Fjarskiptaævintýri Orkuveitunnar

 

Ánægjulegt er að samstaða skyldi nást meðal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Besta flokksins um að hefja undirbúning að sölu allt að 49% hlutar Orkuveitunnar í Gagnaveitunni. Heppilegra hefði þó verið að stefna að hámörkun söluandvirðis með því að selja allt fyrirtækið eða a.m.k. ráðandi hlut í því eins og kveðið var á um í upphaflegri tillögu okkar sjálfstæðismanna.

Fjarskiptaævintýri Orkuveitunnar hefur nú kostað vel á annan tug milljarða króna. Við stofnun Línu.nets, forvera Gagnaveitunnar, átti Orkuveitan að leggja fyrirtækinu til allt að 200 milljóna kr. í hlutafé, sem síðar átti að selja með hagnaði.

Hver varð raunin? 1999-2008 námu fjárfestingar Orkuveitunnar í fjarskiptastarfsemi 13.744 milljónum króna á núverandi verðlagi. Færa má rök fyrir því að þessi tala sé í raun töluvert hærri þar sem OR fjármagnaði stóran hluta þessara framlaga með erlendum lánum, sem síðan tvöfölduðust. Þá skuldaði Gagnaveitan um 8,2 milljarða króna í lok árs 2011 og hefur til viðbótar tekið verulegt fé að láni á þessu ári.

Frá því að Lína.net var stofnuð (að frumkvæði borgarfulltrúa Samfylkingarinnar) voru skýrar pólitískar línur í borgarstjórn til fyrirtækisins. Sjálfstæðisflokkurinn stóð gegn eyðslunni og varaði við glórulausum offjárfestingum OR á þessu sviði. Vinstri menn í borgarstjórn létu slík varnaðarorð sem vind um eyru þjóta eins og lesa má í skýrslu úttektarnefndar um OR.

Hefði verið hlustað á okkur sjálfstæðismenn og Orkuveitunni ekki att út í tugmilljarðsfjárfestingar í fjarskiptarekstri, er ljóst að fjárhagsstaða fyrirtækisins væri önnur og betri en hún er nú. Áætlað er að aðstoð borgarsjóðs við Orkuveituna muni alls nema tólf milljörðum króna. Líklega hefði ekki verið þörf á aðstoðinni, hefði Orkuveitan sparað sér þetta fjarskiptaævintýri vinstri flokkanna.

Gagnaveitan er öflugt fjarskiptafyrirtæki með góða starfsmenn enda var ekkert til sparað við uppbyggingu hennar. Fjárfestar munu væntanlega sýna fyrirtækinu verðskuldaðan áhuga og vonandi fæst sem mest fyrir hlutabréfin sem nú verða sett í sölu. Ekki er þó búist við að Orkuveitan fái til baka nema hluta þeirra fjármuna, sem lagðir hafa verið í fyrirtækið.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 26. október 2012.

Be Sociable, Share!