Starf sjálfboðaliða er ómetanlegt

Á alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans, 5. desember, er við hæfi að gefa gaum að hinu mikla og óeigingjarna sjálfboðaliðastarfi, sem unnið er í þágu landsmanna.

Löng hefð er fyrir sjálfboðaliðastarfi á Íslandi og í Reykjavík er blómlegt félags- og mannræktarstarf að miklu leyti drifið áfram af sjálfboðaliðum. Ætla má að flestir landsmenn hafi einhvern tímann tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi en rannsóknir sýna að um 40% þeirra sinni nú slíku starfi af einhverju tagi. Fólk á öllum aldri ver þannig hluta frítíma síns í þágu mannbætandi starfs af ýmsu tagi. Vel má líta á sjálfboðaliðasamtök sem þriðja geira þjóðfélagsins, þ.e. sem mikilvæga viðbót við einkageirann og hinn opinbera. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að eftir því sem sjálfboðaliðastarf í frjálsum félögum er öflugra, þeim mun traustari eru innviðir viðkomandi samfélaga. Þjóðhagslegur ávinningur af starfi sjálfboðaliða er því mikill.  

Evrópuári sjálfboðaliðastarfs er ætlað að vekja athygli á starfi sjálfboðaliða, hvetja fleiri til sjálfboðavinnu og bregðast við vanda, sem þeir glíma við. Meginmarkmið Evrópuársins eru eftirfarandi:

1. Ryðja úr vegi hindrunum, sem standa í vegi fyrir auknu sjálfboðaliðastarfi.

2. Styrkja samtök sjálfboðaliða og auka gæði sjálfboðaliðastarfs.

3. Verðlauna og veita sjálfboðaliðum viðurkenningu fyrir mikilvægt framlag þeirra til samfélagsins.

4. Auka skilning á gildi og mikilvægi sjálfboðaliðastarfs í þágu almennings.

Sjálfboðaliðum færðar þakkir

 Í tilefni af Evrópuári sjálfboðaliðastarfs, sem nú stendur yfir, lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram eftirfarandi tillögu á borgarstjórnarfundi 15. nóvember sl:

„Borgarstjórn Reykjavíkur þakkar af heilum hug fyrir framlag þeirra tugþúsunda Reykvíkinga, sem sinna fórnfúsu og óeigingjörnu sjálfboðaliðastarfi í þágu íbúa Reykjavíkur. Ljóst er að slíkt sjálfboðaliðastarf er drifkraftur í starfsemi fjölmargra félaga og samtaka, sem bæta mannlíf í borginni með ýmsum hætti, t.d. með íþróttaiðkun, æskulýðsstarfi, foreldrastarfi í skólum, starfi í þágu eldri borgara, umhverfisstarfi, kristilegu starfi, mannúðarmálum o.s.frv. Borgarstjórn lýsir yfir stuðningi við meginmarkmið Evrópuárs sjálfboðaliðastarfs 2011 og samþykkir jafnframt að halda alþjóðlegan dag sjálfboðaliðans, 5. desember, hátíðlegan ár hvert með því að efna þann dag til kynnisheimsókna borgarfulltrúa til frjálsra félaga og samtaka í borginni, sem sinna sjálfboðaliðastarfi.“

Því miður sá borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar og Besta flokksins sér ekki fært að samþykkja ofangreinda tillögu Sjálfstæðisflokksins óbreytta. Tillögunni var því vísað til borgarráðs, sem samþykkti svo breytta tillögu á fundi sínum 24. nóvember:

„Borgarráð vill vekja athygli borgarbúa á alþjóðlegum degi sjálfboðaliðastarfs, 5. desember, og hinu mikilvæga starfi, sem sjálfboðaliðar í Reykjavík sinna. Borgarráð hvetur borgarbúa til þátttöku í sjálfboðaliðastarfi hinna fjölmörgu félagasamtaka í Reykjavík. Reykjavíkurborg mun vekja athygli á deginum á heimasíðu borgarinnar 5. desember nk. og felur jafnframt skrifstofu borgarstjórnar að skipuleggja heimsóknir borgarfulltrúa til frjálsra félaga og samtaka í borginni til að sýna þakklæti borgarinnar í verki.“

Augljóst er að samþykkt borgarráðs gengur mun skemmra en sú tillaga, sem við sjálfstæðismenn lögðum fyrir borgarstjórn. Þykir mér t.d. heldur dregið úr þökkunum og einnig veldur það vonbrigðum að meirihlutinn skyldi ekki heldur fást til að lýsa yfir stuðningi við meginmarkmið Evrópuársins. Það fékkst þó í gegn að á alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans, sem er í dag, munu borgarfulltrúar fara í kynnisheimsókn til sjálfboðaliðasamtaka. Að þessu sinni verður Slysavarnafélagið Landsbjörg fyrir valinu. Á slík heimsókn vel við í ljósi fórnfúss starfs björgunarsveitanna en aðeins eru nokkrar vikur síðan sveitirnar stóðu fyrir umfangsmestu aðgerð síðari ára þegar leitað var að sænskum ferðamanni á Mýrdalsjökli.

Styrkjum starfsemi sjálfboðaliða

Það er vel við hæfi að alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans sé í desember því þá standa fjölmörg samtök sjálfboðaliða fyrir árvissu fjáröflunarátaki, t.d. með flugeldasölu, happdrætti, tónleikahaldi eða almennum samskotum í þágu þeirra, sem minna mega sín. Þegar hátíð ljóss og friðar fer í hönd er mikilvægt að við gleymum ekki þessum samtökum, sem vinna stöðugt að betra þjóðfélagi, og styrkjum þau með einhverjum hætti.

– – –

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 5. desember 2011.

Be Sociable, Share!