Alþjóðlegu Reykjavíkurleikarnir

Íþróttafólk fyllti Laugardalinn af lífi og fjöri um helgina þegar Alþjóðlegu Reykjavíkurleikarnir (Reykjavik International Games) voru haldnir þar í fimmta sinn. Leikarnir hafa orðið glæsilegri og öflugri með ári hverju og áunnið sér fastan sess í borgarlífinu. Sannkölluð keppnisgleði ríkti þegar vel á þriðja þúsund keppendur af báðum kynjum, fatlaðir og ófatlaðir, kepptu sín á milli í ólíkum íþróttagreinum. Um fjögur hundruð erlendir keppendur frá 22 þjóðum tóku þátt í leikjunum að þessu sinni.

Reykjavíkurleikarnir eru haldnir af Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) og aðildarfélögum þess með stuðningi Reykjavíkurborgar. Keppt var í sextán íþróttagreinum að þessu sinni; badminton, bogfimi, borðtennis, dansi, fimleikum, frjálsum íþróttum, júdó, keilu, kraftlyftingum, listhlaupi á skautum, ólympískum lyftingum, skvassi, skylmingum, sundi, sundi fatlaðra og þríþraut. Aðdragandinn að leikunum var sameining mótahalds nokkurra íþróttagreina að vetri, fljótlega bættust fleiri greinar við og þannig myndaðist grundvöllur fyrir því stórmóti sem Reykjavíkurleikarnir eru orðnir.

Mikill metnaður einkenndi mótshaldið og enn einu sinni hefur sannast að íþróttamannvirkin í Laugardal eru kjörin umgjörð um slíkt alþjóðlegt fjölgreinamót. Reykjavíkurleikarnir veita íslensku íþróttafólki tækifæri til að spreyta sig og öðlast keppnisreynslu á alþjóðlegu móti sem þó er haldið á heimavelli. Í nokkrum greinum mótsins öðlast keppendur stig, sem nýtast þeim til þátttöku á stórmótum eins og Ólympíuleikum og heimsmeistarakeppni. Síðast en ekki síst fá áhorfendur tækifæri til að sjá besta íþróttafólk Íslands í viðkomandi greinum sýna listir sínar og vinna til afreka ásamt góðum erlendum gestum.

Afrek í ferðaþjónustu

Ánægjulegt er hve margir erlendir gestir sækja leikana. Jafnframt því að vera mikilvægir fyrir íþróttalífið laðar viðburðurinn til sín hundruð erlendra ferðamanna til Íslands á þeim tíma ársins, sem minnst er að gera í ferðaþjónustu.

Ég óska reykvískri íþróttahreyfingu til hamingju með vel heppnaðan viðburð, sem sprottinn er úr grasrótarstarfi þessara frjálsu félagssamtaka í borginni.  Mörg hundruð einstaklingar úr reykvískum íþróttafélögum unnu ómælt sjálfboðaliðastarf við framkvæmd leikanna og fyrir það ber að þakka. Vonandi munu Alþjóðlegu Reykjavíkurleikarnir eflast og dafna til framtíðar og festa sig enn frekar í sessi á viðburðadagskrá borgarinnar.

– – –

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 23. janúar 2012.

Be Sociable, Share!