Jafnvægi og framsýni

jan.
09

flokksradsfundur-samth-rikisstjornaradild-9-1-17

Jafnvægi og framsýni verða einkunnarorð nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Góð stemmning ríkti á fjölmennum flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrr í kvöld og samþykktu fundarmenn einum rómi aðild flokksins að stjórninni. Auk forsætisráðuneytisins mun Sjálfstæðisflokkurinn fara með innanríkisráðuneytið, menntamálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og iðnaðar- og viðskiptamál í atvinnuvegaráðuneytinu. Nýrri ríkisstjórn er óskað velfarnaðar með von um að henni takist að stuðla að enn frekari bætingu lífskjara með því að framlengja yfirstandandi hagvaxtarskeið, sem er nú þegar orðið hið lengsta í lýðveldissögunni.

Á áðurnefndum fundi kastaði sr. Hjálmar Jónsson fram eftirfarandi vísu:

Tugi funda trú þau sátu,
terta bakast.
Það sem aðrir ekki gátu
er að takast.

 

 

 

 

 

 

 

 


Bernhöftsbakarí flytur sig um set

okt.
02

20161001_102539_resized

Bernhöftsbakarí, elsta starfandi fyrirtæki Reykjavíkur, flutti um helgina á Skúlagötu eftir 85 ára starfsemi við Bergstaðastræti. Þar áður var bakaríið starfrækt á Bernhöftstorfu, allt frá stofnun þess árið 1834. Nú er í sjálfu sér ekki tiltökumál að fyrirtæki flytji á milli staða. En þar sem Bernhöftsbakarí hefur verið við Bergstaðastræti síðan ég man eftir mér, er þó óneitanlega sem þráður slitni til veraldar sem var og því fylgir söknuður. Bakaríinu fylgja góðar óskir um að það blómstri á nýjum stað og veiti borgarbúum áfram þá úrvalsþjónustu sem það hefur verið þekkt fyrir undanfarin 182 ár.
20161001_102539_resized


Sr. Vigfús Þór Árnason kveður Grafarvogssöfnuð

apríl
12

Fjölmenni og fjör var við kveðjumessu sr. Vigfúsar Þórs Árnasonar í Grafarvogskirkju sl. sunnudag en hann lætur nú af störfum í fjölmennasta prestakalli landsins eftir 27 ára farsæla þjónustu. Sr. Vigfús Þór hefur að mörgu leyti verið frumkvöðull í kirkjustarfi og eftir því hefur verið tekið hvað safnaðarstarf hefur verið öflugt undir hans stjórn, ekki síst þjónusta við eldri borgara og barnafjölskyldur. Hann hefur einnig áunnið sér mikla virðingu og þakklæti fyrir styrkjandi hjálp þegar sorgin knýr dyra og þá verið reiðubúinn til þjónustu á nóttu sem degi.20160410_151142_resized


Stýrihópastjórn í Reykjavík

mars
04

Í stað þess að bæta verkstjórn og koma þörfum málum í framkvæmd, er meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna í borgarstjórn mjög upptekinn við að skipa stýrihópa.
Á fyrstu átta mánuðum kjör­tíma­bils vinstri meiri­hlut­ans í Reykja­vík voru skipaðir 74 starfs- og stýri­hóp­ar. Þegar borgarstjóri afsakar klúður eða aðgerðaleysi, vísar hann gjarnan til þess að hópur skriffinna sitji í einhverjum stýrihópnum, sem muni bráðum skila glæsilegri stefnu í viðkomandi máli.
Einu sinni voru bara skipaðar nefndir, síðan starfshópar, þá aðgerðahópar en nú er enginn vinstri maður með mönnum nema hann stjórni stýrihópi. Má ekki kalla þetta stýrihópastjórnun?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/03/74_styrihopar_a_8_manudum/


Borgarstjórnarmeirihluti á móti samgönguframkvæmdum

maí
06

 

Á borgarstjórnarfundi í dag lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að óskað yrði eftir endurskoðun á samgöngusamningi ríkisins og Reykjavíkurborgar með það að markmiði að á samningstímabilinu verði ráðist í stórframkvæmdir í samgöngumálum í Reykjavík með umferðaröryggi og arðsemi að leiðarljósi.

Umræddur samningur var gerður í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar og með stuðningi borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar. Samningurinn tók gildi á árinu 2012 og felur í sér að hætt verður við allar stórar samgönguframkvæmdir á stofnbrautakerfinu í Reykjavík á samningstímabilinu, þ.e. frá 2012-2022. Á sama tíma munu hins vegar tugir milljarða renna til samgönguframkvæmdum í öðrum kjördæmum landsins.

Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar lagðist gegn því að tillagan yrði borin upp til atkvæða á fundinum en lét þess í stað vísa henni til borgarráðs.  Í umræðum á fundinum kom fram að borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar vilja ekki endurskoða umræddan samning með það að markmiði að á samningstímabilinu verði ráðist í framkvæmdir á stofnbrautakerfinu í Reykjavík með umferðaröryggi og arðbærni að leiðarljósi. Sem fyrr styður Sjálfstæðisflokkurinn að Reykvíkingar eigi val um ólíka samgöngukosti um leið og stuðlað sé að auknu umferðaröryggi allra vegfarenda, hvort sem þeir nota almenningssamgöngur, bifreiðar, hjól eða tvo jafnfljóta.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/06/engar_storframkvaemdir_i_samgongumalum/


Hlutverk Reykjavíkurborgar í alþjóðlegu björgunarstarfi

feb.
03

landhelgisgæzlan

Ástæða er til að þakka finnsku björgunarsveitunum fyrir þátttöku þeirra í hinni umfangsmiklu aðgerð á Faxaflóa, þar sem leitað var að íslenskum sjómönnum er taldir voru í sjávarháska. Skip, þyrlur og flugvélar frá flotum vinaþjóða okkar hafa oft tekið þátt í slíkum aðgerðum hér við land og bjargað mörgum mannslífum. Fyrir nokkrum árum fórst danskur sjóliði við slík björgunarstörf. Enginn veit hvenær þær aðstæður skapast að þörf verður á samhæfðum aðgerðum allra tiltækra björgunarsveita við norðanvert Atlantshaf, t.d. vegna sjóslyss, flugslyss, umhverfisslyss, náttúruhamfara eða jafnvel hryðjuverka. Það segir sig sjálft að við slíkar aðstæður skiptir miklu máli að björgunarsveitirnar, sem í langflestum tilvikum koma frá flota viðkomandi þjóða, hafi æft saman og að öll samskipti gangi greiðlega fyrir sig og séu þaulæfð. Í stað þess að styðja við slíkt samstarf, hafa borgarfulltrúar BF og Samfylkingar lagt stein í götu þess með því að lýsa ítrekað yfir því að varðskip og björgunarvélar erlendra vinaþjóða séu óvelkomin til Reykjavíkur.
Á fundi borgarstjórnar á morgun, þriðjudag, fara fram umræður um hlutverk Reykjavíkur í björgunarstarfi að frumkvæði okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

http://visir.is/tvaer-finnskar-herthyrlur-taka-thatt-i-leitinni/article/2014140209896


Er þörf á sérstakri þróunarsamvinnustofnun?

des.
08

Þegar skuldir ríkisins nálgast tvö þúsund milljarða er ljóst að ekki verður undan því vikist að endurmeta allan rekstur í því skyni að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og lækka skuldir.
Fjórir milljarðar króna fara í þróunaraðstoð á þessu ári, þar af renna um 1.800 milljónir til verkefna og starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar. Ef það á að skattleggja íslenska þegna til að bæta lífskjör í öðrum löndum, má spyrja hvort það þurfi sérstaka ríkisstofnun með tugum starfsmanna og tilheyrandi umsýslukostnaði til þess arna? Má ekki bara leggja stofnunina niður og nýta fjárframlögin betur, t.d. með samstarfi við erlendar þróunarstofnanir og viðurkennd samtök sjálfboðaliða? Minni umsýslukostnaður leiðir væntanlega til betri nýtingar fjárins í þágu hinna snauðu.
http://www.ruv.is/frett/throunaradstod-fer-i-heilbrigdiskerfid

Ég þakka fyrir stuðninginn

nóv.
18

Ég þakka Reykvíkingum kærlega fyrir góðan stuðning í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, sem haldið var á laugardag. Hlaut ég flest heildaratkvæði framjóðenda, 3.342 atkvæði eða 67% gildra atkvæða. Ég er þakklátur fyrir þetta mikla traust og heiti því að bregðast því ekki. Öðrum frambjóðendum óska ég til hamingju með árangurinn og hlakka til að vinna með þeim að því að gera góða borg enn betri.


Málefni eldri borgara

nóv.
14

Hækkandi meðalaldur Íslendinga hefur leitt til þess að eldri borgurum fjölgar hlutfallslega hraðar en þjóðinni í heild. Þjónusta Reykjavíkurborgar þarf að taka mið af þessari þróun og mikilvægt er að leggja áherslu á að málefni eldri borgara eru málefni alls þjóðfélagsins og varða fólk á öllum aldri.Það eru viðbrigði fyrir flesta að komast á lífeyrisaldur og hætta í föstu starfi. Breyting á lífsháttum getur haft talsvert álag í för með sér, ekki síst ef tekjur dragast saman. Æskilegt er að fólki verði með margvíslegum hætti auðveldaðar slíkar breytingar, t.d. með sveigjanlegri starfslokum og aðstoðað við að laga sig að breyttum aðstæðum í kjölfar þeirra.

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar hefur verið áhugalaus og aðgerðalítill um mörg hagsmunamál eldri borgara í Reykjavík. Úr þessu þarf að bæta enda er mikilvægt að borgaryfirvöld séu í sem bestu samstarfi við hagsmunasamtök eldri borgara um málefni þeirra.

Afsláttur á fráveitugjaldi

Eitt fyrsta verk meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins var að hætta að veita afslátt eða niðurfellingu á fráveitugjaldi (holræsaskatti) til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega sem löng hefð var fyrir hjá Reykjavíkurborg. Undirritaður flutti tillögu um það í borgarstjórn f.h. Sjálfstæðisflokksins að slíkur afsláttur yrði tekinn upp á ný og náði málið fram að ganga.

Þjónustuíbúðir eldri borgara

Um síðustu áramót hafði engum lóðum fyrir þjónustuíbúðir verið úthlutað á kjörtímabilinu til byggingarfélaga eldri borgara. Flutti ég þá tillögu í borgarstjórn um að slíkt lóðaframboð yrði aukið og efnt til formlegra viðræðna við byggingarfélög eldri borgara. Er málið nú komið á góðan rekspöl.

Öldungaráð Reykjavíkur

Árið 2012 flutti undirritaður tillögu um að stofnað yrði sérstakt öldungaráð í Reykjavík til að fjalla um málefni eldri borgara og vera borgarstjórn til ráðgjafar um þau. Ráðið verði skipað eldri borgurum og hafi víðtækt samráð við félög og samtök eldri borgara í Reykjavík og aðra þá, sem láta málefni þeirra til sín taka. Að minnsta kosti árlega skulu fulltrúar úr öldungaráðinu funda með borgarfulltrúum. Tillagan var samþykkt og er nú unnið að því að koma henni í framkvæmd.

Heilsugæslumál

Talið er að um 50 heimilislækna vanti til starfa í Reykjavík svo hægt sé að veita fullnægjandi þjónustu. Fyrir skömmu óskaði ég eftir umræðum um heilsugæslumál í borgarstjórn og lagði til ásamt öðrum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins að óskað yrði eftir formlegum viðræðum við ríkisvaldið um framtíðarfyrirkomulag heilsugæslunnar í Reykjavík með það að markmiði að þjónustan verði endurskipulögð í þágu notenda. Lögð verði áhersla á fjölbreytni í rekstri og að tryggja greiðan aðgang almennings að heimilislækningum.

Íþróttir eldri borgara

Nýlega fluttum við sjálfstæðismenn tillögu um það í borgarstjórn að unnið verði að eflingu hreyfingar og íþróttastarfs í þágu eldri borgara í Reykjavík. Leitað verði eftir samstarfi við hagsmunasamtök eldri borgara og íþróttafélög í borginni til að nýta betur íþróttamannvirki í þessu skyni. Þá verði unnið að því að kynna betur þá kosti, sem eldri borgurum standa til boða í íþróttastarfi, hreyfingu og líkamsrækt. 

Höfundur er borgarfulltrúi og sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna komandi borgarstjórnarkosninga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu