15. júní 2009.