Á að hrekja verslunarrekstur úr miðborginni?

Án öflugrar verslunar getur miðborg Reykjavíkur ekki sinnt því hlutverki að vera blómleg miðstöð viðskipta, menningar og annarrar þjónustu. Mikilvægt er að borgaryfirvöld skapi miðborginni þau skilyrði að þar geti verslun og viðskipti vaxið og dafnað. Að minnsta kosti hlýtur að vera hægt að ætlast til þess að borgarstjórn grípi ekki til aðgerða, sem hafi beinlínis þau áhrif að skerða samkeppnishæfni Miðbæjarins gagnvart öðrum verslunarsvæðum í borginni.

Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins í umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur, samþykkti  í liðinni viku að hækka bílastæðagjöld í Miðbænum um 67-88%.  Breytingin öðlast þó ekki gildi fyrr en borgarráð hefur afgreitt málið.

Samkvæmt tillögum meirihlutans mun tímagjald á gjaldsvæði 1 hækka um 67% eða úr 150 í 250 kr. Tímagjald á gjaldvæðum 2 og 4 hækki um 88% eða úr 80 í 150 kr.

Þá er lagt til að almenn gjaldskylda á gjaldsvæðum verði lengd þannig að hún verði frá 9-18 á virkum dögum en 9-16 á laugardögum.

Ekkert samráð

Svo miklar hækkanir á bílastæðagjöldum eru óviðunandi og munu tvímælalaust hafa veruleg áhrif á rekstraraðstæður verslana og annarra þjónustufyrirtæki í miðborginni. Í því ljósi er mjög ámælisvert að borgarstjórnarmeirihlutinn gerði enga tilraun til að eiga samráð við þessa rekstraðila áður en hækkunin var samþykkt í umhverfis- og samgönguráði. Þegar framkvæmdastjóri ,,Miðborgarinnar okkar“ kvartaði yfir þessum vinnubrögðum, fékk hann þau svör hjá borgaryfirvöldum að þau hefðu séð það fyrir að þetta yrði óvinsælt hjá rekstraraðilum og því best að hafa sem fæst orð um fyrirætlanirnar.

Kaupmenn og aðrir rekstraraðilar í Miðbænum heyrðu fyrst um hækkanirnar í fjölmiðlum. Telja margir þeirra að svo umfangsmiklar hækkanir fæli fólk frá því að versla og reka önnur erindi sín í miðborginni og að hætta sé á að þær muni stuðla að enn frekari flótta verslana og fyrirtækja af svæðinu. Eftir því sem verslunin hopar úr Miðbænum, tekur annars konar starfsemi sér bólfestu þar, t.d. vínveitingastaðir, sem opnir eru utan gjaldskyldutíma Bílastæðasjóðs. Er það ef til vill markmið núverandi borgarstjórnarmeirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar að flæma verslun og viðskipti úr miðborginni og gera svæðið að allsherjar skemmtanahverfi?

Bætum samkeppnisstöðu miðborgarinnar

Það fer ekki fram hjá neinum að baráttan er hörð í verslun og viðskiptum á höfuðborgarsvæðinu. Helsti styrkur Miðbæjarins liggur í fjölda og fjölbreytileika verslana og hinni einstöku stemmningu, sem þar ríkir. Á sama hátt er ljóst að helsti veikleiki Miðbæjarins til að laða að viðskiptavini liggur í því að þar eru bílastæðagjöld innheimt og há aukastöðugjöld ef viðskiptavinir ná ekki að reka erindi sín innan fyrirfam ákveðins tíma. Aðrar verslanamiðstöðvar gera sér grein fyrir þessu enda auglýsa margar þeirra að hjá þeim séu næg ókeypis bílastæði handa viðskiptavinum.

Í viðkvæmu rekstrarumhverfi miðborgarinnar hlýtur að vera hægt að gera þá lágmarkskröfu til stjórnmálamanna að þeir grípi ekki til aðgerða, sem beinlínis skerða samkeppnishæfni fyrirtækja þar. 67-88% hækkun stöðumælagjalda mun ekki styrkja verslun og viðskipti í Miðbænum heldur þyngja róðurinn fyrir þá rekstraraðila, sem þar berjast fyrir lífi sínu á hverjum degi.

Be Sociable, Share!