Skýr stefnumál í þágu Reykvíkinga

Afar mikilvæg viðfangsefni eru framundan í stjórnmálum þjóðarinnar, sem snúa að endurreisn atvinnulífsins, bættum lífskjörum og umbótum í opinberri þjónustu. Valkostirnir eru skýrir:

Annars vegar framþróun á grundvelli frjálsræðis, takmarkaðra ríkisafskipta og arðbærrar innviðafjárfestingar.

Hins vegar öfugþróun með miðstýringu og fjármögnun óarðbærra gæluverkefna, eins og Borgarlínu og flugvallar í Hvassahrauni, upp á hunruð milljarða króna. Geypidýr gæluverkefni munu kalla á skattahækkanir fyrr en síðar.

Veljum frelsi – Höfnum helsi

Nú er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn tali skýrt og tæpitungulaust fyrir frjálsræði og minni álögurm en hafni afdráttarlaust leið gæluverkefna, skattahækkana og frekari skuldasöfnunar hins opinbera. Taka þarf skýra afstöðu til málefna Reykvíkinga, sem heyra undir ríkisvaldið. Hér á eftir fer afstaða mín til slíkra málefna:

  • Borgarlínuskatt – Nei takk! Skattbyrði Reykvíkinga verði ekki aukin. Ekki kemur til greina að leggja viðbótarskatt á bílaeigendur í Reykjavík í formi veggjalda til að fjármagna hundruð millarða króna kostnað vegna Borgarlínu.
  • Eflum einkaframtakið! Drögum úr miðstýringu og álögum á atvinnulífið og veitum því þannig svigrúm til að hækka laun og fjölga atvinnutækifærum.
  • Samgöngubætur í forgang! Ráðast þarf í löngu tímabærar samgönguframkvæmdir á fjölförnustu gatnamótum í Reykjavík, sem auka umferðaröryggi, greiða fyrir umferð og draga úr mengun.
  • Sundabraut strax! Koma þarf í veg fyrir að borgaryfirvöld tefji frekari undirbúningsvinnu vegna Sundabrautar svo hægt verði að hefja lagningu hennar sem fyrst.
  • Skuldsetjum ekki komandi kynslóðir! Eftir mikinn hallarekstur 2020-2021 verði jafnvægi náð í rekstri hins opinbera árið 2022
  • Alþingi verður að fjalla um skuldastöðu Reykjavíkurborgar, sem komin er yfir hættumörk, og skoða leiðir til úrbóta.
  • Ósanngjörn skattlagning! Alþingi breyti álagningu fasteignaskatta, sem koma nú mun harðar niður á fasteignaeigendum í Reykjavík en öðrum landsmönnum.
  • Biðlistana burt! Nýta þarf kosti einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu betur en nú er gert, með gæði og hagkvæmni að leiðarljósi.
  • Bætum löggæslu! Efla þarf löggæslu í borginni, t.d. með aukinni áherslu á hverfalöggæslu, þar sem lögreglan er sýnileg á götunum en ekki bundin við skristofustörf.

Tryggjum hagsmuni Reykvíkinga á Alþingi

Mörg dæmi eru um að hagsmuna Reykjavíkur sé ekki gætt nægilega vel á Alþingi. Afleiðingin er sú að mörg lagafrumvörp verða að lögum þar sem margvíslegum sköttum og skyldum er velt yfir á Reykvíkinga. Sumar þessar kvaðir eru beinar, aðrar óbeinar. Mörg dæmi eru um álögur og niðurgreiðslur, sem Reykvíkingar standa straum af í mun ríkari mæli en aðrir landsmenn.

Ég óska eftir stuðningi í 3-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna alþingiskosninga, sem fram fer 4-5. júní. Ég tel brýnt að hagsmunum Reykvíkinga sé vel sinnt á Alþingi og tel að þekking mín og löng reynsla af borgarmálum sem borgarfulltrúi muni þar koma að góðum notum.

Álagning fasteignaskatta

Nefna má álagningu fasteignaskatta sem dæmi um ósanngjarna skattlagningu, enda koma þeir nú miklu harðar niður á fasteignaeigendum í Reykjavík en flestum öðrum landsmönnum. Skattstofninn er áætlað söluverðmæti viðkomandi eignar. Slíkt fyrirkomulag hefur í för með sér ófyrirsjáanlegar sveiflur skattstofnsins og skatttekna, sem hvorki eru í samræmi við greiðslugetu skattgreiðenda né þjónustu viðkomandi Sveitarfélags. Gífurlegar verðhækkanir á fasteignum í Reykjavík hafa þannig sjálfkrafa leitt til mikilla verðhækkana á eigendur fasteigna í Reykjavík án þess að þeir fái rönd við reist. Margir Reykvíkingar sem búa í eigin húsnæði geta ekki aukið tekjur sínar og koma slíkar skattahækkanir skiljanlega afar illa niður á þeim.

Fasteignaskatti var í upphafi ekki ætlað að vera eignarskattur. Brýnt er að Alþingi endurskoði álagningu fasteignaskattsins til lækkunar, svo ekki sé hróplegt ósamræmi á álagningu hans eftir sveitarfélögum.

Sundabraut sem fyrst

Áratugum saman hafa fjárframlög til vegamála verið mun lægri en þörf hefur verið á. Síðustu ár hefur ein helsta ástæðan verið sú að vinstri meirihlutinn í Reykjavík hefur tafið eða hafnað löngu tímabærum samgönguframkvæmdum, sem ríkið er þó reiðubúið til að fjármagna. Migilvægt er að ríkið knýji Reykjavíkurborg til að standa við samninga um að gera framkvæmdir mögulegar, sem ljóst er að munu auka umferðaröryggi, draga úr mengun og greiða fyrir umferð. Dæmi um þetta eru Sundabraut og mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og bústaðavegar.

Skelfileg skuldastaða

Skuldir Reykjavíkurborgar nálgast nú 400 milljarða króna og eru komnar yfir hættumörk. Ekki verður hjá því komist að Alþingi fjalli um skuldastöðu Reykjavíkur vegna mikilvægis hennar, bæði sem höfuðborgar og þess sveitarfélags sem ríflega þriðjungur landsmanna býr.

Eyðendur og greiðendur

Mörg mál koma til kasta Alþingis, mörg eru samþykkt en öðrum synjað. Aukin ríkisútgjöld á ákveðnu sviði kunna að vera „gott mál“ fyrir suma en slæm fyrir marga aðra, þ.e. skattgreiðendur sem þurfa að borga brúsann. Brýnt er að auka ráðdeild í ríkisrekstri og eftirlit með fjárveitingum þingsins. Í hvert sinn, sem frumvarp um opinberar álögur kemur til kasta Alþingis, þarf að greina hvort og þá með hvaða hætti slíkar álögur leggjast á landsmenn eftir búsetu.

Eyðendur hafa og marga fulltrúa á Alþingi. Brýnt er að fjölga fulltrúum greiðenda þar.

Jafnvægi og framsýni

flokksradsfundur-samth-rikisstjornaradild-9-1-17

Jafnvægi og framsýni verða einkunnarorð nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Góð stemmning ríkti á fjölmennum flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrr í kvöld og samþykktu fundarmenn einum rómi aðild flokksins að stjórninni. Auk forsætisráðuneytisins mun Sjálfstæðisflokkurinn fara með innanríkisráðuneytið, menntamálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og iðnaðar- og viðskiptamál í atvinnuvegaráðuneytinu. Nýrri ríkisstjórn er óskað velfarnaðar með von um að henni takist að stuðla að enn frekari bætingu lífskjara með því að framlengja yfirstandandi hagvaxtarskeið, sem er nú þegar orðið hið lengsta í lýðveldissögunni.

Á áðurnefndum fundi kastaði sr. Hjálmar Jónsson fram eftirfarandi vísu:

Tugi funda trú þau sátu,
terta bakast.
Það sem aðrir ekki gátu
er að takast.

 

 

 

 

 

 

 

 

Bernhöftsbakarí flytur sig um set

Bernhöftsbakarí, elsta starfandi fyrirtæki Reykjavíkur, flutti um helgina á Skúlagötu eftir 85 ára starfsemi við Bergstaðastræti. Þar áður var bakaríið starfrækt á Bernhöftstorfu, allt frá stofnun þess árið 1834. Nú er í sjálfu sér ekki tiltökumál að fyrirtæki flytji á milli staða. En þar sem Bernhöftsbakarí hefur verið við Bergstaðastræti síðan ég man eftir mér, er þó óneitanlega sem þráður slitni til veraldar sem var og því fylgir söknuður. Bakaríinu fylgja góðar óskir um að það blómstri á nýjum stað og veiti borgarbúum áfram þá úrvalsþjónustu sem það hefur verið þekkt fyrir undanfarin 182 ár.
20161001_102539_resized

Sr. Vigfús Þór Árnason kveður Grafarvogssöfnuð

Fjölmenni og fjör var við kveðjumessu sr. Vigfúsar Þórs Árnasonar í Grafarvogskirkju sl. sunnudag en hann lætur nú af störfum í fjölmennasta prestakalli landsins eftir 27 ára farsæla þjónustu. Sr. Vigfús Þór hefur að mörgu leyti verið frumkvöðull í kirkjustarfi og eftir því hefur verið tekið hvað safnaðarstarf hefur verið öflugt undir hans stjórn, ekki síst þjónusta við eldri borgara og barnafjölskyldur. Hann hefur einnig áunnið sér mikla virðingu og þakklæti fyrir styrkjandi hjálp þegar sorgin knýr dyra og þá verið reiðubúinn til þjónustu á nóttu sem degi.20160410_151142_resized

Stýrihópastjórn í Reykjavík

Í stað þess að bæta verkstjórn og koma þörfum málum í framkvæmd, er meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna í borgarstjórn mjög upptekinn við að skipa stýrihópa.
Á fyrstu átta mánuðum kjör­tíma­bils vinstri meiri­hlut­ans í Reykja­vík voru skipaðir 74 starfs- og stýri­hóp­ar. Þegar borgarstjóri afsakar klúður eða aðgerðaleysi, vísar hann gjarnan til þess að hópur skriffinna sitji í einhverjum stýrihópnum, sem muni bráðum skila glæsilegri stefnu í viðkomandi máli.
Einu sinni voru bara skipaðar nefndir, síðan starfshópar, þá aðgerðahópar en nú er enginn vinstri maður með mönnum nema hann stjórni stýrihópi. Má ekki kalla þetta stýrihópastjórnun?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/03/74_styrihopar_a_8_manudum/

Leyndarhyggja um Hörpu

Þegar ákveðið var árið 2009 að halda byggingu tónlistarhússins áfram af fullum krafti þrátt fyrir efnahagsþrengingar og gjaldeyrisskort, var því lofað að ekki þyrftu að koma til frekari framlög frá skattgreiðendum til byggingar og rekstrar hússins, umfram þær skuldbindingar, sem þegar höfðu verið gerðar og nema nú um einum milljarði króna á ársgrundvelli í 35 ár. Ýmsir höfðu efasemdir um að verkinu yrði haldið áfram á fullri ferð og vildu fresta framkvæmdum við húsið þar til betur áraði eða a.m.k. draga verulega úr framkvæmdahraða. Mjög var var hins vegar þrýst á menn um að styðja lúkningu hússins og því lofað að ekki þyrftu að koma til frekari opinber framlög til þess umfram þegar gerðar skuldbindingar.

Almenningur borgar brúsann

Nú, þegar ljóst er orðið að hin samningsbundnu framlög duga ekki, þarf að leiða í ljós án undanbragða hvort einhverjar forsendur frá 2009 brugðust og þá hverjar, eða hvort stjórnmálamenn voru hreinlega gabbaðir. Reykjavíkurborg á 46% í Hörpunni og ber því mikla ábyrgð á húsinu og rekstri þess. 3. nóvember 2011 óskaði borgarráð eftir því að gerð yrði úttekt á rekstri Hörpunnar „til að skýr staða liggi fyrir og hægt sé að meta hvernig verkefnið hefur farið af stað“. Jafnframt lagði borgarráð áherslu á að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga, sem koma að rekstrinum og að ekki yrði farið í frekari framkvæmdir við húsið, sem ekki leiddu af sér tryggar viðbótartekjur, meðan á úttektinni stæði.

Vilji borgarráðs hundsaður

Búist var við því að brugðist yrði án tafar við ósk borgarráðs um rekstrarúttekt og einföldun á stjórnskipulagi. Vinna við rekstrarúttekt hófst hins vegar ekki fyrr en fimm mánuðum eftir umrædda ósk borgarráðs eða í apríl sl. þegar Austurhöfn – TR fól KPMG verkið og lauk því í maí. Rekstrarúttekt KPMG er nauðsynlegt plagg fyrir þá, sem vilja átta sig á því hvað hefur farið úrskeiðis í rekstri hússins og ræða tillögur til úrbóta, ekki síst alþingismenn og borgarfulltrúa, sem vinna nú að fjárhagsáætlunum næsta árs. Þá eiga mörg atriði í umræddri skýrslu ekki síður erindi við almenning, sem borgar brúsann.Ljóst er að ósk borgarráðs frá 3. nóvember um að strax yrði farið í einföldun á stjórnarfyrirkomulagi þeirra félaga sem koma að rekstrinum, var hundsuð. Í ágúst sl. komu enn a.m.k. átta félög að rekstri Hörpu. Sama fólkið sat þá meira og minna í stjórnum allra þessara félaga og fékk greidda þóknun fyrir setu í hverri stjórn.Vegna þess völundarhúss félaga, sem byggt hefur verið upp í kringum Hörpu, hefur verið mun flóknara og erfiðara en ella fyrir stjórnmálamenn og fréttamenn að rýna og fjalla um rekstur hússins. Rekstrarúttekt KPMG er að mörgu leyti vel unnin og auðveldar hlutaðeigandi að rýna reksturinn.

Embættismenn á hálum ís

Í ljósi þess hve KPMG-skýrslan er mikilvæg er það afar óeðlilegt hvernig stjórn Austurhafnar – TR hefur ítrekað neitað að láta undirrituðum hana í té. Jafnvel eftir að aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra sendi fjölmiðlum skýrsluna, neitaði stjórnin að afhenda undirrituðum hana. Eftir því sem næst verður komist, studdu þrír fulltrúar Reykjavíkurborgar í stjórn Austurhafnar umrædda ákvörðun. Tveir af þessum stjórnarmönnum eru embættismenn, sem heyra beint undir borgarstjórann í Reykjavík en hinn þriðji er pólitískur fulltrúi meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins.Með ólíkindum er að stjórn Austurhafnar, sem er að fullu í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, skuli leggja sig í líma við að halda mikilvægum upplýsingum um fjárhag Hörpu frá kjörnum fulltrúum. Ekki er síður ámælisvert að tveir af æðstu embættismönnum Reykjavíkurborgar, sem sitja í stjórninni, taki fullan þátt í því með þessum hætti að halda umræddum upplýsingum frá kjörnum borgarfulltrúa.Ef ekki væri fyrir atbeina mennta- og menningarmálaráðherra, væri KPMG-skýrslan sjálfsagt enn leynileg. Enn hefur enginn haldið því fram svo ég viti að birting skýrslunnar hafi með nokkrum hætti skaðað rekstur Hörpu. Hins vegar hefur almenningur fengið gleggri upplýsingar en áður um óviðunandi vinnubrögð og jafnvel spillingu í tengslum við byggingu og rekstur hússins.

Grundvallarregla brotin

Í þessu máli er vegið að þeirri grundvallarreglu að embættismenn starfi í þágu kjörinna fulltrúa og útvegi þeim án undanbragða allar umbeðnar upplýsingar, sem fyrirfinnast um fjármál stofnana borgarinnar og fyrirtækja í hennar eigu. Í umræddu máli var þessari reglu snúið á haus og embættismenn tóku fullan þátt í því að halda mikilvægum upplýsingum frá kjörnum borgarfulltrúa. Á borgarstjórnarfundi 4. september sl. spurði ég um afstöðu Jóns Gnarrs Kristinssonar borgarstjóra til þeirrar ákvörðunar stjórnar Austurhafnar að neita þráfaldlega óskum kjörins borgarfulltrúa um aðgang að umræddri úttekt KPMG. Spurði ég jafnframt hvort borgarstjóri eða staðgengill hans, Dagur B. Eggertsson, hefðu með einhverjum hætti komið að ákvörðun stjórnarinnar, t.d. með samráði við fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn fyrirtækisins.

Allt í boði Samfylkingarinnar

Þrátt fyrir að spurningarnar væru afar skýrar, treysti borgarstjóri sér ekki til að svara þeim fyrr en hann hefði skoðað málið betur. Tæpur mánuður er nú síðan spurningarnar voru lagðar fram og enn hefur borgarstjóri ekki svarað. Rétt er að minna á að borgarstjóri er sjálfur embættismaður, sem ber að svara slíkum spurningum og veita öllum borgarfulltrúum upplýsingar óháð flokkslínum. Þetta mál er aðeins eitt dæmi um gersamlega óviðunandi vinnubrögð, sem nú viðgangast í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ef til vill er ekki hægt að búast við miklu af borgarstjóra, sem sjálfur hefur lýst yfir að hann sé trúður. En mikil er ábyrgð Samfylkingarinnar, sem er í meirihlutasamstarfi með „trúðnum“ og leggur blessun sína yfir slík vinnubrögð.

 

— — — — — — —

Grein þessi birtist upphaflega í Morgunblaðinu 1.x.2012.