Er eignasala Orkuveitunnar í uppnámi?

sept.
14

Orkuveitan þarf að selja eignir fyrir tíu milljarða króna. Árið 2011 lagði ég fram tillögu um sölu Gagnaveitunnar (áður Lína.net), sem er ein seljanlegasta eign Orkuveitunnar, en fyrirtækið er ekki enn komið í sölu. Söluferlið hefur tafist vegna klúðurs og ákvarðanafælni borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Þess í stað reynir borgarstjórnarmeirihlutinn að bjarga lausafjárstöðunni með ,,sölu“ Orkuveituhússins (um leið og það er leigt til baka til 20 ára) og sölu Magma-skuldabréfsins með miklum afföllum. Þessar eignir virðast nú ekki eins auðseljanlegar og menn héldu. Perlan var seld til Reykjavíkurborgar og þannig færð úr einum opinbera vasanum í annan.

http://www.visir.is/14-milljarda-krona-eignasala-i-uppnami/article/2013709149921


Hvað kostaði bygging Hörpu?

sept.
08

Ár er nú liðið frá borgarstjórnarfundi, þar sem ég óskaði formlega eftir sundurliðuðum upplýsingum um heildarbyggingarkostnað við Hörpu og tengd mannvirki. Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins hefur séð til þess að ég hef ekki enn fengið þessar upplýsingar þrátt fyrir að allir viti að þær eru til. Á síðasta borgarstjórnarfundi, 3. september, lagði ég því fram eftirfarandi fyrirspurn í þriðja sinn. Vona ég að henni verði nú svarað enda tel ég að skattgreiðendur eigi rétt á því að fá þessar upplýsingar.

Á fundi borgarstjórnar 4. september 2012 lagði undirritaður fram fyrirspurn um heildarbyggingarkostnað við Hörpu þar sem óskað var eftir sundurliðuðum upplýsingum við byggingu hússins og tengd mannvirki. Hinn 15. janúar sl. lagði borgarstjóri fram svar við fyrirspurninni en í því var ekki gerð grein fyrir áðurnefndum kostnaði heldur einungis þeim sem til féll eftir yfirtöku verkefnisins árið 2009. Undirritaður lagði því fyrirspurnina fram að nýju á fundi borgarstjórnar 5. febrúar sl. Enn hafa viðhlítandi svör ekki fengist við fyrirspurninni þrátt fyrir að nú sé ár liðið síðan hún var fyrst lögð fram. Um leið og furðu er lýst yfir þessari undarlegu töf er fyrirspurnin nú lögð lögð fram í þriðja sinn og enn óskað eftir því að svar við henni verði lagt fram við fyrsta tækifæri. Hver er heildarbyggingarkostnaður við Hörpu og tengd mannvirki á núverandi verðlagi? Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um áfallinn kostnað, s.s. vegna lóðakaupa, jarðvinnu, sjófyllingar, byggingar, glerhjúps, gatnatenginga, torggerðar, lóðafrágangs, bílastæðahúss o.s.frv. Þá er óskað eftir yfirliti yfir þær framkvæmdir sem eftir eru eða standa yfir og kostnaðaráætlanir vegna þeirra.

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.