Óviðunandi árangur lestrarkennslu í Reykjavík

Niðurstaða lesskimunarkönnunar meðal sjö ára barna í grunnskólum Reykjavíkur sýnir að eftir tveggja vetra lestrarnám geta aðeins 63% þeirra lesið sér til gagns samkvæmt skilgreiningu. 37% eða 521 nemandi nær ekki þeim árangri.

Hlutfall nemenda, sem getur lesið sér til gagns árið 2013 er 8,7% lægra en árið 2012. Er þetta hlutfall hið lægsta um árabil eða frá árinu 2005 en þá var það 60% að nýloknu löngu kennaraverkfalli.

Niðurstöður lestrarkönnunar eru mjög misjafnar eftir skólum. Á meðan 94% nemenda eru talin geta lesið sér til gagns í þeim skóla sem best stendur er hlutfallið aðeins 20% í þeim skóla sem verst kemur út. Einnig er verulegur munur á lestrarfærni barna á milli hverfa og kynja. Að meðaltali eru 67% telpna í öðrum bekk talin geta lesið sér til gagns en aðeins 59% drengja.

Varla er til einhlít skýring á þessari slæmu útkomu. Bent hefur verið á að börn lesi minna en áður í frítíma sínum. Það er sennilega rétt en þá má líka spyrja á móti hvernig það tókst að bæta lestrarþekkingu reykvískra grunnskólabarna verulega á árunum 2005-2011 á sama tíma og kannanir sýndu að tölvunotkun þeirra jókst hröðum skrefum.

Skortur á pólitískri forystu

Ekki verður hjá því komist að nefna að verulega hefur skort á pólitíska forystu í menntamálum í Reykjavík á yfirstandandi kjörtímabili. Undir stjórn Besta flokksins og Samfylkingarinnar hefur ekki nógu mikil áhersla verið lögð á lestrarkennslu sem er þó ein af frumskyldum skólayfirvalda. Þess í stað hefur orkan farið í margvísleg gæluverkefni, t.d. umdeildan skólasamruna og endalausar stjórnsýslubreytingar, sem þó hafa ekki skilað bættum rekstri skóla- og frístundasviðs.

Þrátt fyrir að skólamál séu umfangsmesti og fjárfrekasti málaflokkur borgarinnar eru umræður um þau í borgarstjórn í skötulíki miðað við það sem áður þekktist. Jón Gnarr borgarstjóri virðist helst vera með hugann við utanríkismál. Framlag borgarstjórans til þeirra umræðna um menntamál, sem þó fara fram, eru rannsóknarefni út af fyrir sig en sýna hvílíkan skort á pólitískri forystu skólar borgarinnar og raunar allar borgarstofnanir þurfa nú að búa við.

Aukum samstarf heimila og skóla

Mikilvægt er að niðurstöður umræddrar lesskimunarkönnunar verði nýttar sem tækifæri til að bæta lestrarkennslu í grunnskólum Reykjavíkur. Skóla- og frístundaráð lýsti yfir áhyggjum sínum vegna þessarar útkomu á síðasta fundi sínum og hvatti til þess að fundnar yrðu leiðir til úrbóta. Við sjálfstæðismenn teljum að í þeirri vinnu, sem framundan er, sé mikilvægt að sameina krafta skóla og foreldra til að auka lestrarfærni barna. Í því skyni lögðum við fram eftirfarandi tillögu ásamt fulltrúa VG á síðasta fundi skóla- og frístundaráðs og var hún samþykkt einróma:

,,Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur felur skólastjórum að kynna niðurstöður lesskimunarkönnunarinnar fyrir nemendum og foreldrum í því skyni að sem gleggstar upplýsingar um stöðu nemenda séu aðgengilegar á hverjum tíma. Rétt er að foreldrar fái einstaklingsbundnar upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimuninni. Auk þess er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu þess skóla í lesskimun, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna.”

Markmið tillögunnar er að allir foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimunarkönnuninni án tillits til þess hvort þeim hefur gengið vel eða illa. Með sama hætti er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu viðkomandi skóla í samanburði við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Í krafti slíkra upplýsinga eru foreldrar betur í stakk búnir en áður til að veita skólunum aðhald og slík upplýsingagjöf mun án efa leiða til gagnrýninna en um leið uppbyggilegra skoðanaskipta milli þeirra og skólastjórnenda. Í slíku samtali þarf m.a. að ítreka að bestur árangur næst í lestrarkennslu barna ef hún fer fram í góðri samvinnu heimila og skóla.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 26. ágúst 2013.

Be Sociable, Share!