Af hverju má ekki kjósa um skatta?

Margir eru forviða yfir forkastanlegum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í Icesave málinu. Endalaust koma upp nýir fletir á þessu ógæfumáli og sumir þannig að þeir myndu einir og sér duga heiðvirðum þingmönnum til að kasta frumvarpinu út í hafsauga. Nýjasta uppákoman snýst um hvernig ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis tók þátt í að fela einhverjar mikilvægustu staðreyndir málsins fyrir almenningi fram yfir kosningar sl. vor. Slíkt ráðabrugg háttsetts embættismanns og fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er reginhneyksli sem taka ætti á með afgerandi hætti.

Enn berast fréttir af því að einstakir þingmenn finni sér afsakanir til að vera fjarverandi þegar atkvæði verða greidd um eitt mikilvægasta mál lýðveldissögunnar. Orð Atla Gíslasonar í Morgunblaðinu á þriðjudag verða ekki skilin öðru vísi en að hann taki sér frí frá þingi fram yfir atkvæðagreiðslur Icesave og fjárlaga til að sinna lögmannsstörfum. Er þingmennska sum sé orðin aukastarf ogeinungis til uppfyllingar öðrum mikilvægari störfum?

Hefur þjóðin brugðist trausti Steingríms?

Vinnubrögð vinstri flokkanna sýna að best er að þjóðin fái að kjósa um Icesave frumvarpið. Stór hluti landsmanna hefur myndað sér skoðun á málinu og vill fá að hafa um það að segja hvort frekari fjárhagslegar skuldbindingar verði lagðar á þá, sem mjög er deilt um hvort þjóðin geti staðið undir.

Fróðlegt hefur verið að sjá ýmsa baráttumenn fyrir fjölgun þjóðaratkvæðagreiðslna, færa nú rök fyrir því að þær eigi ekki við í þessu tilviki. Þannig segir Steingrímur J. Sigfússon að í þjóðaratkvæðagreiðslum séu yfirleitt undanskilin ákveðin atriði, sem ekki sé talið gerlegt að kosið sé um, eins og fjárhagsskuldbindingar og skattar. Þarna slær Steingrímur J. Sigfússon enn einu sinni fram röngum fullyrðingum. Hefði hann kynnt sér þjóðaratkvæðagreiðslur víða um heim, kæmist hann að því að þær eru ekki síst notaðar til að skera úr um hvort varpa eigi yfir á almenning skattahækkunum og framkvæmdum sem hafa miklar fjárskuldbindingar í för með sér. Icesave málið snýst um gífurlegar fjárhagslegar skuldbindingar sem þjóðin mun þurfa að gera upp í formi skatta. Það er einboðið að hún fái að segja hug sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

(Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 9.xii.2009)

Be Sociable, Share!