Óábyrgt að flæma flugvallarstarfsemi úr Reykjavík

ág.
31

Í Reykjavík-vikublaði, sem kom út í dag, var eftirfarandi spurningu beint til borgarfulltrúa í Reykjavík: Ert þú fylgjandi því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni? Svar mitt er eftirfarandi:

Já. Þegar borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir því árið 2006 að þeir væru reiðubúnir að skoða hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar, var skýrt kveðið á um að ekki væri verið að tala um flutning til Keflavíkur heldur yrði að tryggja að flugvallarstarfsemi yrði áfram á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Frá upphafi hefur verið ljóst að þessi afstaða byggðist á tveimur forsendum; að gott flugvallarstæði fyndist í eða við Reykjavík og að ríkisvaldið myndi bera kostnaðinn vegna flutnings flugvallarins og uppbyggingar hans á nýjum stað.

Báðar þessar forsendur eru brostnar. Engin niðurstaða hefur náðst varðandi nýtt flugvallarstæði og flestum er ljóst að ríkið hefur hvorki vilja né getu til að veita tugi milljarða króna úr tómum ríkiskassanum til uppbyggingar nýs flugvallar, sem standast þarf alþjóðlegar kröfur. Hverfi flugvallarstarfsemi úr Reykjavík árið 2016 mun það stefna innanlandsflugi og sjúkraflugi í fullkomna óvissu sem og þeim fjölmörgu störfum og umsvifum, sem flugvöllurinn veitir Reykvíkingum. Ábyrgðarlaust er að flæma flugvallarstarfsemi úr Reykjavík þegar allsendis er óljóst hvort og þá hvernig þessir mikilvægu hagsmunir verði tryggðir.


Óviðunandi árangur lestrarkennslu í Reykjavík

ág.
26

Niðurstaða lesskimunarkönnunar meðal sjö ára barna í grunnskólum Reykjavíkur sýnir að eftir tveggja vetra lestrarnám geta aðeins 63% þeirra lesið sér til gagns samkvæmt skilgreiningu. 37% eða 521 nemandi nær ekki þeim árangri.

Hlutfall nemenda, sem getur lesið sér til gagns árið 2013 er 8,7% lægra en árið 2012. Er þetta hlutfall hið lægsta um árabil eða frá árinu 2005 en þá var það 60% að nýloknu löngu kennaraverkfalli.

Niðurstöður lestrarkönnunar eru mjög misjafnar eftir skólum. Á meðan 94% nemenda eru talin geta lesið sér til gagns í þeim skóla sem best stendur er hlutfallið aðeins 20% í þeim skóla sem verst kemur út. Einnig er verulegur munur á lestrarfærni barna á milli hverfa og kynja. Að meðaltali eru 67% telpna í öðrum bekk talin geta lesið sér til gagns en aðeins 59% drengja.

Varla er til einhlít skýring á þessari slæmu útkomu. Bent hefur verið á að börn lesi minna en áður í frítíma sínum. Það er sennilega rétt en þá má líka spyrja á móti hvernig það tókst að bæta lestrarþekkingu reykvískra grunnskólabarna verulega á árunum 2005-2011 á sama tíma og kannanir sýndu að tölvunotkun þeirra jókst hröðum skrefum.

Skortur á pólitískri forystu

Ekki verður hjá því komist að nefna að verulega hefur skort á pólitíska forystu í menntamálum í Reykjavík á yfirstandandi kjörtímabili. Undir stjórn Besta flokksins og Samfylkingarinnar hefur ekki nógu mikil áhersla verið lögð á lestrarkennslu sem er þó ein af frumskyldum skólayfirvalda. Þess í stað hefur orkan farið í margvísleg gæluverkefni, t.d. umdeildan skólasamruna og endalausar stjórnsýslubreytingar, sem þó hafa ekki skilað bættum rekstri skóla- og frístundasviðs.

Þrátt fyrir að skólamál séu umfangsmesti og fjárfrekasti málaflokkur borgarinnar eru umræður um þau í borgarstjórn í skötulíki miðað við það sem áður þekktist. Jón Gnarr borgarstjóri virðist helst vera með hugann við utanríkismál. Framlag borgarstjórans til þeirra umræðna um menntamál, sem þó fara fram, eru rannsóknarefni út af fyrir sig en sýna hvílíkan skort á pólitískri forystu skólar borgarinnar og raunar allar borgarstofnanir þurfa nú að búa við.

Aukum samstarf heimila og skóla

Mikilvægt er að niðurstöður umræddrar lesskimunarkönnunar verði nýttar sem tækifæri til að bæta lestrarkennslu í grunnskólum Reykjavíkur. Skóla- og frístundaráð lýsti yfir áhyggjum sínum vegna þessarar útkomu á síðasta fundi sínum og hvatti til þess að fundnar yrðu leiðir til úrbóta. Við sjálfstæðismenn teljum að í þeirri vinnu, sem framundan er, sé mikilvægt að sameina krafta skóla og foreldra til að auka lestrarfærni barna. Í því skyni lögðum við fram eftirfarandi tillögu ásamt fulltrúa VG á síðasta fundi skóla- og frístundaráðs og var hún samþykkt einróma:

,,Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur felur skólastjórum að kynna niðurstöður lesskimunarkönnunarinnar fyrir nemendum og foreldrum í því skyni að sem gleggstar upplýsingar um stöðu nemenda séu aðgengilegar á hverjum tíma. Rétt er að foreldrar fái einstaklingsbundnar upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimuninni. Auk þess er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu þess skóla í lesskimun, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna.”

Markmið tillögunnar er að allir foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimunarkönnuninni án tillits til þess hvort þeim hefur gengið vel eða illa. Með sama hætti er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu viðkomandi skóla í samanburði við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Í krafti slíkra upplýsinga eru foreldrar betur í stakk búnir en áður til að veita skólunum aðhald og slík upplýsingagjöf mun án efa leiða til gagnrýninna en um leið uppbyggilegra skoðanaskipta milli þeirra og skólastjórnenda. Í slíku samtali þarf m.a. að ítreka að bestur árangur næst í lestrarkennslu barna ef hún fer fram í góðri samvinnu heimila og skóla.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 26. ágúst 2013.


Vanrækt borg

ág.
09

Nokkur ár í röð hefur umhirðu og grasslætti ekki verið sinnt í Reykjavík sem skyldi. Ástandið hefur verið sérstaklega slæmt í sumar og hvað verst á opnum svæðum og við umferðargötur í eystri hverfum borgarinnar.

Endurskoða þarf allt fyrirkomulag frá grunni varðandi umhirðu og grasslátt hjá borginni. Með endurskipulagningu má bæta verklag og nýta fjárveitingar betur. Hér er um verðugt úrlausnarefni að ræða fyrir yfirstjórnendur verklegra framkvæmda hjá borginni; borgarstjóra og formann borgarráðs. Þegar fjölmiðlar hafa fjallað um málið hefur hins vegar gengið ótrúlega illa að ná í þessa sómamenn eða þeir verið ófáanlegir til að tjá sig. 29. júlí sl. segir t.d. eftirfarandi í frétt Morgunblaðsins: „Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, vildi ekki tjá sig um málið og benti á embættismenn innan borgarkerfisins sem ýmist voru í sumarleyfi eða vildu ekki tjá sig um málið. Þá náðist ekki í Jón Gnarr borgarstjóra vegna málsins.“

Sambandsleysi eða feimni virðist þó ekki hrjá oddvita Besta flokksins og Samfylkingarinnar þegar um er að ræða mál sem eru nær áhugasviðum þeirra en borgarmál. Þannig hafa fjölmiðlar ekki átt í vandræðum með að fá yfirlýsingar frá borgarstjóranum um alþjóðleg málefni eða kynhneigð Jesú Krists. En er til of mikils mælst að borgarfulltrúar láti þau málefni í forgang sem útsvarsgreiðendur í Reykjavík kusu þá til að sinna?

Áhugalaus meirihluti
Lýsandi dæmi um verkstjórn borgarstjórnarmeirihlutans er hvernig hann hefur hunsað fram komnar tillögur um úrbætur í umhirðumálum. 3. júlí sl. lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur til að ráðist yrði í átak í umhirðu og grasslætti í ljósi óviðunandi ástands. Fulltrúar meirihlutans treystu sér ekki til að styðja tillöguna heldur frestuðu afgreiðslu hennar fram yfir sumarleyfi.

Við sjálfstæðismenn lögðum því fram tillögu um málið á fundi borgarráðs 25. júlí en þar fór á sömu leið. Fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins höfðu engan áhuga á slíkri tillögu og frestuðu afgreiðslu hennar fram yfir sumarleyfi ráðsins. Ef að líkum lætur verða tillögurnar teknar fyrir um eða upp úr miðjum ágúst eða um það leyti sem farið verður að draga úr sprettu í borginni.

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 9. ágúst 2013.