Skýr stefnumál í þágu Reykvíkinga

Afar mikilvæg viðfangsefni eru framundan í stjórnmálum þjóðarinnar, sem snúa að endurreisn atvinnulífsins, bættum lífskjörum og umbótum í opinberri þjónustu. Valkostirnir eru skýrir:

Annars vegar framþróun á grundvelli frjálsræðis, takmarkaðra ríkisafskipta og arðbærrar innviðafjárfestingar.

Hins vegar öfugþróun með miðstýringu og fjármögnun óarðbærra gæluverkefna, eins og Borgarlínu og flugvallar í Hvassahrauni, upp á hunruð milljarða króna. Geypidýr gæluverkefni munu kalla á skattahækkanir fyrr en síðar.

Veljum frelsi – Höfnum helsi

Nú er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn tali skýrt og tæpitungulaust fyrir frjálsræði og minni álögurm en hafni afdráttarlaust leið gæluverkefna, skattahækkana og frekari skuldasöfnunar hins opinbera. Taka þarf skýra afstöðu til málefna Reykvíkinga, sem heyra undir ríkisvaldið. Hér á eftir fer afstaða mín til slíkra málefna:

  • Borgarlínuskatt – Nei takk! Skattbyrði Reykvíkinga verði ekki aukin. Ekki kemur til greina að leggja viðbótarskatt á bílaeigendur í Reykjavík í formi veggjalda til að fjármagna hundruð millarða króna kostnað vegna Borgarlínu.
  • Eflum einkaframtakið! Drögum úr miðstýringu og álögum á atvinnulífið og veitum því þannig svigrúm til að hækka laun og fjölga atvinnutækifærum.
  • Samgöngubætur í forgang! Ráðast þarf í löngu tímabærar samgönguframkvæmdir á fjölförnustu gatnamótum í Reykjavík, sem auka umferðaröryggi, greiða fyrir umferð og draga úr mengun.
  • Sundabraut strax! Koma þarf í veg fyrir að borgaryfirvöld tefji frekari undirbúningsvinnu vegna Sundabrautar svo hægt verði að hefja lagningu hennar sem fyrst.
  • Skuldsetjum ekki komandi kynslóðir! Eftir mikinn hallarekstur 2020-2021 verði jafnvægi náð í rekstri hins opinbera árið 2022
  • Alþingi verður að fjalla um skuldastöðu Reykjavíkurborgar, sem komin er yfir hættumörk, og skoða leiðir til úrbóta.
  • Ósanngjörn skattlagning! Alþingi breyti álagningu fasteignaskatta, sem koma nú mun harðar niður á fasteignaeigendum í Reykjavík en öðrum landsmönnum.
  • Biðlistana burt! Nýta þarf kosti einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu betur en nú er gert, með gæði og hagkvæmni að leiðarljósi.
  • Bætum löggæslu! Efla þarf löggæslu í borginni, t.d. með aukinni áherslu á hverfalöggæslu, þar sem lögreglan er sýnileg á götunum en ekki bundin við skristofustörf.

Tryggjum hagsmuni Reykvíkinga á Alþingi

Mörg dæmi eru um að hagsmuna Reykjavíkur sé ekki gætt nægilega vel á Alþingi. Afleiðingin er sú að mörg lagafrumvörp verða að lögum þar sem margvíslegum sköttum og skyldum er velt yfir á Reykvíkinga. Sumar þessar kvaðir eru beinar, aðrar óbeinar. Mörg dæmi eru um álögur og niðurgreiðslur, sem Reykvíkingar standa straum af í mun ríkari mæli en aðrir landsmenn.

Ég óska eftir stuðningi í 3-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna alþingiskosninga, sem fram fer 4-5. júní. Ég tel brýnt að hagsmunum Reykvíkinga sé vel sinnt á Alþingi og tel að þekking mín og löng reynsla af borgarmálum sem borgarfulltrúi muni þar koma að góðum notum.

Álagning fasteignaskatta

Nefna má álagningu fasteignaskatta sem dæmi um ósanngjarna skattlagningu, enda koma þeir nú miklu harðar niður á fasteignaeigendum í Reykjavík en flestum öðrum landsmönnum. Skattstofninn er áætlað söluverðmæti viðkomandi eignar. Slíkt fyrirkomulag hefur í för með sér ófyrirsjáanlegar sveiflur skattstofnsins og skatttekna, sem hvorki eru í samræmi við greiðslugetu skattgreiðenda né þjónustu viðkomandi Sveitarfélags. Gífurlegar verðhækkanir á fasteignum í Reykjavík hafa þannig sjálfkrafa leitt til mikilla verðhækkana á eigendur fasteigna í Reykjavík án þess að þeir fái rönd við reist. Margir Reykvíkingar sem búa í eigin húsnæði geta ekki aukið tekjur sínar og koma slíkar skattahækkanir skiljanlega afar illa niður á þeim.

Fasteignaskatti var í upphafi ekki ætlað að vera eignarskattur. Brýnt er að Alþingi endurskoði álagningu fasteignaskattsins til lækkunar, svo ekki sé hróplegt ósamræmi á álagningu hans eftir sveitarfélögum.

Sundabraut sem fyrst

Áratugum saman hafa fjárframlög til vegamála verið mun lægri en þörf hefur verið á. Síðustu ár hefur ein helsta ástæðan verið sú að vinstri meirihlutinn í Reykjavík hefur tafið eða hafnað löngu tímabærum samgönguframkvæmdum, sem ríkið er þó reiðubúið til að fjármagna. Migilvægt er að ríkið knýji Reykjavíkurborg til að standa við samninga um að gera framkvæmdir mögulegar, sem ljóst er að munu auka umferðaröryggi, draga úr mengun og greiða fyrir umferð. Dæmi um þetta eru Sundabraut og mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og bústaðavegar.

Skelfileg skuldastaða

Skuldir Reykjavíkurborgar nálgast nú 400 milljarða króna og eru komnar yfir hættumörk. Ekki verður hjá því komist að Alþingi fjalli um skuldastöðu Reykjavíkur vegna mikilvægis hennar, bæði sem höfuðborgar og þess sveitarfélags sem ríflega þriðjungur landsmanna býr.

Eyðendur og greiðendur

Mörg mál koma til kasta Alþingis, mörg eru samþykkt en öðrum synjað. Aukin ríkisútgjöld á ákveðnu sviði kunna að vera „gott mál“ fyrir suma en slæm fyrir marga aðra, þ.e. skattgreiðendur sem þurfa að borga brúsann. Brýnt er að auka ráðdeild í ríkisrekstri og eftirlit með fjárveitingum þingsins. Í hvert sinn, sem frumvarp um opinberar álögur kemur til kasta Alþingis, þarf að greina hvort og þá með hvaða hætti slíkar álögur leggjast á landsmenn eftir búsetu.

Eyðendur hafa og marga fulltrúa á Alþingi. Brýnt er að fjölga fulltrúum greiðenda þar.

Jafnvægi og framsýni

flokksradsfundur-samth-rikisstjornaradild-9-1-17

Jafnvægi og framsýni verða einkunnarorð nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Góð stemmning ríkti á fjölmennum flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrr í kvöld og samþykktu fundarmenn einum rómi aðild flokksins að stjórninni. Auk forsætisráðuneytisins mun Sjálfstæðisflokkurinn fara með innanríkisráðuneytið, menntamálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og iðnaðar- og viðskiptamál í atvinnuvegaráðuneytinu. Nýrri ríkisstjórn er óskað velfarnaðar með von um að henni takist að stuðla að enn frekari bætingu lífskjara með því að framlengja yfirstandandi hagvaxtarskeið, sem er nú þegar orðið hið lengsta í lýðveldissögunni.

Á áðurnefndum fundi kastaði sr. Hjálmar Jónsson fram eftirfarandi vísu:

Tugi funda trú þau sátu,
terta bakast.
Það sem aðrir ekki gátu
er að takast.

 

 

 

 

 

 

 

 

Bernhöftsbakarí flytur sig um set

Bernhöftsbakarí, elsta starfandi fyrirtæki Reykjavíkur, flutti um helgina á Skúlagötu eftir 85 ára starfsemi við Bergstaðastræti. Þar áður var bakaríið starfrækt á Bernhöftstorfu, allt frá stofnun þess árið 1834. Nú er í sjálfu sér ekki tiltökumál að fyrirtæki flytji á milli staða. En þar sem Bernhöftsbakarí hefur verið við Bergstaðastræti síðan ég man eftir mér, er þó óneitanlega sem þráður slitni til veraldar sem var og því fylgir söknuður. Bakaríinu fylgja góðar óskir um að það blómstri á nýjum stað og veiti borgarbúum áfram þá úrvalsþjónustu sem það hefur verið þekkt fyrir undanfarin 182 ár.
20161001_102539_resized

Sr. Vigfús Þór Árnason kveður Grafarvogssöfnuð

Fjölmenni og fjör var við kveðjumessu sr. Vigfúsar Þórs Árnasonar í Grafarvogskirkju sl. sunnudag en hann lætur nú af störfum í fjölmennasta prestakalli landsins eftir 27 ára farsæla þjónustu. Sr. Vigfús Þór hefur að mörgu leyti verið frumkvöðull í kirkjustarfi og eftir því hefur verið tekið hvað safnaðarstarf hefur verið öflugt undir hans stjórn, ekki síst þjónusta við eldri borgara og barnafjölskyldur. Hann hefur einnig áunnið sér mikla virðingu og þakklæti fyrir styrkjandi hjálp þegar sorgin knýr dyra og þá verið reiðubúinn til þjónustu á nóttu sem degi.20160410_151142_resized

Stýrihópastjórn í Reykjavík

Í stað þess að bæta verkstjórn og koma þörfum málum í framkvæmd, er meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna í borgarstjórn mjög upptekinn við að skipa stýrihópa.
Á fyrstu átta mánuðum kjör­tíma­bils vinstri meiri­hlut­ans í Reykja­vík voru skipaðir 74 starfs- og stýri­hóp­ar. Þegar borgarstjóri afsakar klúður eða aðgerðaleysi, vísar hann gjarnan til þess að hópur skriffinna sitji í einhverjum stýrihópnum, sem muni bráðum skila glæsilegri stefnu í viðkomandi máli.
Einu sinni voru bara skipaðar nefndir, síðan starfshópar, þá aðgerðahópar en nú er enginn vinstri maður með mönnum nema hann stjórni stýrihópi. Má ekki kalla þetta stýrihópastjórnun?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/03/03/74_styrihopar_a_8_manudum/

Borgarstjórnarmeirihluti á móti samgönguframkvæmdum

 

Á borgarstjórnarfundi í dag lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að óskað yrði eftir endurskoðun á samgöngusamningi ríkisins og Reykjavíkurborgar með það að markmiði að á samningstímabilinu verði ráðist í stórframkvæmdir í samgöngumálum í Reykjavík með umferðaröryggi og arðsemi að leiðarljósi.

Umræddur samningur var gerður í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar og með stuðningi borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar. Samningurinn tók gildi á árinu 2012 og felur í sér að hætt verður við allar stórar samgönguframkvæmdir á stofnbrautakerfinu í Reykjavík á samningstímabilinu, þ.e. frá 2012-2022. Á sama tíma munu hins vegar tugir milljarða renna til samgönguframkvæmdum í öðrum kjördæmum landsins.

Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar lagðist gegn því að tillagan yrði borin upp til atkvæða á fundinum en lét þess í stað vísa henni til borgarráðs.  Í umræðum á fundinum kom fram að borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins/Bjartrar framtíðar vilja ekki endurskoða umræddan samning með það að markmiði að á samningstímabilinu verði ráðist í framkvæmdir á stofnbrautakerfinu í Reykjavík með umferðaröryggi og arðbærni að leiðarljósi. Sem fyrr styður Sjálfstæðisflokkurinn að Reykvíkingar eigi val um ólíka samgöngukosti um leið og stuðlað sé að auknu umferðaröryggi allra vegfarenda, hvort sem þeir nota almenningssamgöngur, bifreiðar, hjól eða tvo jafnfljóta.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/06/engar_storframkvaemdir_i_samgongumalum/

Hlutverk Reykjavíkurborgar í alþjóðlegu björgunarstarfi

Ástæða er til að þakka finnsku björgunarsveitunum fyrir þátttöku þeirra í hinni umfangsmiklu aðgerð á Faxaflóa, þar sem leitað var að íslenskum sjómönnum er taldir voru í sjávarháska. Skip, þyrlur og flugvélar frá flotum vinaþjóða okkar hafa oft tekið þátt í slíkum aðgerðum hér við land og bjargað mörgum mannslífum. Fyrir nokkrum árum fórst danskur sjóliði við slík björgunarstörf. Enginn veit hvenær þær aðstæður skapast að þörf verður á samhæfðum aðgerðum allra tiltækra björgunarsveita við norðanvert Atlantshaf, t.d. vegna sjóslyss, flugslyss, umhverfisslyss, náttúruhamfara eða jafnvel hryðjuverka. Það segir sig sjálft að við slíkar aðstæður skiptir miklu máli að björgunarsveitirnar, sem í langflestum tilvikum koma frá flota viðkomandi þjóða, hafi æft saman og að öll samskipti gangi greiðlega fyrir sig og séu þaulæfð. Í stað þess að styðja við slíkt samstarf, hafa borgarfulltrúar BF og Samfylkingar lagt stein í götu þess með því að lýsa ítrekað yfir því að varðskip og björgunarvélar erlendra vinaþjóða séu óvelkomin til Reykjavíkur.
Á fundi borgarstjórnar á morgun, þriðjudag, fara fram umræður um hlutverk Reykjavíkur í björgunarstarfi að frumkvæði okkar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

http://visir.is/tvaer-finnskar-herthyrlur-taka-thatt-i-leitinni/article/2014140209896