Gísli Halldórsson – In memoriam

Gísli Halldórsson er sá maður sem einna mest áhrif hefur haft á uppbyggingu og þróun íþróttamála í Reykjavík. Ungum voru honum falin trúnaðarstörf á vegum íþróttahreyfingarinnar og síðar í þágu borgarbúa, sem hann sinnti af alúð og framsýni. Sem formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur 1949-1962 og Íþróttasambands Íslands 1962-1980 skilaði hann miklu og óeigingjörnu verki í þágu íþrótta og lýðheilsu. Óhætt er að segja að hann hafi verið ötull talsmaður þessara viðhorfa sem borgarfulltrúi 1958-1974 og formaður Íþróttaráðs Reykjavíkur.

Gísli var svo sannarlega maður uppbyggingar og sá nauðsyn þess að í ört vaxandi höfuðborg risu íþróttamannvirki, sem stæðust alþjóðlegar keppniskröfur og gætu rúmað landsleiki svo vel færi. Hann átti stóran þátt í að móta mannvirki eins og Laugardalsvöllinn, Laugardalshöllina og Íþróttamiðstöðina í Laugardal.

Gísli vildi líka tryggja öflugt grasrótarstarf íþróttafélaganna og átti drjúgan þátt í að koma á því hverfaskipulagi íþróttamála, sem enn er byggt á í Reykjavík. Í fróðlegri sögu Íþróttabandalags Reykjavíkur eftir Sigurð Á. Friðþjófsson segir Gísli að hugmyndin á bakvið hverfaskiptinguna hafi verið sú að börn og unglingar gætu gengið til íþróttaiðkunar í sínu hverfi en þyrftu ekki að fara langa leið í strætisvögnum á æfingar. Á grundvell þessarar hugmyndar var leitast við að tryggja félögunum afnotarétt af góðum svæðum til framtíðar

Almennt er viðurkennt að íþróttastarf og aðgangur að því vegur þungt þegar lífsgæði í einstökum hverfum eða borgum eru metin. Helsta áherslumál Gísla á árunum 1946-1951 var að vinna að því að það yrði samþykkt í bæjarstjórn að íþróttafélögin fengju varanlega velli sem féllu inn í skipulagið. Síðan segir Gísli í áðurnefndri bók: ,,Sannleikurinn var sá að skipulagsmenn bæjarins voru alltaf á móti því að íþróttafélögin fengju fast, varanlegt svæði. Þeim óx í augum það rými sem setja þurfti undir þessa íþróttavelli. Í staðinn var alltaf verið að tala um bráðabirgðasvæði.“

Gísli var ávallt trúr hugsjónum sínum og átti stóran þátt í að tryggja reykvískum íþróttafélögum svæði til framtíðar. Fyrir það geta Reykvíkingar verið þakklátir. Er nú raunar svo komið að í sumum hverfum eru íþróttafélög jafnvel lent í landþrengslum vegna mikillar fjölgunar iðkenda í barna- og unglingastarfi.

Fyrir nokkrum árum átti ég gott spjall við Gísla um borgarmálin þar sem víða var komið við. Kom þá vel fram áhugi hans á skipulagsmálum og þróun borgarinnar til framtíðar. Einnig velvilji í garð íþróttahreyfingarinnar, sem hann taldi að borgaryfirvöld ættu ekki að þrengja að heldur veita frekara svigrúm til athafna.

Hið fjölbreytta og myndarlega mannræktarstarf í þágu barna og ungmenna, sem nú fer fram á athafnasvæðum íþróttafélaganna í Reykjavík, er óbrotgjarn minnisvarði um Gísla og aðra frumkvöðla, sem höfðu framsýni og vilja til að skapa slíku starfi aðstæður. Minningu um góðan dreng mun ég halda í heiðri á meðan mér endast dagar.

Be Sociable, Share!