Icesave er rétt að byrja

Kostuleg eru ummæli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra um að hann sé bjartsýnn á að menn sjái nú fyrir endann á Icesave-málinu og það fái farsælar lyktir. Það er ákaflega brýnt að koma því frá, þetta ólánsmál hættir þá að þvælast fyrir okkur, segir hann. Sennilega er Steingrímur að vísa til þess að málið hætti þá að þvælast fyrir honum og núverandi ríkisstjórn. Ríkisstjórnin ætlar sér þannig að vísa vandanum til framtíðar, enginn veit hvað reikningurinn verður hár eða hvernig hann verður greiddur. Samþykki Alþingi í dag erlendar skuldbindingar vegna viðskipta einkafyrirtækis, mun það í raun marka upphaf þrautagöngu frá sjónarhóli skattgreiðenda.

Að undanförnu hafa ráðherrar og ríkisfjölmiðlar gert mest með að umræður um Icesave gangi ekki nógu hratt fyrir sig á Alþingi en sem minnst fjallað um efnisatriði málsins, þ.e. hvað ánauðin mun í raun þýða fyrir þjóðarbúið. En ný og þungvæg efnisatriði koma stöðugt fram, sem krefjast frekari umræðna um málið á meðal þings og þjóðar.

 • Áhættugreining IFS á Icesave-frumvarpinu sýnir að samþykkt þess hefði miklar og óverjandi hættur í för með sér fyrir þjóðina. Áhættan er öll á annan veg og forsendur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir greiðsluhæfi íslenska ríkisins virðist byggjast á óskhyggju og óhóflegri bjartsýni.
 • Eftir því sem fleiri lögfræðingar tjá sig verður ljósara að ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingum stenst hvorki íslenska né evrópska löggjöf, þrátt fyrir að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi síðan í febrúar reynt að telja þjóðinni trú um hið gagnstæða.
 • Virtir lögfræðingar hafa lýst miklum efasemdum um að lög um ríkisábyrgð vegna Icesave standist ákvæði stjórnarskrár um skýra og afdráttarlausa lagaheimild vegna útgjalda ríkissjóðs.
 • Nú síðast komu fram upplýsingar um að greiðslur ríkisins af lánum muni nema um 40% af tekjum þess á næsta ári og íslenska ríkið sé því nærri eða yfir skuldaþolmörkum.

Í skrúfstykki ofurskulda?

Þar sem um er að ræða eitt stærsta mál í sögu lýðveldisins ætti Alþingi að fresta umræðum meðan þingmenn fara betur yfir málið. Á því hefur ríkisstjórnin ekki áhuga heldur keyrir málið í gegn. Umræður um þessi efnisatriði bíða annarra tíma en þá er hætta á að þjóðin verði komin í skrúfstykki ofurskulda. Í sumar var mikill meirihluti landsmanna (63%) á móti þáverandi Icesave-frumvarpi ríkisstjórnarinnar skv. Gallup-könnun. Þrátt fyrir stöðugan áróður um að farsælli og jafnvel glæsilegri niðurstöðu sé náð með núverandi frumvarpi og þjóðin sé búin að fá nóg af málinu, kemur fram með skýrum hætti í skoðanakönnun MMR nú í desember að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna (69%) vill fá að kjósa um frumvarpið.

Flestir Íslendingar hafa áttað sig á því að verið er að ganga á lýðræðislegan rétt landsmanna með því að binda hendur þeirra gagnvart erlendum ríkjum til ófyrirsjáanlegrar framtíðar vegna skuldbindinga, sem eru umfram lagaskyldu og geta þar að auki reynst þjóðarbúinu ofviða. Skömm þeirra, sem slík ólög samþykkja, verður lengi uppi.

(Greinin birtist í Morgunblaðið 30.xii.2009)

Af hverju má ekki kjósa um skatta?

Margir eru forviða yfir forkastanlegum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í Icesave málinu. Endalaust koma upp nýir fletir á þessu ógæfumáli og sumir þannig að þeir myndu einir og sér duga heiðvirðum þingmönnum til að kasta frumvarpinu út í hafsauga. Nýjasta uppákoman snýst um hvernig ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis tók þátt í að fela einhverjar mikilvægustu staðreyndir málsins fyrir almenningi fram yfir kosningar sl. vor. Slíkt ráðabrugg háttsetts embættismanns og fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er reginhneyksli sem taka ætti á með afgerandi hætti.

Enn berast fréttir af því að einstakir þingmenn finni sér afsakanir til að vera fjarverandi þegar atkvæði verða greidd um eitt mikilvægasta mál lýðveldissögunnar. Orð Atla Gíslasonar í Morgunblaðinu á þriðjudag verða ekki skilin öðru vísi en að hann taki sér frí frá þingi fram yfir atkvæðagreiðslur Icesave og fjárlaga til að sinna lögmannsstörfum. Er þingmennska sum sé orðin aukastarf ogeinungis til uppfyllingar öðrum mikilvægari störfum?

Hefur þjóðin brugðist trausti Steingríms?

Vinnubrögð vinstri flokkanna sýna að best er að þjóðin fái að kjósa um Icesave frumvarpið. Stór hluti landsmanna hefur myndað sér skoðun á málinu og vill fá að hafa um það að segja hvort frekari fjárhagslegar skuldbindingar verði lagðar á þá, sem mjög er deilt um hvort þjóðin geti staðið undir.

Fróðlegt hefur verið að sjá ýmsa baráttumenn fyrir fjölgun þjóðaratkvæðagreiðslna, færa nú rök fyrir því að þær eigi ekki við í þessu tilviki. Þannig segir Steingrímur J. Sigfússon að í þjóðaratkvæðagreiðslum séu yfirleitt undanskilin ákveðin atriði, sem ekki sé talið gerlegt að kosið sé um, eins og fjárhagsskuldbindingar og skattar. Þarna slær Steingrímur J. Sigfússon enn einu sinni fram röngum fullyrðingum. Hefði hann kynnt sér þjóðaratkvæðagreiðslur víða um heim, kæmist hann að því að þær eru ekki síst notaðar til að skera úr um hvort varpa eigi yfir á almenning skattahækkunum og framkvæmdum sem hafa miklar fjárskuldbindingar í för með sér. Icesave málið snýst um gífurlegar fjárhagslegar skuldbindingar sem þjóðin mun þurfa að gera upp í formi skatta. Það er einboðið að hún fái að segja hug sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

(Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 9.xii.2009)

Óviðunandi IceSave samningur

Óviðunandi IceSave samningur
Miklar umræður hafa að undanförnu verið um þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að hneppa þjóðina í skuldaánauð vegna IceSave innlánsreikninga í Bretlandi og Hollandi. Margir hafa orðið til þess að benda á að óviðunandi sé að íslenska ríkið greiði kröfu upp á mörg hundruð milljarða, sem mikill vafi leiki á að það eigi að greiða samkvæmt lögum. Einnig ríkir óvissa um getu íslenska ríkisins til að greiða fjögurra milljarða evra IceSave skuldir með kúluláni á 5,5% vöxtum. Flestir óháðir sérfræðingar, sem hafa skoðað IceSave málið í heild eða einstakar hliðar þess, eru þeirrar skoðunar að hin ,,glæsilegu” samningsdrög vinstri stjórnarinnar við Breta og Hollendinga séu ótæk og megi ekki samþykkja óbreytt.
Varnaðarorð Evu Joly
Um síðustu helgi blandaði Eva Joly, Evrópuþingmaður og ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, sér í umræðurnar og benti á galla IceSave samningsins í dagblöðum í fjórum löndum. Erfitt er fyrir Jóhönnu, Steingrím og aðra ráðherra að gera lítið úr málflutningi hennar, eins mikið og þeir hafa gert úr hæfileikum hennar og ráðgjöf í málefnum tengdum bankahruninu og þeim efnahagserfiðleikum sem Íslendingar glíma nú við.
Eva Joly kemst að svipaðri niðurstöðu og ýmsir þeir Íslendingar, sem hvað mest hafa varað við þeim afarkostum sem ríkisstjórnin virðist vera reiðubúin að samþykkja. Hún bendir á að málið snúist um að lítil þjóð axli margra milljarða evra skuldabyrði, sem langstærstur hluti hennar beri nákvæmlega enga ábyrgð á og ráði alls ekki við að greiða. Bretar og Hollendingar neiti að viðurkenna ábyrgð sína í málinu en beiti Íslendinga þess í stað hneykslanlegum þvingunaraðgerðum. Fullyrðir Joly að Íslendingar muni ekki geta staðið undir umræddum ábyrgðum, sem ríkisstjórnin leggur nú allt kapp á að fá samþykktar.
Ríkisstjórnin ræður ekki við verkefnið
Nýútkomin skýrsla Hagfræðistofnunar Íslands rennir einnig stoðum undir þann málflutning að Alþingi beri að hafna IceSave samkomulaginu. Í skýrslunni kemur m.a. fram að í álitum fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans er ekki tekið tillit til þess að stóraukin skuldabyrði þjóðarinnar vegna IceSave hefði óhjákvæmilega neikvæð áhrif á lífskjör í landinu.
Þetta dæmi er aðeins enn ein staðfesting á því að ríkisstjórnin hefur reynst gersamlega óhæf til að vinna úr IceSave deilunni og leysa hana farsællega í þágu þjóðarinnar. Í fyrsta lagi var horfið frá því að láta reyna á ábyrgð Íslendinga í málinu fyrir réttum dómstólum. Illa var haldið á samningum fyrir hönd Íslands og Bretar og Hollendingar náðu fram öllum helstu markmiðum sínum. Kynningu á málstað Íslendinga hefur verið klúðrað, m.a. með því að forsætisráðherra hefur látið gullin tækifæri til funda með erlendum forsetum og forsætisráðherrum fram hjá sér fara. Síðast en ekki síst hefur ríkisstjórnin skellt skollaeyrum við umsögnum margra virtustu lögfræðinga landsins um málið en þeir hafa varað Alþingi eindregið við að samþykkja IceSave ánauðina með þeim hætti sem ríkisstjórnin hugsar sér.
Icesave
Hollenskur sparigrís.

Miklar umræður hafa að undanförnu verið um þá fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að hneppa þjóðina í skuldaánauð vegna IceSave innlánsreikninga í Bretlandi og Hollandi. Margir hafa orðið til þess að benda á að óviðunandi sé að íslenska ríkið greiði kröfu upp á mörg hundruð milljarða, sem mikill vafi leiki á að það eigi að greiða samkvæmt lögum. Einnig ríkir óvissa um getu íslenska ríkisins til að greiða fjögurra milljarða evra IceSave skuldir með kúluláni á 5,5% vöxtum. Flestir óháðir sérfræðingar, sem hafa skoðað IceSave málið í heild eða einstakar hliðar þess, eru þeirrar skoðunar að hin ,,glæsilegu” samningsdrög vinstri stjórnarinnar við Breta og Hollendinga séu ótæk og megi ekki samþykkja óbreytt.

Varnaðarorð Evu Joly

Um síðustu helgi blandaði Eva Joly, Evrópuþingmaður og ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, sér í umræðurnar og benti á galla IceSave samningsins í dagblöðum í fjórum löndum. Erfitt er fyrir Jóhönnu, Steingrím og aðra ráðherra að gera lítið úr málflutningi hennar, eins mikið og þeir hafa gert úr hæfileikum hennar og ráðgjöf í málefnum tengdum bankahruninu og þeim efnahagserfiðleikum sem Íslendingar glíma nú við.

Eva Joly kemst að svipaðri niðurstöðu og ýmsir þeir Íslendingar, sem hvað mest hafa varað við þeim afarkostum sem ríkisstjórnin virðist vera reiðubúin að samþykkja. Hún bendir á að málið snúist um að lítil þjóð axli margra milljarða evra skuldabyrði, sem langstærstur hluti hennar beri nákvæmlega enga ábyrgð á og ráði alls ekki við að greiða. Bretar og Hollendingar neiti að viðurkenna ábyrgð sína í málinu en beiti Íslendinga þess í stað hneykslanlegum þvingunaraðgerðum. Fullyrðir Joly að Íslendingar muni ekki geta staðið undir umræddum ábyrgðum, sem ríkisstjórnin leggur nú allt kapp á að fá samþykktar.

Ríkisstjórnin ræður ekki við verkefnið

Nýútkomin skýrsla Hagfræðistofnunar Íslands rennir einnig stoðum undir þann málflutning að Alþingi beri að hafna IceSave samkomulaginu. Í skýrslunni kemur m.a. fram að í álitum fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans er ekki tekið tillit til þess að stóraukin skuldabyrði þjóðarinnar vegna IceSave hefði óhjákvæmilega neikvæð áhrif á lífskjör í landinu.

Þetta dæmi er aðeins enn ein staðfesting á því að ríkisstjórnin hefur reynst gersamlega óhæf til að vinna úr IceSave deilunni og leysa hana farsællega í þágu þjóðarinnar. Í fyrsta lagi var horfið frá því að láta reyna á ábyrgð Íslendinga í málinu fyrir réttum dómstólum. Illa var haldið á samningum fyrir hönd Íslands og Bretar og Hollendingar náðu fram öllum helstu markmiðum sínum. Kynningu á málstað Íslendinga hefur verið klúðrað, m.a. með því að forsætisráðherra hefur látið gullin tækifæri til funda með erlendum forsetum og forsætisráðherrum fram hjá sér fara. Síðast en ekki síst hefur ríkisstjórnin skellt skollaeyrum við umsögnum margra virtustu lögfræðinga landsins um málið en þeir hafa varað Alþingi eindregið við að samþykkja IceSave ánauðina með þeim hætti sem ríkisstjórnin hugsar sér.

(Grein þessi birtist í Viðskiptablaðinu hinn 6.8.2009.)

Góða umferðarhelgi!

Mikil umferð hefur verið um þjóðvegi landsins í sumar enda kjósa margir að ferðast innanlands vegna versnandi efnahags. Við upphaf mestu umferðarhelgi ársins er, í varnaðarskyni, rétt að minna á helstu orsakir banaslysa. Hver og einn getur farið yfir þessi atriði og metið með sjálfum sér hvort hann þurfi að breyta aksturslagi sínu. Auk banaslysa, valda eftirfarandi þættir fjölda annarra slysa og miklu eignatjóni í umferðinni:

 • Hraðakstur.
 • Bílbelti ekki notað.
 • Ölvunarakstur.
 • Svefn og þreyta.
 • Reynsluleysi ökumanns.
 • Forgangur ekki virtur.
 • Vegur og umhverfi.

Orsakir banaslysa tengjast oftast ákveðinni áhættuhegðun ökumanns eða mannlegum mistökum hans. Samkvæmt ársskýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa hefur banaslysum í umferðinni fækkað verulega á síðastliðnum árum ef slysaárið 2006 er undanskilið. Síðastliðin fimm ár (2004-2008) fórust 100 manns í umferðarslysum á Íslandi en 129 manns á árunum fimm þar á undan (1999-2003).

Þrátt fyrir að umferðarslysum hafi fækkað verulega frá árinu 2006, hefur alvarlegum umferðarslysum því miður fjölgað. Í slysaskrá Umferðarstofu eru128 umferðarslys skráð með miklum meiðslum árið 2006 en 164 árið 2008. Bifhjólaslysum og framan-árekstrum bifreiða fjölgaði mest.

Bílbeltin bjarga mannslífum

Rannsóknarnefndin telur líklegt að á árunum 1998-2008 hefðu 43 ökumenn og farþegar lifað af slys, hefðu þeir verið svo forsjálir að nota bílbelti. Í mörgum tilvikum kastast fólk út úr ökutækjum eftir veltur og bíður bana eða stórslasast vegna höfuðáverka, sem hljótast af harðri lendingu við jörð eða þegar ökutækið veltur yfir það. Þau dæmi eru sorglega mörg þar sem sjálf bílgrindin og farþegarýmið þola áreksturinn en fólk lætur lífið þar sem bílbelti voru ekki spennt. Afar mikilvægt er að bílbelti séu bæði notuð af ökumanni og öllum farþegum hvort sem þeir sitja í fram- eða aftursæti.

Varhugaverðir malarvegir

Aldrei er nægilega brýnt fyrir vegfarendum að sýna sérstaka varúð þegar ekið er eftir malarvegum, einkum þegar komið er inn á slíka vegarkafla af malbiki. Á slíkum vegum er enn mikilvægara en ella að hægt sé á bifreiðum þegar þær mætast vegna grjótkasts og rykmengunar. Af sömu ástæðu er mjög mikilvægt að menn hægi verulega á sér þegar ekið er framhjá gangandi eða hjólandi vegfarendum á malarvegum.

Um leið og hvatt er til aðgæslu í umferðinni minni ég á ellefu hundruð ára gamalt spakmæli Skallagríms Kveldúlfssonar, sem enn er í fullu gildi: „Gott er heilum vagni heim að aka.“

(Grein þessi birtist í Fréttablaðinu, 30.vii.2009.)

Glæsileg knattspyrnuhátíð í Reykjavík

Laugardalurinn iðaði af lífi og fjöri um síðustu helgi þegar ReyCup knattspyrnumótið fór þar fram í áttunda sinn. Mótið hefur orðið fjölmennara og glæsilegra með ári hverju og er nú orðið stærsta einstaka knattspyrnumót á Íslandi. Rúmlega 1.600 unglingar í 105 keppnisliðum tóku nú þátt í mótinu. Ánægjulegt er hve mörg lið utan Reykjavíkur tóku þátt í keppninni en metþátttaka var af landsbyggðinni auk liða frá Danmörku, Englandi og Færeyjum.

07 Vestur fagnar verðskulduðum sigri.
Sigri hrósað.

Mikilvægt er að íþróttafélög haldi úti þróttmiklu og metnaðarfullu starfi fyrir börn og unglinga þrátt fyrir versnandi efnahagsástand. Gaman hefur verið að fylgjast með velheppnuðum knattspyrnumótum víðs vegar um landið í sumar, t.d. á Akranesi, Akureyri, í Vestmannaeyjum og nú síðast í Reykjavík.

ReyCup er einn af hápunktum ársins hjá ungum knattspyrnuiðkendum í 3. og 4. flokki pilta og stúlkna eða á aldrinum 13-16 ára. Eftir því sem unglingarnir okkar fá fleiri tækifæri til að finna kröftum sínum viðnám í krefjandi keppni, er líklegra að það dragi úr brottfalli þessa aldurshóps úr íþróttum. Ungmennin takast á í heilbrigðri keppni og mynda ný vinatengsl. Samvinna, keppni, sigurgleði og vonbrigði blandast saman svo úr verður mikil og góð upplifun fyrir ungt keppnisfólk.

ReyCup er haldið af Knattspyrnufélaginu Þrótti með stuðningi Reykjavíkurborgar. Þróttarar annast sjálft mótshaldið en Reykjavíkurborg útvegar knattspyrnuvelli og aðra aðstöðu, t.d. fimm grunnskóla undir gistingu ásamt aðgangi að sundlaugum og Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Hugmyndin að mótshaldinu kviknaði árið 2001 meðal bjartsýnisfólks í foreldrastarfi Þróttar. Rætt var um að þörf væri á metnaðarfullu móti fyrir 13-16 ára aldurinn og að Laugardalurinn væri tilvalinn mótsstaður. Sumir töldu að um óhóflega bjartsýni væri að ræða en fyrsta mótið var haldið sumarið eftir og nú er það orðið að árvissum viðburði í borgarlífinu.

Mikill metnaður einkennir mótshaldið og mestur hluti vinnunnar er inntur af hendi í sjálfboðaliðavinnu af hinum öfluga foreldrahópi í Þrótti. Fyrir hönd íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur vil ég sérstaklega þakka þessum harðsnúna hópi fyrir vel unnin störf í þágu æskulýðsmála í Reykjavík. Einnig óska ég aðstandendum Reycup sem og öllum keppendum til hamingju með vel heppnað mót með von um að þeir haldi áfram að þroska hæfileika sína og efla líkamshreysti á vettvangi íþrótta.

(Greinin birtist í Fréttablaðinu hinn 27.vii.2009.)

Rangfærslur vegna ummæla um tónlistarhús leiðréttar

Í laugardagsblaði Morgunblaðsins kjósa Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar TR og Stefán P. Eggertsson, stjórnarformaður sama fyrirtækis, að bera undirritaðan þeim sökum að hafa viðhaft villandi ummæli í sjónvarpsumræðum sl. miðvikudag um kostnað skattgreiðenda vegna tónlistarhúss við Reykjavíkurhöfn (TRH). Slíkar ásakanir eru ósanngjarnar og ekki verður hjá því komist að leiðrétta þær.Segja þeir félagar að þegar ráðist sé í fjárfestingu, sem fjármögnuð sé með lánum, sé afar villandi að ræða um kostnað verkefnisins sem heildargreiðslur afborgana og vaxta á öllum lánstímanum. Að ræða um kostnað verkefnisins sem 30 milljarða sé villandi.

Ásakanir þessar um villandi ummæli eru rangar og óskiljanlegar í ljósi þess að ég hef frá upphafi þessa ógæfumáls lagt mikla áherslu á að gera greinarmun á kostnaðaráætlun byggingarinnar annars vegar og heildargreiðslum afborgana og vaxta á lánstíma hins vegar, þ.e. heildarskuldbindingu skattgreiðenda vegna verksins. Þegar ég, árið 2004, greiddi atkvæði gegn umræddum byggingarframkvæmdum, einn kjörinna fulltrúa, hafði ég m.a. til hliðsjónar miklar umræður, sem þá höfðu átt sér stað á vettvangi sveitarstjórna í Danmörku og víðar, um kosti og galla svokallaðrar einkaframkvæmdar. Þær umræður höfðu þá þegar m.a. leitt í ljós að kjörnir fulltrúar höfðu freistast til að misnota kosti einkaframkvæmdar til að auka lántöku sveitarfélaga vegna stórframkvæmda langt umfram það sem eðlilegt gat talist. Niðurstaðan var sú að stjórnmálamenn yrðu ekki síður að horfa til áætlaðra heildarskuldbindinga skattgreiðenda vegna opinberra byggingarframkvæmda en kostnaðaráætlana, sem hafa oft reynst heldur bjartsýnar hérlendis, svo ekki sé meira sagt.

Því miður hafa sumir baráttumenn fyrir byggingu tónlistarhússins ætíð viljað gera lítið úr hinum mikla vaxta- og fjármagnskostnaði vegna framkvæmdarinnar og jafnvel orðið þykkjuþungir þegar minnst hefur verið á slíkt. Er furðulegt að nú skuli tveir embættismenn opinbers fyrirtækis ráðast fram á ritvöllinn og saka undirritaðan um að gefa Kastljósi villandi upplýsingar þegar heildarkostnaður verksins er dreginn fram. Ítrekað skal að þegar farið er yfir umræddan Kastljósþátt, kemur skýrt fram að undirritaður gerir skýran greinarmun á kostnaði vegna byggingar sjálfs hússins og heildarskuldbindingu vegna alls verkefnisins. Í þættinum segir orðrétt: ,,Kjartan Magnússon borgarfulltrúi vill meina að þetta þýði að heildarskuldbindingar ríkis og borgar vegna tónlistarhússins næstu 35 árin nemi þá alls um 30. milljörðum. Kjartan hefur gagnrýnt framkvæmdir við tónlistarhúsið frá upphafi, einn borgarfulltrúa.“

Ég tel að gera verði þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir hugsi um langtímahagsmuni umbjóðenda sinna. Afar varlega þarf að fara í að samþykkja dýr verkefni og velta kostnaðinum við þau yfir á komandi kynslóðir eins og því miður gerðist þegar samþykkt var að ráðast í byggingu tónlistarhússins árið 2004. Það er lágmark að þeir sem bera ábyrgð á þeirri framkvæmd, embættismenn sem kjörnir fulltrúar, viðurkenni þann gífurlega vaxta- og fjármagnskostnað sem skattgreiðendur framtíðarinnar munu þurfa að bera vegna þessarar feikidýru framkvæmdar. Hvernig eiga Íslendingar að læra af þeim mistökum fortíðar, sem fólust í ofurskuldsetningu þjóðarinnar, ef menn kjósa að einblína á kostnaðaráætlanir en neita að horfast í augu við þau fjármagnsgjöld sem fylgja einkaframkvæmdum?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 28. júní 2009.

Nýr skóli í Úlfarsárdal

Eftir Kjartan Magnússon og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur:

ÞAÐ ER mikið fagnaðarefni fyrir íbúa og byggjendur í Úlfarsárdal að á fimmtudaginn var tekin skóflustunga að nýjum skóla, samreknum leik- og grunnskóla, sem áætlað er að taki til starfa haustið 2010. Breytt efnahagsástand hefur haft áhrif á hraða uppbyggingar í Úlfarsárdal og íbúar og tilvonandi íbúar eðlilega uggandi yfir málum. Eftir mikil samskipti okkar, embættismanna og íbúa, um hvernig hægt væri að búa að börnum í hverfinu og skapa mikilvægan samverustað íbúa varð samstaða um að leggja áherslu á að hefja byggingu á leikskóla fyrr en áætlað var og hefja rekstur samrekins leik- og grunnskóla í honum haustið 2010.

Samþætting og sveigjanleiki

Leikskólaráð- , menntaráð og íþrótta- og tómstundaráð lögðu því til, við framkvæmda- og eignaráð Reykjavíkurborgar, sameiginlega tillögu um að samrekinn leikskóli og grunnskóli fyrir 1.-4. bekk ásamt frístundaheimili taki til starfa í Úlfarsárdal. Í samrekstri skóla felast spennandi tækifæri í sveigjanleika á milli skólastiga og samþættingu skóla- og frístundastarfs. Í því skyni verður sem fyrst hafin bygging húsnæðis við Úlfarsbraut 118-120 sem hugsuð var sem framtíðarhúsnæði leikskóla í hverfinu. Á fyrsta starfsári skólans er reiknað með um 40-50 börnum á leikskólaaldri og svipuðum fjölda grunnskólabarna í 1.-4. bekk. Gert er ráð fyrir því að skólinn „eldist“ með börnunum, þ.e. árlega bætist við bekkur í skólann, jafnhliða því sem börnin verða eldri.

Spennandi hönnun

Skólahúsnæðið við Úlfarsbraut 118-120 er framtíðarhúsnæði leikskóla í hverfinu. Byggingin er hönnuð sem 5-6 deilda leikskóli á 5.350 m2 lóð eftir hönnunarsamkeppni. Áætlaður heildarkostnaður við bygginguna er 460 milljónir króna. Við hönnun byggingarinnar var haft í huga að umhverfið gegnir stóru hlutverki í uppeldi og menntun barna. Umhverfið innan húss er því skipulagt með það í huga. Það umhverfi sem börnunum er boðið er í senn öruggt, hvetjandi, aðlaðandi, verndandi og fallegt. Rýmið er sveigjanlegt á þann hátt að hægt er að stækka og minnka það eftir þörfum. Einnig er hugsað fyrir mismunandi aldri barnanna og miðað við stærð þeirra og þarfir og hentar því einnig vel fyrir starfsemi yngstu bekkja grunnskóla.

Með ákvörðun uppbyggingar sameiginlegs húsnæðis nýtist fjármagn til varanlegrar uppbyggingar. Leikskólinn fer strax í endanlegt húsnæði og starfsemi grunnskólans verður á sama svæði og fyrirhugaður grunnskóli og íþróttasvæði. Til viðbótar við spennandi tækifæri í sveigjanleika milli skólastiga og samþættingu skóla- og frístundastarfs verður húsnæðið án efa fyrsti samkomustaður hverfisins og eykur þannig samskipti og samræðu íbúa um framtíðina í þessu fallega hverfi.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 15. júní 2009.