Fagraberg – góður áfangi í húsnæðismálum eldri borgara

nóv.
20

Fagraberg í Efra Breiðholti

Ástæða er til að þakka Félagi eldri borgara fyrir ómetanlegt framlag í þágu húsnæðismála í Reykjavík á undanförnum áratugum.

Fagraberg, glæsileg 49 íbúða bygging að Hólabergi 84 í Breiðholti, var afhent Félagi eldri borgara í Reykjavík (FEB) 11. nóvember og fluttu fyrstu íbúarnir inn í húsið þegar að lokinni afhendingu. Ástæða er til að óska Félagi eldri borgara í Reykjavík (FEB) og íbúðarkaupendum í Fagrabergi til hamingju með glæsilegt hús og þakka félaginu jafnframt fyrir ómetanlegt framlag í þágu húsnæðismála eldri borgara á undanförnum áratugum.

FEB átti frumkvæði að byggingu Fagrabergs og er það fyrsta íbúðarhús, sem reist er beinlínis á vegum félagsins. FEB á að baki merkilega sögu í húsnæðismálum en áður átti það í samstarfi við verktaka um byggingu slíkra íbúða og sá um ráðstöfun þeirra. Var samtals 386 íbúðum ráðstafað með slíkum hætti á árunum 1986-1998 í fjölbýlishúsum við Grandaveg, Skúlagötu, Hraunbæ, Árskóga og Eiðismýri.

Nokkurt hlé varð á því að byggt væri frekar á vegum félagsins vegna þess að erfiðlega gekk að fá lóðarfyrirgreiðslu frá Reykjavíkurborg. Árið 2008 fékkst fyrirheit frá borginni um lóð á góðum stað í Breiðholti og gat þá undirbúningur hafist af fullum krafti. Byggingarframkvæmdir hafa gengið vel; þær hófust í marz 2011 og nú eru fyrstu íbúarnir fluttir inn.

Fjölbreytileg þjónusta
Eitt af markmiðum Félags eldri borgara í Reykjavík er að stuðla að byggingu öryggisíbúða fyrir félagsmenn og bjóða þeim eignaríbúðir til kaups á viðráðanlegu verði. Í Fagrabergi er um að ræða svonefndar öryggisíbúðir samkvæmt þjónustustigi 1, sem eru sérsniðnar að þörfum eldri borgara. Eru íbúðirnar á verðbilinu 24-43 milljónir króna. Húsið er byggt af Sveinbirni Sigurðssyni hf., sem sér jafnframt um fjármögnun framkvæmda og sölu íbúða.

Fagraberg er tengt Gerðubergi með sérstökum gangi en þar er starfrækt menningarmiðstöð, þar sem byggst hefur upp mjög öflugt félagslíf eldri borgara. Í Gerðubergi er einnig bókasafn og listasafn og stutt er í bakarí og margvíslega aðra þjónustu. Sunnan megin við Fagraberg er Fella- og Hólakirkja með öflugt safnaðarstarf. Falleg útivistarsvæði með góðum göngustígum liggja að Fagrabergi. Síðast en ekki síst er sjálf Breiðholtslaug vestan megin við Gerðuberg. Að tillögu Sjálfstæðisflokksins er nú unnið að því að fá einkaaðila til samstarfs um rekstur líkamsræktarstöðvar í tengslum við Breiðholtslaug og verður hún vonandi að veruleika fljótlega.

Farsælt samstarf
Þegar aldurinn færist yfir er mikilvægt að fólk eigi þess kost að komast með auðveldum hætti úr stóru húsnæði í minni og hentugri einingar með góðum aðgangi að þjónustu. Óhætt er að segja að FEB hafi unnið vel fyrir félagsmenn sína að þessu leyti og í raun lyft Grettistaki í húsnæðismálum eldri borgara. Samstarf Reykjavíkurborgar við þessi frjálsu félagssamtök hefur verið farsælt og skilað góðum árangri í þágu alls samfélagsins.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 20. nóvember 2012.


Reykjavíkurborg greiðir geipiverð fyrir lélegar eignir

nóv.
05

Kaupin eru skýrt dæmi um léleg vinnubrögð meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar í skipulagsmálum og fjármálum Reykjavíkurborgar.

Borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins hafa samþykkt að Reykjavíkurborg kaupi BSÍ-húsið við Vatnsmýrarveg og SÍF-skemmuna við Keilugranda á samtals 685 milljónir króna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn kaupunum enda eru markmiðin með þeim óljós svo ekki sé meira sagt. Hins vegar er ljóst að verið er að greiða hátt verð fyrir lélegar eignir. Þá mun mikill kostnaður, sennilega hundruð milljóna króna, bætast við ofangreinda upphæð vegna niðurrifs SÍF-skemmunnar og væntanlegra endurbóta á BSÍ. Mun sá kostnaður allur lenda á borginni.

Slæm meðferð almannafjár

Vanhugsuð kaup borgarinnar á umræddum húsum eru skýrt dæmi um léleg vinnubrögð meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins í skipulagsmálum og kæruleysislega meðferð almannafjár. Borgin kaupir BSÍ með því markmiði að þar verði miðstöð almenningssamgangna í borginni án þess að sýnt sé fram á það með að húsið sé ákjósanlegur staður fyrir slíka miðstöð til framtíðar.

Reykjavíkurborg á báðar umræddar lóðir en húsin eru í eigu sama aðila. Tókst honum að stilla lóðareigandanum, borginni, upp við vegg í málinu og tengja saman kaup á þessum tveimur ólíku eignum með óeðlilegum hætti. Mikið vantar því á að umrædd kaup hafi verið skýrð til hlítar.

Faglegt mat vantar

Lengi hefur legið ljóst fyrir að finna þurfi nýjan stað fyrir aðalskiptistöð strætisvagna í Reykjavík. Almennt er viðurkennt að það var röng ákvörðun hjá R-listanum sáluga og alls ekki í samræmi við íbúaþróun í borginni að byggja á Hlemmi og Lækjartorgi sem þungamiðjum leiðakerfisins, sem tekið var upp árið 2005. Nú, þegar ætlunin er að hverfa frá því, er þeim mun mikilvægara að ný mistök verði ekki gerð, heldur skoðað vandlega og faglega hver sé besti staðurinn fyrir nýja aðalskiptistöð á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert slíkt sérfræðiálit liggur fyrir en margir sérfræðingar efast um að BSÍ sé rétti staðurinn. Slíkar efasemdir koma m.a. fram í minnisblaði frá Strætó bs. um málið frá því í febrúar á þessu ári.

Við sjálfstæðismenn lögðum til að gerð yrði sérfræðileg úttekt á því hver væri ákjósanlegasta staðsetning nýrrar aðalskiptistöðvar strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu áður en ákvörðun yrði tekin um kaup borgarinnar á BSÍ húsinu. Í úttektinni yrðu þeir staðir sem helst hafa verið nefndir í þessu sambandi, Kringlan, Mjódd og BSÍ vegnir og metnir með faglegum hætti. Borgarfulltrúar meirihlutans höfnuðu því að slík skoðun færi fram og felldu tillöguna.

Vilji Vesturbæinga hundsaður

Áður hafa komið fram hugmyndir um að nota umrædda lóð við Keilugranda til þéttingar byggðar með byggingu fjölbýlishúss. Íbúar í hverfinu hafa hins vegar lagst harðlega gegn slíkum áformum með þeim rökum að Grandahverfi sé nú þegar eitt þéttbýlasta hverfi borgarinnar.

Reykjavíkurborg á Keilugrandalóðina eins og fyrr segir og rennur leigusamningur vegna hennar út eftir þrjú ár. Vildi ég að borgin leysti lóðina til sín með lágmarkstilkostnaði að leigutíma loknum og að henni yrði síðan allri ráðstafað í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Vesturbænum. Með því að fara þá leið í málinu hefðu tvær flugur verið slegnar í einu höggi: Bætt úr brýnni þörf fyrir viðbótar-íþróttasvæði fyrir börn og unglinga í Vesturbænum og viðkvæmasta skipulagsmál í hverfinu í seinni tíð leyst í sátt við íbúa. Borgarstjórnarmeirihlutinn gat ekki fallist á slíkar tillögur en ákvað heldur að hundsa óskir fjölmargra Vesturbæinga. Rétt fyrir lokaafgreiðslu málsins létu fulltrúar meirihlutans í veðri vaka að skoðað yrði hvort unnt væri að skipuleggja íþróttasvæði á hluta lóðarinnar samhliða sölu byggingarréttar fyrir fjölbýlishús. Ljóst er að meirihlutinn lætur slíkar þarfir barna og unglinga í hverfinu til íþrótta og hreyfingar þannig í besta falli mæta afgangi.

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 5. október 2012.