Leyndarhyggja um rekstur Hörpu

Þegar ákveðið var í ársbyrjun 2009 að halda byggingu tónlistarhússins áfram á fullri ferð þrátt fyrir efnahagsþrengingar og gjaldeyrisskort, var því lofað að ekki þyrftu að koma til frekari framlög frá skattgreiðendum til byggingar og rekstrar hússins, umfram þær skuldbindingar, sem þegar höfðu verið gerðar og nema nú um 980 milljónum króna á ári. Ýmsir stjórnmálamenn höfðu efasemdir um að verkinu yrði haldið áfram á fullri ferð og vildu fresta framkvæmdum við húsið þar til betur áraði eða a.m.k. draga verulega úr framkvæmdahraða. Mikill þrýstingur var hins vegar settur á menn um að styðja lúkningu verksins á grundvelli þess að ekki þyrftu að koma til frekari opinber framlög umfram þegar gerðar skuldbindingar. Margir létu undan þrýstingi og studdu verkefnið í þessari trú.

Nú, þegar ljóst er orðið að hin samningsbundnu framlög hafa ekki dugað, er eðlilegt að leitt sé í ljós hvaða forsendur hafi brugðist eða hvort stjórnmálamenn hafi hreinlega verið gabbaðir.

Reykjavíkurborg á 46% í Hörpunni og ber því mikla ábyrgð á því hvernig til tekst í rekstri hússins. 3. nóvember sl. óskaði borgarráð eftir því að gerð yrði úttekt á rekstri Hörpunnar ,,til að skýr staða liggi fyrir og hægt sé að meta hvernig verkefnið hefur farið af stað.” Jafnframt lagði borgarráð áherslu á að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga, sem koma að rekstrinum og að ekki yrði farið í frekari framkvæmdir við húsið, sem ekki leiddu af sér tryggar viðbótartekjur, meðan á úttektinni stæði.

Búist var við því að brugðist yrði án tafar við ósk borgarráðs um rekstrarúttekt á Hörpunni og einföldun á stjórnskipulagi. Vinna við rekstrarúttekt hófst hins vegar ekki fyrr en fimm mánuðum eftir umrædda ósk borgarráðs eða í apríl sl. þegar Austurhöfn – TR fól KPMG verkið og lauk því í maí. Ljóst er að umrædd úttekt er nauðsynleg fyrir þá, sem vilja átta sig á því hvað hefur farið úrskeiðis í rekstri hússins og ræða tillögur til úrbóta, ekki síst alþingismenn og borgarfulltrúa, sem vinna nú að fjárlögum og fjárhagsáætlun næsta árs. Þá eiga mörg atriði í umræddri skýrslu ekki síður erindi við almenning, sem borgar brúsann eins og annan opinberan rekstur.

Ljóst er að ósk borgarráðs frá 3. nóvember um að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga sem koma að rekstrinum, hefur verið hundsuð. Í frétt RÚV í gær kemur fram að átta félög koma að rekstri Hörpu: ,,Sama fólkið situr meira og minna í stjórnum allra þessara félaga og fær greidda þóknun fyrir setu í hverri stjórn.”

Vegna þess völundarhúss félaga, sem byggt hefur verið upp í kringum Hörpu, hefur verið mun flóknara og erfiðara en ella fyrir kjörna fulltrúa og fréttamenn að rýna og fjalla um rekstur hússins. Með birtingu á skýrslu KPMG væri stórt skref stigið í þá átt að unnt væri hægt að fjalla um reksturinn með eðlilegum hætti.

20. júlí sl. óskaði ég eftir því að fá sent afrit af umræddri úttekt KPMG. 26. júlí fékk ég svar þar sem fram kemur að stjórn Austurhafnar – TR sjái sér ekki fært að svo stöddu að senda mér umrædda skýrslu.

Ótrúlegt er að stjórn fyrirtækis, sem er að fullu í opinberri eigu, skuli neita afhendingu upplýsinga með þessum hætti. Megintilgangur umræddrar skýrslu er að leiða í ljós þegar orðna hluti og núverandi stöðu hússins og eiga slíkar upplýsingar að sjálfsögðu fullt erindi til kjörinna fulltrúa, sem bera ábyrgð á rekstri ríkis og borgar, en einnig til almennings. Er vandséð hvernig unnt verður að fjalla á eðlilegan hátt um rekstur hússins og leiðir til úrbóta á meðan slík lykilgögn eru sveipuð leyndarhjúpi. Hvað skyldu margir mánuðir líða áður en stjórninni þóknast að birta skýrsluna og upplýsa skattgreiðendur þannig um stöðu mála?

Hrein borg – fögur torg

Skóla- og frístundaráð samþykkti á síðasta fundi sínum tillögu Sjálfstæðisflokksins um að auka fræðslu í grunnskólum Reykjavíkur um mikilvægi þess að halda borginni hreinni. Eru skólastjórar hvattir til að virkja nemendur í að hreinsa í kringum skólana og tína rusl í nágrenni þeirra, enda hefur slíkt ótvírætt fræðslu- og uppeldisgildi.

Brýnt er að vinna stöðugt að því að draga úr óþrifnaði í Reykjavík og virkja sem flesta í því skyni. Oft er bent á að borgin sé á meðal hinna þrifalegustu í heimi, ekki síst vegna nýtingar okkar á hreinum orkugjöfum til húshitunar og annarra daglegra þarfa. Það er vafalaust rétt en almennum þrifnaði í borginni er hins vegar víða ábótavant. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að sjá til þess að Reykjavík komist einnig í fremstu röð að þessu leyti.

Ekki síst þarf að stuðla að jákvæðu viðhorfi barna og ungmenna til umhverfismála og vinna þannig gegn óþrifnaði og sóðaskap. Í mörgum leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum, og félagsmiðstöðvum er unnið gott starf við að vekja börn til vitundar um þessi mál. Sjálfsagt er að tryggja að enginn skóli verði út undan í þeirri vinnu og skoða leiðir til þess að jákvæður áróður í þágu þessara mála verði bættur og gerður markvissari.

Í einhverjum tilvikum eru nemendur látnir þrífa í kringum skólana með reglubundnum hætti og jafnvel tína rusl í nágrenni þeirra. Nýlega var t.d. haldinn sérstakur hreinsunardagur í Hagaskóla þar sem nemendur létu til sín taka og tíndu rusl víða í hverfinu. Þetta fyrirmyndarverkefni hafði ótvírætt fræðslu- og uppeldisgildi og vakti mikla athygli og ánægju meðal íbúa hverfisins.

Á síðasta kjörtímabili samþykkti menntaráð að árlega skyldi efnt til svokallaðra umhverfisdaga í grunnskólum Reykjavíkur, sem skilgreindir yrðu sérstaklega sem grænir dagar á skóladagatali. Annar dagurinn skyldi tengdur hreinsun og fegrun umhverfisins og er ákjósanlegt að tengja slík hreinsunarverkefni skóla þessum degi.

– – –

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 23. maí 2012.

Á að hrekja verslunarrekstur úr miðborginni?

Án öflugrar verslunar getur miðborg Reykjavíkur ekki sinnt því hlutverki að vera blómleg miðstöð viðskipta, menningar og annarrar þjónustu. Mikilvægt er að borgaryfirvöld skapi miðborginni þau skilyrði að þar geti verslun og viðskipti vaxið og dafnað. Að minnsta kosti hlýtur að vera hægt að ætlast til þess að borgarstjórn grípi ekki til aðgerða, sem hafi beinlínis þau áhrif að skerða samkeppnishæfni Miðbæjarins gagnvart öðrum verslunarsvæðum í borginni.

Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins í umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur, samþykkti  í liðinni viku að hækka bílastæðagjöld í Miðbænum um 67-88%.  Breytingin öðlast þó ekki gildi fyrr en borgarráð hefur afgreitt málið.

Samkvæmt tillögum meirihlutans mun tímagjald á gjaldsvæði 1 hækka um 67% eða úr 150 í 250 kr. Tímagjald á gjaldvæðum 2 og 4 hækki um 88% eða úr 80 í 150 kr.

Þá er lagt til að almenn gjaldskylda á gjaldsvæðum verði lengd þannig að hún verði frá 9-18 á virkum dögum en 9-16 á laugardögum.

Ekkert samráð

Svo miklar hækkanir á bílastæðagjöldum eru óviðunandi og munu tvímælalaust hafa veruleg áhrif á rekstraraðstæður verslana og annarra þjónustufyrirtæki í miðborginni. Í því ljósi er mjög ámælisvert að borgarstjórnarmeirihlutinn gerði enga tilraun til að eiga samráð við þessa rekstraðila áður en hækkunin var samþykkt í umhverfis- og samgönguráði. Þegar framkvæmdastjóri ,,Miðborgarinnar okkar“ kvartaði yfir þessum vinnubrögðum, fékk hann þau svör hjá borgaryfirvöldum að þau hefðu séð það fyrir að þetta yrði óvinsælt hjá rekstraraðilum og því best að hafa sem fæst orð um fyrirætlanirnar.

Kaupmenn og aðrir rekstraraðilar í Miðbænum heyrðu fyrst um hækkanirnar í fjölmiðlum. Telja margir þeirra að svo umfangsmiklar hækkanir fæli fólk frá því að versla og reka önnur erindi sín í miðborginni og að hætta sé á að þær muni stuðla að enn frekari flótta verslana og fyrirtækja af svæðinu. Eftir því sem verslunin hopar úr Miðbænum, tekur annars konar starfsemi sér bólfestu þar, t.d. vínveitingastaðir, sem opnir eru utan gjaldskyldutíma Bílastæðasjóðs. Er það ef til vill markmið núverandi borgarstjórnarmeirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar að flæma verslun og viðskipti úr miðborginni og gera svæðið að allsherjar skemmtanahverfi?

Bætum samkeppnisstöðu miðborgarinnar

Það fer ekki fram hjá neinum að baráttan er hörð í verslun og viðskiptum á höfuðborgarsvæðinu. Helsti styrkur Miðbæjarins liggur í fjölda og fjölbreytileika verslana og hinni einstöku stemmningu, sem þar ríkir. Á sama hátt er ljóst að helsti veikleiki Miðbæjarins til að laða að viðskiptavini liggur í því að þar eru bílastæðagjöld innheimt og há aukastöðugjöld ef viðskiptavinir ná ekki að reka erindi sín innan fyrirfam ákveðins tíma. Aðrar verslanamiðstöðvar gera sér grein fyrir þessu enda auglýsa margar þeirra að hjá þeim séu næg ókeypis bílastæði handa viðskiptavinum.

Í viðkvæmu rekstrarumhverfi miðborgarinnar hlýtur að vera hægt að gera þá lágmarkskröfu til stjórnmálamanna að þeir grípi ekki til aðgerða, sem beinlínis skerða samkeppnishæfni fyrirtækja þar. 67-88% hækkun stöðumælagjalda mun ekki styrkja verslun og viðskipti í Miðbænum heldur þyngja róðurinn fyrir þá rekstraraðila, sem þar berjast fyrir lífi sínu á hverjum degi.

Alþjóðlegu Reykjavíkurleikarnir

Íþróttafólk fyllti Laugardalinn af lífi og fjöri um helgina þegar Alþjóðlegu Reykjavíkurleikarnir (Reykjavik International Games) voru haldnir þar í fimmta sinn. Leikarnir hafa orðið glæsilegri og öflugri með ári hverju og áunnið sér fastan sess í borgarlífinu. Sannkölluð keppnisgleði ríkti þegar vel á þriðja þúsund keppendur af báðum kynjum, fatlaðir og ófatlaðir, kepptu sín á milli í ólíkum íþróttagreinum. Um fjögur hundruð erlendir keppendur frá 22 þjóðum tóku þátt í leikjunum að þessu sinni.

Reykjavíkurleikarnir eru haldnir af Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) og aðildarfélögum þess með stuðningi Reykjavíkurborgar. Keppt var í sextán íþróttagreinum að þessu sinni; badminton, bogfimi, borðtennis, dansi, fimleikum, frjálsum íþróttum, júdó, keilu, kraftlyftingum, listhlaupi á skautum, ólympískum lyftingum, skvassi, skylmingum, sundi, sundi fatlaðra og þríþraut. Aðdragandinn að leikunum var sameining mótahalds nokkurra íþróttagreina að vetri, fljótlega bættust fleiri greinar við og þannig myndaðist grundvöllur fyrir því stórmóti sem Reykjavíkurleikarnir eru orðnir.

Mikill metnaður einkenndi mótshaldið og enn einu sinni hefur sannast að íþróttamannvirkin í Laugardal eru kjörin umgjörð um slíkt alþjóðlegt fjölgreinamót. Reykjavíkurleikarnir veita íslensku íþróttafólki tækifæri til að spreyta sig og öðlast keppnisreynslu á alþjóðlegu móti sem þó er haldið á heimavelli. Í nokkrum greinum mótsins öðlast keppendur stig, sem nýtast þeim til þátttöku á stórmótum eins og Ólympíuleikum og heimsmeistarakeppni. Síðast en ekki síst fá áhorfendur tækifæri til að sjá besta íþróttafólk Íslands í viðkomandi greinum sýna listir sínar og vinna til afreka ásamt góðum erlendum gestum.

Afrek í ferðaþjónustu

Ánægjulegt er hve margir erlendir gestir sækja leikana. Jafnframt því að vera mikilvægir fyrir íþróttalífið laðar viðburðurinn til sín hundruð erlendra ferðamanna til Íslands á þeim tíma ársins, sem minnst er að gera í ferðaþjónustu.

Ég óska reykvískri íþróttahreyfingu til hamingju með vel heppnaðan viðburð, sem sprottinn er úr grasrótarstarfi þessara frjálsu félagssamtaka í borginni.  Mörg hundruð einstaklingar úr reykvískum íþróttafélögum unnu ómælt sjálfboðaliðastarf við framkvæmd leikanna og fyrir það ber að þakka. Vonandi munu Alþjóðlegu Reykjavíkurleikarnir eflast og dafna til framtíðar og festa sig enn frekar í sessi á viðburðadagskrá borgarinnar.

– – –

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 23. janúar 2012.

Borgarstjóri á hálum ís

Borgarstjóri, hinn sami og bauð sig fram undir slagorðunum „Gefum fávitunum frí“ og sagði um borgarfulltrúa annarra flokka að þeir væru með svarta beltið í einelti, hélt því fimm sinnum fram í Kastljósi Sjónvarps í fyrrakvöld að munurinn á sér og öðrum stjórnmálamönnum væri sá að hann talaði ekki illa um fólk. Ef fyrrnefnd ummæli eru dæmi um gott umtal, er vissulega nokkuð á sig leggjandi til að forðast illt umtal hjá þeim manni, sem nú gegnir embætti borgarstjóra í Reykjavík.

Met í aðgerðaleysi
Eftir mikla snjókomu í Reykjavík undanfarinn mánuð var hálkan um síðustu helgi fyrirsjáanleg. Veðurfræðingar spáðu þíðu og vatnsveðri með margra daga fyrirvara. Í einfeldni sinni bjuggust Reykvíkingar við því að borgaryfirvöld myndu hálkuverja götur og gönguleiðir í borginni eftir föngum við slíkar aðstæður. Stjórnendur borgarinnar ákváðu hins vegar að hafast ekki að og slógu þar með met í aðgerðaleysi. Sendu reyndar þau skilaboð til fjölmiðla að ekki væri ómaksins virði að salta gönguleiðir og bregðast þannig við hættunni.

Ekki fengust betri skýringar hjá borgarstjóra vegna vinnubragða við álagningu fæðisgjalds á þroskahamlaða og fatlaða einstaklinga en að gjaldtaka þessi byggist á fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2012. Hvað eftir annað hefur komið fram að notendur þjónustunnar eru ósáttir við upphæð gjaldsins, sem þeir telja ósanngjarna.

Í Kastljósinu fullyrti borgarstjóri fyrst að þessi pólitíska ákvörðun hefði ekkert með pólitík að gera. Síðan sagði hann að ákvörðun um þessa gjaldtöku hefði verið tekin þar sem notendurnir hefðu viljað borga meira. Þrátt fyrir að umrædd ákvörðun hafi nú verið dregin til baka, harðneitaði borgarstjóri því að um mistök hefði verið að ræða.

Þetta er svo erfitt
Viðtalið leiddi í ljós að borgarstjóra skortir yfirsýn og er ófær um að viðurkenna eigin mistök, hvað þá að bæta úr þeim. Borgarstjóri afsakaði reyndar getuleysi meirihlutans ítrekað með því að það væri svo mikið að gera, það væri svo mikið álag og að þetta væri allt gríðarlega umfangsmikið og erfitt. Verður varla með skýrari hætti komið orðum að því að borgarfulltrúar meirihlutans hafa tekið að sér verkefni, sem þeir ráða ekki við.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 13. janúar 2012.

Starf sjálfboðaliða er ómetanlegt

Á alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans, 5. desember, er við hæfi að gefa gaum að hinu mikla og óeigingjarna sjálfboðaliðastarfi, sem unnið er í þágu landsmanna.

Löng hefð er fyrir sjálfboðaliðastarfi á Íslandi og í Reykjavík er blómlegt félags- og mannræktarstarf að miklu leyti drifið áfram af sjálfboðaliðum. Ætla má að flestir landsmenn hafi einhvern tímann tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi en rannsóknir sýna að um 40% þeirra sinni nú slíku starfi af einhverju tagi. Fólk á öllum aldri ver þannig hluta frítíma síns í þágu mannbætandi starfs af ýmsu tagi. Vel má líta á sjálfboðaliðasamtök sem þriðja geira þjóðfélagsins, þ.e. sem mikilvæga viðbót við einkageirann og hinn opinbera. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að eftir því sem sjálfboðaliðastarf í frjálsum félögum er öflugra, þeim mun traustari eru innviðir viðkomandi samfélaga. Þjóðhagslegur ávinningur af starfi sjálfboðaliða er því mikill.  

Evrópuári sjálfboðaliðastarfs er ætlað að vekja athygli á starfi sjálfboðaliða, hvetja fleiri til sjálfboðavinnu og bregðast við vanda, sem þeir glíma við. Meginmarkmið Evrópuársins eru eftirfarandi:

1. Ryðja úr vegi hindrunum, sem standa í vegi fyrir auknu sjálfboðaliðastarfi.

2. Styrkja samtök sjálfboðaliða og auka gæði sjálfboðaliðastarfs.

3. Verðlauna og veita sjálfboðaliðum viðurkenningu fyrir mikilvægt framlag þeirra til samfélagsins.

4. Auka skilning á gildi og mikilvægi sjálfboðaliðastarfs í þágu almennings.

Sjálfboðaliðum færðar þakkir

 Í tilefni af Evrópuári sjálfboðaliðastarfs, sem nú stendur yfir, lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram eftirfarandi tillögu á borgarstjórnarfundi 15. nóvember sl:

„Borgarstjórn Reykjavíkur þakkar af heilum hug fyrir framlag þeirra tugþúsunda Reykvíkinga, sem sinna fórnfúsu og óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi í þágu íbúa Reykjavíkur. Ljóst er að slíkt sjálfboðaliðastarf er drifkraftur í starfsemi fjölmargra félaga og samtaka, sem bæta mannlíf í borginni með ýmsum hætti, t.d. með íþróttaiðkun, æskulýðsstarfi, foreldrastarfi í skólum, starfi í þágu eldri borgara, umhverfisstarfi, kristilegu starfi, mannúðarmálum o.s.frv. Borgarstjórn lýsir yfir stuðningi við meginmarkmið Evrópuárs sjálfboðaliðastarfs 2011 og samþykkir jafnframt að halda alþjóðlegan dag sjálfboðaliðans, 5. desember, hátíðlegan ár hvert með því að efna þann dag til kynnisheimsókna borgarfulltrúa til frjálsra félaga og samtaka í borginni, sem sinna sjálfboðaliðastarfi.“

Því miður sá borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar og Besta flokksins sér ekki fært að samþykkja ofangreinda tillögu Sjálfstæðisflokksins óbreytta. Tillögunni var því vísað til borgarráðs, sem samþykkti svo breytta tillögu á fundi sínum 24. nóvember:

„Borgarráð vill vekja athygli borgarbúa á alþjóðlegum degi sjálfboðaliðastarfs, 5. desember, og hinu mikilvæga starfi, sem sjálfboðaliðar í Reykjavík sinna. Borgarráð hvetur borgarbúa til þátttöku í sjálfboðaliðastarfi hinna fjölmörgu félagasamtaka í Reykjavík. Reykjavíkurborg mun vekja athygli á deginum á heimasíðu borgarinnar 5. desember nk. og felur jafnframt skrifstofu borgarstjórnar að skipuleggja heimsóknir borgarfulltrúa til frjálsra félaga og samtaka í borginni til að sýna þakklæti borgarinnar í verki.“

Augljóst er að samþykkt borgarráðs gengur mun skemmra en sú tillaga, sem við sjálfstæðismenn lögðum fyrir borgarstjórn. Þykir mér t.d. heldur dregið úr þökkunum og einnig veldur það vonbrigðum að meirihlutinn skyldi ekki heldur fást til að lýsa yfir stuðningi við meginmarkmið Evrópuársins. Það fékkst þó í gegn að á alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans, sem er í dag, munu borgarfulltrúar fara í kynnisheimsókn til sjálfboðaliðasamtaka. Að þessu sinni verður Slysavarnafélagið Landsbjörg fyrir valinu. Á slík heimsókn vel við í ljósi fórnfúss starfs björgunarsveitanna en aðeins eru nokkrar vikur síðan sveitirnar stóðu fyrir umfangsmestu aðgerð síðari ára þegar leitað var að sænskum ferðamanni á Mýrdalsjökli.

Styrkjum starfsemi sjálfboðaliða

Það er vel við hæfi að alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans sé í desember því þá standa fjölmörg samtök sjálfboðaliða fyrir árvissu fjáröflunarátaki, t.d. með flugeldasölu, happdrætti, tónleikahaldi eða almennum samskotum í þágu þeirra, sem minna mega sín. Þegar hátíð ljóss og friðar fer í hönd er mikilvægt að við gleymum ekki þessum samtökum, sem vinna stöðugt að betra þjóðfélagi, og styrkjum þau með einhverjum hætti.

– – –

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 5. desember 2011.

Ólafur Oddsson – In memoriam

Ég man fyrst eftir Ólafi sem rólegum nágranna  í næsta húsi við bernskuheimili mitt. Við strákarnir lékum okkur gjarnan í garði hússins, sem Ólafur bjó í. Þegar lætin keyrðu úr hófi, kom Ólafur í gluggann og bað okkur svo fallega að hafa lægra að við gátum ekki neitað. Dró ég þá ályktun að þar væri mikill rólegheitamaður á ferð. Skömmu síðar vaknaði ég við það árla morguns í miðri viku að gatan fylltist af góðglöðum ungmennum í skrýtnum fötum. Foreldrar mínir töluðu um dimmisjón, ég þekkti ekki það orð en horfði furðulostinn á hópinn hylla Ólaf og bjóða honum síðan með sér í partý, sem hann þáði þó ekki. Eftir slíka heimsókn á þessum tíma sólarhrings ályktaði ég að undir virðulegu yfirbragði Menntaskólakennarans hlyti að leynast partýljón.

Nokkru síðar settist ég á skólabekk í Menntaskólanum og komst þá að raun um að Óli Odds var, hvort tveggja í senn, frábær kennari og afar vinsæll meðal nemenda. Í íslenskukennslunni tókst honum vel að vekja áhuga nemenda á hljóðfræði, stafsetningu og ritgerðarsmíð að ógleymdum Íslendinga sögunum. Best fannst mér Ólafi takast upp þegar hann las með okkur Laxdælu og Egils sögu Skallagrímssonar. Var tilkomumikið að sjá þegar hann brá sér fyrirvaralaust í hlutverk Ólafs pá eða Egils Skallagrímssonar. Ólafur lagði áherslu á að koma því til skila að ekki dygði að lesa Íslendinga sögur eins og hvern annan reyfara. Til að njóta þeirra til fulls, yrðum við að læra að lesa á milli línanna, bak við fá orð og torskilda kvæðatexta væru fólgnir fjársjóðir.

Því fór fjarri að Ólafur einskorðaði sig við námsefnið eins og það lá fyrir í námskránni. Kennsluna kryddaði hann með eftirminnilegum frásögnum og hollráðum, sem oft vógu þyngra en boðskapur skólabókanna. Af honum lærði ég m.a. hið dýrmæta heilræði; ,,Stundum er betra að þegja og þykjast vitur,“ sem hefur oft komið sér vel og síst verið ofnotað.

Ólafur hafði ákveðnar skoðanir en lagði ætíð gott til mála og fylgdi þeim eftir með ljúfmennsku og gamansemi. Hygg ég að hið sama gildi um hann og segir í Heimskringlu um Erling Skjálgsson á Sóla: ,,Öllum mönnum kom hann til nokkurs þroska.“

Eftir brautskráningu úr MR gátu ár liðið á milli þess að við hittumst en þegar það gerðist var hann óspar á heilræðin. Ég ræddi t.d. við Ólaf þegar ég gaf fyrst kost á mér í prófkjöri og veitti hann mér þá dýrmæta hvatningu og stuðning. Þegar ég valdist til formennsku í Menntaráði Reykjavíkur varð það eitt fyrsta verk mitt að heyra í honum. Í löngu símtali var víða komið við og sem fyrr var Ólafur óspar á heilræði. Okkur tókst þó að finna eitthvað, sem við vorum ósammála um og voru þau skoðanaskipti tvímælalaust skemmtilegasti hluti samtalsins.

Sakna ég þess að geta ekki oftar skipst á skoðunum við Ólaf. En minningu um góðan dreng mun ég halda í heiðri á meðan mér endast dagar.

Fjölskyldu Ólafs sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

– – –

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu fimmtudaginn 10. nóvember 2011.