Tryggjum hagsmuni Reykvíkinga á Alþingi

Mörg dæmi eru um að hagsmuna Reykjavíkur sé ekki gætt nægilega vel á Alþingi. Afleiðingin er sú að mörg lagafrumvörp verða að lögum þar sem margvíslegum sköttum og skyldum er velt yfir á Reykvíkinga. Sumar þessar kvaðir eru beinar, aðrar óbeinar. Mörg dæmi eru um álögur og niðurgreiðslur, sem Reykvíkingar standa straum af í mun ríkari mæli en aðrir landsmenn.

Ég óska eftir stuðningi í 3-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna alþingiskosninga, sem fram fer 4-5. júní. Ég tel brýnt að hagsmunum Reykvíkinga sé vel sinnt á Alþingi og tel að þekking mín og löng reynsla af borgarmálum sem borgarfulltrúi muni þar koma að góðum notum.

Álagning fasteignaskatta

Nefna má álagningu fasteignaskatta sem dæmi um ósanngjarna skattlagningu, enda koma þeir nú miklu harðar niður á fasteignaeigendum í Reykjavík en flestum öðrum landsmönnum. Skattstofninn er áætlað söluverðmæti viðkomandi eignar. Slíkt fyrirkomulag hefur í för með sér ófyrirsjáanlegar sveiflur skattstofnsins og skatttekna, sem hvorki eru í samræmi við greiðslugetu skattgreiðenda né þjónustu viðkomandi Sveitarfélags. Gífurlegar verðhækkanir á fasteignum í Reykjavík hafa þannig sjálfkrafa leitt til mikilla verðhækkana á eigendur fasteigna í Reykjavík án þess að þeir fái rönd við reist. Margir Reykvíkingar sem búa í eigin húsnæði geta ekki aukið tekjur sínar og koma slíkar skattahækkanir skiljanlega afar illa niður á þeim.

Fasteignaskatti var í upphafi ekki ætlað að vera eignarskattur. Brýnt er að Alþingi endurskoði álagningu fasteignaskattsins til lækkunar, svo ekki sé hróplegt ósamræmi á álagningu hans eftir sveitarfélögum.

Sundabraut sem fyrst

Áratugum saman hafa fjárframlög til vegamála verið mun lægri en þörf hefur verið á. Síðustu ár hefur ein helsta ástæðan verið sú að vinstri meirihlutinn í Reykjavík hefur tafið eða hafnað löngu tímabærum samgönguframkvæmdum, sem ríkið er þó reiðubúið til að fjármagna. Migilvægt er að ríkið knýji Reykjavíkurborg til að standa við samninga um að gera framkvæmdir mögulegar, sem ljóst er að munu auka umferðaröryggi, draga úr mengun og greiða fyrir umferð. Dæmi um þetta eru Sundabraut og mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og bústaðavegar.

Skelfileg skuldastaða

Skuldir Reykjavíkurborgar nálgast nú 400 milljarða króna og eru komnar yfir hættumörk. Ekki verður hjá því komist að Alþingi fjalli um skuldastöðu Reykjavíkur vegna mikilvægis hennar, bæði sem höfuðborgar og þess sveitarfélags sem ríflega þriðjungur landsmanna býr.

Eyðendur og greiðendur

Mörg mál koma til kasta Alþingis, mörg eru samþykkt en öðrum synjað. Aukin ríkisútgjöld á ákveðnu sviði kunna að vera „gott mál“ fyrir suma en slæm fyrir marga aðra, þ.e. skattgreiðendur sem þurfa að borga brúsann. Brýnt er að auka ráðdeild í ríkisrekstri og eftirlit með fjárveitingum þingsins. Í hvert sinn, sem frumvarp um opinberar álögur kemur til kasta Alþingis, þarf að greina hvort og þá með hvaða hætti slíkar álögur leggjast á landsmenn eftir búsetu.

Eyðendur hafa og marga fulltrúa á Alþingi. Brýnt er að fjölga fulltrúum greiðenda þar.

Óstjórn í fjármálum Reykjavíkurborgar

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar hefur reynst fjölskyldum í Reykjavík dýrkeyptur. Fimm manna fjölskylda í Reykjavík með þrjú börn á skólaaldri mun á næsta ári greiða rúmlega 440 þúsund krónum meira í skatta og gjöld til Reykjavíkurborgar en hún gerði í upphafi yfirstandandi kjörtímabils. Viðbótarskuldir borgarsjóðs munu nema um 350 þúsund krónum á hverja fjölskyldu á þessu kjörtímabili Samfylkingar og Besta flokksins.

Almenningur borgar brúsann

Allt kjörtímabilið hefur borgarstjórnarmeirihlutinn seilst í vasa borgarbúa í stað þess að hagræða í rekstri eins og fjölskyldur og fyrirtæki hafa orðið að gera. Besti flokkurinn lofaði lækkun skatta á Reykvíkinga en fyrsta verk hans var að hækka útsvarið í lögbundið hámark. Frá því meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar tók við árið 2010 hafa skatttekjur hækkað verulega eða um 26%. Þær voru tæpir 50 milljarðar árið 2010 en eru áætlaðar 63 milljarðar á næsta ári samkvæmt áætluninni.

Útþensla kerfisins á kostnað borgarbúa er það sem stendur upp úr þegar litið er yfir verk meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar.

Meirihlutinn hefur fundið upp á mörgum nýjum verkefnum og hlaðið utan á kerfið þannig að það vex ár frá ári og kostnaður eykst. Áætlað er að rekstur málaflokka borgarinnar muni nema um 80 milljörðum króna á næsta ári en skatttekjur skili um 69 milljörðum.

Hreinar skuldir vaxa um 113%

Skuldabyrði borgarsjóðs hefur aukist mikið undir stjórn núverandi meirihluta. Samkvæmt fjárhagsáætluninni munu hreinar skuldir borgarsjóðs vegna A-hluta meira en tvöfaldast á milli áranna 2010-2014. Hreinar skuldir munu þannig vaxa úr 23 í 49 milljarða eða um 113%. Aukningin nemur 26 milljörðum króna á tímabilinu eða 6,5 milljörðum króna á ári frá árinu 2010, sem jafngildir því að allt kjörtímabilið hafi skuldir aukist um 750 þúsund kr. á klukkustund. Niðurstaðan er áfellisdómur yfir fjármálastjórn meirihlutans í borgarstjórn.

Skuldir A-hluta

Fjárhagsáætlanir standast ekki

Reykjavíkurborg hefur verið rekin með tapi undir stjórn Samfylkingar og Besta flokksins þrátt fyrir að í fjárhagsáætlunum meirihlutans hafi verið lagt upp með háleit markmið um rekstrarafgang. Á síðasta kjörtímabili skilaði rekstur Reykjavíkurborgar hins vegar afgangi undir forystu Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir mikla erfiðleika í efnahagslífi.

Til að breiða yfir lélega fjármálastjórn leitast borgarstjórnarmeirihlutinn við að fegra niðurstöður rekstrarins með tilfærslum á rekstrareiningum. Til dæmis ætlar meirihlutinn nú að færa eignir og rekstur Bílastæðasjóðs úr B-hluta yfir í A-hluta, að því er virðist eingöngu í því skyni að fegra stöðu borgarsjóðs og gera samanburð á fjármálum borgarinnar á milli ára erfiðari en ella.

(Grein birt í Morgunblaðinu 1. nóvember 2013.)

Grunnþjónustu í stað gæluverkefna

Hinn 16. nóvember nk. verður efnt til prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Hef ég ákveðið að sækjast eftir öðru sæti framboðslistans  þar sem ég tel að kraftar mínir og reynsla nýtist Reykvíkingum best verði ég í forystusveit.

Mikilvægt er að halda í heiðri grunngildi Sjálfstæðisflokksins um lága skatta og ábyrga fjármálastjórn. Rjúfa þarf þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í ýmsum málaflokkum undir stjórn Besta flokksins og Samfylkingarinnar, t.d. í skólamálum, samgöngumálum og málefnum eldri borgara. Tími er kominn til að forgangsraða í þágu grunnþjónustu við borgarbúa í stað gæluverkefna núverandi borgarstjórnarmeirihluta.

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að gera Reykjavík að enn líflegri og skemmtilegri borg þar sem frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja er virkjað og þar sem öll hverfi fá að njóta sín. Fjölga ber búsetukostum ungs fólks og gera sem flestum kleift að eignast húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Menntamálin mikilvæg

Eitt mikilvægasta verkefni næstu ára er að efla skólastarf í borginni og þá sérstaklega að bæta grunnskólamenntun eftir þá stöðnun og forystuleysi, sem ríkt hefur í málaflokknum undir stjórn núverandi borgarstjórnarmeirihluta. Leggja þarf áherslu á hagnýtingu samræmdra mælinga til að bæta skólastarf . Auka þarf möguleika foreldra á að fylgjast með námsárangri barna sinna og þess skóla sem þau ganga í. Þá er rétt að foreldrar fái umsagnarrétt um ráðningu skólastjóra eins og löng og farsæl hefð er fyrir víða erlendis.

Reykjavíkurflugvöllur

Þegar borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir því árið 2006 að þeir væru reiðubúnir að skoða hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar, var skýrt kveðið á um að ekki væri átt við flutning til Keflavíkur heldur yrði að tryggja áframhaldandi flugvallarstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Frá upphafi hefur verið ljóst að þessi afstaða byggðist á tveimur forsendum: að gott flugvallarstæði fyndist í eða við Reykjavík og að ríkisvaldið myndi bera kostnaðinn vegna flutnings flugvallarins og uppbyggingar hans á nýjum stað.

Báðar þessar forsendur eru brostnar. Engin niðurstaða hefur náðst varðandi nýtt flugvallarstæði og  flestum er ljóst að ríkið hefur hvorki vilja né getu til að veita tugi milljarða króna úr tómum ríkiskassanum til uppbyggingar nýs flugvallar, sem standast þarf alþjóðlegar kröfur. Hverfi flugvallarstarfsemi úr Reykjavík árið 2016 mun það stefna innanlandsflugi og sjúkraflugi í fullkomna óvissu sem og þeim fjölmörgu störfum og umsvifum, sem flugvöllurinn veitir Reykvíkingum. Ábyrgðarlaust er að flæma flugvallarstarfsemi úr Vatnsmýri þegar allsendis er óljóst hvort og þá hvernig þessir mikilvægu hagsmunir verði tryggðir.

Umferðaröryggi í þágu allra

Styrkja þarf ólíka samgöngukosti í borginni og forgangsraða fjárveitingum í þágu umferðaröryggis eftir því sem kostur er. Hnekkja þarf aðgerðaleysisstefnu núverandi borgarstjórnarmeirihluta, sem vill engar stórframkvæmdir í vegagerð í Reykjavík næstu tíu árin. En sýnt hefur verið fram á það með óyggjandi hætti að mislægar umferðarlausnir á ákveðnum stöðum eru mjög arðbærar þar sem þær fækka slysum, draga úr mengun og greiða fyrir umferð.

Eflum Sjálfstæðisflokkinn

Flest stærstu framfaramál Reykvíkinga eiga það sameiginlegt að  hafa verið borin fram af Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn. Til að skýr stefnubreyting geti orðið í reykvískum stjórnmálum næsta vor, þarf Sjálfstæðisflokkurinn að styrkjast og eflast. Er það von mín að sem flestir taki þátt í prófkjörinu og leggi þannig glæsilegan grunn að sigri Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 24. október 2013.

Borgarstjóri víkur sér undan ábyrgð

Á meðan starfsfólk grunnþjónustu Reykjavíkurborgar kvartar undan sívaxandi álagi og skólabyggingar liggja undir skemmdum vegna viðhaldsleysis, forgangsraðar meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins fjármunum í þágu gæluverkefna sinna. Mörg þessara verkefna snúast um að teppa mikilvægar umferðargötur og sjá til þess að það taki Reykvíkinga lengri tíma en áður að komast á milli staða. Með því að lengja tímann í umferðinni, styttist sá tími sem fólk hefur til frjálsrar ráðstöfunar, t.d. til frístundaiðkunar eða samverustunda með fjölskyldunni.

Klúður við Hofsvallagötu

Hofsvallagötuklúðrið er dæmi um þetta en ein afleiðing þess hefur auk þess orðið sú að beina umferð inn í nærliggjandi íbúahverfi.

Fjölmennur íbúafundur var haldinn í Vesturbænum í síðasta mánuði um breytingarnar á Hofsvallagötu. Æðstu yfirmenn verklegra framkvæmda hjá borginni, Jón Gnarr borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs, sáu ekki ástæðu til að sækja fundinn og hlusta þar á sjónarmið íbúa. Þess í stað lýsti einn æðsti embættismaður borgarinnar yfir því í upphafi fundar að Jón Gnarrr borgarstjóri bæri enga ábyrgð á framkvæmdunum. Varla er hægt að finna skýrara dæmi um það hvernig Jón Gnarr smeygir sér markvisst undan þeirri ábyrgð, sem fylgir starfi borgarstjóra.

Breytingar á Borgartúni

Borgaryfirvöldum hafa borist ýmsar athugasemdir frá hagsmunaaðilum varðandi yfirstandandi breytingar á Borgartúni. En með breytingunum er ekki gert ráð fyrir útskotum fyrir biðstöðvar strætisvagna við götuna og þarf því að stöðva þá á miðri akrein með tilheyrandi umferðartöfum. Þá hafa atvinnurekendur við Borgartún lagst gegn því að aðkoma að fyrirtækjum þeirra sé þrengd í tengslum við breytingarnar og  bílastæðum fækkað enda ekki bætandi á hinn mikla bílastæðaskort sem er nú þegar í götunni.

Ástæða er fyrir borgaryfirvöld að taka tillit til þessara athugasemd enda gegnir Borgartún mikilvægu hlutverki fyrir atvinnulíf borgarinnar og raunar alls landsins. Þrátt fyrir að málið hafi verið mikið í fréttum að undanförnu kemur í ljós að borgarstjóri þekkir lítið til þess og virðist hafa takmarkaðan áhuga á sjónarmiðum hagsmunaaðila þegar hann er spurður út í það í Morgunblaðinu sl. þriðjudag.

Borgarstjóri er framkvæmdastjóri

Lengi hefur verið litið svo á að borgarstjórinn í Reykjavík gegni þrenns konar meginhlutverki. Hann sé framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar, opinber fulltrúi borgarinnar og pólitískur leiðtogi meirihlutans. Þrátt fyrir að ólíkir menn hafi gegnt embættinu, hefur ætíð verið skýrt, þar til nú, að borgarstjóri beri endanlega ábyrgð á framkvæmdum borgarinnar og svari fyrir þær gagnvart borgarbúum. Af þessu leiðir að borgarstjóri þarf að vera vel inni í helstu framkvæmdum hverju sinni og reiðubúinn að hlusta á athugasemdir borgarbúa varðandi þær.

Mörg fleiri dæmi er hægt að nefna um að þessi framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar lætur ekki fjölmiðla ná í sig langtímum saman út af ákveðnum málum eða svarar út í hött. Þannig víkur borgarstjóri sér ítrekað undan ábyrgð sinni.

Á kjörtímabilinu hafa Samfylkingin og Besti flokkurinn breytt stjórnskipulagi ráðhúss Reykjavíkur  í þeim tilgangi að losa sitjandi borgarstjóra undan skyldum sínum. Í meginniðurstöðum sex  mánaða gamallar skýrslu úttektarnefndar á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar kemur fram að óheppilegt sé að litið sé svo á að það sé að einhverju leyti valkvætt með hvaða hætti æðsti embættismaður borgarinnar (borgarstjóri) hagi aðkomu sinni að því starfi.

Þessi fráleita stjórnsýsla er í boði Besta flokksins og Samfylkingarinnar.

 

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 17. október 2013.

 

Vanrækt borg

Nokkur ár í röð hefur umhirðu og grasslætti ekki verið sinnt í Reykjavík sem skyldi. Ástandið hefur verið sérstaklega slæmt í sumar og hvað verst á opnum svæðum og við umferðargötur í eystri hverfum borgarinnar.

Endurskoða þarf allt fyrirkomulag frá grunni varðandi umhirðu og grasslátt hjá borginni. Með endurskipulagningu má bæta verklag og nýta fjárveitingar betur. Hér er um verðugt úrlausnarefni að ræða fyrir yfirstjórnendur verklegra framkvæmda hjá borginni; borgarstjóra og formann borgarráðs. Þegar fjölmiðlar hafa fjallað um málið hefur hins vegar gengið ótrúlega illa að ná í þessa sómamenn eða þeir verið ófáanlegir til að tjá sig. 29. júlí sl. segir t.d. eftirfarandi í frétt Morgunblaðsins: „Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, vildi ekki tjá sig um málið og benti á embættismenn innan borgarkerfisins sem ýmist voru í sumarleyfi eða vildu ekki tjá sig um málið. Þá náðist ekki í Jón Gnarr borgarstjóra vegna málsins.“

Sambandsleysi eða feimni virðist þó ekki hrjá oddvita Besta flokksins og Samfylkingarinnar þegar um er að ræða mál sem eru nær áhugasviðum þeirra en borgarmál. Þannig hafa fjölmiðlar ekki átt í vandræðum með að fá yfirlýsingar frá borgarstjóranum um alþjóðleg málefni eða kynhneigð Jesú Krists. En er til of mikils mælst að borgarfulltrúar láti þau málefni í forgang sem útsvarsgreiðendur í Reykjavík kusu þá til að sinna?

Áhugalaus meirihluti
Lýsandi dæmi um verkstjórn borgarstjórnarmeirihlutans er hvernig hann hefur hunsað fram komnar tillögur um úrbætur í umhirðumálum. 3. júlí sl. lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur til að ráðist yrði í átak í umhirðu og grasslætti í ljósi óviðunandi ástands. Fulltrúar meirihlutans treystu sér ekki til að styðja tillöguna heldur frestuðu afgreiðslu hennar fram yfir sumarleyfi.

Við sjálfstæðismenn lögðum því fram tillögu um málið á fundi borgarráðs 25. júlí en þar fór á sömu leið. Fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins höfðu engan áhuga á slíkri tillögu og frestuðu afgreiðslu hennar fram yfir sumarleyfi ráðsins. Ef að líkum lætur verða tillögurnar teknar fyrir um eða upp úr miðjum ágúst eða um það leyti sem farið verður að draga úr sprettu í borginni.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 9. ágúst 2013.

Perlan færð úr einum opinbera vasanum í annan

Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefur samþykkt, með stuðningi Vinstri grænna, að Reykjavíkurborg kaupi Perluna af Orkuveitu Reykjavíkur fyrir 950 milljónir króna. Hafa ber í huga að Reykjavíkurborg á 94% í Orkuveitunni og því er hér aðeins um að ræða flutning úr einum vasa í annan.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa stutt sölu eigna Orkuveitunnar en vildu að Perlan yrði seld á frjálsum markaði með skýrum ákvæðum um nýtingu og skipulag. Fyrir rúmu ári var vissulega reynt að selja Perluna á opnum markaði en sú tilraun misheppnaðist algerlega vegna hroðvirknislegra vinnubragða borgarstjórnarmeirihlutans. Í stað þess að læra af reynslunni og vanda betur til verka, kýs meirihlutinn að flytja eignarhaldið á mannvirkinu alfarið til borgarinnar og leigja það síðan ríkinu undir náttúruminjasafn. Hefur verið unnið að málinu á miklum hraða undanfarna mánuði þar sem meirihluti borgarstjórnar vill ásamt ríkisstjórninni klára málið fyrir kosningar. Þessi mikli hraði hefur komið niður á vinnubrögðunum. Perlan var ekki byggð sem náttúruminjasafn og ljóst er að ráðast þarf í kostnaðarsamar framkvæmdir svo húsið henti til slíkra nota. Þær áætlanir, sem lagðar hafa verið fram eru ófullnægjandi til að kjörnir fulltrúar og skattgreiðendur geti áttað sig á kostnaðinum. T.d. efast ég um að sú áætlun standist að einungis kosti 100 milljónir að smíða milliloft o.fl. í þessu sérstæða húsi en samkvæmt gögnum málsins mun kostnaðurinn lenda á Reykjavíkurborg.

Í tengslum við kaupin, gaf Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, út yfirlýsingar í fjölmiðlum um að sú leið að selja Perluna til fjárfesta, hafi ekki reynst fær þar sem öll tilboð hafi verið með fyrirvara um byggingu hótels eða aðra uppbyggingu í Öskjuhlíð. Þessar fullyrðingar standast ekki því á síðasta ári barst Orkuveitunni formlegt kauptilboð í Perluna að upphæð 950 milljónir króna frá einkaaðila án fyrirvara um slíkar skipulagsbreytingar. Er þetta sama upphæð og nú er notast við í sölu hússins frá OR til borgarinnar. Umræddar fullyrðingar formanns borgarráðs um sölu Perlunnar eiga því ekki við rök að styðjast. Benda þær til að miðlun upplýsinga milli borgarráðs Reykjavíkur og stjórnar Orkuveitunnar sé stórlega ábótavant.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 28. marz 2013.

Leyndarhyggja um Hörpu

Þegar ákveðið var árið 2009 að halda byggingu tónlistarhússins áfram af fullum krafti þrátt fyrir efnahagsþrengingar og gjaldeyrisskort, var því lofað að ekki þyrftu að koma til frekari framlög frá skattgreiðendum til byggingar og rekstrar hússins, umfram þær skuldbindingar, sem þegar höfðu verið gerðar og nema nú um einum milljarði króna á ársgrundvelli í 35 ár. Ýmsir höfðu efasemdir um að verkinu yrði haldið áfram á fullri ferð og vildu fresta framkvæmdum við húsið þar til betur áraði eða a.m.k. draga verulega úr framkvæmdahraða. Mjög var var hins vegar þrýst á menn um að styðja lúkningu hússins og því lofað að ekki þyrftu að koma til frekari opinber framlög til þess umfram þegar gerðar skuldbindingar.

Almenningur borgar brúsann

Nú, þegar ljóst er orðið að hin samningsbundnu framlög duga ekki, þarf að leiða í ljós án undanbragða hvort einhverjar forsendur frá 2009 brugðust og þá hverjar, eða hvort stjórnmálamenn voru hreinlega gabbaðir. Reykjavíkurborg á 46% í Hörpunni og ber því mikla ábyrgð á húsinu og rekstri þess. 3. nóvember 2011 óskaði borgarráð eftir því að gerð yrði úttekt á rekstri Hörpunnar „til að skýr staða liggi fyrir og hægt sé að meta hvernig verkefnið hefur farið af stað“. Jafnframt lagði borgarráð áherslu á að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga, sem koma að rekstrinum og að ekki yrði farið í frekari framkvæmdir við húsið, sem ekki leiddu af sér tryggar viðbótartekjur, meðan á úttektinni stæði.

Vilji borgarráðs hundsaður

Búist var við því að brugðist yrði án tafar við ósk borgarráðs um rekstrarúttekt og einföldun á stjórnskipulagi. Vinna við rekstrarúttekt hófst hins vegar ekki fyrr en fimm mánuðum eftir umrædda ósk borgarráðs eða í apríl sl. þegar Austurhöfn – TR fól KPMG verkið og lauk því í maí. Rekstrarúttekt KPMG er nauðsynlegt plagg fyrir þá, sem vilja átta sig á því hvað hefur farið úrskeiðis í rekstri hússins og ræða tillögur til úrbóta, ekki síst alþingismenn og borgarfulltrúa, sem vinna nú að fjárhagsáætlunum næsta árs. Þá eiga mörg atriði í umræddri skýrslu ekki síður erindi við almenning, sem borgar brúsann.Ljóst er að ósk borgarráðs frá 3. nóvember um að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga sem koma að rekstrinum, var hundsuð. Í ágúst sl. komu enn a.m.k. átta félög að rekstri Hörpu. Sama fólkið sat þá meira og minna í stjórnum allra þessara félaga og fékk greidda þóknun fyrir setu í hverri stjórn.Vegna þess völundarhúss félaga, sem byggt hefur verið upp í kringum Hörpu, hefur verið mun flóknara og erfiðara en ella fyrir stjórnmálamenn og fréttamenn að rýna og fjalla um rekstur hússins. Rekstrarúttekt KPMG er að mörgu leyti vel unnin og auðveldar hlutaðeigandi að rýna reksturinn.

Embættismenn á hálum ís

Í ljósi þess hve KPMG-skýrslan er mikilvæg er það afar óeðlilegt hvernig stjórn Austurhafnar – TR hefur ítrekað neitað að láta undirrituðum hana í té. Jafnvel eftir að aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra sendi fjölmiðlum skýrsluna, neitaði stjórnin að afhenda undirrituðum hana. Eftir því sem næst verður komist, studdu þrír fulltrúar Reykjavíkurborgar í stjórn Austurhafnar umrædda ákvörðun. Tveir af þessum stjórnarmönnum eru embættismenn, sem heyra beint undir borgarstjórann í Reykjavík en hinn þriðji er pólitískur fulltrúi meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins.Með ólíkindum er að stjórn Austurhafnar, sem er að fullu í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, skuli leggja sig í líma við að halda mikilvægum upplýsingum um fjárhag Hörpu frá kjörnum fulltrúum. Ekki er síður ámælisvert að tveir af æðstu embættismönnum Reykjavíkurborgar, sem sitja í stjórninni, taki fullan þátt í því með þessum hætti að halda umræddum upplýsingum frá kjörnum borgarfulltrúa.Ef ekki væri fyrir atbeina mennta- og menningarmálaráðherra, væri KPMG-skýrslan sjálfsagt enn leynileg. Enn hefur enginn haldið því fram svo ég viti að birting skýrslunnar hafi með nokkrum hætti skaðað rekstur Hörpu. Hins vegar hefur almenningur fengið gleggri upplýsingar en áður um óviðunandi vinnubrögð og jafnvel spillingu í tengslum við byggingu og rekstur hússins.

Grundvallarregla brotin

Í þessu máli er vegið að þeirri grundvallarreglu að embættismenn starfi í þágu kjörinna fulltrúa og útvegi þeim án undanbragða allar umbeðnar upplýsingar, sem fyrirfinnast um fjármál stofnana borgarinnar og fyrirtækja í hennar eigu. Í umræddu máli var þessari reglu snúið á haus og embættismenn tóku fullan þátt í því að halda mikilvægum upplýsingum frá kjörnum borgarfulltrúa. Á borgarstjórnarfundi 4. september sl. spurði ég um afstöðu Jóns Gnarrs Kristinssonar borgarstjóra til þeirrar ákvörðunar stjórnar Austurhafnar að neita þráfaldlega óskum kjörins borgarfulltrúa um aðgang að umræddri úttekt KPMG. Spurði ég jafnframt hvort borgarstjóri eða staðgengill hans, Dagur B. Eggertsson, hefðu með einhverjum hætti komið að ákvörðun stjórnarinnar, t.d. með samráði við fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn fyrirtækisins.

Allt í boði Samfylkingarinnar

Þrátt fyrir að spurningarnar væru afar skýrar, treysti borgarstjóri sér ekki til að svara þeim fyrr en hann hefði skoðað málið betur. Tæpur mánuður er nú síðan spurningarnar voru lagðar fram og enn hefur borgarstjóri ekki svarað. Rétt er að minna á að borgarstjóri er sjálfur embættismaður, sem ber að svara slíkum spurningum og veita öllum borgarfulltrúum upplýsingar óháð flokkslínum. Þetta mál er aðeins eitt dæmi um gersamlega óviðunandi vinnubrögð, sem nú viðgangast í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ef til vill er ekki hægt að búast við miklu af borgarstjóra, sem sjálfur hefur lýst yfir að hann sé trúður. En mikil er ábyrgð Samfylkingarinnar, sem er í meirihlutasamstarfi með „trúðnum“ og leggur blessun sína yfir slík vinnubrögð.

 

— — — — — — —

Grein þessi birtist upphaflega í Morgunblaðinu 1.x.2012.

Illa staðið að breytingum á skólahaldi í Reykjavík

Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur hefur valdið uppnámi í mörgum hverfum borgarinnar með vanhugsuðum og illa undirbúnum breytingum á skólahaldi. Þegar umræddar breytingar voru samþykktar á síðasta ári var því hátíðlega lofað af borgarfulltrúum meirihlutans að víðtækt samráð yrði haft við nemendur, foreldra og kennara í vinnu þeirri, sem fram undan væri vegna breytinganna. Á síðustu vikum og mánuðum hefur berlega komið í ljós að umrædd loforð voru innantóm og merkingarlaus.

Sjálfsögðum spurningum ekki svarað

Á fundum stýrihópa, sem leiða eiga breytingarferlið í einstökum skólum, hafa ekki fengist svör við ýmsum mikilvægum spurningum foreldra um fyrirhugaðar breytingar eða framtíðarfyrirkomulag kennslunnar. Einföld skýring er þó til á því af hverju þeir embættismenn, sem sækja slíka fundi fyrir hönd borgarinnar, geta ekki svarað slíkum spurningum. Hún er sú að stefnumótun borgarstjórnarmeirihlutans er í molum og ekki liggur fyrir hvernig ýmsum mikilvægum úrlausnarefnum verður ráðið til lykta. Embættismenn vísa slíkum spurningum því til kjörinna fulltrúa, en þar hafa foreldrar síðan komið að tómum kofunum.

Dæmi um þetta eru ótrúleg samskipti, sem foreldrar í Hamraskóla hafa átt við Oddnýju Sturludóttur, formann skóla- og frístundaráðs, að undanförnu. Þar sem fátt varð um svör hjá embættismönnum óskuðu foreldrarnir eftir skýrum svörum frá Oddnýju um flutning unglingadeildar skólans í annað hverfi, hvaða ávinningi hún myndi skila svo og um framtíð sérdeildar í skólanum. Oddný neitaði lengi vel óskum um að koma á fund í Hamraskóla til að ræða málin en gerði foreldrum á móti það tilboð að hún væri til í að veita þremur fulltrúum þeirra áheyrn á skrifstofu sinni í Ráðhúsinu. Foreldrar tóku ekki þessu kostaboði en héldu engu að síður fund þar sem mikil óánægja kom fram með vinnubrögð meirihlutans.

Fulltrúum foreldra nóg boðið

Fulltrúar meirihlutans féllust loks á að koma á fund með foreldrum í Hamraskóla sl. miðvikudag. Fundurinn var afar fjölmennur og þar kom skýrt fram sá vilji foreldra að þeir vilja ekki missa unglingadeild skólans úr hverfinu. Í máli hinna fjölmörgu foreldra, sem tjáðu sig á fundinum, komu fram miklar efasemdir um fjárhagslegan og faglegan ávinning af umræddum flutningi og mjög var kvartað yfir lélegum vinnubrögðum í málinu. Fulltrúar meirihlutans höfðu hins vegar ekkert nýtt fram að færa á fundinum og kom þar betur í ljós en áður að öll stefnumótun hans virðist á sandi byggð.

Formenn foreldrafélaganna í Hamraskóla og Húsaskóla hafa nú báðir sagt sig úr stýrihópi vegna umrædds flutnings unglingadeilda þar sem óskir foreldra og jafnvel fyrirspurnir eru algerlega virtar að vettugi. Þannig er samráðið í framkvæmd hjá borgarfulltrúum Samfylkingar og Besta flokksins.

Óánægja foreldra í Hamrahverfi með vinnubrögð borgarstjórnarmeirihlutans er ekki einsdæmi. Í öðrum hverfum funda foreldrar og samþykkja ályktanir þar sem sleifarlagi meirihlutans er mótmælt. Einnig ríkir mikil óvissa í þeim hverfum þar sem meirihlutinn ætlaði upphaflega að knýja fram breytingar en hvarf frá þeim tímabundið sl. vor eftir mestu fjöldamótmæli foreldra vegna skólamála í borginni.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 6. febrúar 2012.

Íþrótta- og tómstundaráð – 25 ár í fararbroddi (seinni grein)

Öflugt æskulýðsstarf fer fram í félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Félagsmiðstöðvarnar eru nú 23 talsins og þar til nú hefur ÍTR annast rekstur þeirra. Allir á aldrinum 10-15 ára eru velkomnir í félagsmiðstöðvarnar og þar er m.a. leitast við að gefa þeim einstaklingum kost á heilbrigðum og uppbyggilegum frístundum, sem ekki taka þátt í íþróttastarfi félaga eða félagsstarfi í skólum. ÍTR stendur fyrir ýmsu öðru æskulýðsstarfi og má þar nefna Hitt húsið, sem nýtt er af ungmennum á aldrinum 16-25 ára, Ungmennaráð fyrir 13-18 ára, Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólanna og siglingaklúbbinn Siglunes í Nauthólsvík.

Öflugt æskulýðs- og frístundastarf
Í Reykjavík eru starfræktar sex frístundamiðstöðvar, 34 frístundaheimili og fjórir frístundaklúbbar fyrir fötluð börn. 6-9 ára börn fara í frístundaheimili að loknum hefðbundnum skóladegi og á síðustu ellefu árum hefur ÍTR unnið sleitulaust að uppbyggingu og þróun þessa frístundastarfs með góðum árangri.

Farsæl starfsemi ÍTR
Stjórnmálamenn koma og fara. Í 25 ára sögu Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur hafa sjö einstaklingar gegnt þar formennsku. Allir hafa þeir haft ríkan metnað fyrir hönd ráðsins og komið mörgu góðu til leiðar. Ekki er hægt að fjalla um stjórnun málaflokksins án þess að víkja að Ómari Einarssyni, sem verið hefur framkvæmdastjóri ÍTR frá upphafi. Hefur Ómar gegnt því starfi allan tímann af miklum krafti og einurð með vaskan hóp starfsmanna sér við hlið. Eru fáir embættismenn ef nokkrir, sem gera sér jafngóða grein fyrir því að þeir eru fyrst og fremst í þjónustu fólksins í borginni og leggja sig fram við að leysa af lipurð mörg aðsteðjandi vandamál en láta þó ekki undan ósanngjörnum kröfum og heimtufrekju gagnvart skattgreiðendum, sem embættismenn borgarinnar standa einnig frammi fyrir í ríkum mæli.

Í aldarfjórðung hafa Reykvíkingar verið afar ánægðir með starfsemi ÍTR. Í viðhorfs- og þjónustukönnunum hefur ÍTR ætíð verið í fremstu röð og oftast verið sú borgarstofnun, sem hæstu ánægjueinkunn hefur fengið meðal borgarbúa. Á starfstíma ÍTR hafa starfsmenn þess hvað eftir annað gripið tækifærið til að bæta starfsemina og náð miklum árangri á því sviði. Það hefur ekki verið á forsendum þess að breyta þurfi breytinganna vegna, heldur á grundvelli vandaðra vinnubragða og viðurkenndrar breytingastjórnunar.

Undarleg afmælisgjöf
Það olli því furðu og vonbrigðum þegar núverandi meirihluti Samfylkingarinnar og Besta flokksins ákvað á afmælisárinu, án haldbærra skýringa, að kljúfa starfsemi ÍTR, þar sem borgarfulltrúi Besta flokksins fer með formennsku, í herðar niður og færa stóran hluta starfseminnar til annars ráðs borgarinnar, þar sem Samfylkingin heldur um stjórnartauma. Um er að ræða sex frístundamiðstöðvar, 23 félagsmiðstöðvar, 34 frístundaheimili og fjóra frístundaklúbba fyrir fötluð börn. Voru þessar breytingar unnar með ótrúlega óvönduðum hætti af hálfu meirihlutans. Var þeim síðan hrint í framkvæmd í andstöðu við vilja mikils meirihluta starfsmanna og án þess að þeir eða notendur þjónustunnar fengju á því skýringar eða væri gefinn tími til að tjá sig um breytingarnar með eðlilegum hætti. Ráðist var í breytingarnar án þess að stefnumörkun eða framtíðarsýn lægi fyrir eða að sýnt væri fram á með nokkrum hætti að þær skiluðu hagræðingu. Lét meirihlutinn sjálfsagðar ábendingar starfsmanna og annarra fagaðila um mikilvægi eðlilegrar undirbúningsvinnu, áður en ákvarðanir um breytingar yrðu teknar, sem vind um eyru þjóta. Ríkti lítil afmælisstemmning hjá starfsfólki ÍTR á afmælisárinu vegna þessa, en sem fyrr lagði það sig þó allt fram í störfum sínum.

Vil ég af heilum hug þakka öflugu starfsliði ÍTR undanfarinn aldarfjórðung fyrir gott starf að íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamálum, í þágu uppvaxandi kynslóðar borgarbúa, og vona að framtíð málaflokksins sé björt. Landsmönnum öllum óska ég gleðilegs árs og friðar.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 7. janúar 2012.

Íþrótta- og tómstundaráð – 25 ár í fararbroddi (fyrri grein)

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur (ÍTR) átti aldarfjórðungsafmæli á nýliðnu ári. Þótt lítið hafi farið fyrir hátíðarhöldum vegna afmælisins, er ekki úr vegi að líta um öxl í lok afmælisárs og meta hvernig ráðið hefur sinnt hlutverki sínu í gegnum tíðina í þágu íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmála í Reykjavík.

Íþrótta- og tómstundaráð varð til við sameiningu Íþróttaráðs og Æskulýðsráðs Reykjavíkur árið 1986. Þessi ráð höfðu hvort á sínu sviði unnið gott starf í þágu Reykvíkinga um áratuga skeið og voru skoðanir vissulega skiptar um það hvort rétt væri að sameina þau. Borgaryfirvöld ákváðu að sameina krafta þessara ráða í því skyni að efla enn frekar starf í þágu barna og ungmenna, hvort sem það væri unnið á vegum borgarinnar eða frjálsra félaga og samtaka.

Tíminn hefur leitt í ljós að það var rétt ákvörðun að sameina rekstur íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamála með þeim hætti sem gert var árið 1986. Miklar framfarir hafa orðið í þessum málaflokkum enda hefur stöðugt verið unnið að þróun þeirra undir merkjum ÍTR. Langflest börn og unglingar í borginni taka nú þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi með einhverjum hætti.

Íþróttir fyrir alla
Ljóst er að allar aðstæður til íþróttaiðkunar hafa stórbatnað í Reykjavík á undanförnum áratugum. Mörg íþróttahús hafa verið reist í tengslum við skólabyggingar eða íþróttafélög og hafa flest þeirra fyllst jafnóðum af börnum og unglingum eða fullorðnu fólki, sem stundar þar íþróttaæfingar. Við byggingu og rekstur íþróttamannvirkja hefur Reykjavíkurborg lagt áherslu á að nýta krafta íþróttafélaganna í borginni enda þekkja þau best aðstæður í viðkomandi hverfi eða íþróttagrein. Fyrir hönd borgarinnar hefur ÍTR annast samskiptin við íþróttahreyfinguna og hefur það samstarf verið afar farsælt. Borgin hefur sjálf annast rekstur nokkurra íþróttamiðstöðva en á síðasta kjörtímabili var ákveðið að kanna möguleika á að hverfisíþróttafélög kæmu í auknum mæli að rekstri þeirra. Þannig hefur ÍR nú t.d. tekið að sér rekstur íþróttahúsanna við Seljaskóla og Austurberg í Breiðholti, Fjölnir í Grafarvogi sér um rekstur íþróttahússins við Dalhús, Ármann og Þróttur reka íþrótta- og félagsmannvirki sem þjóna félögunum í Laugardal og Fylkir rekur fimleikahúsið í Norðlingaholti.

Á síðasta kjörtímabili var Frístundakortinu svokallaða komið á fót og voru þá einnig undirritaðir sérstakir þjónustusamningar milli íþróttafélaganna og Reykjavíkurborgar þar sem m.a. er kveðið á um að félögin annist ákveðna þjónustu í mannvirkjum í skilgreindum hverfum eða íþróttagrein og fái á móti fjárframlag frá borginni. Hafa fyrrgreind atriði stuðlað að því að á fáum árum hefur orðið gífurleg fjölgun í barna- og unglingastarfi reykvískra íþróttafélaga. Þá hefur iðkendum í almenningsíþróttum einnig fjölgað verulega. Miðað við stærð Reykjavíkur er með ólíkindum hve margar íþróttagreinar eru stundaðar í borginni innan vébanda sjötíu sjálfstæðra íþróttafélaga, sem borgin á samstarf við með einum eða öðrum hætti.

Sæluríkar sundlaugar
ÍTR annast rekstur sjö almenningssundlauga auk ylstrandar í Nauthólsvík, sem tugþúsundir Reykvíkinga sækja sér til heilsubótar og hressingar. Hefur sundgestum fjölgað ár frá ári og er talið að aðsóknin hafi farið yfir tvær milljónir á árinu 2011. Í reykvískum sundlaugum birtist vel sá þáttur í menningu borgarbúa, sem fólginn er í nýtingu heita vatnsins en með sundferð er á einstakan hátt hægt að sameina holla hreyfingu, vellíðan og góðan félagsskap. Sundlaugarnar í Reykjavík njóta mikillar hylli ferðamanna og hafa hvað eftir annað vakið athygli í erlendum fjölmiðlum og þá er þjónusta við sjósundkappa vaxandi þáttur í starfsemi Ylstrandarinnar.

Í seinni grein verður fjallað nánar um æskulýðs- og frístundastarfið og þá uppskiptingu, sem gerð var á ÍTR á afmælisárinu.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 4. janúar 2012.