Fjörutíu ár frá einvígi aldarinnar

Borgarstjórn Reykjavíkur og skákhreyfingin efna til skákhátíðar í Laugardalshöll í dag í tilefni af því að fjörutíu ár eru liðin frá heimsmeistaraeinvíginu í skák milli Roberts Fischers og Boris Spassky, en það fór fram 1. júlí – 3. september 1972 í Reykjavík.

Dagskráin hefst með málþingi kl. 11 þar sem m.a. verður rætt um af hverju það er þekkt sem ,,Einvígi aldarinnar” og þýðingu þess fyrir alþjóðamál, skákíþróttina og stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna. Kl. 13 hefst síðan minningarskákmót í stóra sal hallarinnar með þátttöku barna og unglinga, auk þess sem skákmenn 60 ára og eldri tefla í sérstökum heiðursflokki.

Einvígi Fischers og Spassky er án efa frægasta skákkeppni sögunnar en hún vakti á sínum tíma heimsathygli vegna aðstæðna í alþjóðamálum. Kalda stríðið var í hámarki og margir fjölmiðlar fjölluðu um einvígið eins og uppgjör milli kommúnistaríkjanna og hins frjálsa heims þar sem fremstu skákmeistarar Sovétríkjanna og Bandaríkjanna mættust við taflborðið. Framan af mótinu einkenndust samskipti keppendanna af mikilli spennu og urðu ýmsir atburðir í tengslum við það ekki síður fréttaefni en einstök skákúrslit. Vegna keppninnar var Reykjavík í brennidepli heimspressunnar í rúma tvo mánuði og hafði það mikla og jákvæða landkynningu í för með sér fyrir Ísland.

Mikilvægt sjálfboðaliðastarf

Á síðasta ári samþykkti borgarstjórn tillögu Sjálfstæðisflokksins um að minnast heimsmeistaraeinvígisins 1972 með viðeigandi hætti. Er hátíðin haldin í góðu samstarfi við Skáksamband Íslands, Skákakademíu Reykjavíkur og taflfélögin í Reykjavík. Vil ég þakka öllum þessum aðilum fyrir ánægjulegt samstarf í tengslum við hátíðina, sem og fyrir hið mikla og stöðuga sjálfboðaliðastarf er þeir inna af hendi í þágu skákstarfs meðal barna og ungmenna í borginni.

Ábendingar hafa komið fram um að gjarnan mætti standa betur að kynningu á skákeinvígi aldarinnar. Koma slíkar ábendingar m.a. frá aðilum í ferðaþjónustu, sem telja að nýta megi mun betur þau tækifæri er felast í því að borgin hafi hýst slíkan heimsviðburð. Þessi gagnrýni á rétt á sér. Nú stendur yfir sýning í Þjóðminjasafninu á munum tengdum einvíginu og að henni lokinni finnst mér t.d. vel koma til greina að skoðað verði hvort unnt sé að gera slíka sýningu varanlega með einhverjum hætti.

Megi skákhátíðin í Laugardalshöll í dag verða ánægjuleg áminning um ,,Einvígi aldarinnar,” festa minningu þess í sessi og stuðla að enn frekari eflingu skákstarfs meðal ungu kynslóðarinnar!

– – – – – – – – – – –

Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 15. september 2012.

Glæsilegt landsmót í Reykjavík

Landsmót hestamanna var haldið í Reykjavík 25. júní – 1. júlí, og var aðstandendum sem og þátttakendum til mikils sóma. Með velheppnuðu móti hefur höfuðborgin sannað gildi sitt sem frábær landsmótsstaður enda voru aðstæður á Fákssvæðinu í Víðidal eins og best verður á kosið.

Landsmót hefur mikla þýðingu fyrir hestaíþróttina og félagsstarf hestamanna. Hestafólk á öllum aldri fær eitthvað við sitt hæfi hvort sem það starfar við fagið eða stundar hestamennsku sér til gamans. Ásamt því að vera skemmtilegur fjölskylduviðburður er mótið líka mikil mannlífsupplifun enda koma þátttakendur hvaðanæva að af landinu.
Vikuveisla í Víðidal

Landsmótið var haldið af Landssambandi hestamanna og Bændasamtökunum í góðu samstarfi við Hestamannafélagið Fák og Reykjavíkurborg. Í október 2009 lýsti borgarráð yfir stuðningi við umsókn Fáks og í ársbyrjun 2010 var ákveðið að landsmótið yrði haldið í Reykjavík. Mótið ber upp á níutíu ára afmælisári Fáks og má með sanni segja að afmælisveislan hafi staðið í viku.

Þar sem Landsmótið er alþjóðlegt stórmót eru miklar kröfur gerðar til aðbúnaðar og umgjarðar. Víðidalur er sannkölluð útivistarperla og gott starf hefur verið unnið við að fegra dalinn og bæta aðstæður þar til hestamennsku og annarrar útiveru.

Tækifæri í ferðaþjónustu

Talið er að nú séu um 220 þúsund íslenskir hestar til í heiminum og þar af eru um 140 þúsund erlendis. Íslenski hesturinn er því vinsæll sendiherra, sem ber hróður landsins víða. Í ljósi þess þarf engan að undra að Landsmót er einn stærsti viðburður ársins í ferðaþjónustu á Íslandi. Þúsundir útlendra gesta komu á landsmótið og luku margir lofsorði á framkvæmd þess. Ástæða er til að skoða möguleika á frekari eflingu ferðaþjónustu í tengslum við hestamennsku og þar gæti Fákssvæðið í Víðidal gegnt mikilvægu hlutverki. T.d. mætti skoða hvort ekki væri hægt að fjölga þar viðburðum og mótum og nota afl ferðaþjónustunnar til að markaðssetja þá erlendis. Í ljósi nýrrar hótelspár fyrir Reykjavík má jafnframt skoða hug aðila í ferðaþjónustu til þess að reisa hótel í nágrenni við Fákssvæðið og aðra frábæra útivistarkosti á þeim slóðum; t.d. sund, stangveiði og skíði.

– – –

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. júlí 2012.

Þrír góðir!

Kristinn Jónsson, Dagbjartur Einarsson og Ólafur R. Jónsson eftir viðureign KR og Grindvíkinga. (4-1) Saltfiskkóngurinn úr Grindavík er hvorki sáttur við lyktir leiksins né að vera myndaður á milli tveggja orginala úr KR og veifar stafi sínum ófriðlega.

Íþrótta- og tómstundaráð – 25 ár í fararbroddi (seinni grein)

Öflugt æskulýðsstarf fer fram í félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Félagsmiðstöðvarnar eru nú 23 talsins og þar til nú hefur ÍTR annast rekstur þeirra. Allir á aldrinum 10-15 ára eru velkomnir í félagsmiðstöðvarnar og þar er m.a. leitast við að gefa þeim einstaklingum kost á heilbrigðum og uppbyggilegum frístundum, sem ekki taka þátt í íþróttastarfi félaga eða félagsstarfi í skólum. ÍTR stendur fyrir ýmsu öðru æskulýðsstarfi og má þar nefna Hitt húsið, sem nýtt er af ungmennum á aldrinum 16-25 ára, Ungmennaráð fyrir 13-18 ára, Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna og siglingaklúbbinn Siglunes í Nauthólsvík.

Öflugt æskulýðs- og frístundastarf
Í Reykjavík eru starfræktar sex frístundamiðstöðvar, 34 frístundaheimili og fjórir frístundaklúbbar fyrir fötluð börn. 6-9 ára börn fara í frístundaheimili að loknum hefðbundnum skóladegi og á síðustu ellefu árum hefur ÍTR unnið sleitulaust að uppbyggingu og þróun þessa frístundastarfs með góðum árangri.

Farsæl starfsemi ÍTR
Stjórnmálamenn koma og fara. Í 25 ára sögu Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur hafa sjö einstaklingar gegnt þar formennsku. Allir hafa þeir haft ríkan metnað fyrir hönd ráðsins og komið mörgu góðu til leiðar. Ekki er hægt að fjalla um stjórnun málaflokksins án þess að víkja að Ómari Einarssyni, sem verið hefur framkvæmdastjóri ÍTR frá upphafi. Hefur Ómar gegnt því starfi allan tímann af miklum krafti og einurð með vaskan hóp starfsmanna sér við hlið. Eru fáir embættismenn ef nokkrir, sem gera sér jafngóða grein fyrir því að þeir eru fyrst og fremst í þjónustu fólksins í borginni og leggja sig fram við að leysa af lipurð mörg aðsteðjandi vandamál en láta þó ekki undan ósanngjörnum kröfum og heimtufrekju gagnvart skattgreiðendum, sem embættismenn borgarinnar standa einnig frammi fyrir í ríkum mæli.

Í aldarfjórðung hafa Reykvíkingar verið afar ánægðir með starfsemi ÍTR. Í viðhorfs- og þjónustukönnunum hefur ÍTR ætíð verið í fremstu röð og oftast verið sú borgarstofnun, sem hæstu ánægjueinkunn hefur fengið meðal borgarbúa. Á starfstíma ÍTR hafa starfsmenn þess hvað eftir annað gripið tækifærið til að bæta starfsemina og náð miklum árangri á því sviði. Það hefur ekki verið á forsendum þess að breyta þurfi breytinganna vegna, heldur á grundvelli vandaðra vinnubragða og viðurkenndrar breytingastjórnunar.

Undarleg afmælisgjöf
Það olli því furðu og vonbrigðum þegar núverandi meirihluti Samfylkingarinnar og Besta flokksins ákvað á afmælisárinu, án haldbærra skýringa, að kljúfa starfsemi ÍTR, þar sem borgarfulltrúi Besta flokksins fer með formennsku, í herðar niður og færa stóran hluta starfseminnar til annars ráðs borgarinnar, þar sem Samfylkingin heldur um stjórnartauma. Um er að ræða sex frístundamiðstöðvar, 23 félagsmiðstöðvar, 34 frístundaheimili og fjóra frístundaklúbba fyrir fötluð börn. Voru þessar breytingar unnar með ótrúlega óvönduðum hætti af hálfu meirihlutans. Var þeim síðan hrint í framkvæmd í andstöðu við vilja mikils meirihluta starfsmanna og án þess að þeir eða notendur þjónustunnar fengju á því skýringar eða væri gefinn tími til að tjá sig um breytingarnar með eðlilegum hætti. Ráðist var í breytingarnar án þess að stefnumörkun eða framtíðarsýn lægi fyrir eða að sýnt væri fram á með nokkrum hætti að þær skiluðu hagræðingu. Lét meirihlutinn sjálfsagðar ábendingar starfsmanna og annarra fagaðila um mikilvægi eðlilegrar undirbúningsvinnu, áður en ákvarðanir um breytingar yrðu teknar, sem vind um eyru þjóta. Ríkti lítil afmælisstemmning hjá starfsfólki ÍTR á afmælisárinu vegna þessa, en sem fyrr lagði það sig þó allt fram í störfum sínum.

Vil ég af heilum hug þakka öflugu starfsliði ÍTR undanfarinn aldarfjórðung fyrir gott starf að íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamálum, í þágu uppvaxandi kynslóðar borgarbúa, og vona að framtíð málaflokksins sé björt. Landsmönnum öllum óska ég gleðilegs árs og friðar.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 7. janúar 2012.

Íþrótta- og tómstundaráð – 25 ár í fararbroddi (fyrri grein)

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur (ÍTR) átti aldarfjórðungsafmæli á nýliðnu ári. Þótt lítið hafi farið fyrir hátíðarhöldum vegna afmælisins, er ekki úr vegi að líta um öxl í lok afmælisárs og meta hvernig ráðið hefur sinnt hlutverki sínu í gegnum tíðina í þágu íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmála í Reykjavík.

Íþrótta- og tómstundaráð varð til við sameiningu Íþróttaráðs og Æskulýðsráðs Reykjavíkur árið 1986. Þessi ráð höfðu hvort á sínu sviði unnið gott starf í þágu Reykvíkinga um áratuga skeið og voru skoðanir vissulega skiptar um það hvort rétt væri að sameina þau. Borgaryfirvöld ákváðu að sameina krafta þessara ráða í því skyni að efla enn frekar starf í þágu barna og ungmenna, hvort sem það væri unnið á vegum borgarinnar eða frjálsra félaga og samtaka.

Tíminn hefur leitt í ljós að það var rétt ákvörðun að sameina rekstur íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamála með þeim hætti sem gert var árið 1986. Miklar framfarir hafa orðið í þessum málaflokkum enda hefur stöðugt verið unnið að þróun þeirra undir merkjum ÍTR. Langflest börn og unglingar í borginni taka nú þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi með einhverjum hætti.

Íþróttir fyrir alla
Ljóst er að allar aðstæður til íþróttaiðkunar hafa stórbatnað í Reykjavík á undanförnum áratugum. Mörg íþróttahús hafa verið reist í tengslum við skólabyggingar eða íþróttafélög og hafa flest þeirra fyllst jafnóðum af börnum og unglingum eða fullorðnu fólki, sem stundar þar íþróttaæfingar. Við byggingu og rekstur íþróttamannvirkja hefur Reykjavíkurborg lagt áherslu á að nýta krafta íþróttafélaganna í borginni enda þekkja þau best aðstæður í viðkomandi hverfi eða íþróttagrein. Fyrir hönd borgarinnar hefur ÍTR annast samskiptin við íþróttahreyfinguna og hefur það samstarf verið afar farsælt. Borgin hefur sjálf annast rekstur nokkurra íþróttamiðstöðva en á síðasta kjörtímabili var ákveðið að kanna möguleika á að hverfisíþróttafélög kæmu í auknum mæli að rekstri þeirra. Þannig hefur ÍR nú t.d. tekið að sér rekstur íþróttahúsanna við Seljaskóla og Austurberg í Breiðholti, Fjölnir í Grafarvogi sér um rekstur íþróttahússins við Dalhús, Ármann og Þróttur reka íþrótta- og félagsmannvirki sem þjóna félögunum í Laugardal og Fylkir rekur fimleikahúsið í Norðlingaholti.

Á síðasta kjörtímabili var Frístundakortinu svokallaða komið á fót og voru þá einnig undirritaðir sérstakir þjónustusamningar milli íþróttafélaganna og Reykjavíkurborgar þar sem m.a. er kveðið á um að félögin annist ákveðna þjónustu í mannvirkjum í skilgreindum hverfum eða íþróttagrein og fái á móti fjárframlag frá borginni. Hafa fyrrgreind atriði stuðlað að því að á fáum árum hefur orðið gífurleg fjölgun í barna- og unglingastarfi reykvískra íþróttafélaga. Þá hefur iðkendum í almenningsíþróttum einnig fjölgað verulega. Miðað við stærð Reykjavíkur er með ólíkindum hve margar íþróttagreinar eru stundaðar í borginni innan vébanda sjötíu sjálfstæðra íþróttafélaga, sem borgin á samstarf við með einum eða öðrum hætti.

Sæluríkar sundlaugar
ÍTR annast rekstur sjö almenningssundlauga auk ylstrandar í Nauthólsvík, sem tugþúsundir Reykvíkinga sækja sér til heilsubótar og hressingar. Hefur sundgestum fjölgað ár frá ári og er talið að aðsóknin hafi farið yfir tvær milljónir á árinu 2011. Í reykvískum sundlaugum birtist vel sá þáttur í menningu borgarbúa, sem fólginn er í nýtingu heita vatnsins en með sundferð er á einstakan hátt hægt að sameina holla hreyfingu, vellíðan og góðan félagsskap. Sundlaugarnar í Reykjavík njóta mikillar hylli ferðamanna og hafa hvað eftir annað vakið athygli í erlendum fjölmiðlum og þá er þjónusta við sjósundkappa vaxandi þáttur í starfsemi Ylstrandarinnar.

Í seinni grein verður fjallað nánar um æskulýðs- og frístundastarfið og þá uppskiptingu, sem gerð var á ÍTR á afmælisárinu.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 4. janúar 2012.

Íþróttir og æska í kreppu

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi efnir til málefnafundar um íþrótta- og æskulýðsmál í aðdraganda prófkjörs sjálfstæðismanna hinn 23. janúar. Fundurinn verður haldinn nk. miðvikudag 13. janúar kl. 17:00 á kosningaskrifstofu Kjartans að Ármúla 18.

Til hvaða aðgerða hefur borgarstjórn gripið til að tryggja að kreppan komi ekki niður á æskunni?
Hvar verður hagrætt til að bregðast við ástandinu?
Hvað hefur áunnist og hver eru verkefnin framundan?

Nýju ári heilsað með hressandi sjósundi

Sjó›sund og heitur pottur íŒ Nauthó›lsvíŒk

Ég var í hópi þeirra sem heilsuðu nýju ári með hressandi sjósundi í Nauthólsvík í morgun. Áður hef ég nokkrum sinnum tekið sundtökin í íslenskum fjallavötnum eða í sjónum við Ísland að sumarlagi og fundist nóg um kuldann þótt sundið hafi vissulega verið afar hressandi. Ég kveið því svolítið fyrir því að kasta mér til sunds í Nauthólsvík að morgni nýársdags, ekki síst þegar mér var tjáð að sjávarhitinn væri -1,7°C. Þegar út í var komið, fannst mér tilfinningin vera svipuð og að stinga sér í sjóinn að sumarlagi þótt sjórinn hafi auðvitað verið mun kaldari nú. Ef til vill sótti ég styrk í þá vitneskju að strax að loknu sundi, biði mín heitur pottur við þjónustumiðstöð Ylstrandarinnar í Nauthólsvík.

Heiti potturinn á ylströndinni í Nauthólsvík var unaðslegur eftir kulsamt sjósundið.

Að loknu nýárssundi sat ég fjölmennan stofnfund Sjósund- og sjóbaðfélags Reykjavíkur í veitingastaðnum Rúbín í Öskjuhlíð. Aðalmarkmið félagsins er að efla og stuðla að betri aðstöðu til sjósunds og sjóbaða í Nauthólsvík. Benedikt Hjartarson sundkappi er fyrsti formaður félagsins og Árni Þór Árnason varaformaður.

Gagnlegar umræður urðu á stofnfundinum um hagsmunamál félagsins og var þar ýmsum ábendingum komið á framfæri um bætta aðstöðu sem og hugmyndum um framtíðarþróun svæðisins. Í ávarpi fagnaði ég stofnun félagsins og flutti því góðar óskir frá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur, sem sér um rekstur Ylstrandarinnar og þjónustumiðstöðvarinnar þar. Greindi ég frá því að hugmyndir þær, sem komu fram á fundinum, yrðu teknar til umfjöllunar á vettvangi Íþrótta- og tómstundaráðs.

40% fjölgun þátttakenda milli ára í Gamlárshlaupi ÍR

Gamlárshlaup ͕R

Metþátttaka var í Gamlárshlaupi Íþróttafélags Reykjavíkur þegar 937 þátttakendur þreyttu hlaupið, samanborið við 670 þátttakendur í fyrra. Um er að ræða 40% fjölgun þátttakenda í Gamlárshlaupinu á millli ára. Þessi aukning er fagnaðarefni og er góður vitnisburður um metnaðarfullt starf ÍR-inga, sem og raunar annarra íþróttafélaga í Reykjavík þar sem stundaðar eru frjálsar íþróttir og/eða hvatt til hlaupa með ýmsum hætti. Ég tel að einnig megi skýra þessa fjölgun með almennri heilsuvakningu, sem á sér nú stað meðal almennings, og kemur m.a. fram í stóraukinni ásókn og notkun á íþróttamannvirkjum Reykjavíkurborgar.

Í Gamlárshlaupinu er farinn 10 kílómetra hringur um Miðbæinn, út á Seltjarnarnes og síðan um Vesturbæinn og komið er í mark við Ráðhús Reykjavíkur. Veður var gott að þessu sinni, nokkuð kalt en stillt. Það er oft galsi í þátttakendum í Gamlárshlaupinu og æ fleiri hlaupa í litskrúðugum búningum og gera hlaupið þannig skemmtilegra. Við endamarkið ríkir góð stemmning enda eru allir ánægðir með að hafa drifið sig í hlaupið. Sumir e.t.v. hissa á því hvað þeir eru þungir á sér eftir stórveislurnar og heita því þá um leið að koma sér í enn betra form á komandi ári.

Gamlárshlaupið, sem nú var þreytt í 34. sinn, er íþróttaviðburður sem einkennist af hæfilegri blöndu af gleði, áreynslu við hæfi hvers og eins og heilbrigðri keppni. Ég þakka ÍR-ingum fyrir að auðga borgarlífið með því að standa árlega fyrir þessu skemmtilega og vel skipulagða hlaupi.

Metþátttaka í Reykjavíkurmaraþoni

Hlaupið úti við strönd, Nesið í baksýn.
Hlaupið úti við strönd, Nesið í baksýn.
Metþátttaka í Reykjavíkurmaraþoni.
Reykjavíkurmaraþon fór fram í dag þegar 11.487 þátttakendur hlupu um götur borgarinnar og var um metþátttöku að ræða. Maraþonið fór nú fram í 26. sinn og hefur fest sig í sessi sem einn helsti íþróttaviðburður landsins. Ánægjulegt er að sjá hve margir koma utan af landi og frá útlöndum, gagngert til að taka þátt í hlaupinu. Skipuleggjendur maraþonsins leggja sig fram um að bjóða hlaup og heilbrigða áreynslu við hæfi allra, þeir sem hlaupa ekki hálft eða heilt maraþon, geta hlaupið tíu kílómetra, þrjá kílómetra, nú eða bara tekið þátt í hinu bráðskemmtilega Latabæjarmaraþoni, sem er enn styttra. Ég hef aldrei skynjað það jafnsterkt í nokkru íþróttamóti eins og Reykjavíkurmaraþoni, að aðalatriðið er að vera með og skemmta sér.
Stemmningin sem myndast þegar þúsundir hlaupara þjóta af stað eftir Lækjargötunni er einstök. Sumir keppa einbeittir að ákveðnu markmiði og láta ekkert trufla sig, aðrir spjalla saman á leiðinni og gera að gamni sínu eins og þeir væru í heita pottinum. Þegar komið er á leiðarenda eru allir sigurvegarar og margir ánægðir með sjálfa sig fyrir að hafa drifið sig í hlaupið og ekki síður fyrir æfingarnar um sumarið.
Mörg undanfarin ár hef ég skokkað á sumrin mér til ánægju og hæfilegrar áreynslu. Það kann að hljóma sem þversögn en mér finnst afslappandi að hlaupa, ekki síst ef mikið er að gera í vinnunni. Fyrstu árin hljóp ég tíu kílómetrana en árið 2000 hljóp ég í fyrsta sinn hálfmaraþon, þegar ég tók þátt í Brúarhlaupinu við vígslu Eyrarsundsbrúarinnar, sem tengir Danmörku og Svíþjóð. Nokkrum sinnum hef ég tekið þátt í skemmtilegum hlaupum úti á landi, t.d. í Jökulsárhlaupinu frá Dettifossi í Ásbyrgi og í Vesturgötuhlaupinu, sem hlaupið er í ægifögru landslagi milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hálfmaraþon sé hæfileg vegalengd fyrir mig en vissulega hefur mig langað til að reyna heilmaraþon, 42 kílómetra, þótt það væri ekki nema einu sinni. Nú ákvað ég að láta á það reyna þótt ég hefði vissulega viljað hafa meiri tíma í sumar til æfinga fyrir svo langt hlaup.
Í stuttu máli sagt þá gekk hlaupið ágætlega og ég hljóp vegalengdina á rúmum fjórum klukkustundum, 4:09:42. Gaman er að skokka um borgina í góðu veðri og maður fær nægan tíma til margvíslegra hugsana. Eftir rúma þrjátíu kílómetra fór ég að þreytast, eftir 36 kílómetra hægði ég verulega á mér og urðu síðustu sex kílómetrarnir erfiðir. Rétt áður en ég kom í mark tók Gunnlaugur Júlíusson kurteislega fram úr mér, sem mér fannst í sjálfu sér heiður fyrir mig. Ég gladdist innra með mér yfir því að ég skyldi ná þeim árangri að koma á svipuðum tíma í mark og þessi hrausti ofurhlaupari. Ég vissi ekki þá að Gunnlaugur hafði vaknað fyrr en ég um morguninn og hlaupið heilt maraþon áður en hann kom og tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu með okkur hinum, sem sváfum út. Gunnlagur var því að koma í mark eftir 84 kílómetra morgunhlaup. Já, sæll.
Mögnuð menningarnótt
Það tekur tíma að jafna sig eftir maraþonhlaup en undir kvöldmat brölti ég á fætur og hélt niður í bæ á vit menningarnætur. Miðbærinn var að sjálfsögðu fullur af fólki sem skemmti sér vel enda fjölmörg skemmtiatriði í boði við allra hæfi. Árborg var gestasveitarfélag menningarnætur að þessu sinni og var metnaðarfull dagskrá á vegum þess í Tjarnarsal Ráðhússins. Að vanda lauk skipulagðri dagskrá með glæsilegri flugeldasýningu í boði Orkuveitunnar um klukkan ellefu. Eftir sýninguna hélt ég heimleiðis ásamt börnum mínum, Snæfríði og Magnúsi, en greinilegt var þegar við fórum í gegnum Miðbæinn að hjá mörgum var hátíðin rétt að byrja.

Reykjavíkurmaraþon fór fram í dag þegar 11.487 þátttakendur hlupu um götur borgarinnar og var um metþátttöku að ræða. Maraþonið fór nú fram í 26. sinn og hefur fest sig í sessi sem einn helsti íþróttaviðburður landsins. Ánægjulegt er að sjá hve margir koma utan af landi og frá útlöndum, gagngert til að taka þátt í hlaupinu. Skipuleggjendur maraþonsins leggja sig fram um að bjóða hlaup og heilbrigða áreynslu við hæfi allra, þeir sem hlaupa ekki hálft eða heilt maraþon, geta hlaupið tíu kílómetra, þrjá kílómetra, nú eða bara tekið þátt í hinu bráðskemmtilega Latabæjarmaraþoni, sem er enn styttra. Ég hef aldrei skynjað það jafnsterkt í nokkru íþróttamóti eins og Reykjavíkurmaraþoni, að aðalatriðið er að vera með og skemmta sér.

Stemmningin sem myndast þegar þúsundir hlaupara þjóta af stað eftir Lækjargötunni er einstök. Sumir keppa einbeittir að ákveðnu markmiði og láta ekkert trufla sig, aðrir spjalla saman á leiðinni og gera að gamni sínu eins og þeir væru í heita pottinum. Þegar komið er á leiðarenda eru allir sigurvegarar og margir ánægðir með sjálfa sig fyrir að hafa drifið sig í hlaupið og ekki síður fyrir æfingarnar um sumarið.

Mörg undanfarin ár hef ég skokkað á sumrin mér til ánægju og hæfilegrar áreynslu. Það kann að hljóma sem þversögn en mér finnst afslappandi að hlaupa, ekki síst ef mikið er að gera í vinnunni. Fyrstu árin hljóp ég tíu kílómetrana en árið 2000 hljóp ég í fyrsta sinn hálfmaraþon, þegar ég tók þátt í Brúarhlaupinu við vígslu Eyrarsundsbrúarinnar, sem tengir Danmörku og Svíþjóð. Nokkrum sinnum hef ég tekið þátt í skemmtilegum hlaupum úti á landi, t.d. í Jökulsárhlaupinu frá Dettifossi í Ásbyrgi og í Vesturgötuhlaupinu, sem hlaupið er í ægifögru landslagi milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hálfmaraþon sé hæfileg vegalengd fyrir mig en vissulega hefur mig langað til að reyna heilmaraþon, 42 kílómetra, þótt það væri ekki nema einu sinni. Nú ákvað ég að láta á það reyna þótt ég hefði vissulega viljað hafa meiri tíma í sumar til æfinga fyrir svo langt hlaup.

Í stuttu máli sagt þá gekk hlaupið ágætlega og ég hljóp vegalengdina á rúmum fjórum klukkustundum, 4:09:42. Gaman er að skokka um borgina í góðu veðri og maður fær nægan tíma til margvíslegra hugsana. Eftir rúma þrjátíu kílómetra fór ég að þreytast, eftir 36 kílómetra hægði ég verulega á mér og urðu síðustu sex kílómetrarnir erfiðir. Rétt áður en ég kom í mark tók Gunnlaugur Júlíusson kurteislega fram úr mér, sem mér fannst í sjálfu sér heiður fyrir mig. Ég gladdist innra með mér yfir því að ég skyldi ná þeim árangri að koma á svipuðum tíma í mark og þessi hrausti ofurhlaupari. Ég vissi ekki þá að Gunnlaugur hafði vaknað fyrr en ég um morguninn og hlaupið heilt maraþon áður en hann kom og tók þátt í Reykjavíkurmaraþoninu með okkur hinum, sem sváfum út. Gunnlagur var því að koma í mark eftir 84 kílómetra morgunhlaup. Já, sæll.

Mögnuð menningarnótt

Það tekur tíma að jafna sig eftir maraþonhlaup en undir kvöldmat brölti ég á fætur og hélt niður í bæ á vit menningarnætur. Miðbærinn var að sjálfsögðu fullur af fólki sem skemmti sér vel enda fjölmörg skemmtiatriði í boði við allra hæfi. Árborg var gestasveitarfélag menningarnætur að þessu sinni og var metnaðarfull dagskrá á vegum þess í Tjarnarsal Ráðhússins. Að vanda lauk skipulagðri dagskrá með glæsilegri flugeldasýningu í boði Orkuveitunnar um klukkan ellefu. Eftir sýninguna hélt ég heimleiðis ásamt börnum mínum, Snæfríði og Magnúsi, en greinilegt var þegar við fórum í gegnum Miðbæinn að hjá mörgum var hátíðin rétt að byrja.

Glæsilegur Víkingsvöllur vígður

Nýr og glæsilegur gervigrasvöllur Víkings í Fossvogsdal var formlega tekinn í notkun í dag í góðu veðri. Hanna Birna Kristjánsdóttir vígði völlinn ásamt ungum iðkendum úr Víkingi. Þar með hefur þeim áfanga verið náð í þágu íþróttastarfs að öll íþróttafélög borgarinnar ráða nú yfir gervigrasvelli til æfinga og eru flestir þeirra upphitaðir.
Efnið á vellinum er af svokallaðri þriðju kynslóð gervigrass og er reiknað með að nýting á slíkum velli sé um fimmtán sinnum meiri en á hefðbundnum grasvelli! Völlurinn er 111 x 73 metrar að stærð en merktur völlur er 105 x 68 metrar. Hann er upphitaður með hitakerfi og nemur heildarlengd plastpípna til upphitunar um 33 kílómetrum. Þá er völlurinn flóðlýstur með sex 18 metra háum möstrum. Alls er búið að dreifa um 146 tonnum af sandi á völlinn og um 52 tonnum af gúmmíkurli.
Víkingar hafa beðið eftir gervigrasvellinum í mörg ár og er auðheyrt að þeir binda miklar vonir við hann til eflingar knattspyrnu hjá félaginu, ekki síst í barna- og unglingastarfi.
Upphaf framkvæmdarinnar má rekja til tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í íþrótta- og tómstundaráði í ágúst 2004, um að hafinn yrði undirbúningur að lagningu gervigrasvallar á félagssvæði Víkings. Ári síðar, í september 2005 lögðum við sjálfstæðismenn til að undirbúningsvinnu yrði hraðað og völlurinn lagður á árinu 2006. Fulltrúar R-listans felldu tillöguna en þess í stað var samþykkt að stefnt yrði að því að umræddur völlur yrði tekinn í notkun árið 2007. Framkvæmdir við völlinn hófust þó ekki fyrr en haustið 2007 er nýlokið eins og áður segir.
Eftir vígsluna voru veitingar í boði og síðan fylgdist ég með fjörugum leik Víkings og Aftureldingar, sem lyktaði með markalausu jafntefli. Óhætt er að segja að íþróttasvæði Víkings í Fossvogi er eitt hið fegursta og veðursælasta í Reykjavík og þangað er ætíð gott að koma.
Ég óska Víkingum til hamingju með glæsilegan gervigrasvöll og er þess fullviss að hann mun um ókomin ár efla hreysti og líkamlegt sem andlegt atgervi barna- og ungmenna í Fossvogi, Bústöðum, Smáíbúðahverfi og Blesugróf.

Nýr og glæsilegur gervigrasvöllur Víkings í Fossvogsdal var formlega tekinn í notkun í dag í góðu veðri. Hanna Birna Kristjánsdóttir vígði völlinn ásamt ungum iðkendum úr Víkingi. Þar með hefur þeim áfanga verið náð í þágu íþróttastarfs að öll íþróttafélög borgarinnar ráða nú yfir gervigrasvelli til æfinga og eru flestir þeirra upphitaðir.

Efnið á vellinum er af svokallaðri þriðju kynslóð gervigrass og er reiknað með að nýting á slíkum velli sé um fimmtán sinnum meiri en á hefðbundnum grasvelli! Völlurinn er 111 x 73 metrar að stærð en merktur völlur er 105 x 68 metrar. Hann er upphitaður með hitakerfi og nemur heildarlengd plastpípna til upphitunar um 33 kílómetrum. Þá er völlurinn flóðlýstur með sex 18 metra háum möstrum. Alls er búið að dreifa um 146 tonnum af sandi á völlinn og um 52 tonnum af gúmmíkurli.

Víkingar hafa beðið eftir gervigrasvellinum í mörg ár og er auðheyrt að þeir binda miklar vonir við hann til eflingar knattspyrnu hjá félaginu, ekki síst í barna- og unglingastarfi.

Upphaf framkvæmdarinnar má rekja til tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í íþrótta- og tómstundaráði í ágúst 2004, um að hafinn yrði undirbúningur að lagningu gervigrasvallar á félagssvæði Víkings. Ári síðar, í september 2005 lögðum við sjálfstæðismenn til að undirbúningsvinnu yrði hraðað og völlurinn lagður á árinu 2006. Fulltrúar R-listans felldu tillöguna en þess í stað var samþykkt að stefnt yrði að því að umræddur völlur yrði tekinn í notkun árið 2007. Framkvæmdir við völlinn hófust þó ekki fyrr en haustið 2007 er nýlokið eins og áður segir.

Eftir vígsluna voru veitingar í boði og síðan fylgdist ég með fjörugum leik Víkings og Aftureldingar, sem lyktaði með markalausu jafntefli. Óhætt er að segja að íþróttasvæði Víkings í Fossvogi er eitt hið fegursta og veðursælasta í Reykjavík og þangað er ætíð gott að koma.

Ég óska Víkingum til hamingju með glæsilegan gervigrasvöll og er þess fullviss að hann mun um ókomin ár efla hreysti og líkamlegt sem andlegt atgervi barna- og ungmenna í Fossvogi, Bústöðum, Smáíbúðahverfi og Blesugróf.