Bætum menntun í Reykjavík

Allt stefnir í að 2010-2014 verði týnda kjörtímabilið í framþróun menntamála í Reykjavík. Þrátt fyrir að rekstur grunnskóla sé eitt helsta hlutverk Reykjavíkurborgar hefur meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins ekki lagt áherslu á eflingu eiginlegrar menntunar heldur margvísleg gæluverkefni.Verulega hefur skort á pólitíska forystu í menntamálum í borgarstjórn á kjörtímabilinu enda hefur orka meirihlutans að mestu farið í átök við foreldra og starfsmenn vegna umdeilds skólasamruna og endalausra stjórnsýslubreytinga, sem þó hafa ekki skilað bættum rekstri skólanna. Óviðunandi er að aðeins 59% drengja í öðrum bekk geti lesið sér til gagns en 67% telpna. Þá hefur viðhald skólabygginga verið vanrækt þar sem meirihlutinn forgangsraðar í þágu annarra verkefna.

Skóla- og frístundamál eru langumfangsmesti málaflokkur borgarinnar. Í ár munu útgjöld málaflokksins nema um 37 milljörðum króna eða um 62% af skatttekjum borgarinnar. Eitt mikilvægasta verkefni næstu ára er að bæta grunnskólamenntun í borginni eftir þá stöðnun og forystuleysi, sem ríkt hefur í málaflokknum undir núverandi borgarstjórnarmeirihluta. Hér á eftir fara nokkur áherslumál mín í menntamálum.

Skýr markmið

Bætum námsárangur með skýrum og mælanlegum markmiðum. Móta þarf stefnu, sem stuðlar að bættum námsárangri reykvískra nemenda í samanburði við aðrar þjóðir. Leggja þarf áherslu á hagnýtingu samræmdra mælinga til að bæta skólastarf. Þróa þarf kannanir og samræmd próf með það að markmiði að þau nýtist til að bæta starf á öllum stigum grunnskólans. Auk bóknámsgreina megi þreyta samræmd próf í iðn- og listgreinum. Framhaldsskólum verði heimilt að nota niðurstöður samræmdra prófa við inntöku nemenda.

Aukin upplýsingagjöf

Aukum upplýsingagjöf til foreldra og aukum þátttöku foreldra í skólastarfi. Skólakerfið á í auknum mæli að hvetja foreldra til að fylgjast með og taka þátt í námi barna sinna. Foreldrar eiga jafnt og þétt að fá upplýsingar um frammistöðu barnanna í verkefnum og prófum. Þeir eiga einnig að fá skýrar upplýsingar um frammistöðu einstakra skóla svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um val milli skóla og námsbrauta. Þá er rétt að veita foreldrafélögum umsagnarrétt vegna ráðningar skólastjóra eins og gert er með góðum árangri víða erlendis.Aukum nýbreytni og sveigjanleika í skólastarfi. Of mikil miðstýring ríkir í starfi grunnskólanna og er mikilvægt að úr henni verði dregið sem fyrst. Leggja ber áherslu á sveigjanlegt starfsfyrirkomulag og að kjarasamningar stýri ekki skólastarfi. Ákjósanlegt er að auka samvinnu milli skólastiga, t.d. með fjarnámi.

Sjálfstæðir skólar

Eflum iðn- og tæknimenntun. Stórauka þarf kynningu á þessu sviði í grunnskólum borgarinnar í góðu samstarfi við framhaldsskóla. Taka þarf upp tillögu Sjálfstæðisflokksins frá síðasta kjörtímabili um stofnun skóla eða námsbrautar fyrir unglingastig grunnskólans, með áherslu á iðn- og tækninám (tæknigaggó).Setjum forvarnir í forgang. Hreyfing og hollar tómstundir duga best gegn vímuefnaneyslu og ýmsum kvillum. Tryggjum að allir fái fjölbreytilega hreyfingu, m.a. með aukinni samþættingu skóla- og íþróttastarfs.

Sjálfstætt reknir skólar hafa sannað gildi sitt enda tryggja þeir fjölbreytni og valfrelsi í skólakerfinu. Rétt er að fé fylgi barni og sjálfstæðir skólar fái stuðning til jafns við borgarrekna.

Höfundur er borgarfulltrúi og sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna komandi borgarstjórnarkosninga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu.

Be Sociable, Share!