Lög og regla

Löggæsla er frumskylda hins opinbera. Talið er að lögregla sé elsta borgaralega stofnunin og víða um heim er heiti lögreglu dregið af gríska orðinu polis, sem notað var um borgríki í Grikklandi til forna.

Hlutverk lögreglu er að halda uppi allsherjarreglu, stemma stigu við afbrotum og greiða götu borgaranna. Þjónusta lögreglunnar er almennt góð í Reykjavík og nýtur hún mikils og verðskuldaðs trausts almennings.

Mjög reyndi á fámennt lögreglulið höfuðborgarsvæðisins í endurteknum óeirðum í Miðbænum veturinn 2008-09. Þótt flestir mótmælendur færu með friði, var sá hópur ótrúlega stór og harðskeyttur, sem réðst að lögregluþjónum með grjótkasti og líkamlegu ofbeldi. Nokkrir lögregluþjónar urðu fyrir líkamstjóni og í a.m.k. einu tilviku urðu þeir fyrir gangstéttarhellum. Eldur var borinn að Alþingishúsinu og tókst á síðustu stundu að koma í veg fyrir að hann kæmist í eldfima innviði þess. Lögreglan stóð sig ótrúlega vel og hélt velli við þessar erfiðu aðstæður með lagni, snarræði og fagmennsku. Segir það sína sögu um traust lögreglunnar að þegar verst horfði, kom hópur friðsamra mótmælenda og stöðvaði ofbeldismenn, sem létu grjótið dynja á fáliðaðri lögreglusveit.

 Allir ættu að lesa ,,Búsáhaldabyltinguna,“ fróðlega bók Stefáns Gunnars Sveinssonar sagnfræðings um þessa atburði.

Eflum forvarnir

 Borgarfulltrúar fá í störfum sínum margar ábendingar og athugasemdir frá borgarbúum um það sem betur mætti fara í löggæslu- og öryggismálum. Við úrlausn margvíslegra viðfangsefna er samvinna lögreglunnar og borgarinnar nauðsynleg ef hámarksárangur á að nást, t.d. í forvarnarstarfi en það verður að efla.

Í ljósi mikilvægis lögreglunnar fyrir borgarbúa er æskilegt að gott samstarf og greið samskipti séu ætíð á milli borgarstjórnar og lögregluyfirvalda. Samstarfið á milli þessara tveggja stofnana hefur ætíð verið gott en það má enn bæta, almenningi til hagsbóta.

Á síðasta borgarstjórnarfundi var tekin fyrir tillaga Sjálfstæðisflokksins um að komið verði á fót samstarfsnefnd lögreglu og Reykjavíkurborgar um löggæslumálefni. Nefndin verði vettvangur fyrir samskipti og samstarf lögreglunnar og Reykjavíkurborgar og geri tillögur um úrbætur í málefnum er varða löggæslu í borginni. Tillagan hlaut jákvæðar undirtektir á fundinum og samþykkt var einróma að vísa henni til frekari umfjöllunar borgarráðs.

Slík nefnd gæti tekið fyrir tillögur um úrbætur í forvarnarmálum og önnur málefni er varða löggæslu í borginni. Síðast en ekki síst gæti nefndin staðið fyrir opnum fundum um löggæslumál í Reykjavík og unnið úr ábendingum frá almenningi, sem fram kæmu á þeim.

Um áratuga skeið var slík samstarfsnefnd lögreglunnar og Reykjavíkurborgar starfandi en hún var lögð niður árið 2007 í tengslum við breytingar á lögregluumdæmum. Samstarfið í nefndinni var ætíð gott og brást lögreglan yfirleitt mjög vel við ábendingum, sem fram komu á fundum hennar. Slíkan vettvang fyrir bein samskipti milli hennar og borgarfulltrúa hefur vantað undanfarin ár og er nú tækifæri til að bæta úr því. Aukin upplýsingamiðlun milli Reykjavíkurborgar og lögreglunnar mun án efa skapa ný sóknarfæri við að bæta þjónustu við borgarbúa á þessu sviði.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 24. apríl 2013.

Be Sociable, Share!