Verkefnin framundan

Við þær aðstæður þegar fjármál landsins eru í uppnámi, fólksflótti er staðreynd og ríkisstjórnin svo gagnslaus að hún heldur ekki á lofti réttmætum málstað þjóðarinnar, hefur aldrei verið mikilvægara að Reykjavík blómstri og skapi þegnum sínum lífvænleg og eftirsóknarverð skilyrði. Það er á ábyrgð borgarstjórnar að Reykjavík hafi betur í þeirri alþjóðlegu samkeppni, sem á sér stað um fólk, ekki síst vel menntað og sérhæft vinnuafl, sem á nú auðvelt með að fá vinnu erlendis á betri kjörum en bjóðast hér heima.

Hófstilltar álögur

Ísland hefur á undanförnum áratugum smám saman verið að taka á sig mynd borgríkis. Líklegt er að sú þróun haldi áfram þrátt fyrir tímabundið bakslag á næstunni. Það er framsýnnar borgarstjórnar að tryggja að Reykjavík verði áfram eftirsóknarverðasti staður til búsetu á Íslandi. Til þess þarf að veita borgurunum úrvalsþjónustu, ákjósanleg skilyrði fyrir atvinnulíf og stilla álögum í hóf.

Festa og áræði

Borgarstjórn hefur tekist á við kreppuna af festu en núverandi ríkisstjórn hefur verið að hugsa sig um í heilt ár. Tryggasta leiðin til að sú lausung, sem ríkir á vettvangi landsmálanna, smitist ekki yfir á borgarmálin, er að Sjálfstæðisflokkurinn fái meirihluta í borgarstjórnarkosningum í vor undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Forgangsverkefni

Þær hagræðingaraðgerðir, sem ráðist hefur verið í hjá borginni hafa nú þegar skilað miklum árangri. Áfram verður að gæta aðhalds og auka skilvirkni í rekstri en tryggja um leið gæði þjónustunnar. M.a. þarf að taka stjórnkerfi borgarinnar í gegn sem er of dýrt og þungt í vöfum. Þá þarf áfram að forgangsraða í þágu barna, ungmenna og eldri borgara. Standa þarf vörð um grunnþjónustu, ekki síst þá þjónustu, sem veitt er úti í hverfunum, t.d. í skólum, íþróttamannvirkjum og félagsmiðstöðvum eldri borgara. Næstu ár munu ekki snúast um tugmilljarða króna hugmyndir heldur hvernig borgin tekst á við efnahagsvandann og hvaða lífsskilyrði okkur tekst að búa afkomendum okkar til framtíðar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu hinn 23.i.2010.

Be Sociable, Share!