Glæsilegt landsmót í Reykjavík

Landsmót hestamanna var haldið í Reykjavík 25. júní – 1. júlí, og var aðstandendum sem og þátttakendum til mikils sóma. Með velheppnuðu móti hefur höfuðborgin sannað gildi sitt sem frábær landsmótsstaður enda voru aðstæður á Fákssvæðinu í Víðidal eins og best verður á kosið.

Landsmót hefur mikla þýðingu fyrir hestaíþróttina og félagsstarf hestamanna. Hestafólk á öllum aldri fær eitthvað við sitt hæfi hvort sem það starfar við fagið eða stundar hestamennsku sér til gamans. Ásamt því að vera skemmtilegur fjölskylduviðburður er mótið líka mikil mannlífsupplifun enda koma þátttakendur hvaðanæva að af landinu.
Vikuveisla í Víðidal

Landsmótið var haldið af Landssambandi hestamanna og Bændasamtökunum í góðu samstarfi við Hestamannafélagið Fák og Reykjavíkurborg. Í október 2009 lýsti borgarráð yfir stuðningi við umsókn Fáks og í ársbyrjun 2010 var ákveðið að landsmótið yrði haldið í Reykjavík. Mótið ber upp á níutíu ára afmælisári Fáks og má með sanni segja að afmælisveislan hafi staðið í viku.

Þar sem Landsmótið er alþjóðlegt stórmót eru miklar kröfur gerðar til aðbúnaðar og umgjarðar. Víðidalur er sannkölluð útivistarperla og gott starf hefur verið unnið við að fegra dalinn og bæta aðstæður þar til hestamennsku og annarrar útiveru.

Tækifæri í ferðaþjónustu

Talið er að nú séu um 220 þúsund íslenskir hestar til í heiminum og þar af eru um 140 þúsund erlendis. Íslenski hesturinn er því vinsæll sendiherra, sem ber hróður landsins víða. Í ljósi þess þarf engan að undra að Landsmót er einn stærsti viðburður ársins í ferðaþjónustu á Íslandi. Þúsundir útlendra gesta komu á landsmótið og luku margir lofsorði á framkvæmd þess. Ástæða er til að skoða möguleika á frekari eflingu ferðaþjónustu í tengslum við hestamennsku og þar gæti Fákssvæðið í Víðidal gegnt mikilvægu hlutverki. T.d. mætti skoða hvort ekki væri hægt að fjölga þar viðburðum og mótum og nota afl ferðaþjónustunnar til að markaðssetja þá erlendis. Í ljósi nýrrar hótelspár fyrir Reykjavík má jafnframt skoða hug aðila í ferðaþjónustu til þess að reisa hótel í nágrenni við Fákssvæðið og aðra frábæra útivistarkosti á þeim slóðum; t.d. sund, stangveiði og skíði.

– – –

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. júlí 2012.

Hrein borg – fögur torg

Skóla- og frístundaráð samþykkti á síðasta fundi sínum tillögu Sjálfstæðisflokksins um að auka fræðslu í grunnskólum Reykjavíkur um mikilvægi þess að halda borginni hreinni. Eru skólastjórar hvattir til að virkja nemendur í að hreinsa í kringum skólana og tína rusl í nágrenni þeirra, enda hefur slíkt ótvírætt fræðslu- og uppeldisgildi.

Brýnt er að vinna stöðugt að því að draga úr óþrifnaði í Reykjavík og virkja sem flesta í því skyni. Oft er bent á að borgin sé á meðal hinna þrifalegustu í heimi, ekki síst vegna nýtingar okkar á hreinum orkugjöfum til húshitunar og annarra daglegra þarfa. Það er vafalaust rétt en almennum þrifnaði í borginni er hins vegar víða ábótavant. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að sjá til þess að Reykjavík komist einnig í fremstu röð að þessu leyti.

Ekki síst þarf að stuðla að jákvæðu viðhorfi barna og ungmenna til umhverfismála og vinna þannig gegn óþrifnaði og sóðaskap. Í mörgum leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum, og félagsmiðstöðvum er unnið gott starf við að vekja börn til vitundar um þessi mál. Sjálfsagt er að tryggja að enginn skóli verði út undan í þeirri vinnu og skoða leiðir til þess að jákvæður áróður í þágu þessara mála verði bættur og gerður markvissari.

Í einhverjum tilvikum eru nemendur látnir þrífa í kringum skólana með reglubundnum hætti og jafnvel tína rusl í nágrenni þeirra. Nýlega var t.d. haldinn sérstakur hreinsunardagur í Hagaskóla þar sem nemendur létu til sín taka og tíndu rusl víða í hverfinu. Þetta fyrirmyndarverkefni hafði ótvírætt fræðslu- og uppeldisgildi og vakti mikla athygli og ánægju meðal íbúa hverfisins.

Á síðasta kjörtímabili samþykkti menntaráð að árlega skyldi efnt til svokallaðra umhverfisdaga í grunnskólum Reykjavíkur, sem skilgreindir yrðu sérstaklega sem grænir dagar á skóladagatali. Annar dagurinn skyldi tengdur hreinsun og fegrun umhverfisins og er ákjósanlegt að tengja slík hreinsunarverkefni skóla þessum degi.

– – –

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 23. maí 2012.

Illa staðið að breytingum á skólahaldi í Reykjavík

Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur hefur valdið uppnámi í mörgum hverfum borgarinnar með vanhugsuðum og illa undirbúnum breytingum á skólahaldi. Þegar umræddar breytingar voru samþykktar á síðasta ári var því hátíðlega lofað af borgarfulltrúum meirihlutans að víðtækt samráð yrði haft við nemendur, foreldra og kennara í vinnu þeirri, sem fram undan væri vegna breytinganna. Á síðustu vikum og mánuðum hefur berlega komið í ljós að umrædd loforð voru innantóm og merkingarlaus.

Sjálfsögðum spurningum ekki svarað

Á fundum stýrihópa, sem leiða eiga breytingarferlið í einstökum skólum, hafa ekki fengist svör við ýmsum mikilvægum spurningum foreldra um fyrirhugaðar breytingar eða framtíðarfyrirkomulag kennslunnar. Einföld skýring er þó til á því af hverju þeir embættismenn, sem sækja slíka fundi fyrir hönd borgarinnar, geta ekki svarað slíkum spurningum. Hún er sú að stefnumótun borgarstjórnarmeirihlutans er í molum og ekki liggur fyrir hvernig ýmsum mikilvægum úrlausnarefnum verður ráðið til lykta. Embættismenn vísa slíkum spurningum því til kjörinna fulltrúa, en þar hafa foreldrar síðan komið að tómum kofunum.

Dæmi um þetta eru ótrúleg samskipti, sem foreldrar í Hamraskóla hafa átt við Oddnýju Sturludóttur, formann skóla- og frístundaráðs, að undanförnu. Þar sem fátt varð um svör hjá embættismönnum óskuðu foreldrarnir eftir skýrum svörum frá Oddnýju um flutning unglingadeildar skólans í annað hverfi, hvaða ávinningi hún myndi skila svo og um framtíð sérdeildar í skólanum. Oddný neitaði lengi vel óskum um að koma á fund í Hamraskóla til að ræða málin en gerði foreldrum á móti það tilboð að hún væri til í að veita þremur fulltrúum þeirra áheyrn á skrifstofu sinni í Ráðhúsinu. Foreldrar tóku ekki þessu kostaboði en héldu engu að síður fund þar sem mikil óánægja kom fram með vinnubrögð meirihlutans.

Fulltrúum foreldra nóg boðið

Fulltrúar meirihlutans féllust loks á að koma á fund með foreldrum í Hamraskóla sl. miðvikudag. Fundurinn var afar fjölmennur og þar kom skýrt fram sá vilji foreldra að þeir vilja ekki missa unglingadeild skólans úr hverfinu. Í máli hinna fjölmörgu foreldra, sem tjáðu sig á fundinum, komu fram miklar efasemdir um fjárhagslegan og faglegan ávinning af umræddum flutningi og mjög var kvartað yfir lélegum vinnubrögðum í málinu. Fulltrúar meirihlutans höfðu hins vegar ekkert nýtt fram að færa á fundinum og kom þar betur í ljós en áður að öll stefnumótun hans virðist á sandi byggð.

Formenn foreldrafélaganna í Hamraskóla og Húsaskóla hafa nú báðir sagt sig úr stýrihópi vegna umrædds flutnings unglingadeilda þar sem óskir foreldra og jafnvel fyrirspurnir eru algerlega virtar að vettugi. Þannig er samráðið í framkvæmd hjá borgarfulltrúum Samfylkingar og Besta flokksins.

Óánægja foreldra í Hamrahverfi með vinnubrögð borgarstjórnarmeirihlutans er ekki einsdæmi. Í öðrum hverfum funda foreldrar og samþykkja ályktanir þar sem sleifarlagi meirihlutans er mótmælt. Einnig ríkir mikil óvissa í þeim hverfum þar sem meirihlutinn ætlaði upphaflega að knýja fram breytingar en hvarf frá þeim tímabundið sl. vor eftir mestu fjöldamótmæli foreldra vegna skólamála í borginni.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 6. febrúar 2012.

Íþrótta- og tómstundaráð – 25 ár í fararbroddi (seinni grein)

Öflugt æskulýðsstarf fer fram í félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Félagsmiðstöðvarnar eru nú 23 talsins og þar til nú hefur ÍTR annast rekstur þeirra. Allir á aldrinum 10-15 ára eru velkomnir í félagsmiðstöðvarnar og þar er m.a. leitast við að gefa þeim einstaklingum kost á heilbrigðum og uppbyggilegum frístundum, sem ekki taka þátt í íþróttastarfi félaga eða félagsstarfi í skólum. ÍTR stendur fyrir ýmsu öðru æskulýðsstarfi og má þar nefna Hitt húsið, sem nýtt er af ungmennum á aldrinum 16-25 ára, Ungmennaráð fyrir 13-18 ára, Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna og siglingaklúbbinn Siglunes í Nauthólsvík.

Öflugt æskulýðs- og frístundastarf
Í Reykjavík eru starfræktar sex frístundamiðstöðvar, 34 frístundaheimili og fjórir frístundaklúbbar fyrir fötluð börn. 6-9 ára börn fara í frístundaheimili að loknum hefðbundnum skóladegi og á síðustu ellefu árum hefur ÍTR unnið sleitulaust að uppbyggingu og þróun þessa frístundastarfs með góðum árangri.

Farsæl starfsemi ÍTR
Stjórnmálamenn koma og fara. Í 25 ára sögu Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur hafa sjö einstaklingar gegnt þar formennsku. Allir hafa þeir haft ríkan metnað fyrir hönd ráðsins og komið mörgu góðu til leiðar. Ekki er hægt að fjalla um stjórnun málaflokksins án þess að víkja að Ómari Einarssyni, sem verið hefur framkvæmdastjóri ÍTR frá upphafi. Hefur Ómar gegnt því starfi allan tímann af miklum krafti og einurð með vaskan hóp starfsmanna sér við hlið. Eru fáir embættismenn ef nokkrir, sem gera sér jafngóða grein fyrir því að þeir eru fyrst og fremst í þjónustu fólksins í borginni og leggja sig fram við að leysa af lipurð mörg aðsteðjandi vandamál en láta þó ekki undan ósanngjörnum kröfum og heimtufrekju gagnvart skattgreiðendum, sem embættismenn borgarinnar standa einnig frammi fyrir í ríkum mæli.

Í aldarfjórðung hafa Reykvíkingar verið afar ánægðir með starfsemi ÍTR. Í viðhorfs- og þjónustukönnunum hefur ÍTR ætíð verið í fremstu röð og oftast verið sú borgarstofnun, sem hæstu ánægjueinkunn hefur fengið meðal borgarbúa. Á starfstíma ÍTR hafa starfsmenn þess hvað eftir annað gripið tækifærið til að bæta starfsemina og náð miklum árangri á því sviði. Það hefur ekki verið á forsendum þess að breyta þurfi breytinganna vegna, heldur á grundvelli vandaðra vinnubragða og viðurkenndrar breytingastjórnunar.

Undarleg afmælisgjöf
Það olli því furðu og vonbrigðum þegar núverandi meirihluti Samfylkingarinnar og Besta flokksins ákvað á afmælisárinu, án haldbærra skýringa, að kljúfa starfsemi ÍTR, þar sem borgarfulltrúi Besta flokksins fer með formennsku, í herðar niður og færa stóran hluta starfseminnar til annars ráðs borgarinnar, þar sem Samfylkingin heldur um stjórnartauma. Um er að ræða sex frístundamiðstöðvar, 23 félagsmiðstöðvar, 34 frístundaheimili og fjóra frístundaklúbba fyrir fötluð börn. Voru þessar breytingar unnar með ótrúlega óvönduðum hætti af hálfu meirihlutans. Var þeim síðan hrint í framkvæmd í andstöðu við vilja mikils meirihluta starfsmanna og án þess að þeir eða notendur þjónustunnar fengju á því skýringar eða væri gefinn tími til að tjá sig um breytingarnar með eðlilegum hætti. Ráðist var í breytingarnar án þess að stefnumörkun eða framtíðarsýn lægi fyrir eða að sýnt væri fram á með nokkrum hætti að þær skiluðu hagræðingu. Lét meirihlutinn sjálfsagðar ábendingar starfsmanna og annarra fagaðila um mikilvægi eðlilegrar undirbúningsvinnu, áður en ákvarðanir um breytingar yrðu teknar, sem vind um eyru þjóta. Ríkti lítil afmælisstemmning hjá starfsfólki ÍTR á afmælisárinu vegna þessa, en sem fyrr lagði það sig þó allt fram í störfum sínum.

Vil ég af heilum hug þakka öflugu starfsliði ÍTR undanfarinn aldarfjórðung fyrir gott starf að íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamálum, í þágu uppvaxandi kynslóðar borgarbúa, og vona að framtíð málaflokksins sé björt. Landsmönnum öllum óska ég gleðilegs árs og friðar.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 7. janúar 2012.

Íþrótta- og tómstundaráð – 25 ár í fararbroddi (fyrri grein)

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur (ÍTR) átti aldarfjórðungsafmæli á nýliðnu ári. Þótt lítið hafi farið fyrir hátíðarhöldum vegna afmælisins, er ekki úr vegi að líta um öxl í lok afmælisárs og meta hvernig ráðið hefur sinnt hlutverki sínu í gegnum tíðina í þágu íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmála í Reykjavík.

Íþrótta- og tómstundaráð varð til við sameiningu Íþróttaráðs og Æskulýðsráðs Reykjavíkur árið 1986. Þessi ráð höfðu hvort á sínu sviði unnið gott starf í þágu Reykvíkinga um áratuga skeið og voru skoðanir vissulega skiptar um það hvort rétt væri að sameina þau. Borgaryfirvöld ákváðu að sameina krafta þessara ráða í því skyni að efla enn frekar starf í þágu barna og ungmenna, hvort sem það væri unnið á vegum borgarinnar eða frjálsra félaga og samtaka.

Tíminn hefur leitt í ljós að það var rétt ákvörðun að sameina rekstur íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamála með þeim hætti sem gert var árið 1986. Miklar framfarir hafa orðið í þessum málaflokkum enda hefur stöðugt verið unnið að þróun þeirra undir merkjum ÍTR. Langflest börn og unglingar í borginni taka nú þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi með einhverjum hætti.

Íþróttir fyrir alla
Ljóst er að allar aðstæður til íþróttaiðkunar hafa stórbatnað í Reykjavík á undanförnum áratugum. Mörg íþróttahús hafa verið reist í tengslum við skólabyggingar eða íþróttafélög og hafa flest þeirra fyllst jafnóðum af börnum og unglingum eða fullorðnu fólki, sem stundar þar íþróttaæfingar. Við byggingu og rekstur íþróttamannvirkja hefur Reykjavíkurborg lagt áherslu á að nýta krafta íþróttafélaganna í borginni enda þekkja þau best aðstæður í viðkomandi hverfi eða íþróttagrein. Fyrir hönd borgarinnar hefur ÍTR annast samskiptin við íþróttahreyfinguna og hefur það samstarf verið afar farsælt. Borgin hefur sjálf annast rekstur nokkurra íþróttamiðstöðva en á síðasta kjörtímabili var ákveðið að kanna möguleika á að hverfisíþróttafélög kæmu í auknum mæli að rekstri þeirra. Þannig hefur ÍR nú t.d. tekið að sér rekstur íþróttahúsanna við Seljaskóla og Austurberg í Breiðholti, Fjölnir í Grafarvogi sér um rekstur íþróttahússins við Dalhús, Ármann og Þróttur reka íþrótta- og félagsmannvirki sem þjóna félögunum í Laugardal og Fylkir rekur fimleikahúsið í Norðlingaholti.

Á síðasta kjörtímabili var Frístundakortinu svokallaða komið á fót og voru þá einnig undirritaðir sérstakir þjónustusamningar milli íþróttafélaganna og Reykjavíkurborgar þar sem m.a. er kveðið á um að félögin annist ákveðna þjónustu í mannvirkjum í skilgreindum hverfum eða íþróttagrein og fái á móti fjárframlag frá borginni. Hafa fyrrgreind atriði stuðlað að því að á fáum árum hefur orðið gífurleg fjölgun í barna- og unglingastarfi reykvískra íþróttafélaga. Þá hefur iðkendum í almenningsíþróttum einnig fjölgað verulega. Miðað við stærð Reykjavíkur er með ólíkindum hve margar íþróttagreinar eru stundaðar í borginni innan vébanda sjötíu sjálfstæðra íþróttafélaga, sem borgin á samstarf við með einum eða öðrum hætti.

Sæluríkar sundlaugar
ÍTR annast rekstur sjö almenningssundlauga auk ylstrandar í Nauthólsvík, sem tugþúsundir Reykvíkinga sækja sér til heilsubótar og hressingar. Hefur sundgestum fjölgað ár frá ári og er talið að aðsóknin hafi farið yfir tvær milljónir á árinu 2011. Í reykvískum sundlaugum birtist vel sá þáttur í menningu borgarbúa, sem fólginn er í nýtingu heita vatnsins en með sundferð er á einstakan hátt hægt að sameina holla hreyfingu, vellíðan og góðan félagsskap. Sundlaugarnar í Reykjavík njóta mikillar hylli ferðamanna og hafa hvað eftir annað vakið athygli í erlendum fjölmiðlum og þá er þjónusta við sjósundkappa vaxandi þáttur í starfsemi Ylstrandarinnar.

Í seinni grein verður fjallað nánar um æskulýðs- og frístundastarfið og þá uppskiptingu, sem gerð var á ÍTR á afmælisárinu.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 4. janúar 2012.

Samfylkingin í afneitun

Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi skrifar grein í Fréttablaðið á föstudag þar sem hún reynir að réttlæta slæleg vinnubrögð borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins vegna fjárhagsáætlunargerðar. Greinin sýnir að borgarfulltrúar Samfylkingar láta sér í léttu rúmi liggja að Reykjavíkurborg er komin rúmum fimm mánuðum fram yfir lögbundinn frest vegna skila á þriggja ára fjárhagsáætlun til innanríkisráðuneytisins.

Umræddur dráttur vegna fjárhagsáætlanagerðar er síður en svo eina dæmið um lausatök meirihlutans á fjármálum Reykvíkinga. Sama dag og grein Oddnýjar birtist, kom fram í fréttum að Kauphöllin hefur áminnt Reykjavíkurborg og beitt hana sektarviðurlögum fyrir að birta ársreikning of seint. Áður höfðu fréttir verið sagðar af því að Kauphöllin áminnti borgina fyrir að greina ekki frá milljarða lánveitingum til Orkuveitunnar í samræmi við reglur. Enn fremur að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, rannsakar nú hvort umræddar lánveitingar borgarinnar brjóti í bága við EES-samninginn.

Afneitun í stað ábyrgðar

Eitt er að svo illa sé haldið á málum af hálfu meirihlutans að borgin greiði vanrækslusektir og að yfirvofandi séu frekari viðurlög af hálfu ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Það bætir hins vegar ekki úr skák þegar borgarfulltrúar meirihlutans bregðast við viðvörunarorðum og óskum, um að þessir hlutir séu tafarlaust lagfærðir í samræmi við skýr lagafyrirmæli, með ásökunum um að um sé að ræða óþarfa upphrópanir og upphlaup.

Oddný gerir mikið úr því í grein sinni hvað það sé erfitt fyrir borgina að skila þriggja ára áætlun og reynir síðan, eins og Dagur B. Eggertsson, að kenna um óvissu vegna tilflutnings málefna fatlaðra, sem átti sér stað um síðustu áramót.

Enn skal minnt á að Reykjavíkurborg hefur áður tekið við stórum málaflokkum frá ríkinu án þess að það hafi sett áætlanagerð sveitarfélagsins í uppnám. Þá var það ekki bara Reykjavíkurborg heldur öll önnur sveitarfélag, sem tóku við umræddum málaflokki. Flest ef ekki öll önnur sveitarfélög landsins hafa nú skilað umræddri þriggja ára áætlun og ekki er vitað til þess að neitt þeirra, utan Reykjavíkurborgar, reyni að nota málefni fatlaðra sem afsökun fyrir því að skila ekki lögbundnum gögnum til ráðuneytisins.

 

— — —

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. júlí 2011.

Aukafundar krafist í borgarstjórn Reykjavíkur

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna krefjast þess að vinnu við þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar um rekstur framkvæmdir og fjármál, verði hraðað eins og kostur er. Áætlunin verði síðan samþykkt á aukafundi borgarstjórnar, sem haldinn verði eigi síðar en 10. ágúst nk. Undir stjórn meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins hefur umræddri áætlanagerð verið klúðrað með ótrúlegum hætti en skv. 63. grein sveitarstjórnarlaga bar borginni að skila áætluninni til innanríkisráðuneytisins 15. febrúar sl.Þriggja ára áætlunin er mikilvægt stjórntæki og upplýsingagagn í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar sem og gagnvart fjölmiðlum og almenningi. Ótækt er að gengið sé gegn þeirri lögbundnu skyldu að skila slíkri áætlun til ráðuneytisins og með öllu óviðunandi að slík skil dragist í hálft ár eða lengur.Fyrirheit um að áætlunin yrði samþykkt fyrir sumarleyfi borgarstjórnar hafa ekki staðist og ljóst er að meirihlutinn hyggst ekki ganga til verksins fyrr en með haustinu og samþykkja áætlunina 7-8 mánuðum seinna en lögbundið er. Slíkt yrði algert einsdæmi og myndi kalla yfir borgina viðurlög og stefna trausti hennar á fjármálamörkuðum í hættu.

Vítavert kæruleysi meirihlutans

Einu svörin sem fást frá Degi B. Eggertssyni, formanni borgarráðs, um málið eru á þá leið að umræddur dráttur skýrist af óvissu vegna flutnings á málaflokki fatlaðra frá ríki til borgar um síðustu áramót. Þessi skýring stenst engan veginn enda hefur Reykjavíkurborg áður tekið við stórum málaflokkum frá ríkinu án þess að slíkur flutningur hafi verið notaður sem afsökun til að skila ekki lögbundnum áætlunum. Afar ósannfærandi er að halda því fram að stærsta sveitarfélag landsins geti ekki lokið þessu verki á réttum tíma enda er ekki vitað til að umræddur flutningur hafi hamlað áætlanaskilum hjá öðrum sveitarfélögum. Augljóst er að verkstjórn oddvita Besta flokksins og Samfylkingar dugir ekki og því ber minnihlutanum að leggja fram tillögur til úrbóta. Í fimm mánuði hafa viðbrögð oddvitanna í þessu alvarlega máli einkennst af kæruleysi gagnvart skýrum lagafyrirmælum og eftirrekstri af hálfu ráðuneytisins. Er til of mikils mælst að þeir Dagur og Jón geri sér grein fyrir alvöru málsins en hætti að líta á stjórnun Reykjavíkurborgar sem þægilega innivinnu?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 22. júlí 2011.

Upplausn í Ráðhúsi Reykjavíkur

Við núverandi aðstæður í efnahagsmálum skiptir miklu máli að Reykjavíkurborg haldi þeirri sterkri fjárhagslegu stöðu, sem byggð var upp á síðasta kjörtímabili undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Minnstu veikleikamerki geta hæglega rýrt traust borgarinnar gagnvart forsendum, en gott traust er forsenda þess að hún og fyrirtæki hennar geti sótt sér lánsfé á hagstæðum kjörum.

Við þessar aðstæður er það því mjög óheppilegt, svo ekki sé meira sagt, að Reykjavíkurborg skuli enn ekki hafa skilað þriggja ára fjárhagsáætlun til ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Slíkri áætlun bar borginni að skila til ráðuneytisins í febrúar sl. samkvæmt 63. grein sveitarstjórnarlaga. Ótækt er að slík vinnubrögð þekkist hjá langstærsta sveitarfélagi landsins. Fyrir utan þann álitshnekki, sem borgin verður fyrir, er hætta á að hún verði látin sæta viðurlögum vegna óhæfilegs dráttar.

Aldrei áður hefur vinna við þriggja ára fjárhagsáætlun tafist svo að ekki hafi náðst að afgreiða hana fyrir sumarleyfi borgarstjórnar. Fyrirspurnum einstakra borgarfulltrúa og fjölmiðla um málið hefur verið svarað með óviðunandi hætti af hálfu oddvita meirihlutaflokkanna og töldu þeir enga þörf á að ljúka umræddri áætlanagerð fyrir sumarfrí þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli um að henni hefði átt að vera lokið um miðjan febrúar.

Verkstjórn meirihlutans

Þriggja ára áætlun er með mikilvægustu stjórntækjum sveitarfélaga við fjármálastjórn. Með slíkri áætlun er mörkuð stefna í fjármálum til þriggja ára og er hún því mikilvægt vinnuplagg fyrir kjörna fulltrúa, embættismenn, fjölmiðla, almenning og aðra sem eru í fjárhagslegu sambandi við borgina. Afar mikilvægt er að slík áætlun liggi fyrir áður en vinna hefst við fjárhagsáætlun næsta árs. Yfirleitt hefst sú vinna á vormánuðum og er því ljóst að vinnu við gerð fjárhagsáætlunar 2012 er nú þegar komin í uppnám hjá Reykjavíkurborg.

Þetta er því miður ekki eina dæmið um lélega verkstjórn í Ráðhúsinu um þessar mundir. Borgarbúar hafa þegar fengið að kynnast verkstjórn meirihlutans með upplausn í skóla- og frístundamálum, vandræðagangi í sorphirðu og aðgerðaleysi í umhirðu borgarlóða svo nokkur atriði séu nefnd. Þótt fjármál borgarinnar séu ekki jafn sýnileg og bein þjónusta við borgarbúa getur kæruleysi og sleifarlag í þeim efnum ekki síður haft alvarlegar afleiðingar.

 

— — —

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu 21. júlí 2011.

Meirihluti borgarstjórnar klúðrar þriggja ára áætlun

Reykjavíkurborg hefur ekki enn skilað þriggja ára fjárhagsáætlun til ráðuneytis sveitarstjórnarmála eins og henni bar að gera í febrúar síðastliðnum. Óviðunandi er að þannig sé staðið að málum hjá langstærsta sveitarfélagi landsins og hætta er á að borgin verði látin sæta viðurlögum vegna óhæfilegs dráttar.

Í 63. grein sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að árlega skuli leggja fram og samþykkja þriggja ára áætlanir um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélaga. Skal áætlunin vera afgreidd af sveitarstjórn (borgarstjórn Reykjavíkur) innan tveggja mánaða frá afgreiðslu árlegrar fjárhagsáætlunar.
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var afgreidd 15. desember og hefði borgarstjórn því átt að fjalla um og afgreiða umrædda þriggja ára áætlun um miðjan febrúar. Öll nágrannasveitarfélögin hafa fyrir löngu skilað inn sinni áætlun en ekkert bólar á henni hjá Reykjavíkurborg.

Þýðing þriggja ára áætlunar

Fjárhagsáætlun, þriggja ára áætlun og ársreikningur eru mikilvægustu plöggin í fjármálastjórn sveitarfélaga. Gegna þessi plögg lykilhlutverki við eftirlit stjórnarráðsins gagnvart sveitarfélögum enda er mikil áhersla lögð á að þau séu afgreidd með réttum hætti og send ráðuneytinu. Slíkar áætlanir eru líka mikilvæg vinnugögn fyrir kjörna fulltrúa og embættismenn, sem vinna að fjármálum sveitarfélaga. Síðast en ekki síst eru slíkar áætlanir mikilvægar út frá lýðræðislegu sjónarmiði, í þeim fá almenningur og fjölmiðlar upplýsingar um stefnumörkun Reykjavíkurborgar í fjármálum sem og ýmsir aðilar, sem eru í fjármálalegum samskiptum við borgina. Mikilvægt er að þriggja ára áætlun liggi fyrir þegar vinna við fjárhagsáætlun næsta árs hefst og með því að afgreiða hana ekki hefur sú vinna verið sett í uppnám.

Vinnubrögðin í þessu máli eru táknræn fyrir þá upplausn og óvönduðu vinnubrögð, sem tíðkast nú í Ráðhúsi Reykjavíkur undir stjórn Jóns Gunnars Kristinssonar og Dags B. Eggertssonar. Aldrei áður hefur vinna við þriggja ára áætlun tafist svo að ekki hafi náðst að samþykkja hana fyrir sumarleyfi borgarstjórnar. Í raun má deila um hvort rétt hafi verið að senda borgarstjórn í sumarleyfi með þessa áætlun ófrágengna.

Ótrúverðugar skýringar

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að töfin stafi af yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til borgar um síðustu áramót. Í þessu sambandi má benda á að það var ekki bara Reykjavík, sem tók við þessum málaflokki frá ríkinu, heldur öll önnur sveitarfélög landsins. Er ekki vitað til þess að önnur sveitarfélög hafi þurft á fresti að halda vegna þessarar tilfærslu enda skiluðu þau flest af sér þriggja ára áætlun á fyrstu mánuðum ársins. Ekki má heldur gleyma því að Reykjavíkurborg hefur áður tekið á móti verkefnum frá ríkinu án þess að það hafi komið niður á áætlanagerð sveitarfélagsins og lögbundnum skilum á gögnum til ráðuneytis sveitarstjórnarmála.

Verkstjórnin í Ráðhúsinu

Þriggja ára áætlunin, eða öllu heldur skortur á henni, er því miður ekki eina klúðrið í Ráðhúsinu undir verkstjórn þeirra Dags og Jóns. Í liðnum mánuði áminnti Kauphöllin Reykjavíkurborg fyrir að greina ekki frá milljarða lánveitingu til Orkuveitunnar í samræmi við reglur. Á svipuðum tíma var einnig greint frá því að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, rannsaki hvort lánveitingar Reykjavíkurborgar til Orkuveitunnar brjóti í bága við EES-samninginn.

Fleira mætti nefna. En augljóst er að dæmin hrannast upp í Ráðhúsinu þar sem hagsmunir Reykvíkinga líða fyrir lélega verkstjórn borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingarinnar og Besta flokksins.

 

— — —

Þessi færsla birtist upphaflega í Morgunblaðinu hinn 18. júlí 2011.

 

Ósigur skattgreiðenda

Tónlistarhúsið Harpa er glæsilegt mannvirki enda um að ræða dýrasta hús Íslandssögunnar. Undarlegt er að á þeim tímamótum, sem opnun hússins er, virðast nokkrir af helstu fjölmiðlum landsins kjósa að fjalla einungis á jákvæðan hátt um húsið. (Hljómar kunnuglega.) Sumir fjölmiðlar einblína á viðbrögð ánægðra tónleikagesta en eru skattgreiðendur sáttir við að greiða stofn- og rekstrarkostnað í 35 ár? Full þörf er á að fjallað sé á gagnrýninn hátt um Hörpu eins og önnur verkefni og skattgreiðendur upplýstir um kostnað og óhjákvæmilega skuldadaga.

Í bæklingi um húsið, sem dreift hefur verið inn á hvert heimili, er ýtarlega fjallað um ýmsa þætti byggingarinnar en ekki minnst á kostnað. Í slíkum bæklingi hefði verið kjörið að upplýsa alþjóð um kostnað við bygginguna og heildarskuldbindingu skattgreiðenda. Skuldir hússins eru a.m.k. sá hluti þess, sem allir landsmenn munu eiga sameiginlega.

Harpa er dæmi um opinbert verkefni, sem stjórnmálamenn voru í upphafi fengnir til að styðja á grundvelli hóflegra kostnaðaráætlana en á síðari stigum hækkaði kostnaður upp úr öllu valdi.

Árið 1997 var rætt um að hægt væri að byggja gott tónlistarhús í Laugardal fyrir 1.550 milljónir króna. Árið 1998 hafði áætlunin hækkað í 2.500 milljónir og 1999 var hún komin í 3.500-4.000 milljónir. Í ársbyrjun 2002 var áætlað að húsið myndi kosta um 5.000 milljónir króna og árið 2003 var talan komin í 6.300 milljónir. Þegar hafist var handa við byggingu hússins var gert ráð fyrir því að byggingarkostnaður yrði um 12,5 milljarðar króna eða um 20 milljarðar að núvirði. Ekki liggja fyrir nýjar upplýsingar um heildarkostnað við bygginguna en hann er a.m.k. 28 milljarðar króna. Standist sú tala er fermetraverðið um ein milljón króna.

Vonandi standast yfirlýsingar aðstandenda hússins um að erlendir verktakar beri að mestu leyti kostnað vegna þegar framkominna galla við glerhjúp hússins. Málsmetandi arkitektar og verkfræðingar hafa þó lýst yfir áhyggjum yfir að mikil hætta sé á að frekari gallar muni koma í ljós, t.d. í stálvirki og gluggum hússins. Gott væri fyrir skattgreiðendur að vita hvort áhættumat hafi farið fram á byggingunni m.t.t. til slíkra galla.

 

— — —

Þessi færsla birtist upphaflega í Fréttablaðinu hinn 13. maí 2011.