Frétt í Morgunblaðinu: Vilja malbik út fyrir steypu

Umhverfis-og skipulagssviði Reykjavíkurborgar verður falið að leggja steypt slitlag á umferðarþungar götur nái tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins fram að ganga í borgarráði.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi flokksins, segir að ástæðan fyrir því að hann leggi til að malbiki verði skipt út fyrir steypu sé þríþætt. Sú sem vegi þyngst sé heilbrigðisþátturinn en mikil svifryksmengun hljótist af akstri á malbikinu. „Í öðru lagi er það umferðaröryggi. Vandamál fylgja linu malbiki því hjólförin geta verið hættuleg, til dæmis þegar fer að frjósa ofan í þeim. Í þriðja lagi tel ég þetta vera hagkvæmt og geta borgað sig upp til lengri tíma litið,“ segir Kjartan.

Því hafi ekki verið mótmælt að endingartími steypu sé mun lengri en malbiks en það vegi upp á móti hærri stofnkostnaði við hana. Hugmyndin sé að steypa stofnbrautir til að byrja með.

Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins, segir að tillögunni hafi verið vísað til skoðunar hjá umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar. Hann bendir á að ný rannsókn Vegagerðarinnar sýni að hlutfall malbiks í svifryki hafi hríðlækkað síðasta áratuginn. Á sama tíma sé hávaðamengun frá steyptum vegum meiri en malbikuðum. Það væri því ekki kostur að steypa íbúðargötur en það gæti verið í lagi þar sem hávaði skiptir ekki máli.

„Mér fyndist það aðlaðandi að steypa vegi ef það getur dregið úr svifryki og ef það eykur ekki á hljóðmengun fyrir íbúa. Ég er fylgjandi öllu því sem eykur lífsgæði borgarbúa,“ segir Einar Örn.

Be Sociable, Share!