Óábyrgt að flæma flugvallarstarfsemi úr Reykjavík

Í Reykjavík-vikublaði, sem kom út í dag, var eftirfarandi spurningu beint til borgarfulltrúa í Reykjavík: Ert þú fylgjandi því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni? Svar mitt er eftirfarandi:

Já. Þegar borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir því árið 2006 að þeir væru reiðubúnir að skoða hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar, var skýrt kveðið á um að ekki væri verið að tala um flutning til Keflavíkur heldur yrði að tryggja að flugvallarstarfsemi yrði áfram á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Frá upphafi hefur verið ljóst að þessi afstaða byggðist á tveimur forsendum; að gott flugvallarstæði fyndist í eða við Reykjavík og að ríkisvaldið myndi bera kostnaðinn vegna flutnings flugvallarins og uppbyggingar hans á nýjum stað.

Báðar þessar forsendur eru brostnar. Engin niðurstaða hefur náðst varðandi nýtt flugvallarstæði og flestum er ljóst að ríkið hefur hvorki vilja né getu til að veita tugi milljarða króna úr tómum ríkiskassanum til uppbyggingar nýs flugvallar, sem standast þarf alþjóðlegar kröfur. Hverfi flugvallarstarfsemi úr Reykjavík árið 2016 mun það stefna innanlandsflugi og sjúkraflugi í fullkomna óvissu sem og þeim fjölmörgu störfum og umsvifum, sem flugvöllurinn veitir Reykvíkingum. Ábyrgðarlaust er að flæma flugvallarstarfsemi úr Reykjavík þegar allsendis er óljóst hvort og þá hvernig þessir mikilvægu hagsmunir verði tryggðir.

Vanrækt borg

Nokkur ár í röð hefur umhirðu og grasslætti ekki verið sinnt í Reykjavík sem skyldi. Ástandið hefur verið sérstaklega slæmt í sumar og hvað verst á opnum svæðum og við umferðargötur í eystri hverfum borgarinnar.

Endurskoða þarf allt fyrirkomulag frá grunni varðandi umhirðu og grasslátt hjá borginni. Með endurskipulagningu má bæta verklag og nýta fjárveitingar betur. Hér er um verðugt úrlausnarefni að ræða fyrir yfirstjórnendur verklegra framkvæmda hjá borginni; borgarstjóra og formann borgarráðs. Þegar fjölmiðlar hafa fjallað um málið hefur hins vegar gengið ótrúlega illa að ná í þessa sómamenn eða þeir verið ófáanlegir til að tjá sig. 29. júlí sl. segir t.d. eftirfarandi í frétt Morgunblaðsins: „Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, vildi ekki tjá sig um málið og benti á embættismenn innan borgarkerfisins sem ýmist voru í sumarleyfi eða vildu ekki tjá sig um málið. Þá náðist ekki í Jón Gnarr borgarstjóra vegna málsins.“

Sambandsleysi eða feimni virðist þó ekki hrjá oddvita Besta flokksins og Samfylkingarinnar þegar um er að ræða mál sem eru nær áhugasviðum þeirra en borgarmál. Þannig hafa fjölmiðlar ekki átt í vandræðum með að fá yfirlýsingar frá borgarstjóranum um alþjóðleg málefni eða kynhneigð Jesú Krists. En er til of mikils mælst að borgarfulltrúar láti þau málefni í forgang sem útsvarsgreiðendur í Reykjavík kusu þá til að sinna?

Áhugalaus meirihluti
Lýsandi dæmi um verkstjórn borgarstjórnarmeirihlutans er hvernig hann hefur hunsað fram komnar tillögur um úrbætur í umhirðumálum. 3. júlí sl. lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur til að ráðist yrði í átak í umhirðu og grasslætti í ljósi óviðunandi ástands. Fulltrúar meirihlutans treystu sér ekki til að styðja tillöguna heldur frestuðu afgreiðslu hennar fram yfir sumarleyfi.

Við sjálfstæðismenn lögðum því fram tillögu um málið á fundi borgarráðs 25. júlí en þar fór á sömu leið. Fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins höfðu engan áhuga á slíkri tillögu og frestuðu afgreiðslu hennar fram yfir sumarleyfi ráðsins. Ef að líkum lætur verða tillögurnar teknar fyrir um eða upp úr miðjum ágúst eða um það leyti sem farið verður að draga úr sprettu í borginni.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 9. ágúst 2013.

Verður Magma-skuldabréfið selt?

Meirihluti stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur ákvað á síðasta stjórnarfundi, með fyrirvara um samþykki eigenda, að taka tilboði í svonefnt Magma-skuldabréf, sem er í eigu fyrirtækisins.

Skuldabréfið var gefið út af Magma Energy Sweden A/B árið 2009 og var hluti greiðslu fyrir hlutabréf Orkuveitunnar í HS-Orku. Hluturinn hafði þá verið til sölu um nokkurt skeið en samkeppnisyfirvöld höfðu komist að þeirri niðurstöðu að Orkuveitunni væri óheimilt að eiga svo stóran hlut í HS-Orku og þannig sett eignarhaldinu skorður.

Í síðasta árshlutareikningi Orkuveitunnar var bókfært verðmæti skuldabréfsins um níu milljarðar króna. Verðmæti bréfsins ræðst að hluta af álverði og að baki því stendur veð í hinum seldu hlutabréfum í HS-Orku.

Eins og gefur að skilja, hefur það bæði kosti og galla í för með sér að selja Magma-skuldabréfið nú. Það kemur sér vissulega vel fyrir Orkuveituna að losa um þessa eign sína og fá þannig aukið lausafé. Á móti þarf að skoða hvort verið sé að selja umrætt bréf með of miklum afföllum, t.d. í ljósi þess að álverð hefur lækkað verulega að undanförnu og er óvenjulega lágt um þessar mundir. Það er að sjálfsögðu ekki gott fyrir Orkuveituna ef slíkt skuldabréf er selt á hálfgerðri útsölu.

Hér er því miður ekki hægt að fjalla um fjárhæðir í tengslum við sölu skuldabréfsins þar sem yfirstjórn Orkuveitunnar hefur lagt áherslu á að þær séu trúnaðarmál. Vonandi verður almenningur upplýstur um þessar fjárhæðir að fullu áður en ákvörðun verður tekin. Og frá og með 1. júlí, eftir nokkrar klukkustundir, verður sú breyting að upplýsingalögin gilda um starfsemi Orkuveitunnar.

Sala Orkuveitunnar á hlutnum í HS-Orku til Magma Energy var mikið pólitískt hitamál á sínum tíma. Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðust eindregið gegn sölunni og efndu til mikilla átaka vegna málsins í fjölmiðlum og í borgarstjórn þar sem salan var endanlega samþykkt 15. september 2009. Borgarfulltrúar þessara flokka hvöttu stuðningsmenn sína til að fjölmenna á áhorfendapalla Ráðhússins og mótmæla þannig sölunni.  Um tíma var ekki fundarfriður vegna óláta og háreystis frá áhorfendapöllum. Nafnakalls var krafist við afgreiðslu málsins og greiddu borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna atkvæði gegn sölunni. Gáfu þeir upp þær ástæður fyrir andstöðunni að samningurinn væri afar slæmur fyrir Orkuveituna og að með honum væri verið að selja íslenskar orkuauðlindir í hendur erlendra aðilja. (Skýrt var að sveitarfélagið Reykjanesbær átti umræddar auðlindir.) Þeir héldu því fram að kjörin á umræddu skuldabréfi væru smánarleg og efuðust stórlega um getu Magma til að standa skil á því á gjalddaga, árið 2016.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ekkert að athuga við sölu Magma-skuldabréfsins ef söluverðið er viðunandi. En ef borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna vilja vera sjálfum sér samkvæmir og standa við stóru orðin frá árinu 2009, hljóta þeir að leggjast gegn sölu Magma-skuldabréfsins nú. Væntanlega í þeirri von að greiðandi bréfsins standi ekki skil á því á gjalddaga árið 2016 og að almannafyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur eignist þá hlutabréf í HS-Orku á ný og salan, sem þessir flokkar börðust svo einarðlega gegn árið 2009, gangi þá til baka.

 

Perlan færð úr einum opinbera vasanum í annan

Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefur samþykkt, með stuðningi Vinstri grænna, að Reykjavíkurborg kaupi Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur fyrir 950 milljónir króna. Hafa ber í huga að Reykjavíkurborg á 94% í Orkuveitunni og því er hér aðeins um að ræða flutning úr einum vasa í annan.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa stutt sölu eigna Orkuveitunnar en vildu að Perlan yrði seld á frjálsum markaði með skýrum ákvæðum um nýtingu og skipulag. Fyrir rúmu ári var vissulega reynt að selja Perluna á opnum markaði en sú tilraun misheppnaðist algerlega vegna hroðvirknislegra vinnubragða borgarstjórnarmeirihlutans. Í stað þess að læra af reynslunni og vanda betur til verka, kýs meirihlutinn að flytja eignarhaldið á mannvirkinu alfarið til borgarinnar og leigja það síðan ríkinu undir náttúruminjasafn. Hefur verið unnið að málinu á miklum hraða undanfarna mánuði þar sem meirihluti borgarstjórnar vill ásamt ríkisstjórninni klára málið fyrir kosningar. Þessi mikli hraði hefur komið niður á vinnubrögðunum. Perlan var ekki byggð sem náttúruminjasafn og ljóst er að ráðast þarf í kostnaðarsamar framkvæmdir svo húsið henti til slíkra nota. Þær áætlanir, sem lagðar hafa verið fram eru ófullnægjandi til að kjörnir fulltrúar og skattgreiðendur geti áttað sig á kostnaðinum. T.d. efast ég um að sú áætlun standist að einungis kosti 100 milljónir að smíða milliloft o.fl. í þessu sérstæða húsi en samkvæmt gögnum málsins mun kostnaðurinn lenda á Reykjavíkurborg.

Í tengslum við kaupin, gaf Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, út yfirlýsingar í fjölmiðlum um að sú leið að selja Perluna til fjárfesta, hafi ekki reynst fær þar sem öll tilboð hafi verið með fyrirvara um byggingu hótels eða aðra uppbyggingu í Öskjuhlíð. Þessar fullyrðingar standast ekki því á síðasta ári barst Orkuveitunni formlegt kauptilboð í Perluna að upphæð 950 milljónir króna frá einkaaðila án fyrirvara um slíkar skipulagsbreytingar. Er þetta sama upphæð og nú er notast við í sölu hússins frá OR til borgarinnar. Umræddar fullyrðingar formanns borgarráðs um sölu Perlunnar eiga því ekki við rök að styðjast. Benda þær til að miðlun upplýsinga milli borgarráðs Reykjavíkur og stjórnar Orkuveitunnar sé stórlega ábótavant.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 28. marz 2013.

Skátastarf í 100 ár í þágu lands og lýðs

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur samþykkti 26. október sl. tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að senda Skátasambandi Reykjavíkur og Bandalagi íslenzkra skáta góðar hamingjuóskir í tilefni af því að 100 eru liðin frá upphafi skipulagðs skátastarfs á Íslandi og 70 ár frá upphafi skátastarfs að Úlfljótsvatni. Um leið og ráðið þakkar skátahreyfingunni fyrir öflugt mannræktarstarf í þágu reykvískrar æsku í hundrað ár, er skátum óskað góðs gengis við áframhaldandi heillaríkt starf í þágu lands og lýðs.
Skátahreyfingin er líklega fjölmennustu alþjóðasamtök í heimi. Í starfi hennar er lögð áhersla á að ala upp sjálfstæða, ábyrga og virka einstaklinga. Virðing fyrir náttúrunni og gæðum hennar hefur verið þungamiðja í öllu skátastarfi frá upphafi og löngu áður en náttúruvernd komst almennt í tísku. Telja má líklegt að þessi höfuðáhersla í starfi hinnar alþjóðlegu skátahreyfingar hafi lagt grunninn að eða a.m.k. ýtt mjög undir þá byltingu í náttúruvernd, sem orðið hefur á síðustu áratugum.
Útivistarparadís að Úlfljótsvatni
Samstarf skáta og Reykjavíkurborgar hefur verið með ágætum. Frá árinu 1942 hafði skátahreyfingin hluta Úlfljótsvatnsjarðarinnar á leigu undir fjölbreytta starfsemi útilífsmiðstöðvar. Þar eru nú m.a. reknar skólabúðir, sumarbúðir fyrir börn, fræðslusetur, skógræktarstarf og þjálfunarbúðir fyrir skáta og björgunarsveitir. Á undanförnum árum hefur aukin áhersla verið lögð á þjónustu við barnafjölskyldur og hafa skátar gert Úlfljótsvatn að einu fjölsóttasta almenningstjaldsvæði landsins þar sem áhersla er lögð á holla og fjölbreytilega afþreyingu.
Þá gegnir Útilífsmiðstöðin mikilvægu hlutverki sem helsti mótsstaður skáta á Íslandi. Á hverju sumri eru þar haldin mót og samkomur og annað hvert landsmót skáta með mörg þúsund þátttakendum og gestum. Úlfljótsvatn er einnig notað til alþjóðlegs mótshalds; árið 2009 var þar t.d. haldið Evrópumót eldri skáta, sem talið er að allt að tíu þúsund manns hafi sótt að gestum meðtöldum.
Yfirleitt hefur verið sátt um það í borgarstjórn að á vegum skátahreyfingunnar væri unnið þjóðþrifastarf og að Úlfljótsvatni væri dýrmætt útivistarsvæði, sem nýta bæri í þágu skáta og almennings. Árið 2005 var þeirri sátt þó teflt í mikla tvísýnu þegar þáverandi vinstri meirihluti í borgarstjórn ákvað gegn vilja skáta að stofna hlutafélag um byggingu 600 sumarbústaða í landi Úlfljótsvatns. Umrædd samþykkt vakti harðar deilur og í kjölfar hennar spunnust miklar umræður um framtíð Úlfljótsvatns og þá tilhneigingu þáverandi borgarstjórnarmeirihluta að verja kröftum og fjármunum Orkuveitunnar til verkefna utan kjarnastarfsemi hennar. Eitt fyrsta verk nýs meirihluta, sem tók við völdum 2006 undir forystu Sjálfstæðisflokksins, var að fella fyrri áætlanir úr gildi með það að markmiði að viðhalda Úlfljótsvatni sem almennu útivistarsvæði í góðu samstarfi við skátahreyfinguna og í þágu almannaheilla.
Sala Úlfljótsvatns
Á síðasta ári lögðum við sjálfstæðismenn til að í tilefni af aldarafmæli skátahreyfingarinnar og 70 ára afmæli skátastarfs að Úlfljótsvatni fengju skátar lítinn hluta af jörðinni þar undir starfsemi sína til viðbótar þeim hluta, sem þeir höfðu þá þegar haft til afnota um áratugaskeið. Um var að ræða sjálft Úlfljótsvatnsbýlið ásamt túnum í kring, sem væru góð viðbót við þá útivistarstarfsemi sem skátar hafa rekið þar í fárra metra fjarlægð, með svo góðum árangri að skátasvæðið hefur oft ekki dugað til. Jafnframt yrði tryggt að það svæði, sem skátahreyfingin nýtti að Úlfljótsvatni í þágu starfsemi sinnar og almannheilla, yrði ekki selt til þriðja aðila á almennum markaði.
Leit ég svo á að með því að heimila skátum afnot af Úlfljótsvatnsbýlinu ásamt lítils háttar landsvæði til viðbótar, væri borgin að viðurkenna hið mikla starf, sem skátar hafa innt af hendi í þágu reykvískrar æsku í heila öld ásamt því að stuðla að enn frekari skátastarfi sem og þjónustu í þágu almennings að Úlfljótsvatni.
Því miður féllst núverandi borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar og Besta flokksins ekki á þessa tillögu. Um tíma voru uppi hugmyndir um að selja jörðina hæstbjóðanda en ljóst er að skátastarf að Úlfljótsvatni hefði verið sett í óþolandi óvissu, hefðu þær náð fram að ganga.
Til að lenda ekki í slíkri úlfakreppu gekk skátahreyfingin til samstarfs við Skógræktarfélag Íslands og saman náðu þessir aðilar samningum við Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á Úlfljótsvatnsjörðinni. Miðað við þá stöðu að borgarstjórnarmeirihlutinn var þess albúinn að selja þann hluta jarðarinnar, sem skátar hafa haft til afnota í sjötíu ár til hvers sem hafa vildi, var þetta e.t.v. farsæl málamiðlun. Skógræktarfélagið hlýtur að vera heppilegur meðeigandi skáta að jörðinni enda hyggjast þessir aðilar standa þar sameiginlega að öflugu skógræktar- og útivistarstarfi. Óska ég Skógræktarfélaginu og Skátahreyfingunni allra heilla við áframhaldandi notkun jarðarinnar í þágu félagsmanna sinna og almennings. Landsmönnum öllum óska ég árs og friðar.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 29. desember 2012.

Fagraberg – góður áfangi í húsnæðismálum eldri borgara

Fagraberg í Efra Breiðholti

Ástæða er til að þakka Félagi eldri borgara fyrir ómetanlegt framlag í þágu húsnæðismála í Reykjavík á undanförnum áratugum.

Fagraberg, glæsileg 49 íbúða bygging að Hólabergi 84 í Breiðholti, var afhent Félagi eldri borgara í Reykjavík (FEB) 11. nóvember og fluttu fyrstu íbúarnir inn í húsið þegar að lokinni afhendingu. Ástæða er til að óska Félagi eldri borgara í Reykjavík (FEB) og íbúðarkaupendum í Fagrabergi til hamingju með glæsilegt hús og þakka félaginu jafnframt fyrir ómetanlegt framlag í þágu húsnæðismála eldri borgara á undanförnum áratugum.

FEB átti frumkvæði að byggingu Fagrabergs og er það fyrsta íbúðarhús, sem reist er beinlínis á vegum félagsins. FEB á að baki merkilega sögu í húsnæðismálum en áður átti það í samstarfi við verktaka um byggingu slíkra íbúða og sá um ráðstöfun þeirra. Var samtals 386 íbúðum ráðstafað með slíkum hætti á árunum 1986-1998 í fjölbýlishúsum við Grandaveg, Skúlagötu, Hraunbæ, Árskóga og Eiðismýri.

Nokkurt hlé varð á því að byggt væri frekar á vegum félagsins vegna þess að erfiðlega gekk að fá lóðarfyrirgreiðslu frá Reykjavíkurborg. Árið 2008 fékkst fyrirheit frá borginni um lóð á góðum stað í Breiðholti og gat þá undirbúningur hafist af fullum krafti. Byggingarframkvæmdir hafa gengið vel; þær hófust í marz 2011 og nú eru fyrstu íbúarnir fluttir inn.

Fjölbreytileg þjónusta
Eitt af markmiðum Félags eldri borgara í Reykjavík er að stuðla að byggingu öryggisíbúða fyrir félagsmenn og bjóða þeim eignaríbúðir til kaups á viðráðanlegu verði. Í Fagrabergi er um að ræða svonefndar öryggisíbúðir samkvæmt þjónustustigi 1, sem eru sérsniðnar að þörfum eldri borgara. Eru íbúðirnar á verðbilinu 24-43 milljónir króna. Húsið er byggt af Sveinbirni Sigurðssyni hf., sem sér jafnframt um fjármögnun framkvæmda og sölu íbúða.

Fagraberg er tengt Gerðubergi með sérstökum gangi en þar er starfrækt menningarmiðstöð, þar sem byggst hefur upp mjög öflugt félagslíf eldri borgara. Í Gerðubergi er einnig bókasafn og listasafn og stutt er í bakarí og margvíslega aðra þjónustu. Sunnan megin við Fagraberg er Fella- og Hólakirkja með öflugt safnaðarstarf. Falleg útivistarsvæði með góðum göngustígum liggja að Fagrabergi. Síðast en ekki síst er sjálf Breiðholtslaug vestan megin við Gerðuberg. Að tillögu Sjálfstæðisflokksins er nú unnið að því að fá einkaaðila til samstarfs um rekstur líkamsræktarstöðvar í tengslum við Breiðholtslaug og verður hún vonandi að veruleika fljótlega.

Farsælt samstarf
Þegar aldurinn færist yfir er mikilvægt að fólk eigi þess kost að komast með auðveldum hætti úr stóru húsnæði í minni og hentugri einingar með góðum aðgangi að þjónustu. Óhætt er að segja að FEB hafi unnið vel fyrir félagsmenn sína að þessu leyti og í raun lyft Grettistaki í húsnæðismálum eldri borgara. Samstarf Reykjavíkurborgar við þessi frjálsu félagssamtök hefur verið farsælt og skilað góðum árangri í þágu alls samfélagsins.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 20. nóvember 2012.

Reykjavíkurborg greiðir geipiverð fyrir lélegar eignir

Kaupin eru skýrt dæmi um léleg vinnubrögð meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar í skipulagsmálum og fjármálum Reykjavíkurborgar.

Borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins hafa samþykkt að Reykjavíkurborg kaupi BSÍ-húsið við Vatnsmýrarveg og SÍF-skemmuna við Keilugranda á samtals 685 milljónir króna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn kaupunum enda eru markmiðin með þeim óljós svo ekki sé meira sagt. Hins vegar er ljóst að verið er að greiða hátt verð fyrir lélegar eignir. Þá mun mikill kostnaður, sennilega hundruð milljóna króna, bætast við ofangreinda upphæð vegna niðurrifs SÍF-skemmunnar og væntanlegra endurbóta á BSÍ. Mun sá kostnaður allur lenda á borginni.

Slæm meðferð almannafjár

Vanhugsuð kaup borgarinnar á umræddum húsum eru skýrt dæmi um léleg vinnubrögð meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins í skipulagsmálum og kæruleysislega meðferð almannafjár. Borgin kaupir BSÍ með því markmiði að þar verði miðstöð almenningssamgangna í borginni án þess að sýnt sé fram á það með að húsið sé ákjósanlegur staður fyrir slíka miðstöð til framtíðar.

Reykjavíkurborg á báðar umræddar lóðir en húsin eru í eigu sama aðila. Tókst honum að stilla lóðareigandanum, borginni, upp við vegg í málinu og tengja saman kaup á þessum tveimur ólíku eignum með óeðlilegum hætti. Mikið vantar því á að umrædd kaup hafi verið skýrð til hlítar.

Faglegt mat vantar

Lengi hefur legið ljóst fyrir að finna þurfi nýjan stað fyrir aðalskiptistöð strætisvagna í Reykjavík. Almennt er viðurkennt að það var röng ákvörðun hjá R-listanum sáluga og alls ekki í samræmi við íbúaþróun í borginni að byggja á Hlemmi og Lækjartorgi sem þungamiðjum leiðakerfisins, sem tekið var upp árið 2005. Nú, þegar ætlunin er að hverfa frá því, er þeim mun mikilvægara að ný mistök verði ekki gerð, heldur skoðað vandlega og faglega hver sé besti staðurinn fyrir nýja aðalskiptistöð á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert slíkt sérfræðiálit liggur fyrir en margir sérfræðingar efast um að BSÍ sé rétti staðurinn. Slíkar efasemdir koma m.a. fram í minnisblaði frá Strætó bs. um málið frá því í febrúar á þessu ári.

Við sjálfstæðismenn lögðum til að gerð yrði sérfræðileg úttekt á því hver væri ákjósanlegasta staðsetning nýrrar aðalskiptistöðvar strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu áður en ákvörðun yrði tekin um kaup borgarinnar á BSÍ húsinu. Í úttektinni yrðu þeir staðir sem helst hafa verið nefndir í þessu sambandi, Kringlan, Mjódd og BSÍ vegnir og metnir með faglegum hætti. Borgarfulltrúar meirihlutans höfnuðu því að slík skoðun færi fram og felldu tillöguna.

Vilji Vesturbæinga hundsaður

Áður hafa komið fram hugmyndir um að nota umrædda lóð við Keilugranda til þéttingar byggðar með byggingu fjölbýlishúss. Íbúar í hverfinu hafa hins vegar lagst harðlega gegn slíkum áformum með þeim rökum að Grandahverfi sé nú þegar eitt þéttbýlasta hverfi borgarinnar.

Reykjavíkurborg á Keilugrandalóðina eins og fyrr segir og rennur leigusamningur vegna hennar út eftir þrjú ár. Vildi ég að borgin leysti lóðina til sín með lágmarkstilkostnaði að leigutíma loknum og að henni yrði síðan allri ráðstafað í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Vesturbænum. Með því að fara þá leið í málinu hefðu tvær flugur verið slegnar í einu höggi: Bætt úr brýnni þörf fyrir viðbótar-íþróttasvæði fyrir börn og unglinga í Vesturbænum og viðkvæmasta skipulagsmál í hverfinu í seinni tíð leyst í sátt við íbúa. Borgarstjórnarmeirihlutinn gat ekki fallist á slíkar tillögur en ákvað heldur að hundsa óskir fjölmargra Vesturbæinga. Rétt fyrir lokaafgreiðslu málsins létu fulltrúar meirihlutans í veðri vaka að skoðað yrði hvort unnt væri að skipuleggja íþróttasvæði á hluta lóðarinnar samhliða sölu byggingarréttar fyrir fjölbýlishús. Ljóst er að meirihlutinn lætur slíkar þarfir barna og unglinga í hverfinu til íþrótta og hreyfingar þannig í besta falli mæta afgangi.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 5. október 2012.

Leyndarhyggja um Hörpu

Þegar ákveðið var árið 2009 að halda byggingu tónlistarhússins áfram af fullum krafti þrátt fyrir efnahagsþrengingar og gjaldeyrisskort, var því lofað að ekki þyrftu að koma til frekari framlög frá skattgreiðendum til byggingar og rekstrar hússins, umfram þær skuldbindingar, sem þegar höfðu verið gerðar og nema nú um einum milljarði króna á ársgrundvelli í 35 ár. Ýmsir höfðu efasemdir um að verkinu yrði haldið áfram á fullri ferð og vildu fresta framkvæmdum við húsið þar til betur áraði eða a.m.k. draga verulega úr framkvæmdahraða. Mjög var var hins vegar þrýst á menn um að styðja lúkningu hússins og því lofað að ekki þyrftu að koma til frekari opinber framlög til þess umfram þegar gerðar skuldbindingar.

Almenningur borgar brúsann

Nú, þegar ljóst er orðið að hin samningsbundnu framlög duga ekki, þarf að leiða í ljós án undanbragða hvort einhverjar forsendur frá 2009 brugðust og þá hverjar, eða hvort stjórnmálamenn voru hreinlega gabbaðir. Reykjavíkurborg á 46% í Hörpunni og ber því mikla ábyrgð á húsinu og rekstri þess. 3. nóvember 2011 óskaði borgarráð eftir því að gerð yrði úttekt á rekstri Hörpunnar „til að skýr staða liggi fyrir og hægt sé að meta hvernig verkefnið hefur farið af stað“. Jafnframt lagði borgarráð áherslu á að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga, sem koma að rekstrinum og að ekki yrði farið í frekari framkvæmdir við húsið, sem ekki leiddu af sér tryggar viðbótartekjur, meðan á úttektinni stæði.

Vilji borgarráðs hundsaður

Búist var við því að brugðist yrði án tafar við ósk borgarráðs um rekstrarúttekt og einföldun á stjórnskipulagi. Vinna við rekstrarúttekt hófst hins vegar ekki fyrr en fimm mánuðum eftir umrædda ósk borgarráðs eða í apríl sl. þegar Austurhöfn – TR fól KPMG verkið og lauk því í maí. Rekstrarúttekt KPMG er nauðsynlegt plagg fyrir þá, sem vilja átta sig á því hvað hefur farið úrskeiðis í rekstri hússins og ræða tillögur til úrbóta, ekki síst alþingismenn og borgarfulltrúa, sem vinna nú að fjárhagsáætlunum næsta árs. Þá eiga mörg atriði í umræddri skýrslu ekki síður erindi við almenning, sem borgar brúsann.Ljóst er að ósk borgarráðs frá 3. nóvember um að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga sem koma að rekstrinum, var hundsuð. Í ágúst sl. komu enn a.m.k. átta félög að rekstri Hörpu. Sama fólkið sat þá meira og minna í stjórnum allra þessara félaga og fékk greidda þóknun fyrir setu í hverri stjórn.Vegna þess völundarhúss félaga, sem byggt hefur verið upp í kringum Hörpu, hefur verið mun flóknara og erfiðara en ella fyrir stjórnmálamenn og fréttamenn að rýna og fjalla um rekstur hússins. Rekstrarúttekt KPMG er að mörgu leyti vel unnin og auðveldar hlutaðeigandi að rýna reksturinn.

Embættismenn á hálum ís

Í ljósi þess hve KPMG-skýrslan er mikilvæg er það afar óeðlilegt hvernig stjórn Austurhafnar – TR hefur ítrekað neitað að láta undirrituðum hana í té. Jafnvel eftir að aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra sendi fjölmiðlum skýrsluna, neitaði stjórnin að afhenda undirrituðum hana. Eftir því sem næst verður komist, studdu þrír fulltrúar Reykjavíkurborgar í stjórn Austurhafnar umrædda ákvörðun. Tveir af þessum stjórnarmönnum eru embættismenn, sem heyra beint undir borgarstjórann í Reykjavík en hinn þriðji er pólitískur fulltrúi meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins.Með ólíkindum er að stjórn Austurhafnar, sem er að fullu í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, skuli leggja sig í líma við að halda mikilvægum upplýsingum um fjárhag Hörpu frá kjörnum fulltrúum. Ekki er síður ámælisvert að tveir af æðstu embættismönnum Reykjavíkurborgar, sem sitja í stjórninni, taki fullan þátt í því með þessum hætti að halda umræddum upplýsingum frá kjörnum borgarfulltrúa.Ef ekki væri fyrir atbeina mennta- og menningarmálaráðherra, væri KPMG-skýrslan sjálfsagt enn leynileg. Enn hefur enginn haldið því fram svo ég viti að birting skýrslunnar hafi með nokkrum hætti skaðað rekstur Hörpu. Hins vegar hefur almenningur fengið gleggri upplýsingar en áður um óviðunandi vinnubrögð og jafnvel spillingu í tengslum við byggingu og rekstur hússins.

Grundvallarregla brotin

Í þessu máli er vegið að þeirri grundvallarreglu að embættismenn starfi í þágu kjörinna fulltrúa og útvegi þeim án undanbragða allar umbeðnar upplýsingar, sem fyrirfinnast um fjármál stofnana borgarinnar og fyrirtækja í hennar eigu. Í umræddu máli var þessari reglu snúið á haus og embættismenn tóku fullan þátt í því að halda mikilvægum upplýsingum frá kjörnum borgarfulltrúa. Á borgarstjórnarfundi 4. september sl. spurði ég um afstöðu Jóns Gnarrs Kristinssonar borgarstjóra til þeirrar ákvörðunar stjórnar Austurhafnar að neita þráfaldlega óskum kjörins borgarfulltrúa um aðgang að umræddri úttekt KPMG. Spurði ég jafnframt hvort borgarstjóri eða staðgengill hans, Dagur B. Eggertsson, hefðu með einhverjum hætti komið að ákvörðun stjórnarinnar, t.d. með samráði við fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn fyrirtækisins.

Allt í boði Samfylkingarinnar

Þrátt fyrir að spurningarnar væru afar skýrar, treysti borgarstjóri sér ekki til að svara þeim fyrr en hann hefði skoðað málið betur. Tæpur mánuður er nú síðan spurningarnar voru lagðar fram og enn hefur borgarstjóri ekki svarað. Rétt er að minna á að borgarstjóri er sjálfur embættismaður, sem ber að svara slíkum spurningum og veita öllum borgarfulltrúum upplýsingar óháð flokkslínum. Þetta mál er aðeins eitt dæmi um gersamlega óviðunandi vinnubrögð, sem nú viðgangast í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ef til vill er ekki hægt að búast við miklu af borgarstjóra, sem sjálfur hefur lýst yfir að hann sé trúður. En mikil er ábyrgð Samfylkingarinnar, sem er í meirihlutasamstarfi með „trúðnum“ og leggur blessun sína yfir slík vinnubrögð.

 

— — — — — — —

Grein þessi birtist upphaflega í Morgunblaðinu 1.x.2012.

Fjörutíu ár frá einvígi aldarinnar

Borgarstjórn Reykjavíkur og skákhreyfingin efna til skákhátíðar í Laugardalshöll í dag í tilefni af því að fjörutíu ár eru liðin frá heimsmeistaraeinvíginu í skák milli Roberts Fischers og Boris Spassky, en það fór fram 1. júlí – 3. september 1972 í Reykjavík.

Dagskráin hefst með málþingi kl. 11 þar sem m.a. verður rætt um af hverju það er þekkt sem ,,Einvígi aldarinnar” og þýðingu þess fyrir alþjóðamál, skákíþróttina og stöðu Íslendinga í samfélagi þjóðanna. Kl. 13 hefst síðan minningarskákmót í stóra sal hallarinnar með þátttöku barna og unglinga, auk þess sem skákmenn 60 ára og eldri tefla í sérstökum heiðursflokki.

Einvígi Fischers og Spassky er án efa frægasta skákkeppni sögunnar en hún vakti á sínum tíma heimsathygli vegna aðstæðna í alþjóðamálum. Kalda stríðið var í hámarki og margir fjölmiðlar fjölluðu um einvígið eins og uppgjör milli kommúnistaríkjanna og hins frjálsa heims þar sem fremstu skákmeistarar Sovétríkjanna og Bandaríkjanna mættust við taflborðið. Framan af mótinu einkenndust samskipti keppendanna af mikilli spennu og urðu ýmsir atburðir í tengslum við það ekki síður fréttaefni en einstök skákúrslit. Vegna keppninnar var Reykjavík í brennidepli heimspressunnar í rúma tvo mánuði og hafði það mikla og jákvæða landkynningu í för með sér fyrir Ísland.

Mikilvægt sjálfboðaliðastarf

Á síðasta ári samþykkti borgarstjórn tillögu Sjálfstæðisflokksins um að minnast heimsmeistaraeinvígisins 1972 með viðeigandi hætti. Er hátíðin haldin í góðu samstarfi við Skáksamband Íslands, Skákakademíu Reykjavíkur og taflfélögin í Reykjavík. Vil ég þakka öllum þessum aðilum fyrir ánægjulegt samstarf í tengslum við hátíðina, sem og fyrir hið mikla og stöðuga sjálfboðaliðastarf er þeir inna af hendi í þágu skákstarfs meðal barna og ungmenna í borginni.

Ábendingar hafa komið fram um að gjarnan mætti standa betur að kynningu á skákeinvígi aldarinnar. Koma slíkar ábendingar m.a. frá aðilum í ferðaþjónustu, sem telja að nýta megi mun betur þau tækifæri er felast í því að borgin hafi hýst slíkan heimsviðburð. Þessi gagnrýni á rétt á sér. Nú stendur yfir sýning í Þjóðminjasafninu á munum tengdum einvíginu og að henni lokinni finnst mér t.d. vel koma til greina að skoðað verði hvort unnt sé að gera slíka sýningu varanlega með einhverjum hætti.

Megi skákhátíðin í Laugardalshöll í dag verða ánægjuleg áminning um ,,Einvígi aldarinnar,” festa minningu þess í sessi og stuðla að enn frekari eflingu skákstarfs meðal ungu kynslóðarinnar!

– – – – – – – – – – –

Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 15. september 2012.

Aðhald skortir í fjármálum Reykjavíkurborgar

Fréttatilkynning frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins:

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar var lagður fram á borgarráðsfundi í dag.  Niðurstöður hans sýna því miður að það er orðin regla frekar en undantekning að fjárhagslegar áætlanir standist ekki hjá Reykjavíkurborg.  Hallinn á rekstri A- hluta er hálfum milljarði umfram áætlun og hallinn hjá samtæðu A- og B- hluta tæpum 5 milljörðum umfram áætlun.  Á tímum efnahagsþrenginga og aðhalds er sérstaklega mikilvægt að fylgst sé náið með rekstrinum, ábyrgð sé fylgt við allar ákvarðanir og að áætlanir standist.  Enn og aftur skortir á það hjá núverandi meirihluta.

 

„Það er mikið áhyggjuefni fyrir borgarbúa hversu illa þessum meirihluta gengur að fylgja áætlunum.   Á  þessa staðreynd höfum við bent í hvert skipti sem árshluta- og ársreikningar eru lagðir fram.  Þetta uppgjör nú er engin undantekning, heldur staðfestir að lítið er að marka þær fjárhagsáætlanir sem meirihlutinn leggur fram.  Eina ferðina enn eru skatttekjur vanáætlaðar, en þrátt fyrir að meira sé tekið af almenningi en til stóð dugir það ekki fyrir rekstrarkostnaði sem fer langt fram úr þeim áætlunum sem samþykktar voru í lok síðasta árs. Það er alveg ljóst að borgarstjórn verður að fara að skoða af alvöru hvernig stendur á því að áætlanagerð í fjármálum gengur ekki betur.  Borgarstjórn verður að átta sig á því hvort haga þarf undirbúninga vegna fjárhagsáætlunar með öðrum hætti eða hvort hér er aðeins um að kenna ófullnægjandi eftirfylgni borgarstjórans og meirihlutans með því að tryggt sé að áætlunum sé fylgt, aðhald sé til staðar og ábyrgð ráði för í rekstrinum.“  segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.

 

Við framlagningu ársreiknings 2011 bentu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á að ekki eingöngu rekstrarkostnaður fór úr böndunum heldur hafði skuldsetning borgarinnar aukist um 56% á tveimur árum.   Það er ekkert lát á skuldsetningunni en í þessu uppgjöri kemur fram að skuldir hafa hækkað um 9% til viðbótar (5 milljarða) á þessu hálfa ári, eða úr 57 milljörðum í 62.  Slík skuldaaukning fer að vera nálægt sáraukamörkum fjárhagslegrar stöðu borgarinnar.