Einingartákn og merkisberi íslenskra kvenna

Í dag eru 70 ár liðin frá andláti Ingibjargar H. Bjarnason, fyrsta alþingismanns Íslendinga úr hópi kvenna. Er við hæfi að minnast hennar enda er hún í hópi merkustu Íslendinga síðustu aldar. Kjartan Magnússon
Við þingsetningu árið 1923 þótti tíðindum sæta að þá tók kona fyrst sæti á Alþingi Íslendinga. Brautryðjandinn var Ingibjörg H. Bjarnason, skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík, kjörin af landslista, sem borinn var fram af konum. Þær ákváðu að bjóða fram sérstakan kvennalista eftir að fullreynt þótti að samkomulag tækist ekki við stjórnmálaflokkana um að konur skipuðu sæti ofarlega á framboðslistum þeirra. Markmiðið var að koma konu á þing og það tókst.Ingibjörg fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 14. desember 1868, dóttir hjónanna Hákons Bjarnasonar kaupmanns og Jóhönnu Kristínar Þorleifsdóttur. Af tólf börnum þeirra létust sjö úr barnaveiki en upp komust fjórir synir og ein dóttir.

Skömmu eftir fæðingu Ingibjargar hóf Hákon verslunarrekstur og þilskipaútgerð og var jafnframt með skip í ferðum á milli landa. Þegar Ingibjörg var á níunda ári fórst Hákon ásamt flestum úr áhöfn sinni þegar skip hans brotnaði á Mýrdalssandi á heimleið frá Kaupmannahöfn. Móðir hennar hélt rekstri verslunarinnar á Bíldudal áfram næstu árin og lagði mikla áherslu á að mennta börnin. Fjölskyldan fluttist síðar til Reykjavíkur þar sem Ingibjörg gekk í Kvennaskólann og lauk þaðan prófi 1882. Næstu ár stundaði hún nám hjá Þóru Pétursdóttir biskups en sigldi árið 1884 til Kaupmannahafnar þar sem hún stundaði nám næstu tíu árin, einkum á sviði uppeldis- og kennslumála.

Brautryðjandi í leikfimikennslu

Ingibjörg varð fyrsti Íslendingurinn til að ljúka leikfimikennaraprófi en það gerði hún árið 1892 frá Poul Petersens Institut. Eftir heimkomu til Íslands hóf hún kennslu í fimleikum við Barnaskólann en sú námsgrein hafði ekki verið kennd þar fram að þessu. Lagði hún ætíð mikla áherslu á mikilvægi góðrar leikfimikennslu fyrir börn og ungmenni og sá til þess að henni væri vel sinnt í Kvennaskólanum. Var það henni mikið metnaðarmál að leikfimihús yrði reist við Kvennaskólann en það hefur ekki enn orðið að veruleika.

Þegar Ingibjörg kom heim frá námi 1893 hóf hún kennslu við Barnaskóla Reykjavíkur, Kvennaskólann og í aukatímum. Helstu kennslugreinar voru danska, heilsufræði, teiknun, hannyrðir, leikfimi og dans og kom brátt í ljós að Ingibjörg var góður kennari.

Árið 1901 fór Ingibjörg enn utan til náms og dvaldi í tvö ár í Þýskalandi og Sviss til að kynna sér helstu nýjungar í kennslumálum. Eftir heimkomuna kenndi Ingibjörg áfram við Barnaskólann og Kvennaskólann.

Skólastjóri Kvennaskólans

Þegar Þóra Melsteð, skólastjóri Kvennaskólans, lét af störfum árið 1906 tók Ingibjörg við stjórn skólans og gegndi starfinu til æviloka eða í 35 ár. Eitt fyrsta verkefni Ingibjargar var að leysa húsnæðisvanda skólans en það var gert með byggingu húss við Fríkirkjuveg. Fluttist skólinn þangað árið 1909 og bjó Ingibjörg sjálf í skólanum.

Kvennaskólinn þótti vera til fyrirmyndar í starfsháttum undir stjórn Ingibjargar. Áhersla var lögð á reglusemi og nákvæmrar hlýðni krafist við settar reglur en Ingibjörg gekk sjálf á undan með góðu fordæmi. Hún var þekkt fyrir stjórnsemi og jákvæðan aga, sköllin á göngum Kvennaskólans hljóðnuðu þegar hún gekk um. Námsmeyjarnar vissu að góðvild bjó að baki strangleikanum og jafnframt að góðlátleg kímni féll í góðan jarðveg hjá henni.

Félagsstarf kvenna í Reykjavík

Ingibjörg var virk í félagslífi Reykjavíkur og drifkraftur í ýmsum samtökum kvenna. Hún starfaði í Thorvaldsenfélaginu, tók þátt í leiksýningum á vegum þess og var í stjórn barnauppeldissjóðs félagsins. Hún starfaði einnig í Hinu íslenska kvenfélagi og var einn af stofnendum Lestrarfélags kvenna 1911 og sat í fyrstu stjórn þess. Hún átti einnig þátt í stofnun Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1913 og sat þar einnig í stjórn.

Í júní 1915 komu fulltrúar tólf kvenfélaga í Reykjavík saman á fundi og ræddu hvernig ætti að fagna því að 19. júní hefði Alþingi samþykkt að þær fengju stjórnmálaleg réttindi til jafns við karla. Sú hugmynd var samþykkt að konur skyldu gangast fyrir byggingu sjúkrahúss og það yrði sem bautasteinn fyrir nýfengnum réttindum.

Barátta fyrir Landspítala

Til að fagna réttarbótinni efndu konurnar til hátíðar við setningu þingsins hinn 7. júlí. Fjöldi kvenna safnaðist saman við Miðbæjarskólann og gekk fylktu liði inn á Austurvöll. Nefnd fimm kvenna fór inn í þinghúsið og hafði Ingibjörg orð fyrir þeim. Í ávarpi til þingheims vottaði hún þingmönnum gleði og þakklæti kvenna fyrir nýfengin réttindi. Að lokinni athöfn í þinghúsi hófst hátíð á Austurvelli þar sem Ingibjörg lýsti yfir því í heyranda hljóði fyrir hönd kvennasamtaka í Reykjavík að réttarbótarinnar yrði minnst með fjársöfnun til byggingar Landspítala. Þörfin var brýn og skortur á sjúkrarými brann mjög á konum.

Sjálfgefið var að Ingibjörg yrði formaður sjóðstjórnarinnar, Landspítalasjóðs Íslands. Jafnframt var stofnaður Minningargjafasjóður Landspítalans til styrktar fátækum, sem þyrftu á spítalavist að halda, og var Ingibjörg einnig formaður hans. Þessi sjóður sinnti afar mikilvægu starfi enda hafði almannatryggingum ekki verið komið á fót þegar hér er komið sögu. Var Ingibjörg formaður beggja sjóða til æviloka.

Beitti hún áhrifum sínum fyrir málinu hvar sem hún gat, m.a. á Alþingi. Var hún skipuð í nefnd til að ákveða lóð, stærð og byggingargerð væntanlegs Landspítala og síðar í byggingarnefnd spítalans.

Ingibjörg vann þrotlaust að fjársöfnun fyrir Landspítalann og var 19. júní ætíð helsti söfnunardagur sjóðsins. Þegar upp var staðið dugðu framlög úr Landspítalasjóðnum til að standa straum af fjórðungi kostnaðar vegna áætlaðs stofnkostnaðar spítalans. Telur einhver að það væri áhlaupsverk að safna svo stórum upphæðum fyrir opinberri byggingu með frjálsum framlögum landsmanna á okkar dögum?

Við vígslu spítalans fengu aðstandendur Landspítalasjóðsins miklar þakkir hvaðanæva af landinu. Sagt var að framlag sjóðsins hefði ráðið úrslitum en ekki skipti minna máli sú barátta fyrir málinu, sem Ingibjörg leiddi á Alþingi. Ekki fengu þessar konur síður þakkir fyrir það að hafa opnað Landspítalann fyrir fátæklingum.

Eftir að spítalinn var risinn og tekinn til starfa 1930 hélt Landspítalasjóðurinn áfram starfsemi og var veitt úr honum síðar til byggingar annarra húsa spítalans.

Fyrsti þingmaður úr hópi kvenna

Ingibjörg hafði verið svo sjálfkjörin í forystusveit í Landspítalamálinu að það kom nokkurn veginn af sjálfu sér að hún skipaði efsta sæti á landslista kvenna til Alþingis árið 1922. Hún var þá þegar orðin landskunn sem skólastjóri Kvennaskólans og fyrir önnur störf að menntamálum auk þess að vera helsti forsvarsmaður Landspítalasjóðsins. Enginn kjósandi efaðist um að hún myndi beita kröftum sínum á Alþingi í þágu þessara mála.

Það gustaði um Ingibjörgu á Alþingi eins og við var að búast. Ekki er víst að það hafi verið þægilegt að vera ein kvenna á þingi og víst er að hún mátti þola athugasemdir og áhrínsorð um kynferði sitt. Til samanburðar má nefna að þegar konur buðu fram Kvennalistann 1908 náðu þær fjórar kjöri og höfðu því styrk hver af annarri. Í blaðagrein frá 1930 fjallaði Ingibjörg um þetta og sagði þá m.a.: „Fyrstu konurnar, brautryðjendurnir, verða auðvitað fyrir ýmsu hnjaski aðeins vegna þess að þær eru konur – en slíkt má ekki setja fyrir sig. Þegar konunum fjölgar á Alþingi Íslendinga hverfur það að ráðist sé á þær sérstaklega af því að þær eru konur.“

Réttur stúlkna til bóknáms

Á Alþingi beitti Ingibjörg sér fyrir fjölmörgum málum og voru mörg þeirra síður en svo „sérmál kvenna“. Auk byggingar Landspítalans má t.d. nefna bætt húsakynni og afnám óhollra íbúða. En það stóð henni nær að berjast gegn óréttlæti í löggjöf, sem bitnaði á konum, og beitti hún sér t.d. fyrir réttarbótum vegna launamála og hjúskapar þeirra. Hún var formaður menntamálanefndar um hríð og barðist fyrir því að stúlkur öðluðust sama rétt og piltar til að ganga í menntaskóla. Í fyrstu mætti hún skilningsleysi margra þingmanna en hafði sigur að lokum. Töldu þessir þingmenn að menntaskólar væru fyrst og fremst fyrir pilta en stúlkur ættu að fara í húsmæðraskóla ef þær vildu mennta sig frekar. Tók hún margar rimmur um þetta mál í þingsölum við Jónas frá Hriflu og gaf hvorugt nokkuð eftir. Við andlát Ingibjargar skrifaði Jónas um hana með virðingu í minningargrein.

Ingibjörg sat á átta þingum

Nokkru eftir að hún varð þingmaður gekk hún til samstarfs við Íhaldsflokkinn, síðar Sjálfstæðisflokkinn. Var hún gagnrýnd fyrir það en eflaust taldi hún sig eiga meiri möguleika á því að vinna baráttumálum sínum framgang í stórum flokki frekar en þingmaður utan flokka. Hún leit jafnframt á sig sem þingmann allra landsmanna, en ekki einungis málsvara kvenna, og sætti hún einnig ámæli fyrir það.

Ingibjörg lést 30. október 1941. Á Alþingi kvaddi forseti sameinaðs þings, Haraldur Guðmundsson, hana m.a. með þessum orðum: „Hún mun jafnan verða talin í fremstu röð þeirra kvenna er tóku að sinna almennum þjóðmálum með fullum réttindum eftir stjórnarskrárbreytinguna 1915 þá er konum var veittur kosningaréttur.“

Brautryðjandi

Ingibjörg var virðuleg og skyldurækin kona. Hún giftist ekki og eignaðist ekki börn en varði kröftum sínum óskiptum í hin fjölmörgu þjóðþrifaverkefni, sem hún tók sér fyrir hendur. Henni er lýst svo að hún væri fríð kona og gervileg. Hún þótti einörð og það sópaði að henni hvar sem hún fór.

 

Ljóst er að Ingibjörg er í hópi merkustu Íslendinga á síðustu öld og ættu fleiri að þekkja sögu hennar en raun ber vitni. Hún var sannkallaður brautryðjandi á mörgum sviðum; í menntamálum, heilbrigðismálum, réttindamálum kvenna, íþróttamálum og menningarmálum. Gísli Jónsson íslenskukennari skrifaði m.a. um hana að hún hefði í glæsileik sínum og öðrum mannkostum árum saman verið einingartákn íslenskra kvenna.

 —

Þessi grein birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 30. október 2011. Við ritun hennar var einkum stuðst við grein Bjargar Einarsdóttur um Ingibjörgu, sem birtist í öðru bindi greinasafns Bjargar „Úr ævi og starfi íslenskra kvenna“.

Spaugsami sáttasemjarinn

100 ár eru liðin frá fæðingu Josephs Luns, framkvæmdastjóra NATÓ, sem átti stóran þátt í friðsamlegri lausn þorskastríðanna.

Í dag, sunnudag, eru eitt hundrað ár liðin frá fæðingu Josephs Luns, fyrrverandi utanríkisráðherra Hollands og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins (NATÓ) á áttunda áratug nýliðinnar aldar þegar Íslendingar áttu í hörðum deilum við Breta vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar.

Luns fæddist 28. ágúst 1911. Að loknu laganámi gekk hann til liðs við hollensku utanríkisþjónustuna. Á stríðsárunum starfaði hann utan hins hernumda heimalands síns, m.a. í þágu hollenskra flóttamanna og tók þátt í hernaðarnjósnum í þágu bandamanna. Eftir stríð var Luns svo skipaður vara-fastafulltrúi Hollands hjá Sameinuðu þjóðunum í árdaga þeirra og formaður afvopnunarnefndar samtakanna.

Utanríkisráðherra Hollands í tvo áratugi

Árið 1952 varð Luns utanríkisráðherra Hollands og gegndi hann því embætti óslitið í nítján ár eða til 1971. Hefur enginn sinnt því embætti lengur. Það er líka til marks um traustið, sem Luns naut, að hann sat í ríkisstjórnum, sem voru ýmist taldar til hægri eða vinstri á litrófi stjórnmálanna.

Árið 1971 tók Luns við stöðu framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Í því starfi lagði hann áherslu á að efla pólitíska þáttinn í starfi þess og treysta tengsl milli aðildarþjóðanna. Á embættistíma hans hófust viðræður við Varsjárbandalagið um að draga úr vígbúnaði án þess að jafnvægi raskaðist og minnka þannig spennu á milli austurs og vesturs. Luns studdi slíkar viðræður eindregið en lagði jafnframt áherslu á að NATÓ-ríkin yrðu að viðhalda fælingarmætti sínum með traustum vörnum til að draga úr hættu á átökum.

Þorskastríðin

Margir Íslendingar kynntust Luns persónulega í tengslum við þorskastríðin tvö á áttunda áratugnum þegar Íslendingar færðu út fiskveiðilögsögu sína, 1972-73 í 50 mílur og 1975-76 í 200 mílur. Ýmsar þjóðir töldu þessar útfærslur ekki standast að þjóðarrétti, sem þó var í örri þróun á þessum árum. Í bæði skiptin komust þessar deilur á mjög alvarlegt stig þegar Bretar sendu herskip á vettvang til að verja veiðar togara sinna, sem þeir töldu vera í fullum rétti að veiða á Íslandsmiðum. Íslensk varðskip notuðu óspart togvíraklippur sínar gegn breskum togurum en Bretar beittu freigátum og dráttarbátum til ásiglinga á íslensk varðskip.

Bandalagsþjóðir Íslendinga og Breta í NATÓ höfðu miklar áhyggjur af deilunni. Þótt alvöru vopnum væri ekki beitt, óttuðust margir að deilan kynni að stigmagnast með hræðilegum afleiðingum, leiða til manntjóns og þá hugsanlega úrsagnar Íslands úr bandalaginu, sem andstæðingar þess reru mjög að. Lét Luns mjög til sín taka í þessum friðarumleitunum og var óþreytandi við að bera klæði á vopnin. Lagði hann hart að báðum aðilum að sýna stillingu á miðunum meðan leitað væri lausnar. Íslendingar kröfðust fullra yfirráða yfir miðunum en Bretar vísuðu í fornan rétt um frjálsar veiðar á „opnu hafi.“ Ómögulegt var að samræma þessi sjónarmið og sýnt að annar aðilinn yrði að gefa eftir.

Ötullega unnið að sáttum

Meðan á sáttaumleitunum stóð var Luns í stöðugu sambandi við deilendur og kom þá nokkrum sinnum hingað til lands. Sagði hann gjarnan að menn yrðu að gera sér það ljóst að Ísland væri mikilvægt fyrir NATÓ og að fiskveiðar væru mikilvægar fyrir Ísland. Þótti fulltrúum Breta Luns sýna málstað Íslendinga full mikinn skilning og hann jafnvel draga taum okkar á stundum. NATÓ-ráðið, æðsta stofnun bandalagsins, reyndist mjög farsæll vettvangur fyrir Íslendinga í deilunni. Þar sannaði bandalagið með ótvíræðum hætti getu sína til að stuðla að lausn viðkvæmra deilumála. Ýmsir mikilvægir sáttafundir voru að auki haldnir á einkaskrifstofu Luns í höfuðstöðvum NATÓ í Brüssel.

Smám saman varð ljóst að það yrði hlutskipti Breta að gefa eftir, ekki síst vegna þrýstings frá Bandaríkjamönnum og öðrum NATÓ-ríkjum. Landhelgisdeilunum við Breta lauk því blessunarlega með fullum sigri Íslendinga í júní 1976.

Í leiðaraskrifum Morgunblaðsins á þessum tíma kemur vel fram að Íslendingar voru þakklátir Luns fyrir ríkulegt framlag hans til sáttaumleitana í þorskastríðunum og töldu hann hafa sýnt þeim mikinn drengskap. Við setningu alþjóðlegrar ráðstefnu um öryggismál, sem haldin var í Reykjavík ári síðar, í ágúst 1977, þakkaði Geir Hallgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, Luns sérstaklega fyrir þátt hans til lausnar deilunnar.

Mikill á velli

Luns var hávaxinn og tígulegur, afar litríkur persónuleiki og margir rugluðust á honum og de Gaulle, hinum fræga leiðtoga Frakka. Reyndar var sagt í gamni að Luns væri eini viðmælandi de Gaulle, sem hefði verið nógu hár til að líta niður á hann. Luns var yfirleitt elskulegur en gat einnig verið harður í horn að taka og jafnvel yfirlætislegur ef svo bar undir. Þótt Luns væri fasmikill, strunsaði hann ekki í gegnum hóp manna, heldur gaf sig alltaf að einhverjum þar, tók í hendur manna, vék orði til þeirra eða tók þá með sér afsíðis til samræðna. Luns var galsafenginn og þekktur fyrir góða kímnigáfu.

Á löngum fundum átti Luns það til að fara úr skónum. Frægt varð þegar hann gerði það á flokksfundi í hollenska þinginu en gleymdi að fara í þá aftur. Var hann kominn fram í anddyri þingsins þegar blaðaljósmyndarar veittu þessum óvenjulega fótabúnaði athygli. Þetta leit ekki vel út í formfestu eftirstríðsáranna fyrir ráðherra hins íhaldssama Kaþólska alþýðuflokks. Luns lét þó ekki slá sig út af laginu heldur bætti um betur með því að taka dansspor fyrir ljósmyndarana. Aflaði hann sér vinsælda með þessari óvæntu uppákomu.
Eitt sinn var Luns spurður að því á fundi hve margir ynnu hjá NATÓ og svaraði að bragði sem frægt varð: „Um það bil helmingurinn!“ Hafa margir á ólíkum stöðum orðið til að gera þetta tilsvar hans að sínu.

Framkvæmdastjóri lengst allra

Luns gegndi starfi framkvæmdastjóra NATÓ í 13 ár eða lengst allra. Hann lést 17. júlí 2002, níræður að aldri, síðasti fulltrúi þeirrar kynslóðar evrópskra stjórnmálaleiðtoga, sem bæði byggðu upp Atlantshafsbandalagið og hófu sameiningarferli Evrópu að lokinni síðari heimsstyrjöldinni. Í starfi framkvæmdastjóra NATÓ reyndi mikið á hann andspænis þeirri ógn, sem vestrænum lýðræðisríkjum stafaði af alræðisöflum í austri. Ekki var þó síður merkur þáttur hans í að efla samhug og eindrægni innan bandalagsins með því að miðla málum milli hinna mörgu aðildarríkja þegar hagsmunum þeirra laust saman. Í báðum hlutverkum reyndist hann mjög farsæll. Einna best tókst honum upp við að miðla málum í þorskastríðunum. Er ljóst að Íslendingar fá seint fullþakkað Luns og öðrum stjórnmála- og embættismönnum, sem lögðu mikið af mörkum til friðsamlegrar lausnar hinna erfiðu deilna við Breta. Nú, þegar öld er liðin frá fæðingu Luns, getum við Íslendingar því sannarlega minnst hans með þakklæti.

— — —
Greinin birtist upphaflega í Sunnudagsmogganum 28. ágúst 2011.

Góða umferðarhelgi

Við upphaf mestu umferðarhelgar ársins er ekki úr vegi að ökumenn hugleiði helstu orsakir alvarlegra umferðarslysa áður en lagt er út á þjóðvegi landsins. Hver og einn getur síðan metið með sjálfum sér hvort hann þurfi að breyta aksturslagi sínu. Rannsóknir sýna að helst má rekja banaslys og önnur alvarleg slys til eftirfarandi þátta:

  • Hraðakstur.
  • Bílbelti ekki notuð.
  • Ölvunarakstur.
  • Svefn og þreyta.
  • Reynsluleysi ökumanns.
  • Forgangur ekki virtur.
  • Vegur og umhverfi.

Af þessari upptalningu sést að orsakir banaslysa má oftast rekja til áhættuhegðunar ökumanns eða mannlegra mistaka hans. Stöðugt er unnið að því að gera bílana sjálfa öruggari sem og vegina og umhverfi þeirra. Þau tilvik eru hins vegar sorglega mörg þar sem fólk kastast út úr ökutækjum og bíður bana eða stórslasast vegna höfuðáverka, sem hljótast af harðri lendingu við jörð eða þegar ökutækið veltur yfir það. Oft þolir sjálfur bíllinn áreksturinn en fólk í honum stórslasast eða lætur lífið þar sem bílbelti voru ekki spennt.

Möl og malbik

Ekki verður nægilega brýnt fyrir vegfarendum að sýna sérstaka varúð þegar ekið er eftir hinum íslensku malarvegum, einkum þegar komið er inn á slíka vegi af malbiki eða bundnu slitlagi. Þar er einnig mikilvægara en ella að hægt sé á bifreiðum þegar þær mætast vegna grjótkasts og rykmengunar.

Gagnkvæm tillitsemi

Af sömu ástæðu er mjög mikilvægt að menn hægi verulega á bílum sínum þegar ekið er framhjá gangandi eða hjólandi vegfarendum á malarvegum. Því miður hefur verið kvartað yfir því að undanförnu að misbrestur sé á því að ökumenn geri það.

Um leið og öllum landsmönnum er óskað góðrar umferðarhelgar, skal minnt á gamalt spakmæli Skallagríms Kveldúlfssonar, sem enn er í fullu gildi: „Gott er heilum vagni heim að aka.“

 

— — —

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu 29. júlí.

Samfylkingin í afneitun

Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi skrifar grein í Fréttablaðið á föstudag þar sem hún reynir að réttlæta slæleg vinnubrögð borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins vegna fjárhagsáætlunargerðar. Greinin sýnir að borgarfulltrúar Samfylkingar láta sér í léttu rúmi liggja að Reykjavíkurborg er komin rúmum fimm mánuðum fram yfir lögbundinn frest vegna skila á þriggja ára fjárhagsáætlun til innanríkisráðuneytisins.

Umræddur dráttur vegna fjárhagsáætlanagerðar er síður en svo eina dæmið um lausatök meirihlutans á fjármálum Reykvíkinga. Sama dag og grein Oddnýjar birtist, kom fram í fréttum að Kauphöllin hefur áminnt Reykjavíkurborg og beitt hana sektarviðurlögum fyrir að birta ársreikning of seint. Áður höfðu fréttir verið sagðar af því að Kauphöllin áminnti borgina fyrir að greina ekki frá milljarða lánveitingum til Orkuveitunnar í samræmi við reglur. Enn fremur að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, rannsakar nú hvort umræddar lánveitingar borgarinnar brjóti í bága við EES-samninginn.

Afneitun í stað ábyrgðar

Eitt er að svo illa sé haldið á málum af hálfu meirihlutans að borgin greiði vanrækslusektir og að yfirvofandi séu frekari viðurlög af hálfu ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Það bætir hins vegar ekki úr skák þegar borgarfulltrúar meirihlutans bregðast við viðvörunarorðum og óskum, um að þessir hlutir séu tafarlaust lagfærðir í samræmi við skýr lagafyrirmæli, með ásökunum um að um sé að ræða óþarfa upphrópanir og upphlaup.

Oddný gerir mikið úr því í grein sinni hvað það sé erfitt fyrir borgina að skila þriggja ára áætlun og reynir síðan, eins og Dagur B. Eggertsson, að kenna um óvissu vegna tilflutnings málefna fatlaðra, sem átti sér stað um síðustu áramót.

Enn skal minnt á að Reykjavíkurborg hefur áður tekið við stórum málaflokkum frá ríkinu án þess að það hafi sett áætlanagerð sveitarfélagsins í uppnám. Þá var það ekki bara Reykjavíkurborg heldur öll önnur sveitarfélag, sem tóku við umræddum málaflokki. Flest ef ekki öll önnur sveitarfélög landsins hafa nú skilað umræddri þriggja ára áætlun og ekki er vitað til þess að neitt þeirra, utan Reykjavíkurborgar, reyni að nota málefni fatlaðra sem afsökun fyrir því að skila ekki lögbundnum gögnum til ráðuneytisins.

 

— — —

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 26. júlí 2011.

Upplausn í Ráðhúsi Reykjavíkur

Við núverandi aðstæður í efnahagsmálum skiptir miklu máli að Reykjavíkurborg haldi þeirri sterkri fjárhagslegu stöðu, sem byggð var upp á síðasta kjörtímabili undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Minnstu veikleikamerki geta hæglega rýrt traust borgarinnar gagnvart forsendum, en gott traust er forsenda þess að hún og fyrirtæki hennar geti sótt sér lánsfé á hagstæðum kjörum.

Við þessar aðstæður er það því mjög óheppilegt, svo ekki sé meira sagt, að Reykjavíkurborg skuli enn ekki hafa skilað þriggja ára fjárhagsáætlun til ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Slíkri áætlun bar borginni að skila til ráðuneytisins í febrúar sl. samkvæmt 63. grein sveitarstjórnarlaga. Ótækt er að slík vinnubrögð þekkist hjá langstærsta sveitarfélagi landsins. Fyrir utan þann álitshnekki, sem borgin verður fyrir, er hætta á að hún verði látin sæta viðurlögum vegna óhæfilegs dráttar.

Aldrei áður hefur vinna við þriggja ára fjárhagsáætlun tafist svo að ekki hafi náðst að afgreiða hana fyrir sumarleyfi borgarstjórnar. Fyrirspurnum einstakra borgarfulltrúa og fjölmiðla um málið hefur verið svarað með óviðunandi hætti af hálfu oddvita meirihlutaflokkanna og töldu þeir enga þörf á að ljúka umræddri áætlanagerð fyrir sumarfrí þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli um að henni hefði átt að vera lokið um miðjan febrúar.

Verkstjórn meirihlutans

Þriggja ára áætlun er með mikilvægustu stjórntækjum sveitarfélaga við fjármálastjórn. Með slíkri áætlun er mörkuð stefna í fjármálum til þriggja ára og er hún því mikilvægt vinnuplagg fyrir kjörna fulltrúa, embættismenn, fjölmiðla, almenning og aðra sem eru í fjárhagslegu sambandi við borgina. Afar mikilvægt er að slík áætlun liggi fyrir áður en vinna hefst við fjárhagsáætlun næsta árs. Yfirleitt hefst sú vinna á vormánuðum og er því ljóst að vinnu við gerð fjárhagsáætlunar 2012 er nú þegar komin í uppnám hjá Reykjavíkurborg.

Þetta er því miður ekki eina dæmið um lélega verkstjórn í Ráðhúsinu um þessar mundir. Borgarbúar hafa þegar fengið að kynnast verkstjórn meirihlutans með upplausn í skóla- og frístundamálum, vandræðagangi í sorphirðu og aðgerðaleysi í umhirðu borgarlóða svo nokkur atriði séu nefnd. Þótt fjármál borgarinnar séu ekki jafn sýnileg og bein þjónusta við borgarbúa getur kæruleysi og sleifarlag í þeim efnum ekki síður haft alvarlegar afleiðingar.

 

— — —

Greinin birtist upphaflega í Fréttablaðinu 21. júlí 2011.

Meirihluti borgarstjórnar klúðrar þriggja ára áætlun

Reykjavíkurborg hefur ekki enn skilað þriggja ára fjárhagsáætlun til ráðuneytis sveitarstjórnarmála eins og henni bar að gera í febrúar síðastliðnum. Óviðunandi er að þannig sé staðið að málum hjá langstærsta sveitarfélagi landsins og hætta er á að borgin verði látin sæta viðurlögum vegna óhæfilegs dráttar.

Í 63. grein sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að árlega skuli leggja fram og samþykkja þriggja ára áætlanir um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélaga. Skal áætlunin vera afgreidd af sveitarstjórn (borgarstjórn Reykjavíkur) innan tveggja mánaða frá afgreiðslu árlegrar fjárhagsáætlunar.
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var afgreidd 15. desember og hefði borgarstjórn því átt að fjalla um og afgreiða umrædda þriggja ára áætlun um miðjan febrúar. Öll nágrannasveitarfélögin hafa fyrir löngu skilað inn sinni áætlun en ekkert bólar á henni hjá Reykjavíkurborg.

Þýðing þriggja ára áætlunar

Fjárhagsáætlun, þriggja ára áætlun og ársreikningur eru mikilvægustu plöggin í fjármálastjórn sveitarfélaga. Gegna þessi plögg lykilhlutverki við eftirlit stjórnarráðsins gagnvart sveitarfélögum enda er mikil áhersla lögð á að þau séu afgreidd með réttum hætti og send ráðuneytinu. Slíkar áætlanir eru líka mikilvæg vinnugögn fyrir kjörna fulltrúa og embættismenn, sem vinna að fjármálum sveitarfélaga. Síðast en ekki síst eru slíkar áætlanir mikilvægar út frá lýðræðislegu sjónarmiði, í þeim fá almenningur og fjölmiðlar upplýsingar um stefnumörkun Reykjavíkurborgar í fjármálum sem og ýmsir aðilar, sem eru í fjármálalegum samskiptum við borgina. Mikilvægt er að þriggja ára áætlun liggi fyrir þegar vinna við fjárhagsáætlun næsta árs hefst og með því að afgreiða hana ekki hefur sú vinna verið sett í uppnám.

Vinnubrögðin í þessu máli eru táknræn fyrir þá upplausn og óvönduðu vinnubrögð, sem tíðkast nú í Ráðhúsi Reykjavíkur undir stjórn Jóns Gunnars Kristinssonar og Dags B. Eggertssonar. Aldrei áður hefur vinna við þriggja ára áætlun tafist svo að ekki hafi náðst að samþykkja hana fyrir sumarleyfi borgarstjórnar. Í raun má deila um hvort rétt hafi verið að senda borgarstjórn í sumarleyfi með þessa áætlun ófrágengna.

Ótrúverðugar skýringar

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að töfin stafi af yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til borgar um síðustu áramót. Í þessu sambandi má benda á að það var ekki bara Reykjavík, sem tók við þessum málaflokki frá ríkinu, heldur öll önnur sveitarfélög landsins. Er ekki vitað til þess að önnur sveitarfélög hafi þurft á fresti að halda vegna þessarar tilfærslu enda skiluðu þau flest af sér þriggja ára áætlun á fyrstu mánuðum ársins. Ekki má heldur gleyma því að Reykjavíkurborg hefur áður tekið á móti verkefnum frá ríkinu án þess að það hafi komið niður á áætlanagerð sveitarfélagsins og lögbundnum skilum á gögnum til ráðuneytis sveitarstjórnarmála.

Verkstjórnin í Ráðhúsinu

Þriggja ára áætlunin, eða öllu heldur skortur á henni, er því miður ekki eina klúðrið í Ráðhúsinu undir verkstjórn þeirra Dags og Jóns. Í liðnum mánuði áminnti Kauphöllin Reykjavíkurborg fyrir að greina ekki frá milljarða lánveitingu til Orkuveitunnar í samræmi við reglur. Á svipuðum tíma var einnig greint frá því að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, rannsaki hvort lánveitingar Reykjavíkurborgar til Orkuveitunnar brjóti í bága við EES-samninginn.

Fleira mætti nefna. En augljóst er að dæmin hrannast upp í Ráðhúsinu þar sem hagsmunir Reykvíkinga líða fyrir lélega verkstjórn borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingarinnar og Besta flokksins.

 

— — —

Þessi færsla birtist upphaflega í Morgunblaðinu hinn 18. júlí 2011.

 

Ósigur skattgreiðenda

Tónlistarhúsið Harpa er glæsilegt mannvirki enda um að ræða dýrasta hús Íslandssögunnar. Undarlegt er að á þeim tímamótum, sem opnun hússins er, virðast nokkrir af helstu fjölmiðlum landsins kjósa að fjalla einungis á jákvæðan hátt um húsið. (Hljómar kunnuglega.) Sumir fjölmiðlar einblína á viðbrögð ánægðra tónleikagesta en eru skattgreiðendur sáttir við að greiða stofn- og rekstrarkostnað í 35 ár? Full þörf er á að fjallað sé á gagnrýninn hátt um Hörpu eins og önnur verkefni og skattgreiðendur upplýstir um kostnað og óhjákvæmilega skuldadaga.

Í bæklingi um húsið, sem dreift hefur verið inn á hvert heimili, er ýtarlega fjallað um ýmsa þætti byggingarinnar en ekki minnst á kostnað. Í slíkum bæklingi hefði verið kjörið að upplýsa alþjóð um kostnað við bygginguna og heildarskuldbindingu skattgreiðenda. Skuldir hússins eru a.m.k. sá hluti þess, sem allir landsmenn munu eiga sameiginlega.

Harpa er dæmi um opinbert verkefni, sem stjórnmálamenn voru í upphafi fengnir til að styðja á grundvelli hóflegra kostnaðaráætlana en á síðari stigum hækkaði kostnaður upp úr öllu valdi.

Árið 1997 var rætt um að hægt væri að byggja gott tónlistarhús í Laugardal fyrir 1.550 milljónir króna. Árið 1998 hafði áætlunin hækkað í 2.500 milljónir og 1999 var hún komin í 3.500-4.000 milljónir. Í ársbyrjun 2002 var áætlað að húsið myndi kosta um 5.000 milljónir króna og árið 2003 var talan komin í 6.300 milljónir. Þegar hafist var handa við byggingu hússins var gert ráð fyrir því að byggingarkostnaður yrði um 12,5 milljarðar króna eða um 20 milljarðar að núvirði. Ekki liggja fyrir nýjar upplýsingar um heildarkostnað við bygginguna en hann er a.m.k. 28 milljarðar króna. Standist sú tala er fermetraverðið um ein milljón króna.

Vonandi standast yfirlýsingar aðstandenda hússins um að erlendir verktakar beri að mestu leyti kostnað vegna þegar framkominna galla við glerhjúp hússins. Málsmetandi arkitektar og verkfræðingar hafa þó lýst yfir áhyggjum yfir að mikil hætta sé á að frekari gallar muni koma í ljós, t.d. í stálvirki og gluggum hússins. Gott væri fyrir skattgreiðendur að vita hvort áhættumat hafi farið fram á byggingunni m.t.t. til slíkra galla.

 

— — —

Þessi færsla birtist upphaflega í Fréttablaðinu hinn 13. maí 2011.

 

Ólíkar áttir

,,Lífið getur verið erfitt og flókið. Maður veit aldrei í hvorn fótinn maður á að stíga. Við getum farið í ólíkar áttir en ég vona að ég hafi valið rétta leið.“

— Lokaorð aðalpersónunnar í söngleiknum ,,Ólíkum áttum“, í uppsetningu leiklistarhóps Ölduselsskóla.

Á liðnu hausti kom í ljós að nokkrir unglingar í Seljahverfi fiktuðu með fíkniefni (gras). Hratt var brugðist við og tekið á málum með uppbyggilegum hætti af skólastjórnendum, kennurum, foreldrum og nemendum. M.a. var félagsstarf skólans eflt og sjö nýir klúbbar stofnaðir. Leiklistarhópur skólans var stórefldur og í kjölfarið samdi hann og setti upp söngleik um líf nútímaunglinga. Rúmlega áttatíu unglingar tóku þátt í uppfærslunni eða um helmingur af unglingadeild skólans. Áhersla hefur þannig verið lögð á að nemendur hafi nóg uppbyggilegt fyrir stafni utan hefðbundins skólatíma. Afrakstur hins öfluga leiklistarhóps kom í ljós fyrir nokkrum vikum með leikritinu Ólíkum áttum, sem sýnt var við góðar undirtektir.

Frábær söngleikur

Í söngleiknum var fjallað á hispurslausan hátt um þær áskoranir og lífsþorsta, sem fylgja unglingsárunum. Skólinn, samskipti kynjanna, foreldravandamál og vímuefnavandinn fá veglegan sess. Allir, sem muna unglingsárin, þekkja hugsanirnar og samtölin. Börnin halda út á fullorðinsbrautina, sum varfærnislega, öðrum liggur lífið á. Eins og í heimi hinna fullorðnu ná ekki allir að greina á milli raunverulegra gilda og gervigilda. Útlitsdýrkun, kraftadella og tíska fá sinn skammt.

Leikritið er innihaldsríkt, bráðskemmtilegt og oft veltust áhorfendur um af hlátri. Ég velti því fyrir mér á sýningunni hvaða leikritaskáld næði að túlka svo vel gleði, sorgir og viðfangsefni  unglinga með eigin orðfæri þeirra og um leið að tvinna marga ólíka þætti saman svo úr yrði heilsteypt og vel heppnað leikrit. Ólöf Halla Bjarnadóttir leiklistarkennari lagði til söguþráðinn en unglingarnir skrifuðu þættina og mótuðu framvinduna eftir sínu höfði. Nemendunum er óskað til hamingju með frábært leikrit. Ólöf Halla, Daníel Gunnarsson skólastjóri, og Haraldur Reynisson tónmenntakennari, sem stýrði metnaðarfullum tónlistarflutningi,  fá einnig hamingjuóskir ásamt kennurum og öðrum starfsmönnum skólans.

Stutt á milli gleði og harms

Þessi bráðskemmtilegi söngleikur hafði þó alvarlegan undirtón í líki vágests, sem leggur snörur sínar fyrir unga fólkið okkar á viðkvæmasta og áhrifagjarnasta skeiði lífsins. Þetta er vímuefnavandamálið, sennilega stærsta ógnin sem steðjar nú að vestrænum þjóðfélögum. Einhverjir falla í freistni, misstíga sig og kjósa að flýja veruleikann um stund, sækja í hluti sem síðan reynast ekki eftirsóknarverðir. Fjallað er á hispurslausan hátt um þann hlut sem gerir alla baráttu stjórnvalda gegn eiturlyfjum erfiða, þ.e. þann skelfilega hvata fíkniefnaneytandans til að leita uppi þá, sem minnst mótstöðuafl hafa gegn efnunum, búa til nýja neytendur og selja þeim dóp svo hann sjálfur geti dópað frítt: ,,Hvað er í gangi, er ég nú orðin einhver díler? Eins og ég sé ekki í nægum vandræðum fyrir? En er þetta ekki í lagi; það er ekki eins og ég sé einhver sjúskaður sprautufíkill,“ segir ein persónan í áhrifamiklu atriði.

Vel kom fram í leikritinu hversu örstutt er á milli fölskvalausrar lífsgleði æskunnar og hins harða heims eiturlyfjanna. Fjörugur söngleikur fær sorglegan endi með dauða einnar aðalpersónunnar. Með því sýna leikritahöfundarnir 82 að þeir átta sig á miskunnarleysi eiturlyfjaheimsins og miðla þeim veruleika til skólafélaga sinna. Nemendur, kennarar og skólastjórnendur við Ölduselsskóla fá bestu þakkir fyrir gott framtak.

Eflum jákvæðar forvarnir

Ekkert hverfi er stikkfrí þegar kemur að vímuefnavanda ungmenna. Fyrir nokkrum vikum heimsótti ég t.d. skóla í Vesturbænum þar sem fjórtán ára nemendur sögðu frá því að piltur hefði komið á skólalóðina og boðið þeim fíkniefni til kaups. Gagnvart slíkum vágestum þarf ætíð að vera á verði og verði þeim ágengt, þarf að grípa í taumana með uppbyggilegum hætti eins og gert var í Ölduselsskóla.

Reynslan sýnir að fíkniefnavandinn verður aldrei leystur með löggæslu og tolleftirliti. Jákvæðar forvarnir á einstaklingsbundnum grunni, í skólum og félagsstarfi, virðast skila mestum árangri. Nefna má aukna samveru foreldra og barna og umræður um málið á heimilum sem og þátttöku í starfi íþróttafélaga, skáta, félagsmiðstöðva o.s.frv. Síðast en ekki síst felast jákvæðar forvarnir í miðlun upplýsinga milli unglinganna sjálfra á jafnréttisgrundvelli, eins og í þessu góða leikriti. Slíkar forvarnir þarf að efla og þar geta allir lagt eitthvað af mörkum.

 

— — —

Þessi færsla birtist upphaflega í Morgunblaðinu, 26. apríl 2011.

Borgarstjóri vanvirðir vinaþjóð

Um aldir hafa herskip frá vinaþjóðum okkar komið í vináttuheimsóknir til Reykjavíkur á leið sinni um norðurhöf. Meðan skipin eru í höfn kaupa þau kost en sjóliðarnir heimsækja búðir og bari og blanda geði við borgarbúa. Skipherrann heimsækir hins vegar æðstu stjórnendur borgarinnar og staðfestir þannig formlega að um vináttuheimsókn sé að ræða.

Með brottför Varnarliðsins og hinnar öflugu þyrlubjörgunarsveitar þess, færðust björgunarmál á víðlendu svæði á Norður-Atlantshafi alfarið á hendur Íslendinga en brugðist var við með því að stórauka þyrlu- og skipakost Landhelgisgæslunnar. Allir sjá mikilvægi þess að öflugt björgunarlið sé rekið á Íslandi, ekki einungis í þágu Íslendinga sjálfra heldur einnig vegna mikillar umferðar skipa og flugvéla í nágrenni við landið. Ljóst er að miðað við allar aðstæður þyrftu fleiri björgunarþyrlur að vera til taks í íslenskri lögsögu en Landhelgisgæslan nær nú að reka innan fjárheimilda sinna.

Alþjóðlegt samstarf í björgunarmálum

Við slíkar aðstæður er ánægjulegt að sjá að Landhelgisgæslunni gengur vel að auka samstarf sitt við flota þeirra vinaþjóða okkar, sem stunda siglingar í norðurhöfum. Það er skylda stjórnmálamanna að styðja við slík samskipti og leggja gott til þeirra eftir því sem þeir hafa tök á. Það gera þeir t.d. með því að bjóða slíka gesti velkomna.

Enginn veit hvenær þær aðstæður skapast að þörf verði fyrir sameiginleg viðbrögð björgunarliðs frá mörgum ríkjum í senn, t.d. vegna náttúruhamfara, mengunarslyss, flugslyss, sjóslyss eða jafnvel hryðjuverka í íslenskri lögsögu. Komi til slíks er nauðsynlegt að samskipti Íslendinga við erlenda vinaflota og björgunarsveitir hvíli á traustum og vinsamlegum grunni, rækt með samhæfðum björgunaræfingum og margvíslegum öðrum samskiptum, t.d. gagnkvæmum vináttuheimsóknum. Í kringum Ísland eru fjölfarnar flug- og siglingaleiðir og mun umferð um þær líklega aukast enn frekar á komandi áratugum.

Við eigum ekki að tortryggja eða leggjast gegn umferð flug- og skipaflota vinaþjóða um lögsögu okkar heldur hvetja til hennar á grundvelli sameiginlegra hagsmuna þjóðanna í öryggis- og björgunarmálum.

Heimsókn þýsku flotadeildarinnar til Reykjavíkur er gott dæmi um slíkt samstarf. Eitt skipanna er fljótandi sjúkrahús og hefur sinnt hjálpar- og björgunarstarfi víða um heim. Með þýsku skipunum er þyrla, sem mun aðstoða Landhelgisgæsluna á meðan önnur þyrla hennar er í viðgerð. Við njótum því þegar góðs af þessari heimsókn.

Þáttur borgarstjóra

Við komu þýsku flotadeildarinnar til Reykjavíkur ákvað borgarstjórnarmeirihluti Besta flokksins og Samfylkingar að sýna hinum erlendu gestum að þeir væru óvelkomnir og neitaði borgarstjóri að hitta yfirmann flotadeildarinnar eins og löng hefð er fyrir. Var sagt frá því í fjölmiðlum að þetta væri í fyrsta skipti, sem þýski flotinn fengi slíkar trakteringar í vináttuheimsókn.

Fyrir nokkrum mánuðum beitti sami borgarstjóri sér fyrir samþykkt tillögu um að umferð herflugvéla um Reykjavíkurflugvöll yrði stöðvuð. Nú eru skýr skilaboð gefin um að her- og björgunarskip vinaþjóða séu einnig óvelkomin til höfuðborgar Íslands. Slík framkoma er hneisa og getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir íslenska hagsmuni. Er líklegt að vinaþjóðir kjósi að auka samstarf við Íslendinga í öryggis- og björgunarmálum og rétta hjálparhönd, t.d. með því að lána þyrlur, ef þær eru um leið látnar finna fyrir því að skip þeirra og flugvélar séu óvelkomnar til sjálfrar höfuðborgar landsins?

Allt í boði Samfylkingarinnar

Hér er ekki um prívatflipp borgarstjóra að ræða enda er hann dyggilega studdur af formanni borgarráðs, Degi B. Eggertssyni, varaformanni Samfylkingarinnar. Á sama tíma og varaformaðurinn styður væntanlega þátttöku ríkisstjórnar Íslands í hernaðaraðgerðum í Líbíu, vanvirðir hann samstarf okkar í björgunarmálum við hina þýsku vinaþjóð.

 

— — —

Færslan birtist upphaflega í Morgunblaðinu, 19. apríl 2011.

Höfnum Icesave

Almennt er viðurkennt að mikið gæfuspor var stigið þegar Íslendingar höfnuðu síðasta Icesave-samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir rúmu ári. Margir hinir sömu og mæltu óhikað með þeim samningi og sögðu að allt færi hér norður og niður ef hann yrði ekki samþykktur mæla nú af sama ákafa með nýjasta samningnum.

Gengisóvissa og viðskiptaáhætta

Eftir því sem samningurinn er gaumgæfður, kemur æ betur fram hve mikil óvissa myndi fylgja því fyrir okkur Íslendinga að taka á okkur slíkar greiðsluskyldur. Enginn veit hver endanleg útgjöld íslenskra skattgreiðenda yrðu vegna samningsins, kostnaðurinn gæti hlaupið á tugum eða hundruðum milljarða. Það fer m.a. eftir gengissveiflum og hve mikið fæst fyrir eignir Landsbankans. Með jái er því ekki aðeins verið að taka gengisáhættu heldur einnig viðskiptaáhættu. Ætla mætti að lærdómur síðustu ára væri sá að öll slík áhætta sé lágmörkuð eins og kostur er, hvort sem er hjá hinu opinbera eða í heimilisrekstri.

Deila má um hvort það standist lög að ríkið taki á sig greiðsluskuldbindingu, sem felur í sér jafn mikla óvissu og Icesave. Höfundar stjórnarskrárinnar höfðu sennilega ekki hugmyndaflug til að ímynda sér að nokkurn tímann yrði samþykkt lagafrumvarp, sem legði greiðsluskyldu á ríkissjóð með óvissu er næmi hundruðum milljarða króna, annars hefði líklega verið girt fyrir slíkan möguleika.

Bretar og Hollendingar greiddu út Icesave á eigin ábyrgð í þeim tilgangi að verja eigin bankakerfi falli. Þetta gerðu þeir án samráðs við Íslendinga en ákváðu síðan að reynandi væri að senda íslenskum skattgreiðendum reikninginn. Reynt var að kúga Íslendinga til hlýðni með aðferðum, sem eiga ekki að þekkjast í samskiptum siðmenntaðra þjóða. Bretar beittu hryðjuverkalögum og forsætisráðherra þeirra gaf yfirlýsingar, sem voru til þess ætlaðar að skaða hagsmuni okkar. Bretar og Hollendingar axla enga ábyrgð vegna samningsins og taka litla áhættu vegna hans. Þeir fá höfuðstól meintra skulda greiddan með vöxtum auk kostnaðar við útgreiðslu. Ótrúlegt er að íslenska ríkisstjórnin sé svo aum að hún lyppist niður gagnvart vafasömum kröfum í stað þess að fara með málið fyrir dómstóla. Flest bendir til þess að Íslendingar þurfi ekki að óttast málalyktir fyrir alþjóðlegum dómstóli. Það vita Bretar og Hollendingar og þess vegna forðast þeir dómstólaleiðina.

Hvaða skatta á að hækka?

Ríkisstjórnin vill samþykkja Icesave-greiðslur úr tómum ríkissjóði án þess að gera grein fyrir því hvernig eigi að fjármagna þær. Engin svör hafa verið gefin við þeirri spurningu hvaða skatta eigi að hækka eða hvaða opinbera þjónustu eigi að skera niður til að standa straum af Icesave. Reynslan af ríkisstjórninni sýnir að hún telur ráðið við hverjum vanda vera að auka skatta og aðrar opinberar álögur. Þegar fólk fær atkvæðaseðil í hendur á laugardaginn ætti það að hafa í huga að með jái mun sá seðill breytast í skattseðil. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar reyna að afsaka eigin getuleysi með því að endurtaka í sífellu að óleyst Icesave-mál standi í vegi fyrir efnahagslegum bata. Slíkur málflutningur er ótrúverðugur enda ljóst að það leysir engan vanda að ríkissjóður taki á sig tugi eða hundruð milljarða í nýjar skuldbindingar. Íslendingar þurfa umfram allt nýja ríkisstjórn og nýja stjórnarstefnu til að auka verðmætasköpun í atvinnulífinu. Verði Icesave samþykkt er ekki spurning að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna mun túlka slík úrslit sem mikla traustsyfirlýsingu við sig.

Á laugardag mun þjóðin ekki síst greiða atkvæði um mikilvæg grundvallaratriði, þ.e. hvort gera eigi almenning ábyrgan fyrir því að viðskiptaævintýri einkaaðila endaði illa. Með því að fallast á slíkt væri farið gegn siðferði og réttlæti sem og gegn grundvallaratriðum í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Skal að lokum vísað til samþykktar síðasta landsfundar flokksins um þetta mál: Sjálfstæðisflokkurinn hafnar alfarið löglausum kröfum Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum í Icesave-málinu.

 

— — —

Færslan birtist upphaflega í Morgunblaðinu, 8. apríl 2011.