Málefni eldri borgara

Hækkandi meðalaldur Íslendinga hefur leitt til þess að eldri borgurum fjölgar hlutfallslega hraðar en þjóðinni í heild. Þjónusta Reykjavíkurborgar þarf að taka mið af þessari þróun og mikilvægt er að leggja áherslu á að málefni eldri borgara eru málefni alls þjóðfélagsins og varða fólk á öllum aldri.Það eru viðbrigði fyrir flesta að komast á lífeyrisaldur og hætta í föstu starfi. Breyting á lífsháttum getur haft talsvert álag í för með sér, ekki síst ef tekjur dragast saman. Æskilegt er að fólki verði með margvíslegum hætti auðveldaðar slíkar breytingar, t.d. með sveigjanlegri starfslokum og aðstoðað við að laga sig að breyttum aðstæðum í kjölfar þeirra.

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar hefur verið áhugalaus og aðgerðalítill um mörg hagsmunamál eldri borgara í Reykjavík. Úr þessu þarf að bæta enda er mikilvægt að borgaryfirvöld séu í sem bestu samstarfi við hagsmunasamtök eldri borgara um málefni þeirra.

Afsláttur á fráveitugjaldi

Eitt fyrsta verk meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins var að hætta að veita afslátt eða niðurfellingu á fráveitugjaldi (holræsaskatti) til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega sem löng hefð var fyrir hjá Reykjavíkurborg. Undirritaður flutti tillögu um það í borgarstjórn f.h. Sjálfstæðisflokksins að slíkur afsláttur yrði tekinn upp á ný og náði málið fram að ganga.

Þjónustuíbúðir eldri borgara

Um síðustu áramót hafði engum lóðum fyrir þjónustuíbúðir verið úthlutað á kjörtímabilinu til byggingarfélaga eldri borgara. Flutti ég þá tillögu í borgarstjórn um að slíkt lóðaframboð yrði aukið og efnt til formlegra viðræðna við byggingarfélög eldri borgara. Er málið nú komið á góðan rekspöl.

Öldungaráð Reykjavíkur

Árið 2012 flutti undirritaður tillögu um að stofnað yrði sérstakt öldungaráð í Reykjavík til að fjalla um málefni eldri borgara og vera borgarstjórn til ráðgjafar um þau. Ráðið verði skipað eldri borgurum og hafi víðtækt samráð við félög og samtök eldri borgara í Reykjavík og aðra þá, sem láta málefni þeirra til sín taka. Að minnsta kosti árlega skulu fulltrúar úr öldungaráðinu funda með borgarfulltrúum. Tillagan var samþykkt og er nú unnið að því að koma henni í framkvæmd.

Heilsugæslumál

Talið er að um 50 heimilislækna vanti til starfa í Reykjavík svo hægt sé að veita fullnægjandi þjónustu. Fyrir skömmu óskaði ég eftir umræðum um heilsugæslumál í borgarstjórn og lagði til ásamt öðrum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins að óskað yrði eftir formlegum viðræðum við ríkisvaldið um framtíðarfyrirkomulag heilsugæslunnar í Reykjavík með það að markmiði að þjónustan verði endurskipulögð í þágu notenda. Lögð verði áhersla á fjölbreytni í rekstri og að tryggja greiðan aðgang almennings að heimilislækningum.

Íþróttir eldri borgara

Nýlega fluttum við sjálfstæðismenn tillögu um það í borgarstjórn að unnið verði að eflingu hreyfingar og íþróttastarfs í þágu eldri borgara í Reykjavík. Leitað verði eftir samstarfi við hagsmunasamtök eldri borgara og íþróttafélög í borginni til að nýta betur íþróttamannvirki í þessu skyni. Þá verði unnið að því að kynna betur þá kosti, sem eldri borgurum standa til boða í íþróttastarfi, hreyfingu og líkamsrækt. 

Höfundur er borgarfulltrúi og sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna komandi borgarstjórnarkosninga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu

Be Sociable, Share!