Aukafundar krafist í borgarstjórn Reykjavíkur

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna krefjast þess að vinnu við þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar um rekstur framkvæmdir og fjármál, verði hraðað eins og kostur er. Áætlunin verði síðan samþykkt á aukafundi borgarstjórnar, sem haldinn verði eigi síðar en 10. ágúst nk. Undir stjórn meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins hefur umræddri áætlanagerð verið klúðrað með ótrúlegum hætti en skv. 63. grein sveitarstjórnarlaga bar borginni að skila áætluninni til innanríkisráðuneytisins 15. febrúar sl.Þriggja ára áætlunin er mikilvægt stjórntæki og upplýsingagagn í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar sem og gagnvart fjölmiðlum og almenningi. Ótækt er að gengið sé gegn þeirri lögbundnu skyldu að skila slíkri áætlun til ráðuneytisins og með öllu óviðunandi að slík skil dragist í hálft ár eða lengur.Fyrirheit um að áætlunin yrði samþykkt fyrir sumarleyfi borgarstjórnar hafa ekki staðist og ljóst er að meirihlutinn hyggst ekki ganga til verksins fyrr en með haustinu og samþykkja áætlunina 7-8 mánuðum seinna en lögbundið er. Slíkt yrði algert einsdæmi og myndi kalla yfir borgina viðurlög og stefna trausti hennar á fjármálamörkuðum í hættu.

Vítavert kæruleysi meirihlutans

Einu svörin sem fást frá Degi B. Eggertssyni, formanni borgarráðs, um málið eru á þá leið að umræddur dráttur skýrist af óvissu vegna flutnings á málaflokki fatlaðra frá ríki til borgar um síðustu áramót. Þessi skýring stenst engan veginn enda hefur Reykjavíkurborg áður tekið við stórum málaflokkum frá ríkinu án þess að slíkur flutningur hafi verið notaður sem afsökun til að skila ekki lögbundnum áætlunum. Afar ósannfærandi er að halda því fram að stærsta sveitarfélag landsins geti ekki lokið þessu verki á réttum tíma enda er ekki vitað til að umræddur flutningur hafi hamlað áætlanaskilum hjá öðrum sveitarfélögum. Augljóst er að verkstjórn oddvita Besta flokksins og Samfylkingar dugir ekki og því ber minnihlutanum að leggja fram tillögur til úrbóta. Í fimm mánuði hafa viðbrögð oddvitanna í þessu alvarlega máli einkennst af kæruleysi gagnvart skýrum lagafyrirmælum og eftirrekstri af hálfu ráðuneytisins. Er til of mikils mælst að þeir Dagur og Jón geri sér grein fyrir alvöru málsins en hætti að líta á stjórnun Reykjavíkurborgar sem þægilega innivinnu?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 22. júlí 2011.

Be Sociable, Share!