40% fjölgun þátttakenda milli ára í Gamlárshlaupi ÍR

Gamlárshlaup ͕R

Metþátttaka var í Gamlárshlaupi Íþróttafélags Reykjavíkur þegar 937 þátttakendur þreyttu hlaupið, samanborið við 670 þátttakendur í fyrra. Um er að ræða 40% fjölgun þátttakenda í Gamlárshlaupinu á millli ára. Þessi aukning er fagnaðarefni og er góður vitnisburður um metnaðarfullt starf ÍR-inga, sem og raunar annarra íþróttafélaga í Reykjavík þar sem stundaðar eru frjálsar íþróttir og/eða hvatt til hlaupa með ýmsum hætti. Ég tel að einnig megi skýra þessa fjölgun með almennri heilsuvakningu, sem á sér nú stað meðal almennings, og kemur m.a. fram í stóraukinni ásókn og notkun á íþróttamannvirkjum Reykjavíkurborgar.

Í Gamlárshlaupinu er farinn 10 kílómetra hringur um Miðbæinn, út á Seltjarnarnes og síðan um Vesturbæinn og komið er í mark við Ráðhús Reykjavíkur. Veður var gott að þessu sinni, nokkuð kalt en stillt. Það er oft galsi í þátttakendum í Gamlárshlaupinu og æ fleiri hlaupa í litskrúðugum búningum og gera hlaupið þannig skemmtilegra. Við endamarkið ríkir góð stemmning enda eru allir ánægðir með að hafa drifið sig í hlaupið. Sumir e.t.v. hissa á því hvað þeir eru þungir á sér eftir stórveislurnar og heita því þá um leið að koma sér í enn betra form á komandi ári.

Gamlárshlaupið, sem nú var þreytt í 34. sinn, er íþróttaviðburður sem einkennist af hæfilegri blöndu af gleði, áreynslu við hæfi hvers og eins og heilbrigðri keppni. Ég þakka ÍR-ingum fyrir að auðga borgarlífið með því að standa árlega fyrir þessu skemmtilega og vel skipulagða hlaupi.

Be Sociable, Share!